Öxi´ og jörðu eftirlátið
eldrautt þá var blóð.
Minningu um merka feðga
man vor frjálsa þjóð.
Biskupi var kær sín kirkja,
kær sem land og trú.
Fann í vanda frelsi Íslands
frelsishetja sú.
Ártíð þessi á oss minnir
afbrot framið mest.
Iðrun synda, sátt og mildi
sakir læknar best.
Þar er hjálpin þörfin mikla,
þá sem einnig nú.
Lifir kristin kirkja fyrir
kærleik, von og trú.
Þetta eru 2. og lokaerindið (4.) í ljóðinu 7. nóvember 1550 eftir herra Pétur Sigurgeirsson. Það birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins 4. nóvember 2000, á kristnihátíðarárinu. Pétur heitinn biskup var norðanmaður eins og Jón biskup Arason, blessaðrar minningar.
Mjög athyglisverður var Skáldatími, þáttur Péturs Gunnarssonar rithöfundar, á Rás 1 í kvöld. Afar fróðlegur var hann um fiskveiðar Frakka í norðurhöfum og hvernig hinum mikla fjölda sjómanna þeirra hér við land var nauðsyn á tvenns konar liðsinni í landi: læknis- eða sjúkrahúsþjónustu og prestsþjónustu, fyrir utan aðstoð björgunarsveita bænda og annarra við Suðurlandið þegar skútur þeirra strönduðu og þeir komust nauðuglega af.
Pétur fjallar framan af um skrif tveggja rithöfunda um mál Franzmanna hér við land, Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness, en síðan um erfiðar lífsaðstæður sjómannanna um borð og byggir þar ekki sízt á franskri skáldsögu, mjög vinsælli á 19. öld, Pecheur d'Islande, eftir Pierre Lothi. Vincent van Gogh og Paul Gaugain þekktu þá skáldsögu, og van Gogh hafði áhuga á að gera myndefni eftir sögunni ...
Illt er í efni að islamstrú sé í vaxandi mæli notuð sem átylla og "réttlæting" mannvíga og verstu glæpa. Þetta gerist nú í stórum stíl á vegum Boko Haram-hreyfingar öfgamanna í Nígeríu og víðar, nú síðast með stórfelldri slátrun í þorpi einu, einnig milli hópa múslima í Mið-Austurlöndum og í morð-árásum og aftöku ISIS-manna á kristnu fólki og jazídum í Írak, en einn nýjasti atburðurinn er árásin á starfsmenn Charlie Hebdo-skopblaðsins í París, þar sem 12 lágu eftir í valnum og um fimm aðrir saklausir í eftirmálum þessa í gær, auk margra særðra. Ódæðisverkin voru fjármögnuð af al-Qaída í Jemen.
Sumir leiðtogar múslima hafa fordæmt þessar árásir, og er mikilvægt, að sem flestir múslimar aðgreini sig algerlega frá slíkum grimmdarverkum gegn saklausum. Þeir, sem réttlæta þau, verðskulda ekki að fá að njóta óskertra borgararéttinda hér á Vesturlöndum.
,,Það verður auðveldara að svífa til himna ef vasarnir eru ekki fullir af gulli" (séra Frans van Hooff – dæmi um alvörugefna fyndni hans!).
Einn var sá kaþólskur prestur hér á landi, hógvær og af hjarta lítillátur, sem nánast ekkert bar á nema fyrir tilviljun nánast þegar hann var að berjast fyrir hugsjón sinni, en sá var Frans van Hooff, þjónandi prestur á Akureyri og síðar í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði (d. 4. maí 1995 í Jerúsalem, 77 ára). Hann vann það kraftaverk að senda marga stærðarinnar gáma fulla af fötum og skóm (en einnig eldhúsáhöldum, reiðhjólum, verkfærum og ritvélum, m.a.) til þurfandi fólks í Póllandi, Afríku og Rússlandi. Sjá um fatasöfnun hans t.d. tilkynningu hans í Velvakanda 20. sept. 1988 hér, og HÉR! er afar falleg grein um hann eftir Karmelsystur á prestsvígsluafmæli hans 25.7. 1992. Stutt æviágrip hans er hér, og þetta eru minningarorð um hann eftir Jón Ágústsson og önnur og ennþá fróðlegri minningargrein í Mbl. 29. júlí 1995, hún er eftir Ragnar Geir Brynjólfsson á Selfossi, ritstjóra þessa Kirkjunets, og loks er hér falleg hugleiðing eftir sr. Frans á Kirkjunetinu: María og Eva.
