Flokkur: "Dæmisögur og sögur II"

22.08.14

  22:06:00, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 121 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Að vigta börnin

Trúboðshjón ásamt börnum sínum voru rekin í burtu frá stað nokkrum því kristni var ekki lengur leyfð þar. Hermenn komu skyndilega og sögðu: "Þið verðið að fara á morgun og þið megið aðeins taka hundrað kíló með ykkur, ekki meira! "
 
Hjónin gáfu sér góðan tíma til að ákveða hvaða hluti þau ættu að taka með og hvað ekki. Börnin horfðu á.
 
Daginn eftir komu hermennirnir og sögðu: "Eruð þið tilbúin?", "Já" svöruðu hjónin. 
"Er þyngdin undir 100 kílóum" spurðu þeir og hjónin svöruðu játandi. "Eruð þið búnir að vigta börnin?" spurðu þá hermennirnir. Þetta kom flatt upp á hjónin, þau höfðu ekki einu sinni hugsað um börnin, bara hlutina. Strax fóru þau að hugsa öðruvísi, þau gætu sleppt hlutunum en ekki börnunum!

17.03.08

  13:02:19, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 217 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Alltaf að bíða eftir okkur

Einkasonur móður sinnar, sem var ekkja, hafði lagt leið sína úr foreldrahúsinu. Áður en hann fór hafði hann sagt: „Nú fer ég og leita hamingjunnar, mamma mín. Þá kem ég heim aftur.“

En nú voru níu ár liðin og engar fregnir hafa borist af syninum, sem fór að heiman.

Það hefur verið ófrávíkjanlegt, að hægt hefur verið að sjá konu nokkra mæta í hvert sinn sem járnbrautarlest kom, síðustu níu árin. Þessi kona er móðirin. Hún stendur alltaf á brautarpallinum og bíður. Þegar járnbrautarlestin nemur staðar, flýtir móðirin sér að skyggnast inn í klefana, horfir á þá sem fara úr lestinni með athygli og tautar:
„Ætli hann sé nú ekki með lestinni í dag?“
En það reynist svo, að hann sé ekki með. Þá hristir hún höfuðið og hvíslar dapurlega:
„Hvenær skyldi hann koma, blessaður drengurinn?“

Hún starir á eftir járnbrautarlestinni, þangað til hún er komin úr augsýn. Þá gengur hún hægt heim til sín. Næsta dag endurtekur þetta sig og þannig mun hún halda áfram.

Það er aldrei of seint að snúa aftur til Guðs, því hann er alltaf að bíða eftir okkur.

11.03.08

  22:01:55, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 146 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Þeir lærðu þessa lexíu

Einu sinni voru líkamshlutarnir mjög gramir út í magann. Þeim gramdist að þeir urðu að finna og undirbúa matinn og síðan færa maganum hann. Á meðan gerði maginn sjálfur ekkert nema að háma í sig matinn.

Svo að þeir ákváðu að þeir skyldu ekki framar færa maganum mat. Hendurnar ætluðu ekki að lyfta matnum upp að munninum. Tennurnar ætluðu ekki að tyggja matinn og hálsinn ætlaði ekki að kyngja honum. Þeir ætluðu að neyða magann til þess að gera eitthvað.

En allt sem þeir komu til leiðar var að gera líkamann svo veikan og máttvana að dauðinn ógnaði þeim öllum.

Svo að lokum lærðu þeir þessa lexíu: Með því að hjálpa hver öðrum voru þeir sannarlega að vinna að sinni eigin velferð.

10.03.08

  15:41:09, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 127 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Þetta er storkur!

Til er saga um heimsókn manns til vinar síns.

Vinur hans átti óvenjulega stóran uppstoppaðan fugl inni í stofu hjá sér.

Maðurinn var yfir sig hrifinn af fuglinum og skoðaði hann í langan tíma.

Að lokum spurði hann vin sinn hverskonar fugl þetta væri.

"Þetta," svaraði vinur hans, "er storkur."

"Hah," svaraði maðurinn, "þetta er ekki mín hugmynd um stork."

"Svaraði vinur hans þá; "En það lítur út fyrir að þetta sé hugmynd Guðs um hann."

Svo að við höfum okkar hugmyndir um hluti og Guð hefur sínar.
Við heyrum marga segja; "Ég hef mína trú,"
og við verðum að svara til baka; "Já og Guð sína."

07.03.08

  19:44:29, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 273 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Sagan um "Kallana" tvo

Í bekk einum í skóla nokkrum voru tveir strákar sem báðir hétu Kalli.

Annar "Kallinn" var alltaf til vandræða i bekknum og hann neitaði að læra. Í huga sínum kallaði kennarinn hann "Kalla vonda".

