Falleg var messan í morgun kl. 8 á Þorláksmessudegi í Dómkirkju Krists konungs. Séra Jakob Rolland las og söng þar messu með þremur tylftum kirkjugesta, en þetta hefur hann gert allt frá 1993 og er mikill Þorláksmaður í sér, það heyrist á öllu. Sungin var hefðbundin messa, en í predikun sinni las hann m.a. úr Þorláks sögu helga. Í lok messunnar sungum við sálm tileinkaðan Þorláki, eftir Stefán frá Hvítadal, og stóðum þá fyrir framan líkneski hins helga manns nærri inngangi kirkjunnar.
Eftir messuna var morgunverður í safnaðarheimilinu, kaffi og súkkulaði, rúnnstykki með osti og sultum og pönnukökur beggja gerða, ljúffengt mjög, og ágæt samvera fólks, sem hristist þarna saman með eilítið frábrugðnum hætti frá því sem vant er, því að hér voru líka í messu margir sem gjarnan mæta í ensku sunnudagsmessuna kl. 18 fremur en íslenzku hámessuna kl. hálfellefu, sem og ýmsir aðrir sem sjaldnar sjást eða í öðrum kirkjum.
Á morgun, aðfangadag, vill svo til, að þá er í raun 4. sunnudagur í aðventu, henni er sem sé ekki lokið fyrr en eftir það, og er hámessan í Landakoti kl. hálfellefu að vanda og þá kveikt á fjórða aðventukertinu. Jólavakan byrjar svo á miðnætti sama kvöld.
Gleðileg jól, allir lesendur hér nær og fjær!
PS. Hér á Björn Bjarnason, fyrrverandi. menntamálaráðherra, góða, fróðlega grein um Þorlák biskup í vefdagbók sinni á Moggabloggi í dag: Messa verndardýrlings Íslands = http://www.bjorn.is/dagbok/nr/8631
Ótrúlega hratt hefur tíminn liðið frá andláti þessa elskaða leiðtoga sem undirritaður eins og margir aðrir áttu að andlegum föður, hvetjandi og gefandi í tilverunni. Hann var frá okkur tekinn þremur árum fyrir páfaheimsóknina 1989. Um hann ritaði undirritaður á 20. ártíð hans 2006:
"Hinrik biskup var afskaplega hjartahlýr, laus við allt yfirlæti, en þeim mun sannari maður meðbræðrum sínum, það sást í öllu hans viðmóti. Margoft skildi ég við hann á tröppunum við hús hans í Egilsgötu, þar sem hann, brosandi og uppörvandi, bað mér og mínum blessunar og velfarnaðar í bak og fyrir. Það gerði hann líka, þegar ég var erlendis við nám, og þakka ég hér og nú fyrirbænir hans allar.
Hrífandi fagur þótti mér Gregorssöngur biskups, þegar hann hóf upp raust sína í messunni með orðum Níkeujátningarinnar: Credo in unum Deum ... Það var eitthvað innilega hreint og fallegt við tón hans og hreim, en hann lærði einnig allnokkuð í íslenzku og flutti predikanir sínar á því máli.
Trú hans var einlæg og fölskvalaus, hann verður jafnan lifandi dæmi og fyrirmynd um sannan og gefandi lærisvein Krists."
Sjá nánar hér: 20. ártíð Hinriks biskups Frehen – Persónuleg minning. Sjá einnig grein eftir Gunnar F. Guðmundsson, cand. mag., sem mikið starfaði fyrir biskupinn: Dr. Hinrik H. Frehen biskup – Minning.
Blessuð sé minning Hinriks biskups. Megi ljós Guðs lýsa honum. ––JVJ.
Langafasta stendur yfir, það er tími sjálfsafneitunar, ef vel á að vera, og ekki aðeins í mat og drykk. Gjafmildi er þörf, og lestur í Ritningunni og guðrækileg íhugun gagnast opnum huga.
Hér er birtur í fyrsta sinn á netinu fallegur sálmur Guðbrands Jónssonar, rithöfundar og prófessors að nafnbót, en hann var sonur Jóns Þorkelssonar, magisters, dr. í ísl. fræðum, þjóðskjalavarðar (skáldsins Fornólfs), merkra ætta, og faðir Loga lögfræðings, fyrrv. frkvstj. St Jósefsspítala í Landakoti.