Greinilega vann séra Frans í sama anda og núverandi páfi, Franz I, og báðir líkja þeir með sínum hætti eftir andanum í lífsverki heilags Franz frá Assisi.
Væri nú ekki full þörf á því, að kaþólska kirkjan á Íslandi beitti sér sérstaklega fyrir matarsöfnun vegna hins hræðilega ástands í Sýrlandi, þar sem konur jafnvel selja sig til að fá handfylli af hrísgrjónum til að börn þeirra verði ekki hungurmorða? Um það fjallar þessi hörmulega AFP-frétt á Mbl.is fyrir þremur dögum: Hungrað fólk selur sig fyrir bolla af grjónum.
Ákveðin hefur verið minningarstund um píslarvotta trúarinnar, Jón biskup Arason og syni hans Ara og Björn, sem hálshöggnir voru við Skálholtskirkju 7. nóvember 1550. Athöfnin er í fullri samvinnu við vígslubiskupinn í Skálholti, herra Kristján Val Ingólfsson. Eru menn hvattir til að mæta, en rúta verður útveguð til ferðarinnar, og verður nánar sagt frá þessu hér bráðlega.
Eftir hámessu í dag hélt Gunnar Eyjólfsson fallegt ávarp í safnaðarheimilinu, þar sem hann minntist þeirra feðga eftirminnilega og sagði frá einni slíkri pílagrímsferð að þeim helgistað, þar sem blóði þeirra var úthellt af þjónum konungsins danska. Gunnar hefur lengi verið hvatamaður þess, að kaþólska kirkjan taki biskup Jón í tölu heilagra. Og svo sannarlega eru full rök til þess.
Benedikt 16. páfi hefur kosið að láta af störfum eftir um 8 ára styrka leiðsögn kirkjunnar, enda er hann á 86. aldursári, og heilsu hans hefur hrakað. Falleg var sú virðingarfulla biskupsmessa sem haldin var í Kristskirkju í Landakoti í gær, að viðstöddum flestum prestum kaþólsku kirkjunnar hér á landi.
Farsæll hefur páfinn verið í samskiptum við bæði orþódoxu kirkjuna, Gyðinga og múslima og staðið trúan vörð um kaþólska kenningu. Var frá upphafi vitað, að hér var um einn mesta guðfræðing kirkjunnar að ræða, langsamlega afkastamesta rithöfund allra páfa sögunnar og vitmann flestum öðrum fremur. Ekki hlífði það honum við gagnrýni veraldar- og lausungarhyggjumanna, en kaþólska kirkjan er á bjargi byggð og fyrirheitum Frelsarans, ekki á tízkuvindum hverrar samtíðar.
Í messunni í gær, rétt eins og á fjölmennri helgistund við Péturstogið í Róm í dag, var beðið fyrir hinum fráfarandi páfa Benedikt og fyrir því, að nýr eftirmaður hans megi verða kirkjunni til blessunar.
Þessi grein birtist í Morgunbl. 4. jan. 2001. Orðhvöss er hún, einkum framan af. Það skýrist af herskáum anda í blaðaskrifum um Þjóðkirkjuna og kristna trú árið 2000, er greinin var rituð; upp hafði því safnazt "réttlát gremja" hjá höf. þessarar greinar. Þótt í lófa lagið væri að lina hér tóninn, eins og betra hefði verið í upphafi, er ótrúverðugt að láta þetta líta neitt öðruvísi út en það gerði, þegar það birtist fyrir ellefu árum. Því er greinin hér óbreytt. –JVJ.
Tilhæfulausar ásakanir á hendur kristindómi og kirkju eru orðnar næsta algengur lestur á síðum þessa blaðs á kristnihátíðarári. Þegar um þverbak keyrir, er ekki auðvelt að leggja frá sér blaðið, hristandi hausinn yfir fáfræði náungans, en umbera allt í nafni málfrelsis. Rennur mér blóðið til skyldunnar þar sem ég nam guðfræði og miðaldafræði við háskóla heima og heiman og get ekki endalaust horft upp á sögufalsanir manna sem hafa það mark og mið að gera aðra jafnfordómafulla og þeir eru sjálfir.
Togstreitu milli fjárframlaga til kirkna og til fátækramála verður oft vart. En rétt eins og menn geta sannarlega eytt fé sínu til áhugamála, félagasamtaka, íþróttaiðkunar, menningarmála og uppbyggingar á slíkum vettvangi – oft jafnvel af skattfé allra, þannig er ekkert fremur hægt að amast við frjálsum framlögum manna til byggingar dómkirkju eins og til dæmis þessarar nýendurreistu í Izhevsk í Udmurtíu austur við Úralfjöll. Kirkjuhúsin eru til þess að halda utan um hina trúuðu og iðkun trúar, þar nærist hún, tjáir sig og byggist upp til að geta gefið af sér, fyrst í fjölskyldunni, en einnig út til náungans.
