Flokkur: "Hugleiðingar"

Blaðsíður: 1 3

20.04.13

  12:20:00, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 420 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Orígen (um 185-253), prestur og guðfræðingur: Hugleiðing

„Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra,  svo að Faðirinn vegsamist í Syninum.“

Orígen (um 185-253), prestur og guðfræðingur.

Ég tel að sá sem er í þann veginn að hefja bænina ætti að fara afsíðis og undirbúa sjálfan sig og þannig verða árvökulli og virkari í allri bæninni. Hann ætti að hrekja allar freistingar og truflandi hugsanir frá sér og minna sjálfan sig eftir fremsta kosti á þá Hátign sem hann nálgast og það sé óguðrækilegt að nálgast hann af hirðuleysi, seinlæti og virðingarleysi. Hann ætti að snúa baki við öllu hið ytra. 

Read more »

24.05.09

  06:57:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 316 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hollur undirbúningur fyrir hvítasunnuna – John Henry Newman, kardínáli (1801-1890):„Að rísa upp með Kristi.“

Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum“

Hefjið nú þennan heilaga páskatíma og rísið upp með Kristi. Sjáið, hann býður ykkur framrétta hönd sína. Hann er að rísa upp, rísið upp með honum. Rísið upp úr gröf hins gamla Adams frá lítilsigldum áhugamálum og öfund; frá afbrýðisemi og önuglyndi jarðneskra markmiða; frá þrældómsoki vanans; frá ringulreið ástríðnanna, frá tálsýnum holdsins, frá ísköldum yfirvegunum anda heimsins; frá léttúð; frá eigingirni; frá hégómaskap; frá sjálfshyggju; frá kveifarskap; frá sjálfsblekkingu og dramblæti. Héðan í frá skuluð þið leggja rækt við það sem er svo miklum erfiðleikum háð, en ætti ekki að vera svo og má ekki láta ógjört: Að vaka, biðja og íhuga . . .

Sýnið fram á að hjarta ykkar og þrár, að líf ykkar sé með Guði. Takið frá tíma á hverjum degi til að leita að honum . . . Ég er ekki að hvetja ykkur til að hverfa úr heiminum eða snúa baki við skyldustörfum ykkar í heiminum, heldur að endurleysa tímann. Ekki að verja tíma ykkur einungis til að gleðjast eða til félagslífsins, en einungis að gefa Kristi örfáar mínútur. Ekki einungis að ákalla hann þegar þið eruð þreytt og megnið ekki að gera neitt nema að sofa. Látið alls ekki undir höfuð leggjast að vegsama hann eða að biðja fyrir heiminum og kirkjunni í ríkum mæli til að gera ykkur merkingu textans ljósa af einlægni, að keppa eftir því, „sem er hið efra“ og bera því vitni að hjarta ykkar er risið upp með honum og „líf yðar er fólgið með Kristi í Guði“ (Kol 3. 1-3).

21.05.09

  06:44:42, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 248 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Á degi uppstigningar þinnar, ó Kristur konungur vor – úr sýrlensku helgisiðunum

„Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var“ (Lk 15. 6)

Á degi uppstigningar þinnar, ó Kristur konungur vor,
hrópuðu englar og menn:

„Þú ert heilagur, ó Drottinn, vegna þess að þú steigst niður á jörðina og bjargaðir Adam, manni leirsins (1M 2. 7),
úr hyldýpi syndar og dauða,
og með heilagri uppstigningu þinni, ó Sonur Guðs,
öðluðust himinn og jörð frið.
Dýrð sé honum sem sendi þig!“
Kirkjan sá Brúðguma sinn í dýrð
og gleymdi píslunum á Golgata.
Í stað þyngsla krossins sem hann bar,
er hann borinn á ljósskýi.
Sjáið hvernig hann rís upp, íklæddur hátign og dýrð!

Í dag gerist mikið undur á Olíufjallinu:
hver getur greint frá því? . . .
Meistari vor kom niður að leita Adams
og þegar hann hafði fundið þann sem var týndur
bar hann þann hinn sama á herðum sér
í dýrð til himins í samfélagi sínu (spr. Lk 15. 4).
Hann kom og opinberaði okkur að hann er Guð;
hann íklæddist mennskunni og opinberaði sig sem mann;
hann steig niður til Heljar og opinberaði að hann væri dáinn;
hann reis upp og var upphafinn og opinberaði mikilleika sinn.
Blessuð sé upphafning hans!

María fagnaði daginn sem hann fæddist;
jörðin skalf á dánardægri hans;
víti vanvirt á degi upprisu hans;
jörðin fagnar á degi upprisu hans.
Blessuð sé uppstigning hans!

20.05.09

  06:22:08, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 336 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Vilhjálmur frá Saint-Thierry (um 1085-1149), sistersíani – Andi sannleikans

„Andi sannleikans, mun leiða yður í allan sannleikann“

„Hver meðal manna veit hvað mannsins er, nema andi mannsins, sem í honum er? Þannig hefur heldur enginn komist að raun um, hvað Guðs er, nema Guðs Andi“ (1Kor 2. 11). Hraðið ykkur því til að öðlast samfélag við Heilagan Anda. Vart erum við búnir að ákalla hann þegar hann er kominn og ef við áköllum hann, þá er það sökum þess að hann er þegar hið innra með okkur. Þegar hann er ákallaður kemur hann, hann kemur í ríkidæmi gnægta guðdómlegrar blessunar. Það er hann sem er þessar „Elfar-kvíslir sem gleðja Guðs borg“ (Sl 46. 5). Ef hann sér þegar hann kemur að þið eruð auðmjúkir og lausir við angist og óttist orð Guðs, þá mun hann koma og hvíla yfir ykkur og opinbera ykkur það sem Guð hefur hulið fyrir spekingum og hyggindamönnum þessa heims (Mt 11. 25). Þá mun allur sá sannleikur sem Vísdómurinn talaði um við lærisveinana meðan hann dvaldi á jörðu taka að ljóma fyrir ykkur og þeir gátu ekki borið áður en Andi sannleikans kom sem átti að uppfræða þá um allan sannleikann . . .

