« FastaBlaise Pascal og eldurinn »

02.03.06

  06:36:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 360 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

De sancta cruce (Um helgan kross)

Guðspjall fimmudagsins 2. mars er um helgan kross: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða fyrirgjöra sjálfum sér?“ (Lk 9. 23-25).

Við skulum hlíða á þessum degi á boðskap feðra íslensku kirkjunnar sem hljómar til okkar yfir aldanna djúp:

Því er kross Drottins vors öllum helgum dómum helgari, að af honum helgast öll kristnin og öll sú þjónusta, er gift hins Helga Anda fylgir. Ekki má vígja án krossinum, svo sem engi mátti til himnaríkis komast án písla Krists. Þá er vér gerum krossmark yfir oss sjálfum eða yfir því, er vér viljum helgast láta af krossinum, þá skulum vér minnast, hvaðan hann helgaðist eða hvað hann merkir eða hvað hann má. Fyr krossi Drottins flæja [flýja] djöflar, hræðist helvíti, dauði firrist, syndir forðast, skammast óvinir, friður magnast, en ást þróast og allir góðir hlutir. Heilagur kross er sigurmark Guðs, en lausnarmark manna, en fagnaðarmark engla, helgaður af Guði, dýrkaður af englum, en göfgaður af mönnum og vegsamaður af allri skepnu. Heilagur kross er hlífiskjöldur við meinum, en hjálp í farsællegum hlutum, huggun við harmi og hugbót í fagnaði, hlíf við háska, lækning við sóttum, lausn í höftum, en leiðrétting frá syndum, sigur í orrustum, en efling við allri freistni, styrkt volaðra, en stjórn auðugra, friður góðum, en ógn illum, fyr miskunn þess, er á krossi leysti frá dauða allt mannkyn, Drottinn vor Jesús Kristur. Honum sé dýrð og vegur með Feður [Föður] og Syni og Anda Helgum of allar aldir alda. [1]

[1]. Úr Hómilíubók, bls. 54-55.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í grein minni um hrun Sovétríkjanna sálugu minntist ég á að það var lítill trékross í borginni Novi Sad í Póllandi sem markaði upphaf hruns þeirra.

Mig langar að minnast á annað dæmi, smávægilegt, en sem leiðir engu að síður í ljós mátt krossins. Það var í ágúst 1983 sem ég keypti mína fyrstu tölvu. Á þeim tíma var þetta merkisgripur, bandarísk Zenith tölva með lcd skjá, hálfgildings ferðatölva.

Það fyrsta sem ég gerði þegar hún var reiðbúin til notkunar var að helga hana Guði með krossmarki. Síðan hef ég haft það að reglu með allar mínar tölvur. Þannig hefur ekkert ljótt komið innn á harða diskinn í öll þessi ár, eða næstum því ekkert.

Í nokkur ár hef ég haldið úti vefsíðu á erlendum málum um kristilegt efni. Daglega fæ ég ítarlegt yfirlit yfir allar færslur. Sú einkennilegasta er vafalaust ein heimsókn frá Norður Kóreu. Ef till vill einhver í þvísa landi að gægjast í eitthvað sem stjórnvöld forbjóða með öllu.

Ég veitti því einnig athygli að í hverjum mánuði hef ég fengið nokkrar heimsóknir frá klámsíðum. Ég veit ekki hvers vegna, kannske er viðkomandi þjakaður af samviskubiti? Jæja, s. l. haust ákvað ég að kanna slíkar síður nánar víða um heim. Þetta er ljótur heimur, svo ekki sé kveðið sterkara að orði. Ef til vill vík ég nánar að þessu síður. Þetta er enn einn anginn af fóstureyðingarstóriðjunni og klámvæðingu vestrænna þjóðfélaga. Dapurleg ummerki um mennska eymd og volæði þegar hún er ofurseld syndinni á vald. Þeir sem slíkt fremja eru ekki af hinni útvöldu rót fyrirheitisins.

02.03.06 @ 12:59
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hl. Lúðvík M. Montfort skrifaði:

Fagnið því og kætist, svo að um munar, þegar Guð úthlutar ykkur hinum eftirsóknarverða krossi. hann lætur þá það, sem dýrmætast er á himni og í honum sjálfum, falla ykkur í skaut, án þess að þið takið eftir því. Ekki getur stórfenglegri Guðs gjöf en krossinn! [..] Heimurinn kallar þetta heimsku, hneisu, fávisku, hvatvísi, óskynsemi. Leyfum þessum blindingjum að segja það sem þeim sýnist. Afskræmd mynd þeirra af krossinum er hluti af dýrð okkar. Í hvert sinn sem þeir fyrirlíta okkur og ofsækja, sjá þeir okkur fyrir nýjum krossum. Þeir gefa okkur gersemar, þeir setja okkur á veldisstól og krýna okkur lárviðarsveig. Hvað er ég að segja? Öll auðæfi heimsins, allur heiður, allir veldissprotar, allar skínandi kórónur kónga og keisara jafnast ekkert á við dýrð krossins, segir heilagur Jóhannes Chrysostom. [..] Þegar alls er gætt, hefur þá krossinn ekki gefið Jesú Kristi nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu? (Fl. 2. 9-19).

Tilvitnun úr bókinni “Bréf til vina krossins". Höf. Louis - Marie Grignion de Montfort (1673-1716). Útg. Kaþólska kirkjan á Íslandi, 1987. Þýð. Gunnar F. Guðmundsson. Bls. 28-29.

02.03.06 @ 17:35
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Amen. Hl. Gregoríos frá Nyssa kallaði krossinn beitu holdsins (holdtekjunnar) Hann sagði: „Guð beitti beitu holdsins á öngul hjálpræðisins og Satan gleypti hana umhugsunarlaust.“

02.03.06 @ 17:44