« Útdráttur úr hirðisbréfi Píusar páfa XII, Mystici Corporis, frá 29. júní 1943SHOUBRAHVERFIÐ Í KAÍRÓ 1986: OPINBERANIRNAR Í KIRKJU HEIL. DEMÍÖNU (14) »

15.01.07

  11:19:01, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 5950 orð  
Flokkur: Opinberanir heilagrar Þeotokos í Medjugorje

DROTTING FRIÐARINS: OPINBERANIR MARÍU GUÐSMÓÐUR Í MEDJUGORJE

Frásögn þessi birtist upphaflega í Úrvali, 1. hefti, janúar 1990. Fróðlegt er að sjá nú í upphafi árs 2007 hvernig spádómsorð Guðsmóðurinnar í Fatíma og Medjugorje hafa ræst til fulls.

medjugorje_1

Krossinn á Krizevac

Tæplega hefur faðir Smoljan, sóknarprestur við Jakobskirkjuna í Medjugorjesók í Herzegóveníu í Júgóslavíu grunað hvað framtíðin átti eftir að bera í skauti sér þegar honum bárust boð frá Píusi páfa XII vorið 1932 um að koma samstundis til Rómar. Undrun hans varð enn meiri er hinn heilagi faðir tjáði honum að hann hefði meðtekið opinberun um að reisa skyldi kross á hæstu hæðinni í sókninni. Faðir Smoljan sneri þegar í stað heimleiðis til að láta reisa krossinn á Krizevachæð (Krosshæðinni).

Allt frá aldamótum hafði veðurfarið reynst íbúum Medjugorje þungt í skauti. Óvænt haglél og haustkuldar höfðu hvað eftir annað stórskaðað hina viðkvæmu tóbaksuppskeru og vínakrarnir beðið óbætanlegt tjón. Með tilkomu krossins á Krizevac varð hér mikil breyting á. Að sögn íbúanna hefur veðurfarið verið þeim einstaklega hagstætt síðustu 50 árin!

En það voru önnur óveðursský sem hrönnuðust upp á himni, og það sínu ógnvænlegri. Aðskilnaðarhreyfing Króata, Ustascha, óx mjög fiskur um hrygg áratugnum fyrir síðari heimstyrjöldina undir stjórn Ante Pavelics. Hryðjuverk þau, sem þessi pólitíska öfgahreyfing vann fyrir og eftir heimstyrjöldina síðari, voru þvílík að jafnvel SS-stormsveitum Þriðja ríkisins féllust hendur þegar afleiðingar þeirra komu í ljós. Samkvæmt upplýsingum Stephanics, erkibyskups í Split, er áætlað að Ustascha hafi myrt 250.000 Serba og sent 200.000 til 300.000 þeirra í þrælkunarbúðir.

Því kemur það ekki á óvart þótt viðbrögð júgóslavnesku öryggislögreglunnar (SUP) yrðu hörð þegar fréttir tóku að berast um að sex ungmenni í Medjugorje hefðu séð sjálfa Maríu Guðsmóður birtast á Krizevachæðinni, við kross þann sem faðir Smoljan hafði látið reisa þar samkvæmt beiðni Píusar páfa XII. Þetta var í lok júnímánaðar 1981 og fólk tók að streyma til staðarins þúsundum saman eftir að fréttir bárust út um opinberanirnar. Stjórn kommúnista óttaðist að opinberanirnar væru liður í nýrri aðskilnaðarhreyfingu Króata og þetta væri pólitísk sviðsetning.

medjugorje_2

Kona ein ætlaði að taka mynd
af fjallahringnum í Medjugorje,
en við framköllun mátti sjá þessa
mynd af Guðsmóðurinni á myndinni.

MARÍA GUÐSMÓÐIR MEÐ JESÚBARNIÐ

En hver var aðdragandi alls þessa? Miðvikudaginn 24. júní 1981 voru tvær stúlku, Ivanka og Mirjana, á gangi í hæðunum fyrir ofan Medjugorje. Skyndilega birtist María Guðsmóðir þeim þar sem hún leið áfram í svo sem 30 sentímetra hæð yfir jörðu. Hún bar Jesúbarnið í örmum sér og var skrýdd stjörnukórónu. Þær sneru felmtri slegnar aftur til bæjarins. Þær komu aftur til staðarins, þar sem þær höfðu meðtekið opinberunina, í fylgd fleiri ungmenna, tveggja stúlkna og tveggja drengja. Börnin hófu að biðja og þá sáu þau Maríu Guðsmóður en urðu skelfd og hurfu á brott.

Síðdegis daginn eftir komu ungmennin ásamt ásamt tveimur fullorðnum aftur á staðarins. Einungis ungmennin komu auga á Maríu Guðsmóður. Hún var íklædd gráum kyrtli, með hvíta slæðu og bar stjörnukórónu á höfði. Hún var bláeygð, örlítið lotin í herðum, svarthærð og rjóð í kinnum. Þeim sýndist hún vera 19-20 ára gömul og líkamsstærð hennar var eðlileg (nálægt 160 sm).