Rétt eins og þeir sem tilbiðja Guð verða óhjákvæmilega að tilbiðja hann „í anda og sannleika“ (Jh 4. 24), þannig verða þeir sem vilja kynnast honum einungis að leita skilnings trúarinnar í Heilögum Anda . . . Í miðju myrkri og fávisku þessa heims er það hann sjálfur sem ljómar fyrir hina fátæku í anda (Mt 5. 3), kærleikurinn sem dregur til sín og ljúfleikinn sem hrífur sálina, elska þeirra sem elska og guðrækni þeirra sem gefast án þess að hika. Það er hann sem opinberar réttlæti Guðs frá einni fullvissu til annarrar, sá sem veitir „náð á náð ofan“ (Jh 1. 16) og upplýsir trú þeirra sem hlusta á Orðið.

Spegill trúarinnar, 6 (Patrologia latina 180, 384). 


18.05.09

  06:53:46, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 386 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Huggunarrík orð fyrir uppstigningardag – Hl. Kýrillos frá Alexandríu (380-444)

„Þér skuluð einnig vitni bera“

Allt hafði verið gert sem átti eftir að gera á jörðinni. En enn var það nauðsynlegt að við myndum verða „hluttakendur í guðlegu eðli“ Orðsins (2Pt 1. 4) – það er að segja að við snérum baki við lífi okkar og ummynduðumst fullkomlega og yrðum leidd beint til nýs vegar heilags lífernis . . . Ég tel að það sé sannleikanum samkvæmt að meðan Kristur var nærverandi í líkamanum meðal þeirra sem trúðu á hann, þá opinberaðist hann þeim sem sá sem var miðlari allrar gæsku. En þar sem tíminn og nauðsynin kallaði hann nú til að verða hafinn upp til Föðurins á himnum, þá var nauðsynlegt fyrir hann að vera nærverandi í Andanum með þeim sem tilbáðu hann og „fyrir trúna búa í hjörtum yðar“ (Ef 3. 17).

Það er auðvelt að sanna með hliðsjón af Gamla og Nýja testamentinu að Andinn breytir eðli þeirra sem hann kemur til að dvelja hjá og umbreytir lífi þeirra. Hinn heilagi maður Samúel sagði þegar hann ræddi við Sál: „Þá mun Andi Drottins koma yfir þig, svo að þú munt komast í spámannlegan guðmóð með þeim og verða annar maður“ (1S 10. 6). Heilagur Páll sagði: „En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir Andi Drottins“ (2Kor 3. 18).

Þannig sjáið þið að Andinn endurskapar bókstaflega þá í nýja mynd sem hann sést dvelja í. Í stað þrár þeirra til að hugsa jarðneskar hugsanir kemur í stað þessa þrá til að mæna einungis til hins himneska af festu. Hann umbreytir mennsku hugleysi þeirra í anda hugrekkis. Við getum vissulega séð að það var þetta sem lærisveinarnir sannreyndu: Andinn varð að herklæðum þeirra svo að þeir létu ekki undan áhlaupum ofsækjenda sinna, heldur héldu fast í Kristselskuna. Þannig getum við séð sannleiksorð Frelsara okkar: „Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur Hjálparinn ekki til yðar“ (Jh 16. 7). Nú var sú stund runnin upp að Andinn stigi niður.

12.05.09

  06:23:33, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 464 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

„Minn frið gef ég yður“ – Blessaður Jóhannes páfi XXIII (1881-1963),
Úr hirðisbréfinu „Pacem in terris“

Allir sem gengið hafa í raðir Krists verða að vera skínandi ljós í heiminum, orkuver elsku og sem súrdeig fjöldans. Þetta munu þeir verða í hlutfalli við stig sameiningar sinnar við Guð. Heimurinn mun aldrei verða að bústaði friðar fyrr en friðurinn hefur gert sér bústað í hjarta hvers og eins, uns við varðveitum hið innra með okkur þá tilhögun sem Guð hefur boðað að skuli varðveitt . . . Þetta takmark er svo háleitt og upphafið að mennsk viðleitni getur aldrei vænst þess að ná því, jafnvel þó að hún sé innblásin af háleitasta stigi lofsverðs og gæskuríks vilja. Sjálfur Guð verður að koma okkur til hjálpar með guðdómlegri hjálp sinni ef mennskt samfélag á að samlíkjast konungsríki Guðs eftir fremsta megni . . .

Með beiskum píslum sínum og dauða hefur Kristur laugað okkur af syndum okkar sem eru flóðgátt upplausnar, eymdar og ójafnréttis . . . „Því að hann er vor friður . . . Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra“ (Ef 2. 14). Hinir heilögu helgisiður þessara páska enduróma þennan sama boðskap: „Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra [lærisveinanna] og sagði við þá: "Friður sé með yður!" . . . Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin“ (spr. Jh 20. 19-20). Það er þannig Kristur sem kom með friðinn til okkar, Kristur sem gaf okkur hlutdeild í honum: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur“.

Við skulum því biðja um frið hans af brennandi ákafa sem guðdómlegur Endurlausnari okkar kom og færði okkur í hendur. Megi hann varðveita sálir mannanna frá öllu því sem stefnir þessum friði í hættu. Megi hann ummynda okkur öll til að verða að vottum sannleika, réttlætis og bróðurlegrar elsku. Megi hann upplýsa hugi valdhafa með ljósi sínu . . . Megi Kristur loks glæða þrá hjá öllum til að brjóta niður þá veggi sem sundra þeim, að styrkja bönd gagnkvæmrar elsku, að kenna okkur að skilja hvert annað og fyrirgefa þeim sem gert hafa það sem rangt er. Megi allir menn fagna öðrum mönnum í hjörtum sínum sem bræðrum í krafti hans og innblæstri og megi sá friður sem þeir þrá blómstra og ríkja meðal þeirra.

