« Nýjar skoðanakannanir: Meirihluti Bandaríkjamanna vill gera fóstureyðingar ólöglegarOpið bréf til Þórðar Sveinssonar, formanns Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði »

20.04.06

  15:03:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 780 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Drengir, hafið þér nokkurn fisk?“

Guðspjall Jesú Krists þann 21. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 21. 1-14

1 Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: 2 Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. 3 Símon Pétur segir við þá: „Ég fer að fiska.“ Þeir segja við hann: „Vér komum líka með þér.“ Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert. 4 Þegar dagur rann, stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki, að það var Jesús. 5 Jesús segir við þá: „Drengir, hafið þér nokkurn fisk?“ Þeir svöruðu: „Nei.“ 6 Hann sagði: „Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir.“ Þeir köstuðu, og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. 7 Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: „Þetta er Drottinn.“ Þegar Símon Pétur heyrði, að það væri Drottinn, brá hann yfir sig flík - hann var fáklæddur - og stökk út í vatnið. 8 En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum. 9 Þegar þeir stigu á land, sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð. 10 Jesús segir við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum, sem þér voruð að veiða.“ 11 Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki, þótt þeir væru svo margir. 12 Jesús segir við þá: „Komið og matist.“ En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: „Hver ert þú?“ Enda vissu þeir, að það var Drottinn. 13 Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. 14 Þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.

Hugleiðing
Í arfsögnum Gyðinga voru þjóðir heimsins 153 að tölu. Fiskarnir tákna því þjóðir heimsins sem postulunum var fyrirhugað að veiða í net fagnaðarerindisins. Þegar hl. Silúan frá Aþosfjalli hugleiddi þennan texta á einni næturvaka sinna komst hann svo að orði:

Drottinn sagði við lærisveina sína: „Drengir, hafið þér nokkra fiska!“ (Jh 21. 5). Hvílík elska býr ekki að baki þessum ljúfu orðum: Drottinn kallar okkur „drengina“ sína. Hvað getur orðið okkur til meiri gleði? Við ættum að íhuga þessi orð með djúpstæðum hætti auk písla Drottins á krossinum sem hann tók á sínar herðar sökum okkar.
Æ, hversu mjög elskar ekki Drottinn sköpun sína!

Jóhannes veitir okkur dýrmæta innsýn inn í fyrirætlun Drottins í textanum. Pétur sem var óbreyttur fiskimaður var orðinn þreyttur á þessu öllu saman og hafði ákveðið að snúa heim til Galíleu að sinni fyrri iðju. Hann var sem sagt ráðvilltur og vissi ekki hvað hann átti að gera nú þegar Jesús var dáinn. Hérna sjáum við af hversu mikilli kostgæfni Drottinn hefur valið lærisveinana. Hvenær var það sem Pétri var boðið að snúa baki við netum sínum eftir aflalausa nótt og erfiði? Það var þegar Jesús hóf boðunarstarf sitt í Galíleu og kom til Péturs og bauð honum að fylgja sér (sjá Lk 5. 4-11).

Aflinn sem Pétur veiðir núna vex Íslendingum sem eru fiskveiðiþjóð ekki í augum, en í augum þessara fiskimanna var hann geysimikill. Það er núna sem Jesús opinberar honum köllun fyrirhugunar sinnar, að „veiða menn“ fyrir konungsríki Guðs. Eins og í upphafi hleypur Pétur umsvifalaust til Jesú. Guðspjallið greinir okkur frá því að Drottinn hefur fyrirhugað okkur öllum, hverju og einu, ákveðið hlutverk á pílagrímsgöngu okkar á jörðinni. Berð þú kennsl á Drottinn í þolraunum daglegs lífs, gleði og vonbrigðum? Drottinn er ætíð reiðubúinn til að endurnýja og styrkja trú okkar. Drottinn, auk okkur trú, gerðu okkur að trúföstum fiskimönnum ríkis þíns, að miklum aflamönnum. Okkar himneski Faðir væntir þess afla sem við færum honum í hendur, en nú á tímum fráfallsins mikla eru fiskimennirnir svo fáir og sá afli sem berst á land liggur undir skemmdum vegna þess að saltið hefur dofnað og glatað krafti sínum. Ég á við trú manna.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Í arfsögnum Gyðinga voru þjóðir heimsins 153 að tölu.

Áhugavert, þetta vissi ég ekki. Gæti ég fengið að vita hvar þetta kemur fram?

20.04.06 @ 19:43
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Gyðingar til forna og reyndar enn, trúa því að við komu Messíasarríkisins fyllist öll jörðin dýrð Drottins. Andarnir 7 sem hvíla yfir Messíasi (Jes 11. 2) og táknaðir eru með sjö ljósabollum ljósastiku tjaldbúðarinnar (7) og talan (10) eða torah mynda töluna 17. Þegar fyrsti sautján tölurnar eru lagðar saman kemur út talan 153. Vikið er að fiskunum í Esekíel 47. 10: „Og fiskimenn munu standa við það frá En Gedí alla leið til En Eglaím, og vötn þess munu verða veiðistöðvar.“ Í geomatríu hebreskunnar er En Gedí 17 og En Eglaím 153. Ágústínus kirkjufaðir túlkaði þetta með sama hætti, það er að segja að talan 153 táknaði Guðsríki allra þjóða jarðar. Önnur arfleifð telur þjóðirnar 72 og því hafi Kristur valið þá 72 sem hann sendi til að boða fagnaðarerindið í upphafi. (10) = torah; 7 andarnir og 2 = Nýi og Gamli sáttmálinn.

20.04.06 @ 21:08