Guðbrandur var mikilvirkur rithöfundur og annálaður essayisti og hélt oft útvarpserindi um ferðir sínar og hugðarefni, og eru til allnokkur greinasöfn hans á bókum, t.d. Gyðingurinn gangandi, Að utan og sunnan og Sjö dauðasyndir. Ennfremur er hann höfundur mikillar ævisögu Jóns biskups Arasonar, sem út kom hjá Hlaðbúð á fjögurra alda ártíð herra Jóns og sona hans Ara og Björns, sem allir Íslendingar eru komnir af, en Guðbrandur var kaþólskur.
Mun fleira mætti skrifa um Guðbrand, sem var vel þekktur maður á sinni tíð, en vindum okkur að sálminum, sem er þýddur (frumhöfundur H. Vejser), en vel gerður og kom höf. þessara lína á óvart þennan sunnudag, því að fyrr hafði ég ekki séð kveðskap eftir Guðbrand, en sunginn er hann við fallegt lag:
Guðs lýður, krossins tak þú tré
trútt þér á herðar, þótt hann sé
þungur að bera, þessi raun
þiggur margföld og eilíf laun.
Í laun þér veitist vegsemd ein,
að verða´ að Kristí lærisvein;
speki og þróttur vaxa víst,
veita mun þér af slíku sízt.
Tak þér á herðar Herrans kross,
hljóta munt þá hið æðsta hnoss:
félag og sæta samanvist
sífellt við Drottin Jesúm Krist.
Öxi´ og jörðu eftirlátið
eldrautt þá var blóð.
Minningu um merka feðga
man vor frjálsa þjóð.
Biskupi var kær sín kirkja,
kær sem land og trú.
Fann í vanda frelsi Íslands
frelsishetja sú.
Ártíð þessi á oss minnir
afbrot framið mest.
Iðrun synda, sátt og mildi
sakir læknar best.
Þar er hjálpin þörfin mikla,
þá sem einnig nú.
Lifir kristin kirkja fyrir
kærleik, von og trú.
Þetta eru 2. og lokaerindið (4.) í ljóðinu 7. nóvember 1550 eftir herra Pétur Sigurgeirsson. Það birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins 4. nóvember 2000, á kristnihátíðarárinu. Pétur heitinn biskup var norðanmaður eins og Jón biskup Arason, blessaðrar minningar.
Nú eru fimm dagar rúmir til hátíðlegrar biskupsvígslu í Kristskirkju í Landakoti, öðru nafni Basiliku Krists konungs. Séra Jakob Rolland minnti á þetta í hámessu nýliðins sunnudags og hvatti alla kaþólska til að sækja þessa vígslumessu, sem verður nk. laugardag, 31. október, kl. 18.00.
Séra Davíð Tencer, kapúcínamunkur og sóknarprestur í sókn heilags Þorláks á Reyðarfirði, hefur verið kallaður og útvalinn til að taka við af herra Pétri Bürcher sem biskup kaþólskra á Íslandi. Við fögnum þessu og biðjum fyrir því að hann fái þjónað sínu nýja embætti af sömu gleðinni og fúsleikanum sem hefur einkennt störf hans hingað til. Um lífshlaup hans og ævistarf var fjallað hér nýlega í þessum pistli (með mynd): Nýtt biskupsefni kaþólskra.
Svo vildi til, að þetta sunnudagskvöld var stutt, en mjög áhugaverð frétt í Sjónvarpinu frá Kollaleiru í Reyðarfirði, þar sem sagt var frá starfi munkanna þar, en einkum frá byggingu kaþólskrar kirkju, Þorlákskirkju, á staðnum, og hvernig hjálp margra hefur gert hana mögulega, einkum viðirnir í hana, en þar er um bjálkabyggingu að ræða, úr fallegum ljósum viði. Mest af bjálkunum er gefið af vinum munkanna í Slóvakíu. Einnig er sagt frá ýmsum helgigripum sem kirkjunni hafa borizt; – "eins og Davíð sagði: Guð undirbýr allt."