01.05.09

  08:52:28, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 246 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Maímánuður – mánuður Maríu Guðsmóður

Blóm vallarins

Á tólftu öld talaði hl. Bernhard frá Clairvaux um hina sælu mey Maríu sem „rós kærleikans, lilju hreinleikans, fjólu auðmýktarinnar og hina gullnu ilmjurt sem kom af himni ofan.“ Hl. Frans frá Assisí gætti þess ávallt að stíga aldrei á eitt einasta blóm sem varð á vegi hans vegna þess að það væri tákn Maríu, „Lilju vallarins.“

Nú þegar blómin taka að springa út á Ísa köldu landi getum við stuðst við þau og hugleitt einhvern ákveðinn þátt þess leyndardóms sem líf Maríu opinberar okkur og beðið um að öðlast náð til að taka okkur Guðsmóðurina að fyrirmynd í dyggðugu líferni hennar og heilagleika. Við getum beðið um fyrirbænir hennar þegar eitthvað fagurt blóm verður á vegi okkar og þannig beint hugum okkar til himins til okkar sanna föðurlands (Fl 3. 20).

Höfum jafnframt í huga að hinn dyggðum prýddi eiginmaður hennar. hl. Jósef, er verndari verkamanna í dýrlingatali kirkjunnar og minningardagur hans er 1 maí. Okkur er þetta hollt nú þegar landsmenn eru uppteknir af hruni grægði veraldarhyggjunnar: Einni dauðasyndanna sjö. Látum þessarar hamfarir brostinna vona mennskrar græðgi ekki byrgja okkur sýn til okkar sanna föðurlands á himnum.

Skrautblóm og ilmjurtit sköpunar Guðs geta þannig orðið okkur að bendlum eða vegvísum til himins.

12.04.09

  06:12:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 323 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hl. Maxímus frá Tórínó: Þetta er dagur fögnuðar og gleði

Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum“ (Sl 118. 24). Það er engin tilviljun, bræður, að í dag lesum við þann sálm þar sem spámaðurinn býður okkur að fagna og gleðjast og að heilagur Davíð bjóði allri sköpuninni að halda þennan dag hátíðlegan. Í dag hefur upprisa Krists lokið upp hvíldarstað hinna framliðnu. Hinir nýlega skírðu í kirkjunni hafa yngt þennan dag upp og Heilagur Andi hefur leitt okkur hið himneska fyrir sjónir. Helja stendur opin og lætur af hendi hina dauðu. Himininn stendur galopinn og fagnar þeim sem rísa upp til hans.

Ræninginn er farinn til Paradísar (Lk 23. 43) og líkamar hinna heilögu ganga inn í borgina helgu (Mt 27. 53) . . . Við upprisu Krists hefur verið hrært við öllum frumefnunum og allt er hafið í hæðir. Víti afhendir englunum alla þá sem hafðir voru í haldi og himininn leiðir alla þá sem meðtakið hafa fyrir Drottinn . . . Upprisa Krists veitir hinum dauðu líf, syndurum fyrirgefningu og hinum heilögu dýrðina. Þannig kveður hinn mikli Davíð allt sköpunarverkið til að fagna upprisu Krists og hvetur það til að dansa af fögnuði og gleði á þessum degi sem Drottinn hefur gjört.

Þið munuð spyrja: En himninum og Helju hefur ekki verið skipaður staður innan marka dagsljóss þessa heims og getum við því vænst þess að þetta tvennt fagni degi sem opinberar það ekki? En dagur Drottins umvefur alla hluti, felur í sér alla hluti og umlykur samtímis himin, jörð og víti! Engir skilveggir hindra ljós Krists fremur en að frumefnin myrkvi það eða varpi á það skugga. Ljós Krists er sannarlega dagur án nætur, endalaus dagur. Það brýst fram alls staðar, ljómar alls staðar og dvelur alls staðar.

11.04.09

  07:34:46, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 385 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Blessaður Guerric frá Igny (1080-1157), páskavakan

„Þetta er dagurinn sem Drottinn hefur gjört“

Bræður: „Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört, fögnum, verum glaðir á honum“ (Sl 118. 24). Við skulum fagna í þeirri von sem hann felur í sér svo að við getum séð og glaðst í ljósi hans. Abraham vænti þess með fögnuði að sjá dag Krists, og hann sá og gladdist (spr. Jh 8. 58). Ef þið vakið sjálfir af árvekni við dyrastaf viskunnar (Ok 8. 34) . . . ef þið vakið ásamt Maríu Magdalenu við dyrnar að gröfinni, þá munuð þið ef mér skjátlast ekki sannreyna með Maríu hversu sönn orðin um spekina eru sem er Kristur: „Þeir sem elska hana eiga auðvelt með að sjá hana og þeir sem leita hennar finna hana“ (SS 6. 12).

Þetta gaf Kristur, sjálf spekin, fyrirheit um: „Ég elska þá sem mig elska, og þeir sem vaka frá því árla morguns, finna mig“ (Ok 8. 17). María fann Jesús í holdi og af þessum ástæðum hélt hún vöku sinni. Hún hafði komið til að vaka yfir gröfinni meðan enn var ekki bjart af degi. Þið sem eigið ekki lengur að þekkja Jesús með holdlegum hætti (2Kor 5. 16) heldur í anda munuð finna hann með andlegum hætti, ef þið leitið af sömu þrá og María: „Af hjarta þrái ég þig á næturnar, já, með andanum í brjósti mínu skima ég eftir þér“ (Jes 26. 9). Segið með orðum og hugarfari sálmaskáldsins: „Bíð róleg eftir Guði, sála mín, frá honum kemur hjálpræði mitt“ (Sl 62. 2) . . .