Föstudaginn 26. júní laðar skært ljós ungmennin til hæðarinnar. Því sem næst 3000 manns í Medjugorje og aðliggjandi sveitum sjá ljósið í allt að 7 kílómetra fjarlægð. Þau biðja saman Rósakransinn og hinar hefðbundnu bænir: Sjö Faðirvor, sjö heil sért þú . . . og Dýrðarbænina. Samkvæmt tilmælum Maríu ljúka þau bæninni með með Trúarjátningunni. Þau syngja einnig sálm sem María hefur mikið dálæti á: „Ó, Jesús, í þínu nafni.“ Ein stúlknanna, Vicka, hafði flösku með vígðu vatni í fórum sínum og stökkti því á Maríu Guðsmóður um leið og hún sagði: „Ef þú ert í raun og veru María Guðsmóðir, vertu þá hjá okkur, en ef þú ert það ekki, láttu þig þá hverfa.“ María Guðsmóðir svaraði með því að brosa blíðlega til þeirra.

ÖRYGGISLÖGREGLUNNI LÍST EKKI Á BLIKUNA

Eins og áður hefur verið sagt bárust fréttir af atburðum þessum með leifturhraða út á meðal fólks og það tók að streyma þúsundum saman til Medjugorje. Viðbrögð júgóslavnesku öryggislögreglunnar voru því hörð og sjáendurnir voru hafðir undir stöðugu lögreglueftirliti fyrstu mánuði opinberananna. Það var einmitt að undirlagi öryggislögreglunnar að tveir félagsráðgjafar frá Sarajevo, þær Ljubica Vasilj og Milica Ivankovic, voru sendar til Medjugorje þann 30. júní.

Tilgangurinn með för þeirra var að koma í veg fyrir að sjáendurnir kæmust upp á opinberunarhæðina það sama kvöld með því að bjóða ungmennunum um næsta nágrenni Medjugorje. Sjáendurnir tóku boðinu fegins hendi eftir álag undanfarinna sex daga. Konurnar óku með ungmennin til Zitomiscki og Pocitelj sem er gömul virkisborg á bökkum Neretevfljótsins. Síðan var farið til Caplinja þar sem félagsráðgjafarnir buðu sjáendunum að snæða kvöldverð. Að lokum var svo ekið til hinna fögru Kravicafossa og Ljubiski, fornrar illirískrar borgar, en þaðan er fagurt útsýni yfir hluta Herzegóveníu og Dalmatíuströndina.

Fram að þessu hafði ferðin verið öllum til ánægju en nú varð sjáendunum skyndilega ljóst hvað hér bjó að baki. Degi var tekið að halla þegar snúið var til baka heim á leið um Bijakovici of seint til að ungmennin næðu tímanlega til opinberunarstaðarins. Um hálf sjö voru þau komin til þorpsins Cerno en það stendur gegnt opinberunarhæðinni. Ungmennin fóru þá fram á að bifreiðin næmi staðar. Því var ekki sinnt svo að þau hótuðu að varpa sér út úr bifreiðinni á ferð. Hikandi námu konurnar því staðar. Ungmennin krupu þá niður við vegabrúnina. Frá opinberunarstaðnum, þar sem mikill mannfjöldi var saman komin, sást hvernig ljós nálgaðist hin biðjandi ungmenni.

FÉLAGSRÁÐGJAFARNIR SÁU EINNIG LJÓSIÐ

„Við báðum okkar venjulegu bænir,“ sagði Ivanka síðar við föðir Jozo, sóknarprest í Medjugorje. „Ég leit upp og sá hvernig ljósið nálgaðist okkur. Báðar konurnar sáu þetta líka. Ég spurði þær sérstaklega að því og þær svöruðu játandi. Ég horfði stöðugt á ljósið og skyndilega stóð Guðsmóðirin hjá okkur.“ „Þeir hafa bannað okkur að fara upp á opinberunarhæðina,“ sagði Mirjana við opinberunina. „Hefur þú eitthvað á móti því að hitta okkur í kirkjunni næst?“ Guðsmóðirin hikaði örlítið en síðan kinkaði hún kolli til samþykkis.

Eftir að hafa gefið sjáendunum þetta loforð hvarf Guðsmóðirin að nýju í átt að opinberunarhæðinni. Eftir að hún var horfin skein ljósið enn yfir hæðinni. Báir félagsráðgjafarnir voru miður sín eftir þennan atburð og felmtri slegnir vegna ljóssins. Þeir fóru með ungmennin beint til Medjugorje og á fund föður Jozo sem rétt í þessu var að koma af erfiðum sveitastjórnarfundi í þorpinu Citluk. Hann yfirheyrði allan hópinn mjög ítarlega (segulbandsupptökurnar eru enn til) og var sjáfur mjög undrandi. Ástand félagsráðgjafanna tveggja frá Sarajevo hafði líka djúp áhrif á hann. „Þeir voru miklu betri sönnun þessa en sjálfir sjáendurnir.