Sjón er sögu ríkari, því að þetta er á vef Sjónvarpsins, þar sem líka sést í séra Davíð fyrir altarinu (í eldra helgihúsi á staðnum) og ómur heyrist af tilbeiðslutextum: Hér eru þessar kvöldfréttir Sjónvarpsins, umfjöllun um kaþólsku kirkjuna byrjar þar þegar um 20 mín. eru liðnar af fréttatímanum.
Vinsæll prestur, Mgr. Davíð Tencer, hefur verið tilnefndur sem biskupsefni kaþólskra manna á Íslandi, þ.e. sem Reykjavíkurbiskup. Fer vígsla hans fram 31. október næstkomandi. Hann er slóvakískur að ætt og uppruna, þjónaði sem prestur þar í landi og gekk í reglu Kapúcína, en á Íslandi hefur hann þjónað frá 2004. Hann er vel lærður maður og hefur víða komið við, eins og lesa má í þessari tilkynningu á vef kaþólsku kirkjunnar á Íslandi:
"Hann heitir Dávid Bartimej Tencer, OFMCap. Hann fæddist 18. maí 1963 í Nová Baňa. Hann hlaut prestvígslu 15. júlí 1986 í Banská Bystrica í Slóvakíu fyrir biskupsdæmið Banská Bystrica, var aðstoðarsóknarprestur í Hriňova og síðar aðstoðarprestur í Zvolen. Hann varð stjórnandi prestakallsins í Sklenne Teplice árið 1989 og 1989 í Podkonice.
Hann bað biskup sinn að leysa sig undan embættisskyldum svo að hann gæti gengið í reglu kapúsína og árið 1990 hóf hann reynslutíma sinn. Hann vann fyrstu trúarheit sín árið 1991 í Podkonice. Árið 1992 hóf hann nám í trúarhefðum fransiskana í Antonianum-háskólanum í Róm og lauk því með lícentíatsprófi 1994. Hann vann hátíðlegt lokaheit í Fæðingarkirkju heilags Jóhannesar skírara í Kremmnické Bane – Johanesberg.
Hann varð stjórnandi prestakallsins í Holíč eftir að hann kom heim frá Róm, ráðgjafi nýmunka og félagi í ráðgjafanefnd stjórnanda reglunnar. Árið 1996 var hann fluttur til Raticovvrch í Hriňova þar sem hann var ráðgjafi nýmunka til 2000 og yfirmaður klaustursins til 2003. Hann hóf kennslu um áramótin 2001-2002 og kenndi predikunar- og andlega guðfræði til ársins 2004 í prestaskólanum í Badin. Hann varð forstöðumaður samfélagsins í Žilina 2003 og kenndi andlega guðfræði í Stofnun heilags Tómasar frá Akvínó til 2004.
Hann kom til Íslands árið 2004, var skipaður aðstoðarprestur í Maríusókn í Breiðholti í Reykjavík og hóf um leið íslenskunám. Árið 2007 var hann skipaður sóknarprestur í sókn heilags Þorláks á Reyðarfirði. Hann er félagi í prestaráði og ráðgjafanefnd Reykjavíkurbiskupsdæmis."
Séra Davíð hefur m.a. predikað í Kristskirkju í Landakoti á íslenzku og einnig á pólsku í messum fyrir Pólverja (kl. 1 á sunnudögum). Hann var við kirkjukaffi í Landakoti þennan sunnudag, hlýr og gefandi að vanda. Við fögnum vali hans sem biskups. Biðjum nú öll fyrir séra Davíð og biskupsstörfum hans fram undan, um leið og við þökkum Pétri biskupi fyrir hans góðu umsjón kirkjunnar síðastliðin átta ár og óskum honum fararheilla til Landsins helga.
Mjög athyglisverður var Skáldatími, þáttur Péturs Gunnarssonar rithöfundar, á Rás 1 í kvöld. Afar fróðlegur var hann um fiskveiðar Frakka í norðurhöfum og hvernig hinum mikla fjölda sjómanna þeirra hér við land var nauðsyn á tvenns konar liðsinni í landi: læknis- eða sjúkrahúsþjónustu og prestsþjónustu, fyrir utan aðstoð björgunarsveita bænda og annarra við Suðurlandið þegar skútur þeirra strönduðu og þeir komust nauðuglega af.
