« Annað hvort stöndum við honum við hlið eða EKKI.Hin myrka nótt sálarinnar eftir Jóhannes af Krossi »

29.03.06

  13:40:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 659 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Drottinn! Forða okkur frá því að verða að skrópurum í Skóla lífsins

Guðspjall Jesú Krists þann 30. mars er úr Jóhannesarguðspjalli 5. 31-47

Ef ég vitna sjálfur um mig, er vitnisburður minn ekki gildur. Annar er sá sem vitnar um mig, og ég veit, að sá vitnisburður er sannur, sem hann ber mér. Þér hafið sent til Jóhannesar. Hann bar sannleikanum vitni. Ekki þarf ég vitnisburð manns, en ég segi þetta til þess, að þér megið frelsast. Hann var logandi og skínandi lampi. Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans. Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar, því verkin, sem Faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að Faðirinn hefur sent mig. Faðirinn, sem sendi mig, hann hefur sjálfur vitnað um mig. Þér hafið aldrei heyrt rödd hans né séð ásýnd hans. Og orð hans býr ekki í yður, því að þér trúið ekki þeim, sem hann sendi. Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig, en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið. Ég þigg ekki heiður af mönnum, en ég þekki yður að þér hafið ekki í yður kærleika Guðs. Ég er kominn í nafni Föður míns, og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni, tækjuð þér við honum. Hvernig getið þér trúað, þegar þér þiggið heiður hver af öðrum, en leitið ekki þess heiðurs, sem er frá einum Guði? Ætlið eigi, að ég muni ákæra yður fyrir Föðurnum. Sá sem ákærir yður, er Móse, og á hann vonið þér. Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað. Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?"

Hugleiðing
Ágústínus kirkjufaðir sagði: „Hlutverk okkar kristinna manna felst í því að taka daglegum framförum á vegferð okkar til Guðs. Pílagrímsganga okkar á jörðu er skóli þar sem Guð er eini kennarinn og skólinn gerir kröfu til nemenda sinna, ekki þeirra sem skrópa. Í þessum skóla lærum við eitthvað nýtt á hverjum degi. Við lærum eitthvað af boðorðunum, eitthvað af fordæmi annarra, og eitthvað af sakramentunum. Þessi námskrá er smyrsl á sár okkar og sjálft námsefnið sem lagt er fyrir okkur.“ Vandamál faríseanna og fræðimannanna fólst í því að þeir trúðu því í raun og veru ekki sem Móses hafði skrifað, fremur enn svo fjölmargir nútímamenn. Þeir bjuggu sér því til eigin hugsmíðar í stærilæti sínu því að það var jú einu sinni starf þeirra að uppfræða aðra og tekjur þeirra voru ágætar og þeir bjuggu við gott viðurværi á mennska vísu. Og auk þess og það vóg þyngst, þá nutu þeir virðingar manna fyrir þessa þokkaiðju sína. Sama má segja um marga falsboðendur Orðsins á okkar dögum sem eru þess ekki umkomnir að skilja Orð Guðs vegna þess að þeir hafa glatað hreinleika hjartans. Hroki þeirra og stórmennska kemur í veg fyrir að þeir geti heyrt raust Guðs. Guð opinberar sig einungis hinum lítillátu, þeim sem sitja á skólabekknum í lífsins skóla og hlusta ákafir á raust kennarans og þannig gagntekur Guð hjörtu þeirra og hugi af hlýðni elskunnar. Skrópurunum er hins vegar vísað úr þessum skóla, rétt eins og jarðneskum skólum. „Drottinn! Fyll hjörtu okkar af þínum Heilaga Anda svo að við hlustum af athygli á orð þín og hlýðnumst þeim full gleði.“
 

No feedback yet