ÖRYGGISLÖGREGLAN HÓTAR ÖLLU ILLU

En þetta var einungis upphafið að því sem koma skyldi. Miðvikudaginn 1. júlí boðaði öryggislögreglan (SUP) þorpsbúa til fundar í skólanum í Medjugorje. Þar var þeim gert ljóst að ungmennunum væri framvegis óheimilt með öllu að fara upp á opinberunarhæðina eða sækja kirkju. Foreldrum þeirra var hótað forræðissviptingu og þar að auki lýst óábyrg gerða sinna ef þau yrðu ekki við þessum tilmælum. Sjáendurnir virtust ekki taka þessum tilmælum illa. „Við urðum ekkert óttaslegin,“ sagði Marija síðar.

Seint um kvöldið þann 14. júlí fóru sjáendurnir með leynd upp á opinberunarhæðina í fylgd nokkurra vina og nágranna. Marinko Ivanokovic lýsir þessu svo: „Tuttugu dögum eftir að opinberanir Guðsmóðurinnar hófust fóru ungmennin ásamt fimmtíu þorpsbúum upp á opinberunarhæðina að kvöldlagi. Þar baðst hópurinn fyrir. Skyndilega hrópuðu sjö eða átta þeirra sem voru viðstaddir: „Sjáið ljósið!“ Það kom af himnum ofan og virtist vera um tíu metrar að ummáli. Það nálgaðist okkur óðfluga. Það nam staðar yfir holunni (hér er skírskotað til holu sem menn höfðu grafið þarna) en þar stóð trékross. Ljósið virtist streyma út frá krossinum og skin þess var eins og einhver máttugur ljósgjafi hefði sundrast og tvístrast í þúsund smástirni. Við vorum öll umlukin ljósinu og krupum og sum barnanna grétu. Þá sögðum við: „Suss, Guðsmóðirin er hér mitt á meðal okkar,“ og við tókum að biðja ákaft. Þannig báðum við saman og grétum í svo sem 40 mínútur. Aldrei í lífinu mun ég gleyma þessari nóttu.“

Eftir þessar fjörutíu mínútur hóf Guðsmóðirin að biðja með okkur og sagði að við mættum snerta hana ef okkur langaði til þess. Þar sem við komum ekki auga á hana neyddumst við til að þreifa okkur áfram. Nokkrir viðstaddra snertu hana og sögðust hafa orðið tilfinningalausir í fingurgómunum við snertinguna. Þá varð einhverju okkar á að stíga ofan á slæðu Guðsmóðurinnar en við það fór hún skyndilega. Að síðustu sáum við tvær verur. Önnur þeirra líktist Guðsmóðurinni og stóðu þær fyrir ofan krossinn á Krizevac og önnur veran geislaði út frá sér ljósi eins og þar væri hvítur eldur. Ég hljóp heim til að ná í myndavélina mína og þegar ég kom aftur til baka geislaði enn út frá ljósverunni. Ég tók myndir af þeim en ljósveran kom ekki fram á myndunum. Hin veran gerði það aftur á móti.“

Einn sjáendanna, Vicka, lýsti ljósinu sem ljóskúlu. „Hún nálgaðist okkur á miklum hraða, sundraðist yfir jörðinni og það sindraði út frá henni ljósgneistum, eins og smástirnum.“

HRIKTIR Í UNDIRSTÖÐUM FLOKKSVELDISINS

Órói kommúnistanna fór vaxandi með hverjum deginum sem leið vegna þess að sífellt fleira ungt fólk streymdi upp á hæðina. Í örvæntingarfullri tilraun til að koma í veg fyrir þetta hófust kommúnistarnir að halda skipulagðar kvöldskemmtanir: Dansleiki, kvikmyndasýningar og fótboltaleiki, en þetta vakti áhuga aðeins örfárra. Áhyggjur þeirra voru því meiri þar sem nokkrir félaganna í flokknum urðu uppvísir að því að fara upp á opinberunarhæðina. Það hrikti í undirstöðum flokksveldisins í Medjugorje.

Á fundi í Sósíalistasamtökum Citluk urðu menn að upplýsa hvort þeir hefðu farið upp á opinberunarhæðina. Ellefu menn viðurkenndu þetta og voru samstundis reknir úr flokknum og 47 aðrir fengu lokaáminningu. Þetta er ekki svo lítil refsing í sósíalistaríki eins og Júgóslavíu því að flokksskírteinið tryggir mönnum atvinnu og húsnæði. Síðan þetta gerðist hafa þúsundir einstaklinga skilað inn flokksskírteinum sínum.

medjugorje_3

Ítarlegar rannsóknir voru gerðar
af sjáendnunum meðan á
opinberununum stóð.