Pétur fjallar framan af um skrif tveggja rithöfunda um mál Franzmanna hér við land, Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness, en síðan um erfiðar lífsaðstæður sjómannanna um borð og byggir þar ekki sízt á franskri skáldsögu, mjög vinsælli á 19. öld, Pecheur d'Islande, eftir Pierre Lothi. Vincent van Gogh og Paul Gaugain þekktu þá skáldsögu, og van Gogh hafði áhuga á að gera myndefni eftir sögunni ...
Í hámessunni sl. sunnudag las sr. Jakob Rollant biskupsritari upp bréf herra Péturs biskups Burcher, þar sem hann skýrir frá því, að hann hafi sent Franz páfa lausnarbeiðni sína frá biskupsembættinu. Hann er á sínu sjötugasta aldursári, en heilsa hans leyfir ekki, að hann gegni þessu starfi áfram í okkar kalda landi; hann er m.a. með mjög viðkvæm lungu og þolir ekki eldfjallaryk.
Pétur Bürcher hefur gegnt biskupsembætti í tvo áratugi, fyrst sem aðstoðarbiskup í Sviss, en síðustu sjö árin sem Reykjavíkurbiskup og hefur notið bæði trausts og vinsælda safnaðarins, enda mikið ljúfmenni. Lausnarbeiðni hans liggur fyrir hjá páfanum; gera má ráð fyrir að hún verði samþykkt.
Ekki mun biskupinn okkar sitja auðum höndum eftir það; hann mun áfram gegna ýmsum störfum, m.a. í Jerúsalem, fyrir hjálparsamtök sem hann áður starfaði fyrir.
Biskupinum fylgja beztu árnaðaróskir frá söfnuði hans hér. Var bæði beðið fyrir honum og fyrir eftirmanni hans í hámessunni í Kristskirkju sl. sunnudag.
Útför Torfa Ólafssonar, fyrrum formanns Félags kaþólskra leikmanna, var gerð í gær með sálumessu í Kristskirkju konungs í Landakoti að viðstöddu fjölmenni. Hans verður minnzt hér nánar síðar.
Sjá á meðan um hann: 1) pistil hér: Torfi Ólafsson, sálmahöfundur og velgjörðarmaður kaþólskrar kirkju,
2) Æviágrip og minningargreinar í Morgunblaðinu 4. apríl 2014.
Hér skal enn minnt á pílagrímsferð til Skálholts nk. laugardag 16. nóvember á vegum Félags kaþólskra leikmanna. Farið verður 16. nóv. kl. 9.oo frá Landakoti. Ekið að Úlfljótsvatni og messað þar, síðan farið að Skálholti þar sem verður bænastund við minnisvarða herra Jóns Arasonar biskups. Komið verður við á Laugarvatni á heimleiðinni. Heimkoma er áætluð milli kl. 16.oo og 17.oo. Þátttaka tilkynnist í síma 552-5388.
Verðið er 2500 kr. fyrir manninn, en 500 kr. fyrir börn upp að 16 ára aldri. Þetta er eingöngu fyrir rútuna.
Heimild: vefsíða Facebókarhópsins Kaþólskir á Íslandi.
Miðaldir eiga meiri' en flestir hyggja
málsbót og rómversk kirkjan af þar ber. [Frh. neðar]
Frétt í dagblaðinu Vísi 27. október 1919:
Tveir doktorar.
Cand. jur. Páll Eggert Ólason vinnur doktorsnafnbót.
Svo fór með það, sem vænta mátti, að mikið fjölmenni kom í alþingishúsið 24. þ.m., til að hlýða á athafnir þær, sem þar fóru fram.
Meðal áheyrenda voru ráðherrar allir, háskólakennarar og kennarar mentaskólans, og fjöldi annara karla og kvenna.
Athöfnin hófst kl. 1 e. h., og var tvískift: — Fyrst var prófessor Jón J. Aðils gerður að heiðursdoktor í heimspeki, en þá var gert stutt hlé, og að því loknu hófst doktorspróf Páls Eggerts Ólasonar. (Framhald ...)
