« Hún blessaða Bernadetta okkar frá LourdesVorvindar breytinga? »

03.02.06

  20:50:36, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1043 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Dálítið um pólitíska slagsíðu

Sumir vina minna telja að ég hafi gert mig sekan um pólitíska slagsíðu í skrifum mínum á Kirkju.net. Þeir óttast að ég sé orðinn að hægri sinnuðum öfgamanni, jafnvel falangista vegna tengsla minna við Spán. Þeir þurfa ekki að óttast slíkt. Leyfið mér að útskýra mál mitt.

Sem kaþólskur maður aðhyllist ég þá efnahagsstjórn sem Heilagur Andi boðaði frumkirkjunni: En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt (P 4. 32).

Þetta er sameignarstefna Heilags Anda og það guðsríki (theocracy) sem hann boðar á jörðu. Sérfræðingar Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa komist að þeirri niðurstöðu, að jörðin gæti auðveldlega brauðfætt 35-50 milljarði íbúa og engin þyrfti að líða skort: Ekkert barn þyrfti að sofna á kvöldin á svangan maga eða verða hálf vanvita sjö ára gamalt sökum skorts á eggjahvítu.

Það sem stendur í vegi fyrir því að þessi draumur Heilags Anda nái fram að ganga er syndin. Syndin lýsir sér í guðlausum kommúnisma, sósíalfasisma og guðlausum kapítalisma (taumlausri auðhyggju). Þetta er það krabbamein sem þjakar líkama mannkynsins. Auðæfum jarðar er ekki skipt til jafns. Þegar Jóhannes Páll páfi heimsótti Kastró heim hérna um árið fór vel á með þeim. Kastró spurði páfa: „Var Jesús kommúnisti?“ „Sá eini,“ svaraði páfi. Eftir þetta heimilaði Kastró kirkjunni að starfa að nýju á Kúbu. Þetta leiðir okkur einungis fyrir sjónir, að leyndardómur krossins getur jafnvel snert við hjarta forhertustu sósíalfasista.

Þessi sameignarstefna Heilags Anda birtist í kirkjunni í fjölskyldustefnu hennar þar sem foreldrarnir deila ávöxtum handa sinna með börnunum. Hún birtist í trúarreglunum þar sem „enginn telur neitt vera sitt,“ og í leikmannareglum líkt og Opus Dei (Verk Guðs). Einn vina minna sem tilheyrir Opus Dei í Bandaríkjunum greindi mér frá því að þeir söfnuðu tugum milljóna dollara árlega, bæði með frjálsum framlögum almennings og drjúgum fjárframlögum fjölmargra bandarískra stórfyrirtækja. Auk þess ætti og ræki reglan sjálf mörg heimsþekkt stórfyrirtæki. Öllum ágóðanum væri varið til að reisa sjúkrahús, barnaskóla, iðnskóla og menntaskóla í þriðja heiminum. Allt væri þetta starf unnið í kyrrþei án lúðrablásturs, rétt eins og Endurlausnarinn boðaði í holdtekju sinni á jörðu. Málið snýst nefnilega ekki um dýrð holdsins, heldur dýrð Guðs. Laborare est orare! (Vinnan er bæn).

Hér á Íslandi birtist þessi sameignarstefna Andans í því að kirkjan hóf rekstur fyrsta nútíma sjúkrahússins við endurkomu sína til landsins í upphafi síðustu aldar landsmönnum til líknar. Síðan fjölgaði þessum líknarstofnunum. Þarna unnu tugir Jósefssystra og Franciskusarsystra án þess að þiggja laun. Nú eru það Kærleikssystur Móður Teresu sem eru óaðskiljanlegur hluti félagsmálaþjónustunnar í Reykjavík og systurnar heimsækja og styrkja þá einmana og snauðu. Þetta er örfá dæmi um sameignarstefnu Heilags Anda í verki.

Með tilvísun til ummæla páfa hér að ofan, þá svaraði hann Kastró hreinskilningslega. Hreinskilnin er afsprengi enn annarrar og æðri dyggðar sem Drottinn kallaði hreinleika hjartans og hann sagði: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu guðs ríki sjá“ (Mt 5. 8). Og við sjáum guðs ríkið bæði á „himnum sem á jörðu“ í krafti þessarar dyggðar. Þeir sem hafa þessar dyggð ekki til að bera, en boða engu að síður sameignarstefnu, fara villu vegar. Og þá gerist það sem við höfum svo áþreifanleg dæmi um á s.l. öld: „Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju“ (Mt. 15. 14). Eða þá að það fer fyrir okkur eins og fór fyrir ríka bóndanum sem ætlaði að byggja sér stærri hlöðu fyrir auðæfi sín: „Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það sem þú hefur aflað“ (Lk 12. 20).

Þeir sem ekki eru hreinskilnir missa sjónar af Guði vegna þess að orðið hreinskilni þýðir bókstaflega hreinn skilningur. Og þennan hreina skilning öðlumst við hjá Guði EINUM. Ég skal taka eitt örlítið dæmi. Fyrir nokkrum mánuðum birtist viðtal við ógæfumann einn sem tilheyrir hópi svo kallaðra handrukkara. Handrukkarar eru menn sem innheimta skuldir, einkum tengdar ágóða af fíkniefnasölu. Þetta gera þeir með húsbrotum og líkamsmeiðingum á fólki, stundum blásaklausum skyldmennum fíkniefnaneytenda. Tekjur mannsins sökum þessarar iðju sinnar eru þrítugfaldar á við mínar mánaðarlega. Hann „er sem sagt að gera það gott,“ eins og komist er að orði í heimi dýrðar holdsins. Lífsafstaða mannsins var afar „einföld,“ svo einföld að hann gæti enn orðið hólpinn, frelsast frá villu síns vegar. Hann sagði að engill sæti á hægri öxl sinni og púki á þeirri vinstri og þeir hvísluðu í eyra sér. „Og hverjum hlýðir þú,“ spurði fréttamaðurinn. „Að sjálfsögðu púkanum, annars myndi ég ekki standa í þessu,“ svaraði maðurinn.

Megi algóður Drottinn í miskunnarríkri náð sinni gefa sem flestum að heyra og hlusta eftir hvískri ljósengilsins. Sjálfur leitast ég við að vera á varðbergi gagnvart hvískri púkans á vinstri öxlinni, líka þegar hann opinberast í stefnu stjórnmálaflokkanna, einkum þeirra afla sem vilja ryðja kirkjunni úr vegi til að koma sínum sjónarmiðum og stefnumálum betur að. Þetta er mín pólitíska slagsíða.

Drottinn Jesús Kristur, Guðsonur, miskunna okkur syndugum mönnum!

No feedback yet