Haldið því vöku ykkar, bræður, stöðugir í bæninni . . . einkum sökum þess að morgunn þess dags sem ekki á sér sólarlag hefur þegar risið yfir ykkur . . . Sannarlega er nú sú stund að okkur ber að rísa af svefni. Nóttin er afstaðin og dagurinn í nánd (Rm 13. 11-12). Vakið því segi ég svo að árdegisroðinn blasi við ykkur sem er Kristur, sem mun renna upp eins og morgunroðinn (Hs 6. 3) og er reiðubúinn til að endurnýja iðulega morgun upprisu sinnar í þeim sem vaka. Þá munuð þið syngja af fagnandi hjörtum: „Þetta er dagurinn sem Drottinn hefur gjört, fögnum, verum glaðir á honum.“

09.04.09

  07:15:42, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 386 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Benedikt páfi XVI: Úr Sacramentum caritatis

„Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“ (Jh 15. 13)

Sakramenti kærleikans, hin heilaga Evkaristía, er sú gjöf þar sem Jesús Kristur gefst sjálfur og opinberar þannig fyrir okkur takmarkalausa elsku Guðs á sérhverjum karli og konu. Þetta undursamlega sakramenti birti okkur þann „meiri kærleika“ sem fékk hann til „að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“ (Jh 13. 1). Með þessum orðum víkur guðspjallamaðurinn að takmarkalausri auðmýkt Krists: Áður en hann dó á krossinum batt hann um sig mittislinda og laugaði fætur lærisveina sinna. Með sama hætti heldur Jesús áfram að gera þetta í sakramenti Evkaristíunnar, að elska okkar „allt til enda,“ jafnvel að fórna líkama sínum og blóði fyrir okkur. Hversu undrandi hljóta postularnir ekki að hafa verið þegar þeir urðu vitni að því sem Drottinn gerði og sagði við kvöldmáltíðina! Hversu mikla undrun hlýtur leyndardómur Evkaristíunnar ekki að glæða í okkar eigin hjörtum! . . .

Í þessu sakramenti verður Drottinn sannarlega að fæðu fyrir okkur til að svala þorsta okkar eftir sannleika og frelsi. Þar sem það er einungis sannleikurinn sem gerir okkur frjáls (spr. Jh 8. 32) verður Kristur að sannleiksfæðu. Drottinn Jesús Kristur, „vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jh 14. 6) talar til þyrstra pílagrímshjartna okkar, hjartna sem þrá uppsprettu lífsins, hjartna okkar sem þrá sannleikann. Jesús Kristur er sannleikurinn með persónulegum hætti sem dregur heiminn til sín . . .

Í sakramenti Evkaristíunnar sýnir Jesús okkur með sérstökum hætti sannleikann um elskuna sem er sjálft eðli Guðs. Það er þessi sannleikur fagnaðarerindisins sem er áskorun til okkar allra og allrar verundar okkar. Það er af þessum ástæðum sem kirkjan sér í Evkaristíunni sjálfan kjarna lífs síns og ber fyrir brjósti að boða öllum í tíma og ótíma (spr. 2Tm 4. 2) að Guð er elska. Einmitt sökum þess að Kristur er orðinn okkur að sannleiksfæðu, þá snýr kirkjan sér til sérhvers karls og konu og býður þeim að þiggja endurgjaldslaust gjöf Guðs.

20.12.08

  08:17:16, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 188 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Benedikt páfi XVI – Heilagur Jósef: Fyrirmynd í hlustun (© L'Osservatore Romano)

Þögn heilags Jósefs má rekja til þagnar íhugunar hans á leyndardómum Guðs í fullkomnum fúsleika andspænis vilja Guðs. Með öðrum orðum er þögn heilags Jósefs ekki ummerki innri tómleika heldur þvert á móti fyllingar þeirrar trúar sem hann ber í hjarta sínu og stjórnar öllum hugsunum hans og verkum. Þetta er þögn sem gerir Jósef ásamt Maríu kleift að hlýða Orði Guðs sem kunngert er í heilögum Ritningum og sem blasir við þeim í öllum atvikum í lífi Jesú. Þetta er þögn sem rekja má til óaflátanlegrar bænar, blessunarbænum til handa Drottni, tilbeiðslu á heilögum vilja hans og fullkomnu trausti á fyrirhugun hans.

Við skulum láta það eftir okkur að „smitast“ af þögn heilags Jósefs. Við þörfnumst slíks svo átakanlega í heimi sem iðulega er allt of hávær og ófús til að hlusta af athygli á raust Guðs. Á þessum tíma þegar við undirbúum okkur fyrir jólin skulum við leggja rækt við innri einbeitingu svo að við getum fagnað Jesú í lífi okkar.

09.12.08

  09:32:08, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 886 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um þöggun

Orðið þöggun hefur óvænt skotið upp kollinum í þjóðfélagsumræðunni að undanförnu. Ekki er ólíklegt að okkar ástkæra föðurland skipi einstakan sess meðal þjóða í hinum vestræna heimi. Helstu fjölmiðlar þjóðarinnar eru í höndum sömu hagsmunaaðilana að Rúv undanskildu sem að nafninu til á að vera í þjóðareign. En almennt talað hefur hin „óháða“ stétt fréttamanna lotið ofurvaldi þöggunarinnar á umliðnum árum. Meðal annars lýsir þetta sér í því að ef sérfræðingar voguðu sér að benda á veikleika undirstaða íslenska fjármálaviðundursins brugðust fjölmiðlarnir í heild við slíkri gagnrýni af vanþóknun. Ummæli líkt og „þeir þarna í Háskólanum þurfa nú að fara að athuga sinn gang!“ glumdu við í þöggunaráráttu fjölmiðlavaldsins. Ef erlendir fjölmiðlar voguð sér að gagnrýna útrásarvíkingana glumdi hneykslunin við í öllum fjölmiðlum þöggunarvaldsins. Frægt er þegar háttvirtur utanríksráðherra tókst á hendur sérstaka ferð til Danmerkur s. l. vor ásamt fríðu föruneyti útrásarvíkinga til að sannfæra Dani um að hið íslenska „wirtschaftswunder“ stæði styrkum fótum. Ég minni á að þetta var einungis nokkrum mánuðum fyrir ragnarökin miklu. Ég minnist myndskeiðs úr kvikmynd um David Cooperfield eftir Charles Dickens. Það var tekið á geðveikrahæli þar sem þögnin ein ríkti. Skyndilega tók einn hinna sjúku að æpa og það var eins og við manninn mælt: Allir hinir tóku undir hróp hans.