Ákveðin hefur verið minningarstund um píslarvotta trúarinnar, Jón biskup Arason og syni hans Ara og Björn, sem hálshöggnir voru við Skálholtskirkju 7. nóvember 1550. Athöfnin er í fullri samvinnu við vígslubiskupinn í Skálholti, herra Kristján Val Ingólfsson. Eru menn hvattir til að mæta, en rúta verður útveguð til ferðarinnar, og verður nánar sagt frá þessu hér bráðlega.
Eftir hámessu í dag hélt Gunnar Eyjólfsson fallegt ávarp í safnaðarheimilinu, þar sem hann minntist þeirra feðga eftirminnilega og sagði frá einni slíkri pílagrímsferð að þeim helgistað, þar sem blóði þeirra var úthellt af þjónum konungsins danska. Gunnar hefur lengi verið hvatamaður þess, að kaþólska kirkjan taki biskup Jón í tölu heilagra. Og svo sannarlega eru full rök til þess.
Úr Dögum Íslands, fróðlegu riti eftir Jónas Ragnarsson:
22. júlí 1929
Landakotskirkja í Reykjavík var vígð með mikilli viðhöfn, en það gerði Vilhjálmur van Rossum kardínáli og sérlegur sendimaður Píusar páfa. Kardínálinn og fylgdarlið hans gekk tvívegis kringum kirkjuna rangsælis og einu sinni sólarsinnis. Þá voru 55 manns í kaþólska söfnuðinum, nú eru þeir um ellefu þúsund.
Næstkomandi sunnudag, 28. júlí, verður haldið upp á 84 ára vígsluafmæli dómkirkju kaþólskra á Íslandi, Kristskirkju á Landakotshæð. Prestar og söfnuður vænta þess, að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í hátíðarmessunni kl. 10.30 að morgni.
Greinilega var hugsað til framtíðar við byggingu þessa reisulega Guðshúss á þriðja áratug 20. aldar. Fögur er Landakotskirkja utan sem innan og sómi safnaðarins. Sjálf byggingin mun hafa veitt mörgum vinnu á erfiðum tímum. Ennþá annar hún messusókn stórs hluta kaþólskra á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. í fjölsóttum pólskum messum kl. 13 á sunnudögum og enskum messum kl. 18, auk messu hvern virkan dag, en auk Kristskirkju eru fleiri kaþólskar kirkjur og kapellur á Suðvesturlandi (stærstar þeirra Maríukirkjan í Seljahverfi og St. Jósefskirkja í Hafnarfirði) og á ýmsum helztu stöðum úti á landi, s.s. í Stykkishólmi, á Ísafirði, Akureyri og Reyðarfirði.
Við komu hins blessaða Jóhannesar Páls II páfa hingað til lands í júlí 1989 var Kristskirkju veittur heiður og staða basiliku, sem yfirleitt tíðkast aðeins að veita höfuðkirkjum.
Það var fögur og hrífandi stund í dómkirkju Krists konungs í gær, þegar í helgigöngu presta og leikmanna var borin inn ný Messubók kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, raunar sú eina í fullkominni mynd, og lögð á altarið. Biskup okkar, Pétur Bürcher, stýrði athöfninni og sjálfur forseti Íslands viðstaddur, einnig megnið af prestum biskupsdæmisins, enda eru þeir með synodus þessa dagana. Biskupinn, séra Jakob Rolland og séra Patrick Breen fluttu ávörp, og fagurlega spilaði kaþólsk nunna á fiðlu – og systurnar sungu fagra hymna, síðast Regina Coeli (Himnadrottningin) sem margir tóku undir.
