« RÚV - Sjónvarp fer yfir velsæmismörkinMetnaðarfullt framtak Sigur Rósar á tónlistarsviðinu »

03.08.06

  09:05:36, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 701 orð  
Flokkur: Fjölmiðlarýni

Dagar náðar og hvíldar

Í fróðlegum pistli í Fréttablaðinu í dag: „Vinnan er guðs dýrð: Taka tvö“ segir Þorvaldur Gylfason m.a: Sumum finnst vinnan vera guðs dýrð: því meiri vinna, þeim mun betra.“ Líkast til er þetta rétt hjá Þorvaldi en varla er hægt að tala um að þetta viðhorf einkenni kristnina sem heild. Ekki má gleyma að það eru kristir söfnuðir sem kalla á að sérstakir helgidagar séu haldnir heilagir sem dagar náðar og hvíldar. Minna má á þriðja boðorðið: „Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.“ Í þessu sambandi má benda á sunnudagana, páska eða jól.

Í kaþólska trúfræðsluritinu segir m.a. um þessi mál:

Dagur náðar og hvíldar
2184. Á sama hátt og Guð "hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu er hann hafði gjört"121 þannig skiptist líf mannsins milli þess að vinna og hvílast. Skipan Drottinsdagsins stuðlar að því að allir fái notið hæfilegrar hvíldar og tómstundar til að leggja rækt við fjölskyldu-, menningar-, félags- og trúarlífið.
2185. Á sunnudögum og öðrum skipuðum helgidögum eiga hinir trúuðu að halda sig frá vinnu og starfsemi sem hindrar þá þjónustu er Guði ber, dregur úr fögnuðinum sem á að einkenna Drottinsdaginn og kemur í veg fyrir líknarstörf og hæfilega hvíld líkama og sálar. Þarfir fjölskyldunnar eða mikilvæg félagsleg þjónusta geta talist lögmæt undanþága frá ákvæðum um hvíld á sunnudegi. Hinir trúuðu eiga að sjá til þess að lögmæt undanþága verði ekki að vana er valdi því að trú, fjölskyldulíf og heilbrigði skaðast. Kærleikur sannleikans leitar guðlegs næðis - nauðsyn kærleikans tekur að sér réttmæt verk.

2186. Þeir kristnu menn sem njóta tómstunda eiga að minnast trúsystkina sinna sem hafa sömu þarfir og sömu réttindi og þeir, en geta engu að síður ekki tekið sér hvíld frá störfum vegna neyðar og fátæktar. Kristileg guðrækni hefur það fyrir hefð að helga sunnudaginn til góðra verka og auðmjúkrar þjónustu við sjúka, rúmliggjandi og aldraða. Kristnir menn halda einnig sunnudaginn heilagan með því að gefa fjölskyldu og ættingjum tíma sinn og umönnun sem oft er erfitt að gera aðra daga vikunnar.

2187. Að halda sunnudaginn og aðra helgidaga heilaga krefst sameiginlegs átaks. Kristnir menn eiga ekki að gera ónauðsynlegar kröfur til annarra sem hindrar þá að halda í heiðri Drottinsdaginn. Hefðbundin starfsemi (íþróttir, veitingahús, o.s.frv.) og félagslegar skyldur (opinber þjónusta, o.s.frv.) krefjast þess að sumir vinni á sunnudögum. Engu að síður á hver og einn að gæta þess að hann hafi nægan tíma aflögu til tómstunda. Með hófsemi og af náungakærleika munu hinir trúuðu forðast það óhóf og ofbeldi sem stundum er fylgifiskur almennrar tómstundaiðju. Þrátt fyrir kröfur efnahagslífsins eiga almenn yfirvöld að tryggja að borgararnir fái tíma til hvíldar og þjónustu við Guð. Atvinnurekendur hafa tilsvarandi skyldur gagnvart starfsmönnum sínum.

2188. Innan þeirra marka sem trúfrelsi og almannaheill setja, eiga kristnir menn að vinna að því að fá sunnudaga og helgidaga kirkjunnar viðurkennda sem löglega frídaga. Þeir eiga að vera öllum opinber fyrirmynd í bæn, virðingu og fögnuði og verja erfðavenjur sínar sem verðmætt framlag til andlegs lífs samfélagsins. Þar sem landslög eða aðrar ástæður valda því að nauðsynlegt er að vinna á sunnudögum á engu að síður að líta á hann sem dag hjálpræðis okkar er gerir okkur kleift að eiga hlutdeild í "hátíðarsamkomu" og söfnuði "frumgetinna, sem á himnum eru skráðir." [1]

[1] Heimild: http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/2083.html#3

No feedback yet