« Tónleikar í minningu Jóns Arasonar og sona hansLokahreinsunin eða hreinsunareldurinn »

02.11.10

  17:11:03, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 548 orð  
Flokkur: Þjóðfélagskenningin

Dyggð og markaður

Félagsleg ábyrgð fyrirtækja undir smásjánni

BERKELEY, Kaliforníu, 19. nóv. 2005 (Zenit.org).- Siðfræði fyrirtækja er mál sem sífellt er í kastljósinu. Fyrr á árinu kom út bókin „The Market for Virtue“ sem gefur yfirlit yfir helstu þætti þess. Höfundur hennar er David Vogel prófessor í Kaliforníu. Í bókinni kemur fram að fjöldi málefna fellur undir félagslega ábyrgð fyrirtækja. Þar má nefna aðstæður í verksmiðjum þróunarlanda, barnavinnu, réttlátt verð til bænda, málefni umhverfisins og mannréttindi. Fyrirtæki geti haft misjafnar ástæður fyrir að fylgja vegi dyggðarinnar við stefnumótun sína. Sum eru með því að verjast fjandsamlegri gagnrýni á meðan önnur líta á það sem skuldbindingu gagnvart félagslegum markmiðum.

Hvað sem því líði þá geri markaðurinn fyrirtækjum mögulegt að vera dyggðug sem og að takmarka getu þeirra til þess. „Það er markaður fyrir dyggð“, skrifar Vogel en hann er takmarkaður. Frá sjónarhóli markaðarins geta fyrirtæki réttlætt félagslega stefnumótun undir ýmsum kringumstæðum en þetta er takmarkað og ábyrgðarminni keppinautar hafa mikið rými. Þetta er vegna kosta og takmarkana markaðskapítalisma. Jákvætt er að fyrirtæki eru frjáls að þróa nýjungar og borgarar hafa möguleika að hafa áhrif með því að ákveða kaup sín og fjárfestingar. Neikvæðar hliðar eru að leiðir dyggðarinnar eru valkvæmar og fyrirtæki lúta lögmálum markaðarins, þau feta dyggðugar leiðir aðeins ef það er skynsamlegt viðskiptalega séð. Félagsleg ábyrgð fyrirtækja getur því kippt ýmsu í lag en hún leysir ekki allan vanda.

Alþjóðavæðing og aukið frelsi fyrirtækja hefur aukið félagslega árvekni neytenda en Vogel varar við því að taka of hátíðlega niðurstöðum kannana sem sýna að stór hluti neytenda sé reiðubúinn að breyta innkaupaháttum sínum. Trúfesta við vörumerki er sterk og kaupendur eru almennt séð ófúsir að breyta fastmótuðum venjum.

Ríkisstjórnir eru farnar að blanda sér í málið. Síðan árið 2000 hefur félagsleg ábyrgð fyrirtækja heyrt undir ráðherra í Bretlandi. Sex evrópskar ríkisstjórnir krefjast þess ennfremur að lífeyrissjóðir athugi félagsleg áhrif þegar þeir fjárfesta. Fyrirtækin hafa einnig unnið að málinu. 170 fyrirtæki mynduðu ráðstefnuvettvang um sjálfbæra þróun í kjölfar umhverfisráðstefnu SÞ 1992. Um 2000 fyrirtæki gefa nú út skýrslur um félagsleg eða umhverfisleg áhrif sín.

Mörg fyrirtæki halda því fram að góð samfélagsleg stefnumótun sé viðskiptum hagstæð. En sumir gagnrýnendur halda því fram að eini tilgangur fyrirtækja sé að skapa hluthöfum sínum auð. Vogel hafnar þeirri gagnrýni og rökstyður að viðskiptaleg markmið geti farið saman við önnur markmið. Ef fyrirtæki tekur frumkvæði og aðlagar sig þá er það í betri stöðu ef stjórnvöld gefa út nýjar reglur. Ábyrgðarfullt fyrirtæki býr einnig við minni áhættu vegna óánægju neytenda eða hluthafa. Þetta þýðir samt ekki að félagslega meðvituð fyrirtæki skili meiri eða minni hagnaði. Meira en 120 kannanir hafa rannsakað tengsl dyggða og hagnaðar. Útkoman er á ýmsa vegu. Sumir þykjast finna jákvæða fylgni, aðrir neikvæða og aðrir eru á báðum áttum.

Vogel er á þeirri skoðun að félagslegu réttlæti væri greiði gerður ef háleit viðmið sumra fyrirtækja yrðu gerð að viðmiðum bæði þjóðlegra laga sem alþjóðlegra. Viðmið þessi hafa þegar stuðlað að minni barnavinnu, auknum öryggiskröfum í vefnaðar- og leikfangaverksmiðjum, stuðlað að hækkun verðs til bænda í þróunarlöndum og dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Þjóðfélagskenning kaþólsku kirkjunnar nefnir siðfræði markaðarins í grein 322. Auking auðs ætti alltaf að haldast í hendur við vitundarvakningu um einingu, aukið réttlæti og kærleika.

Endurbirtur pistill sem birtist fyrst hér á vefsetrinu 24.11. 2005

RGB þýddi og endursagði. Heimild: Virtue and the Market - Corporate Social Responsibility Under the Microscope. http://www.zenit.org/english

No feedback yet