Meðal þess, sem séra Jakob vék að í ávarpi sínu, var hin gleðilega fjölgun kaþólskra hér á landi, en tala þeirra hefur ... [frh. neðar]
Í nýrri Kilju Egils Helgasonar, endursýndri í gær, átti hann mjög gott viðtal við dr. Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing, sem staðið hefur fyrir víðtækum uppgreftri rústa Skriðuklausturs á Austurlandi, fyrsta heildar-uppgreftri klausturs á Norðurlöndum. Vegna þess að klaustrinu og hjúkrunar-húsnæði þess var einfaldlega lokað með siðaskiptunum og ábúendur á jörðinni (oft sýslumenn) tóku sér búsetu í bæjarhúsunum þar, þá hefur húsaskipan þarna, þótt grotnað hafi niður, varðveitzt í óbreyttri mynd að öðru leyti en því, hvernig náttúran braut þetta niður.
Konungur lagði undir sig þessa klausturjörð eins og allar aðrar, ...
Klaustrin í tímaröð: Jarðir sem fylgdu þeim til konungs
1. Þingeyraklaustur, um 1106–1551 Um 65 jarðir
2. Munkaþverárklaustur, 1155–1551 57 jarðir
3. Hítardalsklaustur, 1166–fyr.1270
4. Þykkvabæjarklaustur í Veri, 1168–1550? 47 jarðir
5. Flateyjar- & Helgafellsklaustur, 1172–1550 30 jarðir
6. Kirkjubæjarklaustur, 1186–1542/51? 42 jarðir
7. Saurbæjarklaustur, fyr.1200–um 1224
8. Viðeyjarklaustur, 1226–1550 (fjöldi jarða)
9. Reynistaðaklaustur, 1295–1551 46 jarðir
10. Möðruvallaklaustur, 1295/6–1551 67 jarðir
11. Skriðuklaustur, 1493–1552 um 37 jarðir, 2 hjáleigur
Nánar um kirkjulegar jarðeignir: hér neðar ("Öll færslan").
Kristján Valur Ingólfsson hefur verið kosinn vígslubiskup í Skálholti, þar sem hann var áður rektor, en var nú síðast verkefnisstjóri helgisiða og kirkjutónlistar á Biskupsstofu, auk prestsþjónustu á Þingvöllum. Hann er grandvar maður og gegn, einstaklega hæfur í helgiþjónustunni, enda með góða menntun á því sviði, og mun reyndari en mótframbjóðendur hans. Vel er hann fallinn til þessa embættis, sem honum er veitt að verðleikum. Óskum honum alls góðs og fararheilla, er hann tekur að sér þetta nýja hlutverk. Megi vegsemd Skálholtsstaðar eflast meðal Þjóðkirkjumanna og annarra sem þangað sækja. Kona Kristjáns er Margrét Bóasdóttir, vel lærð og fjölhæf söngkona, sem mikið hefur gefið af sér í tónlistarstarfi. Eru þau bæði höfðingleg og ljúfmannleg í viðkynningu.
Viðauki 17. sept.: Sr. Kristján Valur verður vígður biskupsvígslu í Skálholti á morgun, sunnudag, við hátíðlega athöfn, sjá nánar þessa frétt í Mbl. í dag.
Í Fréttatímanum 8.–10. júlí (nýútkomnum) er að finna ofurlitla klausu á bls. 2:
"Leiðrétting
Í umfjöllun Fréttatímans 24. júní um kynferðisbrot í Landakotsskóla var ranglega sagt að Hinrik Frehen hefði verið sá biskup kaþólsku kirkjunnar sem fékk ábendingar um kynferðisbrot árið 1963. Hið rétta er að þá var annar maður biskup kaþólskra á Íslandi. Hinrik Frehen tók ekki við sem biskup fyrr en 1968. Beðist er afsökunar á þessum mistökum. Þau voru blaðsins en ekki viðmælandans."
Við þessa frétt í blaðinu má bæta, að þá fyrst kom Hinrik Frehen til Íslands, er hann hafði verið valinn biskup kaþólskra. Hann gegndi aldrei neinu öðru embætti hér, fyrr en hann var kallaður til biskupsdóms.
Blessuð sé minning þessa mæta manns. –JVJ.