Read more »

14.10.08

  11:52:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1657 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um aðskiljanlega náttúru knattleikja – hugleiðing

Á umliðnu sumri var handknattleikur mikið til umræðu meðal þjóðarinnar, einkum vegna velgengni íslenska landsliðsins í Beijing. Bolti og handknattleikur gegnir einnig mikilvægu hlutverki í boðskap Jesú. Drottinn greip til dæmisagna í ríkum mæli eins og við sjáum í guðspjöllunum. Á grísku er orðið dæmisaga „parabole,“ en bókstaflega þýðir orðið: „með bolta.“ Jesús varpar þannig boðskap sínum til okkar líkt og bolta í handknattleik. Við getum þannig gripið boðskapinn eða boltann á lofti og í þessu sambandi eru viðbrögð okkar mikilvæg, rétt eins og gengur í öllum öðrum handknattleikjum. Í þessu samhengi getum við sem best rætt um „veraldlegan“ og „guðdómlegan“ knattleik.

Read more »

08.10.08

  08:10:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 956 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Feitu árin og mögru árin – hugleiðing

Ég minnist þess hversu mjög mér var brugðið þegar ég var að bera út Alþýðublaðið forðum daga og las risafyrirsögn á forsíðunni um að við (Íslendingar) værum að fara fram af hengifluginu. Þetta var á sólbjörtum morgni og þrátt fyrir að ég skildi ekki orðin til fulls var mér ljóst að þetta væri slæmt: Afar slæmt! Það var hnugginn blaðaburðarstrákur sem kom heim þennan morgun til mömmu sinnar sem reyndist erfitt að kreista bros fram á andlitið. Þetta var þegar stjórn Hermanns Jónassonar hrögglaðist frá vegna aðsteðjandi efnahagsörðugleika.

Read more »

14.09.08

  07:47:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 311 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Upphafning hins heilaga kross (14. september): Hugvekja tileinkuð heilögum Efraím hinum sýrlenska (um 306-373), djákna og kirkjufræðara

„Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín“ (Jh 12. 32)

Frá og með þessari stundu hefur krossinn hrakið alla skugga á brott og sannleikurinn tekið að ljóma, eins og Jóhannes postuli segi: „Hið fyrra er farið . . . Sjá, ég gjöri alla hluti nýja“ (Opb 21. 4-5). Dauðinn hefur verið sviptur bráð sinni, hinir fjötruðu í víti endurleystir: Maðurinn er orðinn frjáls. Drottinn ríkir og sköpunin fagnar. Krossinn hefur sigrað og allar þjóðir, kynkvíslir, tungur og lýðir (Opb 7. 9) koma til að tilbiðja hann. Í krossinum finnum við fögnuð okkar og hrópum með heilögum Páli: „En það sé fjarri mér að hrósa mér af öðru en krossi Drottins vors Jesú Krists“ (Gl 6. 14). Krossinn varpar ljósi sínu á alla heimsbyggðina. Hann hrekur myrkrið á brott og safnar þjóðunum saman í kærleika í kirkjunni í einni trú og einni skírn, frá vestri til austurs, úr norðri og frá höfunum. Hann stendur í miðju heimsins þar sem hann rís á Krosshæðinni.

Read more »

12.03.08

  10:48:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 837 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Nýjasti hjartaknosari Danaveldis – ung kona með downseinkenni

Hversu miklu fegurri er hún ekki í mínum augum unga konan með downseinkennin sem heillað hefur dönsku þjóðina með lífskrafti sínum og gleði á undanförnum misserum og ég sá á DR1 um daginn, fremur en þessar . . . bib, bib, bib . . . sem gengið hafa inn í tröllaheima afskræmdra lífsgilda Hollywoodfársins og kallast „kvikmyndadísir,“ jafn ankannalega og slíkt lætur í eyra. Mér láðist að leggja nafn hennar á minnið en vafalaust eigum við eftir að heyra meira af henni hérna á klakanum vegna þess að hún er á góðri leið með að verða „heimsfræg“ um alla Skandinavíu. Væntanlega gefa dagskrárstjórar íslenska sjónvarpsins okkur tækifæri til að sjá hana „á skjánum.“ Þessi unga kona hefur flutt frumsamda einþáttungu og tvíþáttunga sem hrifið hafa hjörtu dönsku þjóðarinnar og er lifandi sönnum þess að mannauðurinn leynist víðar en á kaupþingum verðbréfastrákanna.

Read more »

08.03.08

  09:54:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1135 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

„Stúdíur“ jafnaðarmannaforingjans Jóns Baldvins Hannibalssonar í Guðs voluðum heimi.

Þegar við bræðurnir vorum pattar (á Sigló voru smástrákar alltaf kallaðir pattar í gamla daga) voru bíóferðirnar á sunnudögum óaðskiljanlegur þáttur tilverunnar. Bíómyndirnar sjálfar snérust iðulega um eitt þema: Góða kalla og vonda kalla. Vondu kallarnir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að „skemma allt“ fyrir góðu köllunum. Stundum fengum við bræðurnir gæsahúð af hryllingi þegar við sáum háttalag vondu kallanna og í einlægni sagt féllu stundum tár í laumi. Þetta var einföld lífssýn þar sem atburðarásin var sett fram í svörtu og hvítu. Svo er Guði fyrir að þakka að þroskinn hefur aukist með árunum og nú geri ég mér grein fyrir því að það eru bæði góðir kallar í liði vondu kallanna og vondir kallar í liði góðu kallanna.

Read more »

29.02.08

  15:31:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1092 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

„Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu“ (Mk 12. 28-34)

SJÁ MEÐFYLGJANDI MYND

Í opinberun þann 2. maí 1962 sagði Jesús við ungversku karmelsysturina Erzebet Szanto, hinn mikla boðbera hinnar lifandi elsku loga Kristshjartans: „Hjarta mitt er hinn varanlegi hvíldarstaður þinn. Ef þú vilt hvílast hér er það þegar veitt þér. Þú finnur það er það ekki? Hvíldu í mér svo að þú valdir mér ekki sárum vonbrigðum! Vertu sameinuð mér í elskunni og leiddu aðra til mín. Þú veist hversu fá við erum. Það tekur ekki langan tíma að ganga í kringum tjaldbúð okkar.“

Æðsti prestur hins gamla sáttmála var forgildi Krists eins og lesa má um í Hebreabréfinu:

„Vér megum nú, bræður, fyrir Jesú blóð með djörfung ganga inn í hið Heilaga, þangað sem hann vígði oss veginn, nýjan veg og lifandi inn í gegnum fortjaldið, það er að segja líkama sinn. Vér höfum mikinn prest yfir húsi Guðs. Látum oss því ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum, sem hreinsuð hafa verið og eru laus við meðvitund um synd, og með líkömum, sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni“ (Heb 10. 19-22).