Hinn Kallinn var mjög gott barn og var hann reyndar uppáhaldsnemandi kennarans. Kennarinn nefndi hann "Kalla góða" í huganum.

Þegar kom að fyrsta fundi kennara og foreldra, gekk mjög kurtis kona inn í kennslustofuna og kennti sig sem móður Kalla. Kennarinn gerði eðlilega ráð fyrir að þetta væri móðir "Kalla góða."

Kennarinn var óspar að lofa hann og sagði að hann væri stórkostlegur drengur og sönn ánægja að hafa hann í bekknum.

Morguninn eftir ………

Read more »

05.03.08

  13:44:26, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 247 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvenær dey ég?

Til er saga um lítinn, hugrakkan dreng.

Þessi litli drengur átti fjögurra ára gamla systur, sem glímdi við sjaldgæfan sjúkdóm. Stúlkan litla þurfti því nauðsynlega á blóðgjöf að halda. Blóðið varð að koma úr ættingja með sama blóðflokk, og stungið var upp á drengnum sem sjálfsögðum blóðgjafa.

Læknirinn spurði drenginn: "Vilt þú gefa blóðið þitt svo að systir þín megi lifa?" Undrunarsvipur kom á andlit drengsins.

Að lokum svaraði hann hugrakkur: "Allt í lagi, ég skal gefa blóðið."

Drengurinn lá enn í rúminu eftir að nauðsynlegt magn blóðs hefði verið tekið. Þá átti læknirinn leið hjá.

"Læknir", spurði litli drengurinn, "hvenær dey ég?"

Þá fyrst gerði læknirinn sér grein fyrir að drengurinn hafði misskilið hann - hann hafði haldið að hann ætti að gefa ALLT blóð sitt fyrir litlu systur sína!

Læknirinn flýtti sér að fullvissa drenginn um að aðeins lítið magn blóðs hefði verið tekið og að hann mundi ekki deyja.

Hvílíkt hugrekki hjá þessum litla dreng! Þegar hann sagði já við lækninn, hélt hann í raun og veru að hann mundi deyja. Hann var reiðubúinn að gafa allt blóð sitt fyrir systur sína.

En Jesús gaf okkur öllum ALLT sitt blóð.

Vegna blóðsins sem hann úthellti á krossinum erum við hólpin orðin.

29.02.08

  19:13:27, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 136 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Maðurinn sem leitaði Guðs

Til er saga um mann sem leitaði Guðs. Daglega spurði hann vin sinn: "Hvernig get ég fundið Guð?" Og vinurinn svaraði jafnan:"Þú finnur hann ekki nema þú hafir djúpa þrá eftir honum."

Dag einn, þegar mjög heitt var í veðri, fóru vinirnir í sund. Skyndilega ýtti vinurinn höfði mannsins í kaf. Og vitanlega barðist maðurinn um til þess að ná í loft.

Á leiðinni heim spurði vinurinn: " Hvers vegna barðist þú svona örvæntingarfullur um þegar ég hélt þér niðri í vatninu?"

"Hvers konar spurning er nú þetta? Nú, ég þurfti auðvitað að fá loft til að anda."

"Gott og vel", sagði vinurinn, "þegar þrá þín eftir Guði verður jafn örvæntingarfull og hún var eftir lofti, þá muntu áreiðanlega finna hann."

11.11.07

  21:06:51, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 185 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

"Með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða."

"Gefið, og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða." (Lk 6:38)

Til er saga um konu nokkra sem vön var miklum munaði. Eftir dauða sinn kom hún til himna. Engill var sendur til að leiða hana að vistarveru hennar þar. Á leiðinn fóru þau fram hjá mörgum reisulegum húsum og var konan mjög hrifin. Hún hlakkaði til að sjá sína hús.

Skömmu seinna tók konan eftir því að húsin urðu alltaf minni og minni. Og áfram héldu þau þar til þau að lokum komu að örlitlu kofaskrifli.

"Þetta er húsið þitt", sagði engillinn.

"Hvað segirðu!", sagði konan, "Þetta! Ég get ekki búið í þessu. Ég vil stórt hús."

"Því miður", sagði engillinn, "þetta er allt sem við gátum byggt fyrir þig úr því efni sem þú hefur sent okkur upp."

27.02.07

  22:36:25, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 117 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hann varð aldrei stærðfræðingur

Það var einu sinni stúdent sem vildi verða stærðfræðingur. Í nokkrar vikur sótti hann tímana samviskusamlega á hverjum degi og gerði heimavinnuna sína samviskusamlega á hverju kvöldi.

Einn daginn varð hann mjög þreyttur á allri tímasókninni og heimavinnunni. Hann sá að það var mjög erfið vinna að vera stærðfræðingur. Hann fletti í gegnum stærðfræðibókina sína og sá í fyrsta skipti að lausnirnar á dæmunum voru aftast í bókinni. Hann ákvað að framvegis skyldi hann aðeins skrifa niður lausnirnar í stað þess að eyða mörgum klukkutímum í að læra.