Í frásögn Iðunnar Angelu Andrésdóttur í Fréttatímanum í dag sakar hún séra Georg, skólastjóra Landakotsskóla, um kynferðislega barnaáníðslu. Samkvæmt hennar hlið málsins hafa brot hans gagnvart henni verið margítrekuð og alvarleg, um nokkurra ára skeið, svo að skipti tugum tilfella, fyrst og fremst í húsnæði skólastjórans, 1960–63, en áreitnisögunni hafi loks lokið í Stykkishólmi; ef allt er það satt, er aðdáunarvert að lesa um frammistöðu þessarar stúlku sem hafði enga vörn átt sér, meðfram vegna hótana Georgs. Önnur nafngreind kona, Rut Martine Unnarsdóttir, ber þar einnig vitni um gróft blygðunarbrot, áníðslu séra Georgs. Þá fylgja frásögnunum upplýsingar um viðbrögð foreldra Iðunnar og fleira sem snertir trúverðugleika kvennanna, þannig að gamlir vitnisburðir annarra en þeirra einna eiga að vera tiltækir. – [Viðauki 4.8. 2011: Þetta er sett hér fram með fyrirvara, enda hafa vissar mótsagnir reynzt vera í vitnisburði Iðunnar og hlutir, sem ganga ekki auðveldlega upp, eins og frá þeim vitnisburði var sagt í blaðinu.] – Þetta eru umfram allt óskaplega sorgleg mál og hræðilegt að þetta hafi viðgengizt í barnaskóla kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Viðbrögð biskups, sem þá var, kaþólskrar nunnu og sóknarprests í Landakoti virðast einnig, skv. vitnisburði Iðunnar, hafa verið gagnslaus og óverjandi: henni helzt ráðlagt að fyrirgefa ofbeldismanninum! – Gleymum þó ekki (má bæta við, 27/6), að málið er enn í rannsókn. Það er of snemmt að gefa sér neitt öruggt um jafnvel þessi mál ; það á líka við um vitnisburð tveggja manna, sem hafa ekki komið fram opinberlega undir nafni.
„29. október 1968: Tilkynnt var að „kaþólskur biskupsdómur“ hefði verið endurreistur á Íslandi og að Páll páfi sjötti hefði skipað Hinrik Frehen biskup í Reykjavíkurbiskupsdæmi, sem nær yfir land allt. Jafnframt var ákveðið að Landakotskirkja yrði dómkirkja." (Jónas Ragnarsson).
John Henry Newman, einn merkasti hugsuður og rithöfundur kirkjunnar á 19. öld, maður sem háði fræga andlega baráttu og yfirgaf ensku biskupakirkjuna til að gerast kaþólskur, hefur nú loksins verið tekinn í tölu blessaðra (e. beatified). Það gerðist í Birmingham, þar sem hann starfaði lengi, og Benedikt páfi 16. gegndi hér sjálfur aðalhlutverki. Við munum segja nánar frá þessum atburði bráðlega.
Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 6. apríl 1994 og er birt hér eins og fleiri greinar um þá, sem þjónað hafa kaþólsku kirkjunni á Íslandi. Hér er greinin örlítið stytt og yfirlesin. Áður en hún hefst skal þó fyrst vísað hér á yfirlit 29 minningargreina um hann í Morgunblaðinu.
Fregnin um andlát Alfreðs biskups Jolson var áfall fyrir kaþólska söfnuðinn á Íslandi. Þessi atorkumikli, gefandi maður er skyndilega allur og við erum fátækari eftir, jafnt kaþólskir sem aðrir kristnir menn, sem tengdust honum.
24. júlí 1896: "Nunnur komu til landsins, í fyrsta skipti síðan fyrir siðaskipti. Þær voru fjórar og settust hér að til að annast hjúkrun og vitja sjúkra. Þetta var upphaf starfs St. Jósefssystra í Reykjavík og Hafnarfirði."
Þetta gerðist 22. júlí 1929: "Landakotskirkja í Reykjavík var vígð með mikilli viðhöfn, en það gerði Vilhjálmur van Rossum kardínáli og sérlegur sendimaður Píusar páfa.
Það er yndislegt að koma í Árbæjarsafn og sjá þá miklu uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað, í miklum fjölda margvíslegra safnhúsa. Síðastliðinn sunnudag var þar mikil gestakoma, og sjálfur komst pistilshöfundur í guðsþjónustu í fornri sóknarkirkjunni, rétt við pílárana hjá Flóaprestinum Kristni Ágústi Friðfinnssyni, sem þar hefur séð um helgiþjónustu á aðventunni.