Read more »

25.11.07

  10:14:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 870 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

STELLA VITAE (Stjarna lífsins) – Betlehemsstjarnan. Hugleiðing í upphafi aðventu

"Sjá meðfylgjandi mynd

Í eldgamladaga meðan ég starfaði enn sem kortagerðarmaður kom ég nokkrum sinnum til Zeissverksmiðjana í Oberkochen í Þýskalandi. Þar starfa miklir hagleiksmenn (og konur að sjálfsögðu). Áratugum saman hafa Zeissverksmiðjurnar verið leiðandi í hönnun og smíði alls kyns tóla og tækja til landmælinga, stjörnufræðiathugana og rannsóknartækja innan læknisfræðinnar. Til marks um álit það sem Zeiss nýtur hafa verksmiðjurnar framleitt flesta þá spegla sem notaðir eru í stórum stjörnuathugunarstöðvum víðsvegar um heimsbyggðina og í Hubble og lögðu Bandríkjumönnum í té margvísleg sérhæfð mælitæki og myndavélar í tunglferð þeirra forðum.

Read more »

17.10.07

  17:39:07, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 232 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Kristsboðinn á austurhimnum

Alltaf hlýnar mér um hjartaræturnar um miðbik októbermánaðar þegar Kristsboðinn birtist á himinhvolfinu. Hér á ég við Konungsstjörnuna (Regúlus) í Ljónsmerkinu. Fögur var hún í morgun þegar hún ljómaði yfir Reykjavík í heiðskýrunni rétt fyrir dagmál.

Read more »

28.08.07

  16:32:54, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 328 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um stjarnanna dýrð

Jafnskjótt og tekur að hausta tekur stjörnuhvelið að draga til sín athygli fjölmargra áhugasamra leikmanna. Í gærkveldi var það Tunglið sem skartaði sínu fegursta á suðausturhimninum í um 11° hæð yfir sjóndeildarhringnum um tíu leytið (Azimuth 138°). Skammt frá Tunglinu má nú sjá Úranus í Vatnsberamerkinu og Neptúnus í Einhyrningnum.

Eftir að Google Earth bætti himinhvolfinu (Sky) við hið stórmerkilega forrit sitt opnast loks möguleikar til að sjá frábærar myndir sem Hubble hefur tekið á síðustu árum. Milli Vatnsberans og Einhyrningsins má sjá mikla „Helix Nebula,“ NGC 7293. Ég ráðlegg fólki að nálgast hina nýju útgáfu af Google Earth ef það hefur ekki gert það nú þegar.

Ég hvet alla foreldra til að opna undraheim himinhvolfsins upp fyrir börnum sínum með því að gefa sér tíma til að sitja með þeim fyrir framan tölvuskjáinn.

Read more »

08.08.07

  09:26:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1537 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Við gerum ekkert án trúar

Að fróðra manna sögn tekur það um 20 sjómílur að stöðva risaolíuflutningaskip á „fullu“ skriði. Skriðþunginn er þetta mikill vegna þyngsla farmsins. Ef skipstjórinn trúir því að ógn steðji að skipi hans vega fyrstu viðbrögð hans þungt fyrir sjórétti. Dæmi eru jafnvel um að skipstjóri hafi verið sýknaður fyrir sjórétti vegna þess að hann varð að taka ákvörðun sína í flýti. Sjóréttardómararnir vega slíkt og meta í ljósi sérþekkingar sinnar.

Við getum í vissum skilningi líkt heilu þjóðríki við slíkt risaolíuflutningaskip. Í stjórnmálum er um „skammtíma“ og „langtímaákvarðanir að ræða. Við skulum taka sem dæmi fólksfjölgunina. Þar er um langtímaákvarðanatöku að ræða. Ákvörðum sem tekin er í dag liggur þannig ekki á borðinu fyrr en eftir svo sem sjötíu ár þegar árangurinn kemur í ljós. Við verðum þannig að trúa því að við höfum tekið rétta ákvörðun. Hér er þróunin ekki stöðvuð í einni skyndingu fremur en ákvörðun skipstjórans í brúnni verði þess valdandi að skipið stöðvist „á punktinum.“

Read more »

03.08.07

  08:38:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1152 orð  
Flokkur: Hugleiðingar, Bænalífið

„Og hann gjörði þar ekki mörg kraftaverk sökum vantrúar þeirra“ (Mt 13. 58)

Fyrirsögnin hér að ofan er komin úr guðspjalli dagsins (3. ágúst). Þar er greint frá því að Jesú predikaði í samkunduhúsinu í ættborg sinni. Og menn undruðust speki hans og vald jafnframt því sem þeir trúðu honum ekki. Svo er enn í dag. Við getum sagt að nú sé það kirkjan sem sé ættborg Jesú og að menn þekki til tilvistar hans, en trúi ekki á orð hans og boðskap. Þetta er sökum stærilætis hjartna þeirra sem er uppspretta allra synda og afneitunar á Guði. Orðið synd þýðir sundrung, að sundra samfélaginu við Guð og þar með Jesú sem er Guð. Og sjálfur sagði hann: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu“ (Mt 28. 18).

Einn þáttur í þessu valdi hans er að fyrirgefa syndir og hann fól kirkju sinni þetta vald á hendur: Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni“ (Mt 18. 18). Þetta er skriftavaldið sem kaþólskir prestar hafa til að fyrirgefa syndirnar í skriftum. Ef skriftabarnið meðtekur „fyrsta orðið“ sem kemur af vörum skriftaföðurins eins og það sé komið frá Guði sjálfum, liggur vilji hans ljóst fyrir.

Read more »

31.07.07

  07:37:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1197 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Svar til Grétars Einarssonar.