Auðvitað varð hann aldrei stærðfræðingur!

20.02.07

  22:19:15, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 208 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Ættartala

Sú saga er sögð um konu eina sem eyddi fimmtíu þúsund krónum til að fá ættartölu sína. Hún eyddi síðan öðrum fimmtíu þúsundum til að halda ættartölunni leyndri!

Ástæðan var sú að nokkrir forfeður hennar höfðu haft slæmt orð á sér og hún skammaðist sín fyrir þá.

Ef við hins vegar lesum upphafskafla Matteusarguðspjallsins, þar sem ættartala Jesú er rakin, sjáum við þrjár konur nafngreindar þar sem sérhver Gyðingur hefði skammast sín fyrir.
Fyrsta skal telja Batseba, sem syndgaði með Davíð konungi og leiddi skömm yfir konungborna afkomendur hans.
Önnur var Rahab sem var útlendingur og syndari.
Og sú þriðja var Rut sem var útlendingur (Gyðingar þeirra tíma var í nöp við útlendinga).

Matteus segir okkur að Jesús sé beinn afkomandi þessara kvenna. Guðspjallamaðurinn reynir ekki að leyna því. Hann virðist í raun hafa lagt sig í líma við að minnast á þessar þrjár konur. Þetta kennir okkur strax eitthvað um Jesúm. Hann blygðaðist sín ekki fyrir mannlegt ætterni sitt. Drottinn vor var ekki einungis vinur syndara og útlendinga - hann var skyldur þeim.

03.10.06

  21:43:11, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 99 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

"Þú ert Guð, sem sér."

Eitt sinn var drengur sem fór ásamt móður sinni, að heimsækja gamla konu. Þegar þau komu sýndi gamla konan þeim texta, sem hékk á veggnum. Þar stóð:

"Þú ert Guð, sem sér." (1M 16:13)

Gamla konan snéri sér að drengnum og spurði: "Sérðu þessi orð?"

"Já," svaraði drengurinn.

"Þessi orð merkja ekki að Guð sé stöðugt að fylgjast með því hvort þú sért að gera eitthvað rangt", hélt gamla konan áfram. "Nei, þessi orð þýða að Guð elskar þig svo mikið að hann getur ekki litið af þér."

26.05.06

  21:38:03, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 206 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Guð, ertu þarna?

Ein af uppáhaldssögum mínum um traust á Guð, er frásögn af manninum sem gekk eftir háum klettavegg. Til allrar óhamingju rann hann til og féll fram af klettabrúninni. Honum tókst þó að grípa í trjágrein. En þá gerði maðurinn sér grein fyrir því að hann gat ekki híft sjálfan sig upp og var smátt og smátt að missa takið. Fyrir neðan hann var hundrað metra fall!

Hann fór því að biðja ákaft:
"Guð, ertu þarna - þú verður að hjálpa mér?"

Maðurinn endurtók þetta í sífellu. Í fyrstu gerðist ekkert, en þá svaraði Guð og sagði: "Já, hvað viltu?"

"Guð, þú verður að hjálpa mér - en flýttu þér."

Og Guð svaraði: "Lofarðu að gera hvað sem ég bið þig um?"

"Já, auðvitað, en þú verður að flýta þér að hjálpa mér."

"Lofarðu í raun og veru að gera hvað sem ég bið um?"

"Já, hvað sem er - segðu mér bara hvað ég á að gera - en hjálpaðu mér?

"Allt í lagi", sagði Guði "Ef þú vilt að ég bjargi þér, slepptu þá takinu!"

12.04.06

  19:56:20, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 276 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Við þörfnumst Jesú

Einu sinni var prestur sem fór til Suður[-Ameríku sem haf]ði mikinn áhuga á að hjálpa fátækum. Hann hafði fjárhagslega burði til að létta oki fátæktarinnar og hungursins af fólkinu þar.

Þegar hann kom til Suður-Ameríku fór hann að byggja læknastofur og skóla. En, eftir tíu ár tók hann eftir því að mörg sóknarbarna hans hættu að koma til hans.

Dag einn kvartaði hann við einn af gömlu mönnunum, mjög trúfastan mann sem var alltaf nærri kirkjunni og hjálpaði prestinum. Gamli maðurinn leit á hann með tárin í augunum og sagði, "Faðir, ég vil ekki særa þig, en ég verð að segja þér. Þú færðir okkur mikið af góðum hlutum. Þú hefur unnið mjög mikið, en þú færðir okkur ekki Jesú og við þörfnumst Jesú."

