Flokkur: "Persónulegir vitnisburðir"

14.04.06

  09:23:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 300 orð  
Flokkur: Persónulegir vitnisburðir

Hvers vegna hné Drottinn niður undir krossinum?

Fyrir tveimur árum fékk ég alvarlega lungnasýkingu skömmu fyrir páska. Þetta var síðdegis á föstudegi og í fyrstu taldi ég hana ekki svo alvarlega, að ég gæti ekki beðið fram á mánudagsmorguninn eftir að læknirinn minn mætti til starfa eftir helgarfríið.

Síðdegis á laugardag tók mér að elna sóttin svo mjög, að ég missti allan mátt og varð með öllu hjálparlaus, svo mjög, að það varð mér ofraun svo mikið sem að hringja eftir hjálp, hvað þá meira.

Sjálfa laugardagsnóttina lá ég bókstaflega milli heims og helju og með öllu hjálparvana. Þá sagði ég við Drottin: „Hvers vegna tekur þú mig ekki frekar til þín, heldur en að láta mig þjást svona mikið?“

Svarið lét ekki á sér standa. Hann sagði: „Jón, veistu hvernig mér leið sjálfum eftir að rómversku hermennirnir húðstrýktu mig við súluna? Lungu mín fylltust blóði og þess vegna hné ég niður undir krossinum.“

Þetta hafði aldrei hvarflað að mér og veitti mér alveg nýja innsýn inn í píslargöngu Drottins. Allir sem þekkja til alvarlegra lungnasýkinga skilja við hvað ég á.

Eftir þetta bráði svo af mér að ég var sæmilega rólfær á sunnudeginum og fékk sterkt sýklalyf hjá lækninum strax á mánudagsmorguninn sem vann bug á sýkingunni. Þetta langaði mér að deila með ykkur, bræður og systur, einmitt núna á þessum degi meðan krossgangan á sér stað. Miklar eru þær píslir sem Drottinn tók á sínar herða sökum okkar eigin synda. LOF SÉ ÞÉR KRISTUR NÚ OG AÐ EILÍFU. AMEN!

16.02.06

  20:29:17, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 574 orð  
Flokkur: Persónulegir vitnisburðir

Fyrsta áþreifanlega reynslan af Heilögum Anda

Fyrstu áþreifanlegu reynsluna af Heilögum Anda öðlaðist ég þegar ég var sextán ára og tveggja mánaða gamall. Tildrögin voru þessi. Ég var að passa krakka fyrir skyldfólk úti í bæ. Þetta var um hásumar eins og veðrið gerist best í Reykjavík, í miðjum júlímánuði. Ég sat í stól í betri stofunni og var að glugga í einhverja bók vegna þess að þetta var löngu fyrir tíma sjónvarpsins.

Read more »

  18:31:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 128 orð  
Flokkur: Persónulegir vitnisburðir

Annað lítið dæmi um árvekni Heilags Anda

Fyrir nokkrum vikum síðan gaf kærkominn vinur minn heiti sitt sem skemamunkur í ónefndu klaustri í Austurkirkjunni. Athöfnin fór vitaskuld fram á sunnudegi. Daginn áður, eða á laugardeginum, sendi ég honum heillaóskir í rafpósti. Allt í einu datt mér í hug að senda honum íslensku íkonuna af hl. Silúan frá Aþosfjalli sem viðhengi.

Á þriðjudagsmorguninn þegar ég opnaði aðsend rafpóstbréf beið mín eftirfarandi orðsending frá honum: Bróðir, Guð hefur opinberað þér mikla hluti. Þeir gáfu mér nafnið Silúan. Þetta varð honum til mikillar staðfestingar.

Það er huggunarríkt hvernig Drottinn og Heilagur Andi vaka yfir hjörðinni sinni á jörðu, nú á tímum framsóknar guðsafneitunarinnar, jafnvel í smæstu hlutum.

  11:37:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 399 orð  
Flokkur: Persónulegir vitnisburðir

Örlítið um handleiðslu Heilags Anda

Hér að framan (í athugasemdum við Tübingenmennina) er minnst lauslega á útgáfu hins Íslenska biblíufélags af Nýja testamentinu frá árinu 1981. Mig langar að koma á framfæri eftirfarandi frásögn sem tengist þessari útgáfu. Frásögnin er falleg og leiðir okkur einfaldlega fyrir sjónir hvernig Heilagur Andi vakir sífellt yfir velferð kirkju sinnar á jörðu.

Það var séra Hreinn Hákonarson sem annaðist lokafrágang verksins og prófarkalestur fyrir prentun, en Biblían var prentuð í Prentsmiðju evrópsku Biblíufélaganna í Stuttgart. Í byrjun janúar 1981 þegar ég kom heim í mat í hádeginu fannst mér ég vera knúinn til að hringja í séra Hrein og bjóða fram aðstoð mína. Hann tjáði mér að verkinu miðaði svo vel áfram að engrar aðstoðar væri þörf, en til öryggis skrifaði hann nafn mitt og símanúmer niður. Á þessum árum vann ég enn við kortagerð, áður en ég lét heillast af hinni himnesku landafræði.

Read more »