OPINBERANIRNAR HALDA ÁFRAM

Í lok júlímánaðar sást að næturlagi hvernig orðið „Mir“ (friður á króatísku) birtist á himni yfir Krizevac. Fjölmargir urðu vitni að þessu, þar á meðal faðir Jozo: „Lát jarðarkringluna bifast og himininn birtast,“ þrumaði hann í föstudagsmessunni. „Þetta er tákn þess að Guð hafi ekki snúið baki við mönnunum. Kirkjan okkar er lítil eyja í guðlausu efnishyggjuþjóðfélaga. María Guðsmóðir reynir að sannfæra okkur um þetta með hjálp sjáendanna.“

2. ágúst sýndist sólin snúast um sjálfa sig. Það var eins og hún kæmi nær og fjarlægðist aftur. „Ég stóð í mannmergðinni við kirkjuna,“ segir leigubílstjóri nokkur, „þegar ég tók eftir því að sólin hagaði sér í hæsta máta furðulega. Hún tók til að flökta fram og til baka. Að lokum var eins og geislaslóði sliti sig frá henni og birtist sem regnbogi yfir staðnum þar sem Guðsmóðirin hafði opinberast. Því næst beindist hann að kirkjuturninum þar sem greinileg mynd af Guðsmóðirinni birtist.“

Um 150 manns fylgdust sem lamaðir með þessu fyrirbrigði, án þess þó að það skaðaði sjón þeirra á nokkurn hátt. Annar áhorfandi lýsir þessu með eftirfarandi orðum: „Ég sá verur umhverfis sólina. Þetta varð til þess að margir tóku að gráta, biðja eða þá að menn hlupu einfaldlega á brott. Þarna birtust sex lítil hjörtu sem umgjörð um stórt hjarta. Hvít skýjamóða huldi opinberunarhæðina. Að þessu loknu færðist sólin aftur á sína upphaflegu braut.“

Í þorpinu Turciovici, í nágrenni Medjugorje, höfðu allir þorpsbúarnir komið saman til að fylgja ungri konu til grafar. Rétt eftir að líkfylgdin var lögð á stað frá heimili hinnar látnu sáu menn dans sólarinnar. Allir krupu og báðust fyrir í tíu mínútur eða þar um bil.

PRESTURINN VARÐ AÐ TRÚA

Prestur nokkur, faðir Umberto Luncar, sem var á pílagrímsferð í Medjugorje, varð ekki vitni að þessu atviki og fór háðulegum orðum um þennan svokallaða „dans sólarinnar.“ Jafnvel þegar hann varð sjálfur vitni að sams konar atviki daginn eftir hratt hann því frá sér og útskýrði sem þetta fyrirbrigði sem óvenuleg veðurfarsleg skilyrði eða afbrigðilegar hitabreytingar.

En miðvikudaginn 4. ágúst varð hann vitni að eftirfarandi atviki: „Nákvæmlega kl. 18. 20 síðdegis kom ég auga á risastórt fjólublátt ský yfir Cerno. Það var gríðarstórt og nálgaðist mig með ógnarhraða. Það sveif í eina eða tvær mínútur yfir Krizevac en hreyfðist síðan til austurs. Að lokum virtist það svo síga til jarðar. Ég gat ekki fylgst með því sem gerðist vegna þess að hæðardrög og tré byrgðu mér sýn og hljóp inn, en sá þá rauðfjólubláa ímynd konu birtast yfir Crnicahæðinni. Klukkan var þá 18. 40. Rauðfjólublái liturinn dvínaði smám saman er hún steig til himins og hvarf sýnum. Það síðasta sem mér auðnaðist að sjá var geislamóða sem huldi fætur konunnar og hóf hana til himins. Þessi sýn stóð yfir í um 30 sekúndur.“

Og þetta hefur Iva Vasilja að segja: „Síðdegis varð mér gengið út á tóbaksakurinn okkar til að safna saman tóbbakslaufum. Grannkona mín sat yfir fé sínu rétt hjá mér og stytti sér stundir við prjónaskap. Skyndilega var eins og kaldur vindgustur blési á okkur. Við litum upp og sáum sólina dansa og höfuð og axlir konu rísa upp frá henni. Hún hreyfðist í átt til Krizevachæðarinnar og það var eins og rauðar, bláar og purpuralitar ljóskúlur gengju út frá sólinni. Kindurnar hennar grönnu minnar urðu svo skelfdar að þær þjöppuðu sér saman í einn hóp. Þegar við vorum orðnar nógu styrkar aftur á fótunum stauluðumst við heim á leið. Ég sagði bæði manninum mínum, Pedro, og dóttur minni frá því sem við hafði borið en þau hlógu bara og töldu þetta vera heilaspuna úr mér og ég brast í grát. Rétt í þann mund kom mamma Pedros og sagði: „Guð er með okkur, Iva segir satt og rétt frá þessu öllu saman. Ég sá þetta líka.“

OPINBERANIR HVAR SEM VAR

Þar sem lögreglan meinaði sjáendunum að fara upp á opinberunarhæðina meðtöku þeir opinberanirnar heima við, úti á ökrunum og jafnvel í gripahúsum – en um fram allt eins fjarri lögreglunni og tök voru á. Hvað eftir annað urðu ungmennin að leggja á sig langar göngur til að forðast varðstöðvar lögreglunnar. Þau voru undir stöðugu eftirliti, bæði heima við, í þorpinu og utan þess. Þann 2. ágúst slógust nokkrir þorpsbúar í för með sjáendunum til að biðja og syngja á akri nokkrum skammt frá Bijakovici að lokinni kvöldmessu.