Presturinn sagði, "Ég skammaðist mín. Það var þá sem ég skildi að ég hafði ákveðið að gefa þeim allt sem þeir þyrftu fyrir líkama sinn. En ég var svo upptekinn að ég las ekki messu. Ég hafði ekki tíma. Það [þurfti a]ð fæða þetta fólk. Það var svangt. Samt sýndi Drottinn mér, með þessu sama fólki sem ég hafði eytt öllum mínum kröftum fyrir, að það þurfti meira en efnislega hluti".

Presturinn hafði gleymt að Jesús sagði, "Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju orði því sem gengur af Guðs munni."

11.04.06

  20:28:06, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 195 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvað ættum við ekki að gera fyrir okkar konung?

Sú saga er sögð af her Napóleons að eitt sinn varð hann fyrir árás og varð að hörfa í skyndi. Herinn varð að fara [þar sem br]ýrnar höfðu verið eyðilagðar. Napóleon gaf skipun um að einhvers konar brú yrði að reisa samstundis.

Hermennirnir sem næstir voru ánni hófu strax hið nánast óvinnandi verk. Þungur straumurinn þreif suma þeirra með sér og aðrir drukknuðu sökum kulda og örmögnunar. En í hvert skipti sem það gerðist komu aðrir hermenn í þeirra stað og héldu áfram verkinu. Loks var brúin tilbúin og her Napóleons fór heilu og höldnu yfir brúna.

Þegar Napóleon skipaði mönnunum sem höfðu reist brúna að koma upp úr vatninu, hreyfði enginn þeirra sig. Þeir voru fastir og hreyfingarlausir við brúarstöplana. Þeir höfðu frosið til dauða. Jafnvel Napóleon felldi tár.

Ef þessir menn voru reiðubúnir að leggja slíkt á sig fyrir jarðneskan konung, hvað ættum við ekki að gera fyrir okkar konung konunganna?

10.04.06

  12:56:12, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 435 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Saga um ríkan mann

Til er saga um ríkan mann sem bjó á stórri jörð. Hann varði miklum tíma á degi hverjum, til þess að horfa út um glugga á stórhýsi sýnu og virða fyrir sér dalinn sem hann átti. En hann trúði ekki á Guð. Hvers vegna skyldi hann gera það, hann sem var ríkasti maðurinn í dalnum?

Við innganginn að landareign hans bjó hliðvörður hans sem hét Jóhann. Jóhann þessi átti ekki mikla peninga, en hann trúði á Guð og fór í kirkju á hverjum sunnudegi með fjölskyldu sinni. Jóhann átti sjaldan frí en hann gat alltaf gefið sér tíma til þess að hjálpa því fólki á svæðinu, sem var hjálpar þurfi. Hann notaði kunnáttu sína í garðyrkju, trésmíði og öðru handverki til þess að liðsinna öðrum.

Dag einn var barið að dyrum ríka mannsins og þegar hann lauk þeim upp, stóð Jóhann fyrir utan. Jóhann sagði honum, að hann hefði dreymt draum nóttina áður og í draumnum hefði Guð talað til hans og sagt að á miðnætti í nótt myndi ríkasti maður dalsins deyja. Ríki maðurinn hló við og sagði að hann tryði ekki á drauma. Jóhann hélt þá til vinnu sinnar.

Ríki maðurinn hafði hlegið að Jóhann, en hann get ekki vikið orðum hans úr huga sér: "Ríkasti maðurinn í dalnum mun deyja á miðnætti í nótt". Til þess að hafa allt á hreinu fór hann í læknisskoðun um kvöldið. Læknirinn kvað upp þann úrskurð, að ríki maðurinn væri við góða heilsu og myndi sennilega lifa að minnsta kosti tuttugu ár til viðbótar. Ríki maðurinn varð svo feginn þessum orðum, að hann bauð lækninum heim með sér til kvöldverðar. Læknirinn kom og fór ekki úr húsi hans fyrr en stundarfjórðung eftir miðnætti. Og ríki maðurinn var glaður að vera enn á lífi!

En nokkru eftir að læknirinn var farinn, var barið að dyrum og þegar ríki maðurinnn lauk þeim upp sá hann dóttur Jóhanns standa þar og gráta. Hún sagði honum að faðir hennar hefði dáið á miðnætti!

Jesús segir: "Til eru síðastir, er verða munu fyrstir og til eru fyrstir er verða munu síðastir".

09.04.06

  20:56:01, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 115 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Verið vakandi!

Til er saga af fólki, sem kom til gamals og viturs munks og spurði hann: "Hvað getum við gert, til að nálgast Guð?"

Hinn vitri munkur svaraði með spurningu:
"Hvað getið þið gert, til að sólin rísi?"

Fólkið svaraði: "Við getum ekkert gert, til að sólin rísi".