Á nýliðnum degi messaði Benedikt XVI. páfi í hinni fornfrægu borg Santiago de Compostela á NV-Spáni, en milljónir pílagríma sóttu dómkirkju heilags Jakobs þar heim á miðöldum og hafa gert allar aldir síðan. Páfinn bað þar Evrópu að taka sér stöðu með Guði.
„Benedicto" og „Viva el Papa", kalla þúsundir manna, sem næturlangt hafa beðið komu hans til Barcelona, höfuðborgar Katalóníu á Austur-Spáni.
John Henry Newman, einn merkasti hugsuður og rithöfundur kirkjunnar á 19. öld, maður sem háði fræga andlega baráttu og yfirgaf ensku biskupakirkjuna til að gerast kaþólskur, hefur nú loksins verið tekinn í tölu blessaðra (e. beatified). Það gerðist í Birmingham, þar sem hann starfaði lengi, og Benedikt páfi 16. gegndi hér sjálfur aðalhlutverki. Við munum segja nánar frá þessum atburði bráðlega.
24. júlí 1896: "Nunnur komu til landsins, í fyrsta skipti síðan fyrir siðaskipti. Þær voru fjórar og settust hér að til að annast hjúkrun og vitja sjúkra. Þetta var upphaf starfs St. Jósefssystra í Reykjavík og Hafnarfirði."
Þetta gerðist 22. júlí 1929: "Landakotskirkja í Reykjavík var vígð með mikilli viðhöfn, en það gerði Vilhjálmur van Rossum kardínáli og sérlegur sendimaður Píusar páfa.
Fagnaðarefni er, að Ólafur Haukur Árnason, sagnfræði- og latínunemi, hyggst deila með okkur þekkingu sinni og rannsóknum á útbreiðslu kristninnar í Asíu, allt til Kyrrahafs og Indlandshafs og lengst inn í Mið-Asíu, ekki nú á dögum, heldur strax í fornöld og á miðöldum. Þar kemur bæði kaþólska kirkjan, sú orþódoxa og ýmsar frávikskirkjur, einkum Nestoringa, við sögu.
Það er mörgum eins og óvænt opinberun að lesa um þróttmikið starf kirkjunnar í Asíu langt fram á miðaldir, en þarna var vagga kristindómsins, við Miðjarðarhafið. Þaðan breiddist hún ört út austur á bóginn, með ótrúlegum árangri, meðan okkar "gamla Evrópa" var lengi vel að miklu leyti heiðin nema í suðlægustu löndum, á Spáni, Suður-Gallíu, Ítalíu og Grikklandi eða réttara sagt austrómverska keisaradæminu.
Fyrirlesturinn hefst kl. 20, mánudaginn 9. marz, að Hávallagötu 16, í safnaðarheimili kaþólsku kirkjunnar. Kaffihlé verður og veitingar og öllum frjálst að bera fram fyrirspurnir og leggja þar sitt til málanna.
Ólafur Haukur Árnason á mjög góða grein um þetta efni: 'Róm og Bagdad: Kristin trú í Asíu á tímum mongólska heimsveldisins', í nýútkomnu hefti af Merki krossins, tímariti kaþólsku kirkjunnar, en þrátt fyrir nafn þeirrar greinar spannar hún í raun yfir miklu víðtækara svið í tíma og rúmi, frá fornöld og til trúboðsferða kaþólskra manna á miðöldum.
Ólafur hefur á ýmsum vettvangi sýnt sig að vera efnilegur ...
Undarlegur er lesturinn í Morgunblaði þessa sunnudags, en þangað hefur bergmálið borizt af málflutningi nokkurra veraldarhyggju-fjölmiðla. Nú er Karl Blöndal ritstjóri mjög vandaður penni og treystir ekki að óreyndu fjölmiðlum eins og Der Spiegel og International Herald Tribune, en ætti að gera sér grein fyrir því, að meirihluti vestrænnar blaðamannastéttar tekur afar tortryggna og ekki ósjaldan neikvæða afstöðu gagnvart páfadæminu og jafnvel hinni kaþólsku kirkju.