Marinko Ivankovic greinir svo frá: „Við báðum Faðirvorið, Heil sért þú, Dýrðarbænina og Trúarjátninguna sjö sinnum. Því næst sögðu sjáendurnir okkur að við mættum snerta Guðsmóðurina ef við vildum . . . Þegar Guðsmóðirin hvarf á brott hrópaði Marija allt í einu upp yfir sig og hljóp til mín. Ég spurði hvað hefði eiginlega komið fyrir. ‚Ó, Marinko,’ sagði hún, ‚hún varð biksvört . . . Það voru guðsafneitarar viðstaddir þarna og snertu hana og yfirbragð hennar varð sífellt dekkra uns hún var orðin boksvört!´“ Marinko komst í mikið uppnám vegna þessarar sönnunar um ógnarvald syndarinnar og hrópaði: „Nú verða allir að skrifta á morgun!“ Næsta dag fjörfaldaðist tala þeirra sem vildu skrifta í kirkjunni í Medjugorje.

Skriftafeðurnir undruðust mjög allan þennan fjölda sem átti enn eftir að aukast eftir að Guðsmóðirin bar sjáendunum þau boð „að fólk ætti að iðrast vegna synda sinna.“

Og þannig hélt þetta áfram og enn fleiri tákn sáust við opinberunarstaðinn.

Miðvikudaginn 15. september brá Anka Pehor heldur en ekki í brún þegar hún fór út til að taka þvottinn niður af snúrunum. Hún sá þríhyrnt ljós yfir Crnicahæðinni: „Ég sá Guðsmóðurina í ljósinu með útbreiddan faðminn. Hún leið um loftið og nálgaðist kirkjuna. Ég kallaði á dóttur mína og ömmu . . . og auk þess bættust tveir kunningjar í hópinn . . . Öll sáum við hið sama og krupum og báðumst fyrir. María Guðsmóðir var umlukin ljósi en skærustu geislarnir bak við höfuð hennar og yfir öxlunum. Þessi sýn stóð yfir í um eina klukkustund.“

KROSSINN ORÐINN AÐ LJÓSBLEIKU LJÓSI

Um klukkan fimm síðdegis 22. október var faðir Janko Bubalo að búa sig undir kvöldmessuna í prestahúsinu. Skyndilega bárust honum til eyrna hróp og köll að utan. Þegar hann kom út til að aðgæta þetta nánar sá hann báðar systurnar sem sáu um húshaldið og umsjón kirkjunnar, krjúpa á jörðinni með útrétta arma. Því sem næst 70 manns, karlar jafnt sem konur, krupu ásamt þeim og mynduðu röð út frá kirkjunni. Regnið hafði ekki minnstu áhrif á viðstadda og enginn var með regnhlíf. Allir báðust fyrir, sumir grétu og enn aðrir sungu sálma. Athygli allra beindist að krossinum á Krizevac. „Ég leit einnig til krossins en þá var hann horfinn með öllu. Í stað hans blasti við ólýsanlegt ljósbleikt ljós sem líktist ekki neinu úr hinum jarðneska heimi. Ég varð djúpt snortinn og þar sem ég hef slæma sjón bað ég um sjónauka að láni . . . Þá sá ég að í stað krossins birtist ímynd konu með útbreiddan faðminn. Höfuð konunnar reis örlítið upp yfir þverslá krossins. Fætur hennar voru sveipaðar ljósmóðu sem huldi stólpa krossins. Ég fylltist ósegjanlegri gleði. Fjórir eða fimm prestar, sem stóðu rétt hjá mér, sáu hið sama og eins þorpsbúarnir. Allir sem horfðu til Krizevac gátu fylgst með þessu fyrirbrigði.“

28. október brutust út furðulegir eldar á opinberunarhæðinni. Hundruð manna urðu vitni að þessum eldum sem loguðu glatt í stundarfjórðung. Þegar lögreglan og slökkviliðið rannsökuðu staðinn fundust engin ummerki um eldana, hvorki glæður né öskuleifar.

KIRKJAN FER VARLEGA Í VIÐURKENNINGAR

Atburðirnir í Medjugorje hafa vakið mikla athygli innan kaþólsku kirkjunnar og margir æðstu leiðtogar hennar hafa sannfærst um trúverðugleika þeirra opinberanna sem eiga sér stað í Medjugorje. Engu að síður er kirkjan varkár í afstöðu sinni í þessum efnum og talið er að mörg ár muni líða uns hún viðurkennir opinberanirnar opinberlega. Auk þeirra atvika, sem hér hefur verið minnst á, hafa kraftaverkalækningar verið mjög áberandi samfara opinberununum. [1]

LÆKNING DIANE BASSILE

Einhver athyglisverðasta lækningin snertir ítalska konu, frú Diane Bassile frá Mílanó á Ítalíu. L. Frigero læknir og samstarfsmenn hans við læknamiðstöðina í Mílanó hafa undir hödnum 143 skýrslur um lækningu þessarar 43 ára gömlu ítölsku konu og þriggja barna móður. Árið 1972 lág það fyrir að hún gengi með mænusigg (multiple sclerosis) og þjáðist af heila- og vöðvarýrnun. Hún var blind á öðru auga og átti mjög erfitt með að staulast um. Árið 1984 kenndi hún einnig til þunglyndis þar sem heilsu hennar hrakaði stöðugt. Í maímánuði þetta sama ár stungu nokkrir fyrrverandi starfsfélagar hennar upp á því að hún tæki sér ferð á hendur til Medjugorje.