Eftir þetta varð nokkur þögn, þar til fólkið sagði: "En ef það er raunin, því haldið þið munkarnir áfram að segja okkur, að biðjast fyrir, aftur og aftur?"

Munkurinn brosti og svaraði: "Við munkarnir hvetjum ykkur til að biðjast stöðugt fyrir, svo að þið verðið vakandi, þegar sólin rís!"

08.04.06

  17:23:39, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 136 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Fyrirgefning er ekki nóg

Einu sinni var strákur að spila fótbolta. Hann sparkaði boltanum sem lenti á glugganum mínum og glugginn brotnaði. Hann bankaði upp á hjá mér og sagðist vera leiður og sjá eftir þessu. Ég fyrirgaf honum og hann hélt leiðar sinnar með boltann.

Þegar ég kom inn aftur sá ég brotinn gluggann og öll glerbrotin. Ég spurði sjálfan mig: "Hver ætlar að borga fyrir nýtt gler í gluggann?"

Átti ég að borga? Nei.

Átti strákurinn að gera það? Já. Það var hann sem braut gluggann, ekki ég. Þannig að hann átti að borga.

Jafnvel þótt strákurinn hafi hlotið fyrirgefningu þá er það ekki nóg. Fyrirgefningin er mikilvæg, en hún lagar ekki gluggann. Fyrirgefning er góð en hún er ekki nóg.

07.04.06

  08:28:57, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 158 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Leið smáblómsins

Í sjálfsævisögu sinnar „Saga sálar“ segir Heilög Teresía frá Lisieux okkur hvað gerðist þegar hún sagði föður sínum frá því í fyrsta skipti að hún vildi gerast Karmelnunna.

Þau voru ein í garðinum. Þegar hún sagði honum hvað henni lá á hjarta gekk hann að lágum steinveggi og sýndi Teresu hvít smáblóm sem uxu þar. Hann tók eitt þeirra og gaf Teresu. Hann útskýrði fyrir henni með hve mikilli umhyggju Guð hefði látið það vaxa og blómgast. Teresa gerði sér ljóst að þetta var nákvæmlega það sem Guð var að gera við hana.

Teresa virti blómið vandlega fyrir sér. Það hafði enn ræturnar svo það gat lifað áfram á öðrum stað.

Leið blómsins var leið Teresu sjálfrar og hún blómgaðist svo sannarlega á „Karmelfjallinu“.

06.04.06

  08:06:47, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 39 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Jóhannes XXIII

Til er saga sem sögð var um Jóhannes páfa tuttugasta og þriðja.

Eitt sinn var hann spurður að því hve margt fólk ynni í Vatíkaninu.

Páfi svaraði: "Svona um helmingur þeirra!"

05.04.06

  08:37:02, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 209 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hann var leiður á sífelldu tali um kross Jesú

Einu sinni, sagði maður nokkur frá því, að dag einn hafi hann átt tal við vin sinn um trúmál. Segist hann að lokum hafa sagt við þennan vin sinn, að hann væri orðinn leiður á þessu sífellda tali um kross Jesú, enda skildi hann það alls ekki.

En um nóttina dreymdi hann að hann væri á leiðinni heim til konu sinnar, sem hann þó vissi í svefninum, að var dáin. Hann kom að djúpu sýki. Hinum megin við sýkið sá hann konuna sína. En hann hafði engin ráð til að komast til hennar yfir sýkið. Hvað ætti hann að gera?

Þá sér hann að hún bendir og heyrir hana kalla: „krossinn, krossinn!“

Þá sér hann á bakkanum skammt frá sér liggja krosstré. Hann gengur að því, reisir það upp og lætur það síðan falla yfir sýkið. Hann gengur yfir það og fellur í faðm konu sinnar.

Draumurinn varð ekki lengri. Frá þeirri stundu segir maðurinn, að hann hafi skilið, að ekkert nema sú trú, sem byggir á Jesú Kristi krossfestum og upprisnum, geti hjálpað sér til þess að ná fundi konunnar sinnar, handan við gröf og dauða.

04.04.06

  18:15:06, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 145 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Guð biður okkur að gera heiminn betri

Dag einn kom kennari með skæri með sér inn í kennslustofuna. Hún sagði að sig langaði til að tala um Guð og fólk. Hún skrúfaði skærin sundur og tók annan hlutann sér í vinstri hönd og hinn í hægri, hélt þeim á lofti og sagði:

"Sjáið þið, hálf skæri gera ekkert gagn. En þegar ég skrúfa helmingana aftur saman verða úr þeim skæri sem geta gert mikið gagn og klippt marga metra af efni."

Eins er, með Guð og okkur, fólkið hans. Með okkar hjálp, vill hann koma blessun sinni til skila til alls fólksins í heiminum, sem hann elskar. Hann hefur falið okkur að gæta heimsins. Hann biður okkur um að nota huga okkar og hönd til að gera heiminn betri.