Ég tel nú útséð um að Grétar Einarsson rökstyðji ummæli þau sem hann hafði um páfa þegar hann komst svo að orði „að mér þykir ásjóna páfa vera sem helgríma karlægrar hómófóbískrar gagnkynhneigðarrembu.“ Ekki svo að skilja að ég vænti þess. Án þess að þekkja til téðs Grétars er ljóst af ummælum hans að hann tilheyrir þeim hópi fólks sem grípur til digurmæla, án þess að sýna þá lágmarks háttvísi að rökstyðja mál sitt eða færa fyrir því rök. Þannig hefur þessi hópur fólks farið „hátt“ á bloggsíðum með slíkum orðhengilshætti. Því er gleðilegt að sjá að hópur þeirra bloggara sem heldur uppi vörnum fyrir kristindóminn fer ört vaxandi. Þetta bendir eindregið í þá átt að kristnu fólki í landinu blöskri þetta atferli. Í reynd er framkoma þessa fólks í samhljóðan við hið svokallaða „Lúkasarmál“ þar sem móðursýki og hópsefjun réð ferðinni.

Read more »

29.07.07

  10:16:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 997 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um helgrímu dauðamenningar veraldarhyggjunnar og sannleika Orðs Guðs

Aðsent bréf Grétars Einarssonar hér að neðan krefst nánari umfjöllunar. Í uppafi segir hann: „Þetta er nú alveg hárrétt; að þrenninguna á að skrifa með stórum staf,“ sem hann skrifar síðan með litlum staf!!! Hann segir síðan: „Þá verð ég að viðurkenna að mér þykir ásjóna páfa vera sem helgríma karlægrar hómófóbískrar gagnkynhneigðarrembu.“ Ég vænti þess að hann rökstyðji þessa afstöðu sína nánar, ef taka á hann alvarlega. Vafalaust höfum við félagarnir nú þegar svarað þessum fullyrðingum að stórum hluta hér á Kirkjunetinu.

Read more »

22.05.07

  16:14:56, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1997 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Eldur sannleikans og Kjalnesingagoðinn

Það er mikið skrafað á Íslandi í dag, svo mikið, að við getum kallað fjölmiðlamenninguna skrafskjóðumenningu. Einn ávöxtur hennar var borinn á borð fyrir landsmenn á Rúv 2 fyrir tveimur dögum í síðdegisþættinum (eftir kaffitímann). Þetta var viðtal við Jóhönnu Harðardóttir Kjalnesingagoða. Þar lofsöng hún hin heiðnu goð, einkum Þór, vegna þess að hann veitir henni svo mikinn styrk í erilsömu starfi sem blaðamaður! Hún tók fram að fyrir nokkrum árum síðan hefði hún hugað á djáknanám, reynt að lesa Biblíuna, en hún hefði verið henni sem lokuð bók. Hins vegar hefði hún fundið hinn sanna kærleika í ásatrúnni fornu, en ekki í Hvíta-Kristi. Tja, það er nú svo.

Read more »

12.05.07

  06:51:14, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1048 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

„Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður.“

Í dag er runninn upp kjördagur. Nú gefst okkur öllum gott tækifæri til að bera krossi Krists vitni: Öllum þeim sem á annað borð telja sig kristna. Mín eigin afstaða liggur ljós fyrir, afstaða sem ég hef endurtekið hvað eftir annað hér á kirkju.net og geri enn og aftur: Sem kristinn maður get ég ekki veitt þeim stjórnmálaflokkum brautargengi sem fótumtroða kristna mannhelgi í reynd, þrátt fyrir allan fagurgala um annað. Það eru verkin sem tala á kjördag og bera sjálfum sér vitni.

Í hugleiðingunni sem fylgir með guðspjalli dagsins er gripið til orða þeirra sem Jóhannes Páll II páfi viðhafði hinn 7. maí árið 2000 á Samkirkjulegri minningarathöfn um votta trúarinnar á tuttugustu öldinni.

Read more »

03.05.07

  08:43:57, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 761 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Ég, vinur minn og bíllinn

Ég og vinur minn er um afar einhuga menn í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Þannig veittum við því athygli fyrir um það bil 12 árum að bíll var á bílastæðinu hjá okkur sem fór ekki í gang. Við tókum þegar að ræða það okkar á milli að óhjákvæmilegt væri að koma honum aftur í gang. Þar sem við erum afar yfirvegaðir menn tókum við þegar að velta því fyrir okkur hvernig best væri staðið að þessu (að ýta bílnum í gang aftur). Þetta höfum við gert reglulega síðan og einnig notið aðstoðar ráðhollra manna hvað áhrærir framkvæmdina vegna þess að flan er aldrei til fagnaðar.

Í sannleika sagt hefur afar einarður hópur manna og kvenna slegist í lið með okkur sem styður okkur með ráðum og dáð. Úr þessu hafa í reynd myndast stjórnmálasamtök með listabókstafnum X-BD (Byrjum að drífa í þessu). Þannig sjáum við það í hendi okkar að brátt muni líða að því að bílnum verður (ef til vill) ýtt í gang.

Read more »

01.05.07

  09:11:11, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 598 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Eiginmaður Maríu, smiðurinn.

Leó páfi XIII komst svo að orði: „Jósef sem átti ættir sínar að rekja til konunga, varð eitt með henni sem er heilögust allra kvenna í hjónabandinu. En þessi útvaldi faðir Guðsonarins varði öllu sínu lífi til að vinna og með iðjusemi sinni og hæfileikum aflaði hann viðurværis fyrir fjölskyldu sína.“ [1] „Starf handverksmannsins er fjarri því að vera lítilsiglt heldur andhverfa þessa þegar það helst i hendur við dyggðirnar og þá verður það göfgandi.“ [2] Jesús, Guðsonurinn, og sjálfur Guð vildi að litið yrði á sig og hugsað um sig sem handverksmann og gekk enn lengra: „Hann vék sér ekki undan því að stunda handverksiðju mestan hluta lífs síns.“ [3] Sögðu þeir ekki, samferðamenn hans hér á jörðinni: „Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu?“ (Mk 6. 3). Og enn og aftur spurðu þeir: „Hvaðan kemur honum þá öll þessi speki? „Hver er sú speki, sem honum er gefin, og þau kraftaverk, sem gjörast fyrir hendur hans?“ (Mk 6. 2).