En er þar kaþólsk kirkja að auki? Ekki fyllilega, því að afhelguð var hún formlega, og þó er nánd hennar þar sterkari en þegar sama hús stóð við Túngötu fyrir um aldarfjórðungi. Nú fer lesandinn að renna grun í, hvað skrifarinn er að fara. Já, það er íþróttahús ÍR, sem flutt var upp í Árbæ, en það var upphaflega kaþólsk kirkja ...
Sárt er að sjá eftir þeim góða manni, Halldóri Gröndal, sem var lifandi í trúnni og gaf sig allur henni á vald. Mikill öðlingur var hann og reisn yfir honum, og í hópi presta var hann sannur hugsjónarmaður. Sr. Halldór varð bráðkvaddur á heimili sínu að morgni fimmtudags 23. þessa mánaðar.
Sá, sem þetta ritar, kynntist honum fyrst sem Þjóðkirkjupresti, en betur sem kaþólskum bróður í trúnni, eftir að hann hafði snúið sér til móðurkirkjunnar og var í því efni jafnheill og í fyrra afturhvarfi sínu til Guðs. Hann hafði ungur gengið námsbraut verzlunarmanns,
Þrátt fyrir meint frjálslyndi sitt í trúarefnum og jafnvel únitarisma* framan af var hinn mikli skáldjöfur Matthías Jochumsson (1835–1920) afar jákvæður gagnvart kaþólskri trú og kirkju, þar með talið trúararfi hennar hér á landi. Öðrum samtímamönnum fremur í Þjóðkirkjunni lúthersku átti hann giftudrjúgt samstarf við kaþólsku kirkjuna, og sér þess umfram allt stað í ljóðakverinu Kaþólskir sálmar, sem útgefið var fyrir 100 árum, í Reykjavík 1908, 63 bls. að stærð. Það var að öllu leyti hans þýðingarverk, þótt hans væri þar ekki getið sem þýðanda; mun hann sjálfur hafa viljað halda því leyndu. Margt af sálmunum í þessu ljóðakveri er enn sungið við raust í kaþólskum kirkjum landsins, m.a. á stórhátíðum.** Meðal sálmanna þar er Hljóða nótt, heilaga nótt, sem við kaþólskir syngjum um jólin í stað Heims um ból, sem er ekki jafn-nákvæm þýðing Sveinbjarnar Egilssonar á sama sálmi. En söguástundun var Matthíasi einnig í blóð borin (sbr. rit hans Smáþættir um byggingu Íslands og vora fornu siðmenningu, Rv. 1913), og þar kom hann eins og Jón Sigurðsson forseti sannarlega auga á það, hve persóna Jóns biskups Arasonar rís yfir flestar aðrar í sögu okkar og sjálfstæðisbaráttu. Leikrit hans Jón Arason, harmsöguleikur í fimm þáttum, kom út hjá Ísafold árið 1900. Leikritið gerist allt árið 1550, á Hólum, Alþingi, í Skálholti, aftur á Hólum, á Sauðafelli og lokaþátturinn í Skálholti. Í leikverkinu eru allnokkur ljóð, en þetta, sem hér fer á eftir, er sjálfstætt ljóð og segir mikla sögu. Jón Arason á aftökustaðnum Allir orð mín heyri, eg vil kveða' og syngja, grípa lands míns gígju, gamla skapið yngja. Hátt í hinzta sinni hljómi málið goða; yfir svik og sorgir slæ ég morgunroða.
Á 456. ártíð herra Jóns
Óhikað má telja Jón biskup Arason í hópi stórmenna Íslandssögunnar, ekki sízt í kaþólskri kristni, enda var af honum mikil saga, samofin við örlagaríka viðburði í lífi kirkju og þjóðar á 16. öld. Væntanlega verður síðar gert vel við minningu hans herradóms á þessum vefsíðum, auk þess að birta hér sálma hans og kvæði. Í þessari vefgrein verður í örstuttu máli rakin ævi hans og ætt og talinn upp helzti kveðskapur frá hans hendi.
Síðustu athugasemdir