Grein Karls: 'Býsnavetur Benedikts', geldur þess, að heimildir hans eru einhliða og illa upplýstar um kaþólska kenningarhefð. Því hefur honum missýnzt í þessu efni og veitzt erfitt að láta hinn gagnrýnda Benedikt páfa njóta sannmælis og viðurkenningar sakleysis síns gagnvart ásökunum sumra Gyðinga vegna fáránlegrar afstöðu eins biskups til fjöldamorðanna á Gyðingum á valdatíma nazismans.
Ásökunarefnin á hendur páfanum í þessari grein, sem og ályktanirnar, eru í senn þyngri og léttferðugri en svo, að við þeim verði þagað. Því má vænta hér meiri skrifa um málið.
Sagnfræðiprófessorinn Jonathan Clark á makalaust afhjúpandi, skýra og skemmtilega grein í nýjasta Spectator. 'The West denies its religious roots' nefnist hún. Hvet ég alla enskumælandi til að lesa hana – hún opinberar þann hráskinnaleik, þann undarlega selskapsleik sem Vesturlandamenn – einnig við Íslendingar – hafa leikið í marga áratugi : flóttann frá því að viðurkenna rætur okkar, sem við stöndum þó á, fælnina frá því að ræða saman um trú okkar, feluleikinn um undirstöðuhugsun kristinnar trúar.
Eftirfarandi grein birtist í Lesbók Morgunblaðsins 7. okt. sl. Vert er að hafa hana aðgengilega hér á Kirkjunetinu, enda tengist hún öðru efni á þessu vefsetri, og hér geta menn nú rætt efni hennar í athugasemdum. –JVJ.
"Þegar æsingurinn í kringum Benedikt páfa og islam fór að hjaðna, áttaði fólk sig á því, að páfinn hafði verið grátt leikinn, orð hans tekin úr samhengi og viðbrögðin viljandi mögnuð upp." Svo segir í nýlegri frétt Páfagarðs (Zenit.org). Í fyrirlestri sínum við háskólann í Regensburg var páfinn í raun að hvetja til samræðna og rökræðu um trúarbrögð í stað þess að útiloka þau frá alvarlegri umræðu, eins og oft á sér stað í samtíð okkar, þar sem trúnni á Guð er vísað á afmarkaðan bás ætlaðan vissum menningarafkima sem að öðru leyti sé lokaður frá menningu og samfélagi Vesturlandaþjóða. Átti menn sig á þessu samhengi páfaræðunnar, "hafa fylgismenn vantrúarinnar í samtíð okkar miklu meiri ástæðu til að gremjast páfanum en nokkrir aðrir.
Ríkisstjórnin tilkynnti í hádeginu 10. nóv., að hún hyggist leggja 100 milljónir króna í íslenzkukennslu útlendinga og nýbúa á næsta ári. Þetta er þó allt of lítið.[1] Ég hafði áður lagt til á annarri vefsíðu, að ríkisframlög til þessara mála yrðu tuttugufölduð. En hver eru framlög ríkisins til íslenzkukennslu útlendinga á þessu ári? Hugsið fyrst út í þetta: Hve miklu eyðum við í menntamál? Sumir sjá jafnvel ofsjónum yfir því, að við leggjum peninga í að kenna útlendingum íslenzku! Hvað ætli það séu margir tugir milljarða, sem íslenzka skólakerfið fær í sinn hlut? En á þessu ári eyðir ríkið einungis 18,8 milljónum í það að kenna útlendingum íslenzku! [2]
Grein mín, Rétt og rangt í máli Manúels í Miklagarði, birtist á baksíðu Lesbókar Morgunblaðsins í dag (á að vera aðgengileg, a.m.k. áskrifendum, gegnum blálituðu línuna). Fjallar hún um hinn sögulega og trúarlega bakgrunn þeirra umræðna, sem fram hafa farið eftir hinn umdeilda háskólafyrirlestur Benedikts páfa í Regensburg í liðnum mánuði. Ég vek einnig athygli á vefgreininni '2. Vatíkanþingið um islamstrú' (sjá athugasemdadálkinn hér til hægri), sem ég vísa í raun til í nefndri grein minni. Síðar mun ég birta hér á Kirkjunetinu ýtarlegar heimildatilvísanir og athugasemdir við Lesbókargrein mína, en velkomið er mönnum að ræða efni hennar hér á eftir.
Páfagarður hefur fyrir nokkrum dögum ítrekað orð 2. Vatíkanþingsins (1962–1965) sem lúta að trú múslima og virðingu fyrir henni, þ.e. í kirkjusamþykktunum Lumen Gentium og einkum í Nostra ætate.