03.04.06

  09:13:03, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 125 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvað myndir þú segja?

Saga er sögð um mann, sem var týndur í eyðimörk. Seinna, þegar hann var að lýsa því sem gerðist fyrir vini sínum, þá lýsti hann því hverning hann kraup á kné og bað Guð að hjálpa sér.

"Og hjálpaði Guð í raun og veru?" spurði vinur hans.

"Nei, nei, alls ekki. Áður en hann gat hjálpað mér, kom landkönnuður og sýndi mér leiðina."

* Sumir munu segja að það hafi verið tilviljun að landkönnuðurinn kom á þessum tíma.

* En aðrir, munu segja að Guð hafi á sinn hátt komið því þannig fyrir að landkönnuðurinn rakst á týnda manninn, svo sem af tilviljun.

* Hvað myndir þú segja?

02.04.06

  22:08:00, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 269 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Að finna það bænaform sem hentar best

Til er falleg saga um biskup í trúboðslandi.

Þar sem þessi biskup var trúboði þurfti hann að ferðast mikið með skipi til að heimsækja hinar ýmsu sóknir. Dag einn, stöðvaði skipið hjá fjarlægri eyju. Biskupinn ákvað að nýta tímann vel og fór í land. Hann gekk eftir ströndinni og hitti þar þrjá fiskimenn, sem voru að hreinsa net sín. Þeir sögðu biskupinum að hundrað árum áður hefðu trúboðar kristnað eyjaskeggja og þess vegna spurði biskupinn þá hvort þeir gætu beðið Faðirvorið.

„Nei!“, sögðu þeir.

„Hvernig biðjið þið þá?“, spurði biskupinn.

„Þegar við biðjum, segjum við við Guð: „Við erum þrír, þú ert þrír, miskunna þú okkur.“

Biskupinn ákvað að þetta væri ekki nógu gott. Og þess vegna hóf hann að kenna þeim Faðirvorið. Þeir voru lengi að læra það en að lokum kunnu þeir það utanbókar.

Mánuðum seinna varð biskupinn að ferðast á ný til hinnar ýmsu sóknar, af því að hann var ennþá trúboði. Í þetta sinn kom skipið ekki við á eyju fiskimannanna þriggja. Biskupinn stóð uppi á þilfari og leit til eyjarinnar. Þá sá hann skyndilega hvar fiskimennirnir þrír komu gangandi á sjónum, í átt að skipinu. Biskupinn trúði varla sínum eigin augum. Það gerði skipsstjórinn ekki heldur og stöðvaði skipið.“

„Biskup“, sögðu fiskimennirnir þrír; „Við sáum að skip þitt sigldi hjá og flýttum okkur til að biðja þig um svolítið. „Við höfum gleymt Faðirvorinu, getur þú kennt okkur það aftur.“

En í stað þess, að kenna þeim bænina aftur, svaraði biskupinn:

„Farið aftur heim kæru vinir og í hvert sinn sem þið biðjið skuluð þið segja: „Við erum þrír, þú ert þrír, miskunna þú okkur.

01.04.06

  20:18:10, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 211 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Ljósið sem hún kveikti í lífi mínu logi ennþá

Eitt sinn heimsótti Móðir Teresa gamlan mann, en enginn virtist hafa hugmynd um að hann væri til. Herbergið sem maðurinn bjó í var í algjörri óreiðu. Þar hafði ekki verið þrifið árum saman. Ekkert rafmagn var þar og gluggarnir voru huldir, þannig að maðurinn var í stöðugu myrkri.

Móðir Teresa fór að þrífa og taka til. Í fyrstu mótmælti maðurinn, en hún hélt áfram og þegar hann sá breytinguna, leyfði hann henni að halda áfram.

Skyndilega fann Móðir Teresa olíulampa. Hún tók hann upp, þreif hann og lagaði, setti olíu á hann og...

"Nei, ekki kveikja á honum!", hrópaði maðurinn.

"Hvers vegna ekki?" spurði Móðir Teresa.

"Vegna þess að ég kann vel við myrkrið og enginn kemur nokkurn tíma að heimsækja mig."

"En ef nokkrar systranna minna koma að heimsækja þig, viltu þá kveikja á honum?"
"Já, það skal ég gera", svaraði maðurinn.

Og svo fóru systurnar að heimsækja manninn og þá var kveikt á lampanum. Nokkrum mánuðum seinna sendi maðurinn þessi skilaboð til Móður Teresu: "Segið henni að ljósið, sem hún kveikti í lífi mínu, logi ennþá."

31.03.06

  19:24:51, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 225 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Koma Krists færði þeim frið og góðvild

Jólakvöld, árið 1914, á fyrsta ári heimsstyrjaldarinnar fyrri, lagðist einkennileg kyrrð yfir vesturvígstöðvarnar. Hermennirnir í einni skotgröfinni voru að tala um það hvað þeir væru að gera ef þeir væru heima hjá fjölskyldum sínum um jólin.

