« Af refsingum fyrr og síðarPílagrímsferð til Skálholts »

26.10.13

  04:19:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 533 orð  
Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Kristindómur og menning, Kaþólskir Íslendingar, Jón Arason biskup

Doktorsrit um Jón biskup Arason

Frétt í dagblaðinu Vísi 27. október 1919:

Tveir doktorar.

Cand. jur. Páll Eggert Ólason vinnur doktorsnafnbót.

Svo fór með það, sem vænta mátti, að mikið fjölmenni kom í alþingishúsið 24. þ.m., til að hlýða á athafnir þær, sem þar fóru fram.

Meðal áheyrenda voru ráðherrar allir, háskólakennarar og kennarar mentaskólans, og fjöldi annara karla og kvenna.

Athöfnin hófst kl. 1 e. h., og var tvískift: — Fyrst var prófessor Jón J. Aðils gerður að heiðursdoktor í heimspeki, en þá var gert stutt hlé, og að því loknu hófst doktorspróf Páls Eggerts Ólasonar. (Framhald ...)

Háskólarektor S. P. Sívertsen stýrði fyrri hluta athafnarinnar, en prófessor Sigurður Nordal talaði af hálfu heimspekisdeildarinnar og lýsti yfir því, að deildin hefði kjörið prófessor Jón J. Aðils heiðursdoktor í heimspeki. Fór hann mörgum orðum og lofsamlegum um vísindalega starfsemi hans, en einkanlega hina miklu sögu hans, sem nú er nýútkomin, um einokunarverslunina á Íslandi.

Þegar hann lauk máli sínu, afhenti háskólarektor heiðursdoktornum doktorsbréf hans, en prófessor J. J. Aðils þakkaði með fám orðum, kvað sér þessa sæmd kærkomnari en nokkra aðra, fyrir störf sín.

Nú varð á stutt hlé, en þegar til var tekið á ný, sat prófessor Guðm. Finnbogason í forsetasæti, í forföllum Sig. Nordals, sem var annar andmælandi doktorsefnsins.

Doktorsprófi þessu var hagað eins og títt er um slík próf í Danmörku.

Doktorsefnið stóð í upphækkuðum ræðustól, sem settur var innan við suðurdyr neðrideildar-salsins, gegnt forsetastólnum, en andmælendur hans sátu sinn til hvorrar handar forseta, þar sem skrifarar neðri deildar (úr þingmannaflokki) eiga sæti.

Heimspekideildin hafði skipað tvo andmælendur af sinni hálfu, en auk þess máttu menn tala úr áheyrendaflokki, ef um það höfðu beðið áður.

Doktorsefnið, Páll E. Ólason tók fyrstur til máls og skýrði stuttlega frá efni rits síns og markmiði þess.

Þá tók til máls aðalmótmælandi prófessor Jón J. Aðils og talaði góða klukkustund, hátt og skörulega, eins og honum er lagið. Hann lauk lofsorði á bókina í heild sinni og höfund hennar, en sagði síðan, hvað sér þætti helst mega að henni finna.

Þótti honum sumstaðar mega betur fara í niðurröðun efnis, sumir kaflar — einkum þó einn — óþarflega nákvæmir. Þá mintist hann og á nokkra vafasama staði og atriði, sem hann vildi skýra á annan veg en doktorsefnið hafði gert. Flest af því var þó smávægilegt.

Doktorsefnið svaraði flestu mjög stuttlega, en gerði góða grein fyrir sínum málstað. Greip prófessorinn iðulega framí, og var svo að sjá og heyra, sem áheyrendur skemtu sér best við þann hluta þessarar athafnar.

Þegar Páll Eggert lauk máli sínu, varð enn 10 mínútna hlé.

Þar næst tók til máls, úr áheyrendaflokki, docent Magnús Jónsson, kennari í íslenskri kirkjusögu. Hann lauk lofsorði á doktorsritgerðina, en var höfundinum þó ósamþykkur um sumt.

Doktorsefnið svaraði þeirri ræðu með fám orðum, sem hinni fyrri.

Þá talaði síðari andmælandi heimspekideildarinnar, prófessor Sig. Nordal, og fór mjög vinsamlegum orðum um doktorsritgerðina og höfund hennar, og gerði í sumu fremur að verja hann en sækja.

Ekkert hafði doktorsefnið við ræðu hans að athuga, og var þá athöfninni slitið, eftir hér um bil 3½ kl.stund.

Áheyrendur flyktust út, en d o k t o r Páll Eggert Ólason gekk með prófessorum heimspekideildarinnar inn í kennarastofu þeirra og tók þar við doktorsbréfi sínu.

Hér er stafsetningu og greinarmerkjum haldið eins og í fréttinni.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Athyglisverður pistill - takk! Þess má geta að Sigurður Nordal flutti athyglisverð erindi í Ríkisútvarpið sem síðar voru gefin út undir nafninu “Líf og dauði". Í þessum erindum eru færð sterk rök fyrir trúarlegri lífsafstöðu.

26.10.13 @ 12:39
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér fyrir þetta, Ragnar! Og rétt er það sem þú segir um dr. Sigurð Nordal –– og þessar bækur hans eru enn mjög íhugunarverðar og mikils virði. Við ættum að ausa af brunni þekkingar hans, reynslu og ígrundunar, einnig í tengslum við okkar trú og trúvörn.

En það má bæta því við um 94 ára fréttina / frásögnina í Vísi, að laus er hún við að fjalla um hið eiginlega söguefni, Jón biskup Arason, nefnir hann ekki einu sinni á nafn! og í engum tilfellum nefndra athugasemda við doktorsritið er verið að geta þess, hvaða atvik eða málefni þær fjalli um. En sem lýsing á fyrirkomulagi doktorsvarnar (og heiðursdoktors-útnefningar) í hinum unga Háskóla Íslands er þetta samt fróðleg frásögn.

Doktorsritgerð Páls Eggerts er fyrsta bindið í miklu ritverki hans, Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi, I–IV (Rv. 1919–1926).

27.10.13 @ 18:57
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

multi-blog platform