Í 16. grein samþykktarinnar Lumen Gentium* (sem fjallar að mestu um kristna kirkju) segir, eftir að rætt hefur verið um kristna menn og Gyðinga:
"En hjálpræðisáætlun [Guðs] felur einnig í sér þá, sem játa trú á Skaparann. Í fremsta sæti meðal þeirra eru múslimir, sem lýsa því yfir að þeir hafi trú Abrahams og dýrka einn og miskunnsaman Guð, sem á efsta degi muni dæma mannkynið."
Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu á páskadag, 11. apríl 2004. Hún er að sjálfsögðu ekki ‘frétt’ tveimur árum seinna, og ekki greinir hún frá lyktum mála í þeim efnum sem hún fjallar um, né heldur núverandi ástandi. Engu að síður á þessi pistill, með fróðleiksmolum sínum, hér heima innan um greinar í möppunni 'Trúarbrögð í innbyrðis samskiptum og við veröldina'.
Viðhorfsgrein Kristjáns G. Arngrímssonar í Mbl. 31. marz 2004 um nýja löggjöf í Frakklandi var mjög upplýsandi. Því er ekki svo farið, sem margir hafa ímyndað sér, að verið sé að banna að bera islamskar slæður opinberlega, nei, ekki einu sinni í frönskum skólum almennt, heldur einungis í ríkisreknum barna- og unglingaskólum. Þar hafa múslimskar stúlkur flestar kosið að vera slæðulausar, en ofsatrúarmenn beitt þær móðgunum og líkamsmeiðingum til að þvinga þær til að bera slæðuna sem tákn trúar og undirgefni ....
Grein birt í Morgunblaðinu 12. febrúar 2006
Göran Persson, forsætisráðherra Svía, sýndi hyggindi og gætni fyrir hönd þjóðar sinnar með því að kalla sendiherra múslimaríkja til fundar við sig, lýsa velvild sinni og virðingu og þvo hendur Svía af strákapörum danska Jótlandspóstsins og kristna blaðsins Magazinet í Noregi. Þetta gerði hann á sama tíma og hægrimaðurinn óvarkári Anders Fogh Rasmussen neitaði að þiggja boð sendiherra sömu ríkja um fund til að ræða málið – "tjáningarfrelsið" væri ekki til umræðu! En Anders ætti ekki einungis að halda fund, heldur láta í snatri semja frumvarp til laga sem banni heimskuleg uppátæki sem ögra trúartilfinningu margra múslima – hvað sem "hefðum okkar í skopmyndagerð" líður.
Í Silfri Egils á Stöð 2 í dag endaði þátturinn á athyglisverðu viðtali við Hjört J. Guðmundsson sagnfræðinema, sem hefur kynnt sér einkar vel málefni Islams í nútímanum, t.a.m. í Hollandi, Bretlandi og Danmörku. Var frammistaða hans með ágætum, hann var málefnalegur og sterkur á svellinu í heimildavinnslu sinni. Í hverju því atriði, þar sem hann tók djúpt í árinni og kom mönnum kannski á óvart með því að teikna upp alvarlegri stöðu mála en margir hafa talið hér ríkja eða standa fyrir dyrum, studdi hann það vel staðreyndum og rökum í undangenginni kynningu sinni á ástandinu, t.d. í Hollandi. Sjálfur telur hann öfgamenn meðal múslima í Evrópu í allmiklum minnihluta, en að róttækir, andlegir leiðtogar þeirra (ímamar) hafi þar mikil áhrif og að það sé í alvöru raunhæfur möguleiki, að þeim takist að framkvæma það, sem þeir ætla sér, þ.e. að ná afgerandi sterkri valdastöðu í Evrópu, ef ekki verður spyrnt við fótum . . . .
samkvæmt tyrkneskum sjónvarpsfréttum um þann sem liggur undir grun
ANKARA, Tyrklandi, 7. febr. 2006 (Zenit.org). – Táningur, sem ákærður er fyrir drápið á ítölskum trúboðspresti, hefur viðurkennt í yfirheyrslum hjá lögreglunni að nýbirtar skopmyndir af Múhameð hafi verið ástæðan fyrir gjörðum hans, segir í fregn tyrknesku sjónvarpsstöðvarinnar NTV.
Pilturinn, sem er aðeins 16 ára, var handtekinn í sambandi við morðið á séra Andrea Santoro, sextugum presti, sunnudaginn 5. febrúar, í hafnarborginni Trabzon [hinni fornfrægu Trabizont] við Svartahaf. Presturinn var á bæn í sóknarkirkju sinni, þegar hann var skotinn.
Síðustu athugasemdir