« Jón Rafn Jóhannsson - minningKristnir menn í Sýrlandi þjást enn og flýja land segir sendiherra páfa »

30.12.17

  21:11:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 361 orð  
Flokkur: Bænir, Bænir sjúklinganna

Davíðssálmur 88 - bæn fársjúks manns

Sem hluti af tíðabænum kaþólsku kirkjunnar nánar tiltekið í náttsöng föstudaga er Davíðssálmur 88 lesinn. Undirtitill sálmsins í tíðabæninni er „Bæn fársjúks manns“. Á eftir er tilvitnun í orð Jesú í Lúkasarguðspjalli 22,53 við æðstu prestana, öldungana og varðforingja helgidómsins þegar þeir komu til að taka hann höndum í grasgarðinum : „En þetta er ykkar tími, nú ræður máttur myrkranna.“ Sálmurinn er svohljóðandi:

Andstef: Drottinn, Guð hjálpræðis míns, ég hrópa til þín um daga, um nætur er ég frammi fyrir þér.

Drottinn, Guð hjálpræðis míns,
ég hrópa til þín um daga,
um nætur er ég frammi fyrir þér,
lát bæn mína koma fyrir þig,
hneig eyra þitt að kveini mínu.

Ég er mettur af böli,
líf mitt nálægist hel,
ég er talinn með þeim sem gengnir eru til grafar,
ég er sem magnþrota maður.

Mér er fengin hvíla meðal dauðra,
eins og meðal fallinna sem liggja í gröf
og þú minnist ekki framar
því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.

Þú hefur lagt mig í dýpstu gröf,
í myrkasta djúpið.
Heift þín hvílir þungt á mér
og allir boðar þínir skella á mér.

Þú hefur fjarlægt vini mína frá mér,
gert mig að viðurstyggð í augum þeirra.
Ég er lokaður inni og kemst ekki út,
augu mín eru döpruð af harmi.

Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern,
lyfti höndum mínum til þín.
Gerir þú furðuverk vegna framliðinna
eða rísa skuggarnir á fætur til að lofa þig?

Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni,
frá trúfesti þinni í helju?
Birtist undramáttur þinn í myrkrinu
og réttlæti þitt í landi gleymskunnar?

En ég hrópa til þín, Drottinn,
bæn mín berst þér að morgni.
Hví útskúfar þú mér, Drottinn,
og hylur auglit þitt fyrir mér?

Ég var beygður og í dauðans greipum allt frá æsku,
áþján þín hvílir á mér, ég er örmagna orðinn.
Glóandi heift þín gengur yfir mig,
ógnir þínar gera út af við mig,

þær umlykja mig eins og vötn allan liðlangan daginn,
þrengja að mér úr öllum áttum.
Þú hefur gert vini mína og vandamenn fráhverfa mér,
myrkrið er minn nánasti vinur.

Andstef: Drottinn, Guð hjálpræðis míns, ég hrópa til þín um daga, um nætur er ég frammi fyrir þér.

No feedback yet