23. maí kom hópurinn í kirkjuna í Medjugorje. Vinkona frú Bassile, frú Novella, hjálpaði henni upp tröppurnar inn í opinberunarkapelluna. Frú Bassile sagðist svo frá: „Á þessari stundu hikaði ég við að fara inn í herbergið en einhver lauk upp fyrir mér dyrunum og ég fór inn. Þegar ungmennin gengu inn og krupu heyrði ég þungan nið. Eftir þetta minnist ég einungis ólýsanlegrar gleði og löngu gleymdar minningar úr lífi mínu liðu mér fyrir sjónir líkt og kvikmynd. Eftir þetta fylgdi ég ungmennunum eftir þegar þau gengu að höfuðaltarinu í kirkjunni. Ég gekk þangað eins og allir aðrir og kraup. Það hvarflaði ekki að mér að eitthvað óvænt hefði borið að höndum fyrr en frú Novella kom til mín útgrátin.“

Lækning frú Bassile reyndist varanleg. Í áætlunarbílnum, sem fór með ítölsku pílagrímana til hótels þeirra í Ljubeski, faðmaði Diane samferðafólk sitt að sér og grét af gleði. Sama kvöldið varð hún þess áskynja að hún hafði styrkst til mikilla muna og útbrot sem hún var með, voru horfin og hægra auga hennar, sem hún hafði ekki getað beitt í tólf ár, var alheilt og sjón þess jafnvel betri en á því vinstra!

Daginn eftir gekk hún berfætt tíu kílómetra frá hótelinu í Ljubeski til kirkjunnar í Medjugorje. En þetta var ekki nóg! Síðdegis sama dag gekk hún einnig upp grýttan stíginn upp á opinberunarhæðina. Þann 5, júlí 1984 rannsökuðu augnsérfræðingar læknamiðstöðvarinnar í Mílanó frú Bassile. Þeir staðfestu að sjónin á hægra auga hennar mældist 10/10 en sjónin á því vinstra 9/10. „Þessu til staðfestingar ritum við undirritaðir nöfn okkar. Gert í Mílanó þann 5. júlí 1984: L. Frigero læknir, A. Maggiori læknir; D. Maggioni læknir.“

Og hvað segir frú Diane Bassile sjálf: „Ég var einungis þrítug þegar ég veiktist af mænusiggi, í blóma lífsins og tveggja barna móðir. Líf mitt var hrunið til grunna. Þess vegna segi ég við aðra sem þjást af þessum sama sjúkdómi: Farið til Medjugorje. Ég get ekki vakið hjá ykkur neinar falsvonir en ég segi: Ef þetta er vilji Guðs, megi hann þá fram ganga. Heima eru allir hamingjusamir núna, bæði dæturnar mínar og eiginmaður. Satt best að segja telur hann sig vera guðsafneitar. Samt sem áður segir hann: ‚Við verðum að fara þangað til að þakka fyrir okkur.’“

Þetta er aðeins eitt dæmið af fjölmörgum kraftaverkalækningum sem átt hafa sér stað í Medjugorje á undanförnum árum.

AFSTAÐA KARDÍNÁLANS Í PRAG

Eins og vikið var að hér að framan hafa margir af æðstu leiðtogum kaþólsku kirkjunnar þegar lýst því yfir að þeir efist ekki um trúverðugleika opinberananna í Medjugorje. Frantisek Tomasek, kardínáli í Prag, segir: „Persónulega er ég fullviss um sannleiksgildi opinberananna í Medjugorje og djúpt snortinn. Ég er sannfærður um að Medjugorje sé beint áframhald af opinberununum í Lourdes og Fatíma. Heilög kirkja hefur vissulega síðasta orðið í þessum efnum en við getum nú þegar tekið á móti boðskapnum fagnandi og lifað í samræmi við hann.“

ÍSLENSKIR HÓPAR HAFA HEIMSÓTT MEDJUGORJE

Opinberanirnar í Medjugorje hafa nú staðið yfir samfleytt í átta ár (ritað 1990) og talið er að sextán milljónir pílagríma hvaðanæva úr heiminum hafi komið þangað á umliðnum árum og þar á meðal gestir frá Íslandi. Sjáendurnir sex koma daglega í Jakobskirkjuna í Medjugorje þar sem Guðsmóðirin opinberar þeim margvíslega leyndardóma um framtíð heimsins.

