« „Ég hef séð Drottin.“Páskaásjóna himnesks fagnaðar »

16.04.06

  14:14:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 540 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Chairete – Heilar þið!“

Guðspjall Jesú Krists á öðrum degi Páska er úr Matteusarguðspjalli 28. 8-15

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. 9 Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: „Heilar þið!“ En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. 10 Þá segir Jesús við þær: „Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig.“ 11 Meðan þær voru á leiðinni komu nokkrir varðmenn til borgarinnar og sögðu æðstu prestunum allt, sem gjörst hafði. 12 En þeir kvöddu saman öldungana og tóku það ráð með þeim að bera mikið fé á hermennina og mæltu við þá: 13 „Segið þetta: ,Lærisveinar hans komu á næturþeli, meðan vér sváfum, og stálu honum.' 14 Og ef þetta berst landshöfðingjanum til eyrna, skulum vér sefa hann, svo að þér getið verið áhyggjulausir.“ 15 Þeir tóku við fénu og gjörðu sem þeim var sagt. Þessi sögusögn hefur verið borin út meðal Gyðinga allt til þessa dags.

Hugleiðing
„Chairete – Heilar þið!“ Jesús opnar augu kvennanna og þær sjá hann. Við sjáum annað dæmi um þetta í Lúkasarguðspjalli: „Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann“ (Lk 24. 31). Lúkasi er svo mikið í mun að okkur skiljist þetta að hann endurtekur skömmu síðar: „Síðan lauk hann upp huga þeirra“ (Lk 24. 45). Í fyrri setningunni eru það augu, í því síðara hið andlega auga eða nous á grísku, þessi innsti og dýpsti verundarkjarni mannsins sem gerir honum kleift að sjá Guð og er kallaður hreinleiki hjartans í Matteusarguðspjalli: Sælir eru hjartahreinir. því að þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8). Þetta andlega innsæi er eitt og hið sama og trúin og hún er Guðs gjöf ætluð okkur til handa. Trúin gerir okkur kleift að nema allan þann sannleika sem Guð opinberar okkur í guðspjöllum sínum og öllum Ritningunum. Trúin er FULLVISSA vegna þess að hún grundvallast á orði Guðs og hann getur ekki logið. En trúin er einnig SKILNINGUR og því uppljómar Guð „augu hjartans.“ Sökum náðargjafar trúarinnar opinberast Drottinn þeim sem trúa á orð hans og gefur þeim hlutdeild í nýju lífi í Heilögum Anda. Lærisveinarnir sáu Drottinn þegar hann braut brauðið og þetta á við okkur öll sem meðtökum evkaristíuna í trú í kirkjunni. Þessum sannindum afneituðu musterisprestar Gyðingdómsins og gengu enn lengra og báru fé á varðmennina til að bera ljúgvitni. Enn í dag gerist þetta vegna þess að dauðamenning fóstureyðingarstóriðjunnar verður að réttlæta verk sín með því að bera út sögusagnir um Drottin sem gera lítið úr hjálpræði hans og helgun á öllu lífi, einkum lífi ófæddra barna. Einungis á þeim tíma sem ég skrifa þessar línur hafa 6000 börn látið lífið í tryllingaræði fóstureyðinganna: „Segið þeim að boðskapur hans sé ósannur!“

No feedback yet