Read more »

26.04.07

  07:21:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 425 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Athugasemdir við skrif Kristins Hauks Guðnasonar sagnfræðings.

Maður nokkur er nefndur Kristinn Haukur Guðnason og er sagnfræðingur að mennt. Hann er ekki alveg ókunnur okkur hér á Kirkjunetinu vegna þess að fyrir nokkrum misserum skrifaði hann hér á vefsíðunni og þá svo stóryrtur og með guðlasti, að lokað var á hann. Hann fór geyst á Moggablogginu í einni hinna ágætu greina Jóns Vals Jenssonar: Giftingartillaga 41 prests gengur gegn kristinni kenningu. Ég ætlaði mér alltaf að svara rangfærslum hans þar, en vannst ekki tími til þess áður en tímamörkin til athugasemda runnu út.

Read more »

22.04.07

  11:51:06, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1003 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Hinn algildi sannleikur – kærleiki elskunnar

Kristin trú er opinberunartrú og það var Drottinn Jesús sem opinberaði okkur eðli Guðs Föður fyrir tvö þúsund árum sem elsku. Það er elskan sem er hinn algildi sannleikur, eða með orðum Jóhannesar guðspjallamanns:

Þér elskaðir, elskum hver annan, því að kærleikurinn er frá Guði kominn, og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð. Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur. Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent Einkason sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann. Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi Son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.

Þér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef vér elskum hver annan, þá er Guð stöðugur í oss og kærleikur hans er fullkomnaður í oss. Vér þekkjum, að vér erum stöðugir í honum og hann í oss, af því að hann hefur gefið oss af sínum Anda. Vér höfum séð og vitnum, að Faðirinn hefur sent Soninn til að vera Frelsari heimsins. Hver sem játar, að Jesús sé Guðs Sonur, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Vér þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á oss, og trúum á hann.

Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. Með því er kærleikurinn orðinn fullkominn hjá oss, að vér höfum djörfung á degi dómsins, því að vér erum í þessum heimi eins og hann er. Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn felur í sér hegningu, en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.

Vér elskum, því að hann elskaði oss að fyrra bragði. Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ og hatar bróður sinn, sá er lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn“ (1Jh 7-21).

Read more »

21.04.07

  08:48:09, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 721 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Bjargið alda, borgin mín

Því ber að fagna hvernig forráðamenn bloggsíðu Morgunblaðsins hafa brugðist við vaxandi ágangi nafnlausra níðskrifara, skrifum einstaklinga sem „þora“ ekki að koma fram undur réttu nafni og vega að fólki og samtökum með níðskrifum sínum. Einnig er ljóst að sumir þessara níðskrifara grípa til fleiri nafna en eins í taumlausu hatri sínu á mönnum og málefnum.

Eitt eiga margir þeirra sameiginlegt: Hamslaust hatur á kristindóminum og kirkjunni. Sumir þeirra hafa sér það til afsökunar að vera nýheiðingjar sem eru alls fáfróðir um málefni kirkjunnar. Iðulega er átakanlegt að sjá hvernig þeir opinbera þessa fáfræði sína og því leita þeir skjóls í nafnleyndinni svo að þeim verði ekki núið slíkt um nasir.

Read more »

19.04.07

  09:31:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 964 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um kveifska menn, arga og sannleikann

Nú má sjá ávexti afkristnunnar þjóðarinnar á bloggsíðunum á netinu. Þetta er annarrar kynslóðar nýheiðingjar sem aldir eru upp af foreldrunum af fyrstu kynslóð guðsafneitunarinnar. Þetta eru einstaklingar sem hafa flosnað svo gjörsamlega upp úr arfleifð sinni að kristindómurinn er þeim framandi, ef ekki með öllu ókunnur. Þetta lýsir sér meðal annars í orðbragði þessa fólks þar sem blótsyrðin vella fram af sama þunga og stórflóð lýsingarorða auglýsingastóriðju neyslusamfélagsins. Í hugum kristinna manna er þetta einungis enn önnur staðfestingin á orðum Frelsarans:

Read more »

10.04.07

  08:45:33, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1491 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Um kirkju Krists og veraldarhyggjuna

Drottinn er upprisinn og krossfesti dauðann á Fórnarhæð krossins með því að úthella sínu eigin blóði til að frelsa okkur undan valdi dauðans. Þetta er kjarni friðþægingarinnar og boðunar kirkjunnar frá upphafi vegferðar hennar á jörðinni: SJÁLFUR LEYNDARDÓMUR PÁSKANNA!

Eitt sinn sagði vinur minn – kaþólskur prestur sem nú er genginn inn í fögnuð dýrðarinnar: „Jón, það er ekki alltaf auðvelt að boða kross Krists, þann kross sem við meðtókum fyrir 2000 árum. Það er ekki ávallt auðvelt að boða nútímamanninum kross Krists!“ Hann mælti þessi orð af reynslu úr boðunarstarfi sínu.

Read more »

15.03.07

  10:45:29, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1289 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Mylla Guðs malar hægt en örugglega

Kristindómurinn er opinberunartrú: Hann trúir á opinberun Guðs á vettvangi sögunnar. Smám saman opinberar Guð sig mönnunum með fyllri hætti, fyrst í Gamla sáttmálanum í hinu sýnilega ríki Ísrael á jörðu og endanlega í hinni endanlegu opinberun Guðs í Jesú Kristi í holdtekju sinni í hinu nýja og andlega Ísrael: Kirkjunni. Gamla testamentið opinberar okkur speki Guðs í lögmálinu sem við getum nú skilið með andlegum hætti í KRISTSLJÓSINU. Það er að þessum leyndardómi sem Orígenes (185-253) víkur að í hugleiðingunni sem fylgir með guðspjalli dagsins í dag, þriðja fimmtudaginn í mikluföstu þann 15. mars.

Read more »

1 3