Þeir hafa meðtekið tíu leyndardóma sem verða ekki gerðir heyrumkunnir fyrr en María Guðsmóðir heimilar þeim það. Leyndardómarnir eru í fyllsta samærmi við Opinberunarbókina! Leyndardómarnir felast í sýnilegum táknum á opinberunarhæðinni og eru ætlaðir þeim sem ekki trúa og því til staðfestingar, að María Guðsmóðir hafi verið í Medjugorje. Að öðru leyti varða þeir ungmennin sjálf (það sama má segja um opinberanir Maríu Guðsmóður til Bernadettu í Lourdes), kirkjuna í Medjugorje, heimskirkjuna, lokatáknið, allt mannkynið og sérhvert og eitt okkar.

UNGMENNIN SÁU PARADÍS,
HREINSUNARELDINN OG VÍTI

Öll ungmennin sáu Paradís þar sem fjölmargt hamingjusamt fólk dvelur í kærleika Guðs. Þegar við komum þangað stendur vera vinstra megin við hliðið og lýkur upp fyrir okkur. Fyrir innan gleðjast menn og biðja og yfir höfðum þeirra svífa englar. Tré, akrar og himinloftið er með öðrum hætti en við eigum að venjast og sama máli gegnir um sólina.

Síðan gengu ungmennin í gegnum hreinsunareldinn, stað sem er mjög myrkur og þar sem allir eru mjög mæðulegir, fölir og óttaslegnir. Fjögur ungmennanna sáu síðan víti þar sem menn líða óbærilegar kvalir. Þar er hryllilegt umhorfs. Víti er lýst sem eldhafi með miklu báli í miðju. Fjölmargt fólk fer þangað í röðum og grætur sáran.

María Guðsmóðir sagði: „Ég sýni ykkur himininn og víti til þess að leiða ykkur fyrir sjónir þau laun sem Guð fyrirbýr þeim sem elska hann og refsingu þá sem þeirra bíður sem afneita honum.“ María Guðsmóðir áminnir okkur um að þær hrjáðu sálir sem dvelja í hreinsunareldinum, vænti fyrirbæna og fórna af okkar hálfu.

Einn sjáendanna, Mirjana, meðtók fyrir sitt leyti síðasta leyndardóminn af tíu þann 25. desember 1982 en síðan hurfu opinberanirnar henni, að því undanskildu að hún meðtekur þær á afmælisdögum sínum og á erfiðleikastundum í lífi sínu. Hvað Ivönku áhrærir hætti hún að meðtaka opinberanirnar 7. maí 1985.

Auk Maríu Guðsmóður opinberaðist Jesús ungmennunum í eitt skiptið sem „maður þjáninganna“ með þyrnikórónu á höfði.

BOÐSKAPUR GUÐMÓÐURINNAR: TRÚ, ÓEIGINGIRNI OG FRIÐUR

Og hver er svo boðskapur Maríu Guðsmóður? „Veröldin þarfnast trúar, bænalífs, afturhvarfs og sjálfsafneitunar. Verið ekki í varnarstöðu, biðjið meira. Fjölmargir munu ekki trúa ykkur og trú margra mun kulna. Trúið skilyrðislaust: Á morgun getur það verið um seinan. Föstur (þurrt brauð og vatn) og bænir koma í veg fyrir styrjöld.“ 25. júní á að verða Hátíð Drottningar friðarins“ (Þennan sama dag birtist síðasta opinberunin í Marien-Pfaffenhof við Ulm í Vesturþýskalandi). „Við verðum að bera virðingu fyrir trú allra manna. Við megum aldrei sýna neinni manneskju lítilsvirðingu vegna trúarsannfæringar hennar. Trúaðir menn hafa snúið baki hver við öðrum en Guð mun sameina allar játningar trúarinnar eins og konungur þegna sína, með hjálp presta sinna, það er að segja þjóna.

Jesús Kristur er eini miðlari endurlausnarinnar. En kraftur Heilags Anda hefur dvínað mjög meðal margra þjóða.“ Um Pólland í október 1981: „Brátt munu brjótast út mikil átök en hinir réttlátu munu sigra.“ Um Rússland: „Guð mun hljóta mesta vegsemd meðal Rússa. Vesturlönd njóta framfara, menningar og hátækni en afneita Guði, eins og þau séu sjálf höfundar þessara gæða.“ Vorið 1983: „Snúið ykkur sem skjótast. Bíðið ekki eftir tákninu sem ykkur hefur verið boðað. Síðar mun þetta verða um seinan fyrir hina vantrúuðu. Iðrist og dýpkið trú ykkar.“

20. apríl 1983: María Guðsmóðir grátandi vegna synda heimsins: „Ég vil snúa þeim en það vilja þau ekki sjálf. Biðjið, biðjið fyrir þeim. Dragið það ekki á langinn. Ég þarfnast bæna ykkar og yfirbótaverka.“ 16. júní 1983: „Felið ykkur Guði algjörlega á vald og afneitið ásæknum ástríðum. Hristið af ykkur óttann og gefist honum.“ 2. ágúst 1983: „Helgið ykkur hinu flekklausa Hjarta og gefist því heilshugar; ég mun vernda ykkur. Ég mun ákalla Heilagan Anda. Það skuluð þið líka gera.“

Kunnustu opinberanir Guðsmóðurinnar í Evrópu á síðari tímum eru Rue de Bac í París 1830, La Salette 1846, Lourdes 1858, Fatíma 1917 og Beuaraing og Banneux í Belgíu 1932 og 1933.

medjugorje_5

Guðsmóðirin frá Kazan.