Eftir svolitla stund heyrðu þeir söng óma frá óvinaskotgröfunum. Allir hlustuðu. Þetta var jólasálmur! Þegar honum var lokið fóru þessir hermenn líka að syngja jólasálm. Seinna þegar hópur hermanna fór að syngja sálminn "Hljóða nótt", tóku andstæðingarnir undir og hundruðir radda sungu saman á tveimur tungumálum!

"Einhver er að koma!" hrópaði hermaður. Og það reyndist rétt. Hermaður úr óvinahernum var að koma. Hann gekk mjög hægt, veifaði hvítum klút með annari hendinni en hélt á súkkulaðistykkjum í hinni. Hægt og rólega fóru menn að koma upp úr skotgröfunum og heilsa hver öðrum. Þeir deildu með sér súkkulaðinu og tóbaki. Þeir fóru að sýna myndir af ástvinum sínum heima. Þeir skipulögðu meira að segja fótboltaleik.

Þetta jólakvöld var það koma Krists sem megnaði að færa þessum hermönnum frið og góðvild hver í annars garð.

30.03.06

  19:29:16, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 230 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvers vegna skildu svo fáir Jesú?

Til er saga um mann sem kom í heimsókn til klausturs nokkurs.

Gesturinn spurði einn munkanna þessarar spurningar: "Hvers vegna skildu svo fáir Jesú? Farísearnir og fræðimennirnir voru stöðugt á móti honum. Lærisveinar hans virtust oft ruglaðir á kenningu hans. Og enn aðrir álítu hann haldinn illum anda. Jafnvel nokkrir í hans eigin fjölskyldu höfðu áhyggjur af andlegri heilsu hans."

Hinn aldni og hyggni munkur hugsaði sig um eitt augnablik, en svaraði síðan:

"Eitt sinn voru brúðhjón sem réðu bestu tónlistarmenn landsins til að leika í brúðkaupsveislunni sem haldin var á lóð hótels nokkurs. Tónlistarmennirnir léku og allir dönsuðu.

Einmitt þá óku tveir menn framhjá. Gluggar bílsins voru lokaðir og útvarpið var hátt stillt. Mennirnir gátu ekki heyrt tónlistina sem barst frá lóð hótelsins. Allt og sumt sem þeir sáu, var fólk sem hoppaði um og hegðaði sér einkennilega.

"Hvílíkt samsafn fáráðlinga" sagði annar maðurinn við hinn þegar þeir óku framhjá. "Þau hljóta að vera brjáluð öll saman."

Munkurinn stoppaði augnablik en sagði svo: "Þetta er sú niðurstaða sem sumt fólk kemst að þegar það heyrir ekki tónlistina, sem annað fólk dansar við."

29.03.06

  07:36:39, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 420 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hvers vegna varð Guð maður eins og við?

Einu sinni var maður sem elskaði dýrin mjög, en hafði ekki mikinn tíma fyrir Guð. Einkanlega átti hann erfitt með að skilja allt það sem fólk gerði á jólunum. Hann gat ekki skilið hvernig Guð gerðist maður. Þess vegna fór hann aldrei í kirkju, ekki einu sinni á jólum. En um síðustu jól gerðist eitthvað sérstakt sem breytti öllu lífi hans. Guð veitti honum sérstaka náð, náð sinnaskipta. Og þannig gerðist það.

Það var áliðið jólanótt og fjölskylda mannsins var farin til miðnæturmessu í kirkjunni. Hann var einn í húsinu. Veðrið hafði verið stillt en skyndilega skall á snjó stormur. Eftir smástund heyrðist einkennilegur hávaði við útidyrnar. Maðurinnleit út um gluggan og sá að nokkrir fuglar voru að reyna að leita skjóls undan storminum.

Þar sem honum þótti vænt um dýrin fann hann til með þeim og velti fyrir sér hvernig hann gæti hjálpað þeim. Hann ákvað að fara út um bakdyrnar og opna bílskúrsdyrnar. Hlýtt var í bílskúrnum og þar myndu fuglarnir vera öruggir. Hann fór út, opnaði bílskúrsdyrnar og fór aftur inn í húsið. Er hann leit aftur út um gluggann varð hann fyrir vonbrigðum því fuglarnir höfðu ekki hreyft sig.

Af því að hann unni dýrum, gafst hann ekki upp. En hvað átti hann að taka tilbragðs? Þá datt honum í hug að setja fugla fræ í bílskúrinn. Að því loknu kom hann aftur til þess að sjá hvað gerast myndi, en hann varð enn fyrir miklum vonbrigðum þar sem fuglarnir höfðu enn ekki hreyft sig. Kuldinn var farinn að sverfa að þeim.

