« Ritningarlesturinn 29. júní 2006Ritningarlesturinn 26. júní 2006 »

28.06.06

  06:13:32, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 636 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Daglegir ritningarlestrar

Heilagt guðspjall Jesú Krists miðvikudaginn 28. júní er úr Matteusarguðspjalli 7. 15-20

15 Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. 16 Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? 17 Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. 18 Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. 19 Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. 20 Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá.

Í dag minnist kirkjan: Hl. Írenaeusar frá Lyon (130-220)

Hugleiðing dagsins: Blessuð Teresa frá Kalkútta (1910-1997), stofnandi
Kærleikssystranna.

„Að bera góðan ávöxt.“

Ef einhver finnur að Guð er að biðja hann um að taka þátt í þjóðfélagsumbótum, þá er það mál á milli hans eins og Guðs. Öllum ber okkur að þjóna Guði til samræmis við köllun okkar. Ég finn að ég er kölluð til að þjóna einstaklingum, að elska sérhverja manneskju. Orðið fjöldi eða hópur kemur aldrei upp í huga minn, heldur hver einstök manneskja. Ef ég leiddi hugann að mannfjöldanum held ég að ég tæki mér ekkert fyrir hendur. Það er einstaklingurinn sem skiptir máli. Ég trúi á samskipti auglitis til auglitis.

Fylling hjartna okkar birtist í verkum okkar: Hvernig ég kem fram við þennan líkþráa mann, hvernig ég umgengst þessa deyjandi manneskju, hvernig gagnvart þessum heimilisleysingja. Stundum er erfiðara að umgangast hina óreglumanninn fremur en þann sem er að deyja. Þú getur nálgast deyjandi manneskjur á líknarheimilum okkar vegna þess að þær eru friðsamar og bíða þess að hverfa brátt til Guðs. Þú getur nálgast veika manneskju eða líkþráa í þeirri fullvissu að þú sért að snerta líkama Krists. En þegar dauðadrukkinn einstaklingur sem æpir hástöfum á hlut að máli, þá er erfiðara að ímynda sér, að við stöndum auglitis til auglitis við Jesú með huldum hætti í honum. Hversu hreinar og elskuríkar verða hendur okkar ekki að vera til að sýna slíkri manneskju samúð!

Að sjá Jesú með andlegum hætti í manneskju sem hefur beðið skipbrot í lífinu krefst hreins hjarta. Eftir því sem ímynd Guðs er afskræmdari í einstaklingnum verður trú okkar og lotning gagnvart ásjónu Jesú að vera meiri í kærleikstrúboði okkar gagnvart honum. Þetta skulum við gera af djúpri þakklætiskennd og guðsótta. Elska okkar og gleði verður að taka mið af því hversu fráhrindandi sá er sem á í hlut.

(Persónuleg játning. Þær stundir hafa komið að ég hef sagt við sjálfan mig: „Er þetta þess virði að standa í þessu? Þeir eru ekki margir sem lesa þessa ritningarlestra daglega. Er þetta fyrirhafnarinnar virði? Þá segir Jesús: „Jú, Jón, þetta er meira en vel þess virði! Á krossinum hrópaði ég: „Mig þyrstir!“ Mig þyrstir eftir sálunum. Hjálpaðu mér til að svala þessum þorsta mínum. Sérhver þessara sálna er ósegjanlega dýrmæt í augum mínum og þannig er þorsta minum svalað! Hugsaðu um alla þá presta mína um allan heim sem syngja messur daglega, þrátt fyrir að kirkjur mínar séu tómar!“ Þá segi ég: „Jú, Drottinn! Þetta er það sem ég vil gera vegna þess að þetta er þinn vilji, jafnvel þó að einungis ein manneskja læsi þessa ritningarlestra á mánuði. Þessi sál er dýrmætari í augum Drottins en allur auður þessa heims. Amen).

SJÁ: VEFRIT KARMELS:

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, bróðir Jón, fyrir þennan texta frá Móður Teresu. Hann flytur okkur á svo nærfærinn, lifandi og sterkan hátt lærdóminn af því sem Jesús vildi kenna okkur á sínum síðustu dögum fyrir krossfestinguna (sjá Matth. 25.31–46). Þetta eru mjög íhugunarverðir hlutir, sem hin blessaða Teresa segir þarna, t.d. bæði þetta, að bezt er að sjá alla þurfandi sem persónur fremur en sem hópa – og að þeim mun lakara sem ástandið er á meðbræðrum okkar, jafnvel svo, að suma fúlsi við þeim – þeim mun frekar ber okkur að reyna að sjá Kristsmyndina í þeim og breyta við þá eins og Hann ætti í hlut. – Þakka þér líka þín eigin orð, Jón.

28.06.06 @ 14:43
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Eitt sinn keyrði ég fram hjá Hlemmi rétt eftir hádegið og sá þá tvær Teresusystur sitja á einum bekknum og útigangsmann á milli þeirra í hrókasamræðum. Aftur lág leið mín þarna fram hjá klukkan þrjú og en sátu þau og töluðu saman. Ekki veit ég hversu lengi þær sátu þarna, en þetta er það sem móður Teresu bjó í huga.

28.06.06 @ 16:57