Opinberanirnar í Fatíma í Portúgal og í Banneux í Belgíu (sama dag og Hitler var kjörinn ríkiskanslari) vörðuðu bókstaflega pólitíska framþróun í álfunni. Þeir leyndardómar, sem opinberaðir voru í Fatíma, snertu pólitíska framtíð Sovétríkjanna og það er engin tilviljun að íkona þjóðardýrlings Rússa, Guðsmóðurinnar frá Kazan, skuli vera varðveittur í Rétttrúnaðarkirkjunni í Fatíma. Íkonunni verður skilað aftur til Rússlands þegar afstaða stjórnvalda breytist til hins betra. [2]

medjugorje_4

HLIÐIÐ AÐ AUSTUREVRÓPU

Innan kaþólsku kirkjunnar hefur Medjugorje verið nefnd „hliðið að Austurverópu.“ Hér hefur það gerst í fyrsta skipti að Guðsmóðirin opinberast í ríki undir stjórn kommúnista. Tugþúsundum saman hafa íbúar Herzegóveníu skilað flokksskírteinum sínum eftir að þeir hafa orðið vitni að því sem gerst hefur í Medjugorje. Allt minnir þetta óneitanlega á þá þróun sem átti sér stað í Novi Sad í Póllandi árið 1956 en þangað má rekja rætur Samstöðu (Solidarnoch).

Stjórnvöld í Póllandi höfðu ákveðið að gera Novi Sad að fyrstu guðlausu borg Póllands og því var óheimilt að reisa kirkjur þar. Fátæklegur trékross var reistur á auðu svæði í miðborginni þar sem íbúarnir tóku að safnast saman. Þrátt fyrir ítrekaðar aðgerðir stjórnvalda, sem létu fjarlægja krossinn hvað eftir annað, hélt fókið áfram að fjölmenna við krossinn.

Árið 1977 var lokið við að reisa stærsu kirkju í Póllands í Novi Sad og í dag er þar einn fjölmennasti söfnuður í heimi, meira en 200.000 manns. Þær miklu pólitísku hræringar, sem eiga sér nú stað um alla Austurevrópu eiga rætur að rekja til samstöðu pólskra andspyrnumanna á sjötta áratugnum. Margt bendir til þess að opinberanir Guðsmóðurinnar í Medjugorje séu að rætast í Sovétríkjunum í dag – að Rússar eigi eftir að verða Guði mest til dýrðar á komandi áratugum.

Eitt er víst: Fæsta hefði órað fyrir því fyrir fáeinum árum að Sovétríkin ættu eftir að slaka á heljartökum sínum í Austurevrópu með eins friðsömum hætti og reynslan hefur leitt í ljós. Í ljósi opinberana Guðsmóðurinnar í Medjugorje kemur það því heldur ekki á óvart að rúmenskur prestur, séra Lazlo Tokes, átti ríkulegan þátt í því að aflétta ánauðaroki Ceusescus Rúmeníuforseta af rúmensku þjóðinni eftir 24 ára ógnarstjórn. Með hóflegri bjartsýni má ætla að friðarboðskapurinn frá Medjugorje um samstöðu og frið meðal manna eigi eftir að létta ánauðarokinu af fólki víða um heim.

[1]. Ekki er líklegt að kirkjan kveði upp úrskurð um opinberanirnar í Medjugorje fyrr en að þeim loknum. Þær hafa nú staðið yfir í 26 ár. Biskuparáðstefna í Bosníu-Herzegóveníu sem haldin var 1982 komst ekki að neinni niðurstöðu á þeim tíma. Sett var á fót önnur rannsóknarnefnd 1991, en styrjöldin í landinu kom í veg fyrir störf hennar. Mato Zovkic, svæðisstjóri erkibyskupsdæmisins í Sarajevo hefur lýst því yfir að kirkjan meini engum að vera viðstöddum opinberanirnar og muni gaumgæfa þann andlega ávöxt sem þær feli í sér í fyllingu tímans. Pílagrímar hafa streymt tugmilljónum saman til Medjogorje síðan opinberanirnar hófust þann 24. júní 1981, bæði rómversk kaþólskir og ekki síður orthodoxar.
[2]. Fulltrúi Vatíkansins afhenti Alexis II patríarka rússnesku Rétttrúnaðarkirkjunnar íkonuna þann 28. ágúst 2004 í Moskvu.

No feedback yet