En hvað gat maðurinn gert til þess að hjálpa þeim? Í þeirri von að fuglarnir færu yfir í bílskúrinn opnaði maðurinn dyrnar varlega. En hvað gerðist? Þegar hann opnaði dyrnar flugu fuglarnir auðvitað hver í sína áttina en enginn í bílskúrinn.

Maðurinn sagði þá í algerri örvæntingu: "Ef ég gæti nú bara orðið fugl eins og þeir í smástund gæti ég sýnt þeim leiðina til öryggis."

Á því augnabliki hringdu kirkjuklukkurnar og maður þessi áttaði sig skyndilega á því hvers vegna Guð varð sú sköpun sem hann skapaði - hvers vegna Guð varð maður eins og við.

28.03.06

  16:16:28, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 74 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Verið ávallt glaðir í Drottni!

Þegar heilagur Tómas More var að ganga upp þrepin til aftöku staðarins þá bauðst böðulinn til þess að aðstoða hann.

Tómas svaraði: "Ég er einfær um að komast upp. En vel kann að vera að ég þurfi á hjálp að halda við að komast aftur niður!"

"Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir." BRÉF PÁLS TIL FILIPPÍMANNA 4:4

27.03.06

  20:26:40, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 143 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Þessi kolamoli fór að kulna

Fyrir nokkrum árum ákvað maður að hann ætlaði ekki framar að fara í messu á sunnudögum. Sú ástæða, sem hann gaf var að hann gæti alveg eins beðist fyrir heima.

En nokkrum vikum seinna, kom sóknarprestur hans í heimsókn á heimili hans. Þeir sátu í setustofunni, þar sem brann eldur á arni. Þeir töluðu um ýmis mál en alls ekki um mikilvægi þess að fara í messu á sunnudögum.

Eftir nokkra stund tók presturinn kolatöngina og tók brennandi kolamola út úr eldinum og setti hann til hliðar. Þessi kolamoli hætti fljótlega að brenna og fór að kulna. En hin kolin héldu áfram að brenna í ljósum logum.

Presturinn sagði ekkert en það gerði maðurinn: "Ég ætla að koma til messu næsta sunnudag", sagði hann.

26.03.06

  17:31:24, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 122 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Saga um þrjá lærlinga djöfulsins

Hér er saga um þrjá lærlinga djöfulsins sem voru sendir til jarðarinnar til að leiða fólk til heljar. Áður en þeir lögðu af stað, var lagt fyrir þá spurningu um hvaða aðferð þeir mundu nota til að fá fólk til heljar.

• Fyrsti svaraði: "Ég mun fá fólk til þess að trúa að það sé enginn Guð til."

• Annar svaraði: "Ég mun fá fólk til þess að trúa að það sé ekkert helviti."

• Sá þriðji svaraði: "Ég mun fá fólk til þess að trúa því að það þurfi ekki að flytja sér að iðrast.

(Á ensku: No God, no hell, no hurry!)

25.03.06

  08:19:33, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 261 orð  
Flokkur: Dæmisögur og sögur II

Hún var ekki skítug lengur

Eitt sinn var ungur munkur sem átti erfitt með að muna það sem hann las úr Biblíunni. Hann fór því til gamals og viturs munks og sagði honum frá vandamáli sínu. Ungi munkurinn lauk máli sínu með því að segja að kannski væri best að hætta að lesa Biblíuna úr því að hann gleymdi sífellt orðum hennar.

Gamli munkurinn rétti honum gamla og leka könnu sem var skítug að innan.

„Farðu og náðu í vatn í þessa könnu og komdu með það hingað,“ sagði gamli munkurinn.

Ungi munkurinn gerði eins og honum var sagt en eins og gaf auga leið hafði allt vatnið lekið úr könnunni þegar hann kom aftur.

„Fylltu hana á ný,“ sagði gamli munkurinn.

Og ungi munkurinn fyllti hana aftur en allt fór á sömu leið, vatnið lak úr könnunni.

„Fylltu hana á ný,“ sagði gamli munkurinn.

Og ungi munkurinn fyllti könnuna aftur þriðja sinni og enn aftur lak vatnið úr könnunni.

Þá sagði ungi munkurinn: „Áður en þú sendir mig á ný til að ná í meira vatn ættirðu að vita að þessi gamla skítuga kanna lekur.“

Þá brosti gamli munkurinn og sagði: „Gott og vel, líttu í könnuna og segðu mér hvað þú sérð.“

Ungi munkurinn leit í könnuna og sá að hún var ekki skítug lengur.

Þá sagði gamli munkurinn: „Þetta á einnig við um þig, orð Biblíunnar leka stöðugt út en þau hreinsa þig!“