Flokkur: "Hin heilaga arfleifð"

Blaðsíður: 1 2

17.08.06

  15:49:10, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 242 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Fögur messa

Meðan það er mér enn í fersku minni langar mig að greina ykkur frá því að kaþólsk messa var haldin í samkomusalnum á níundu hæð í Hátúni 10 (einu húsa Öryrkjabandalagsins) s. l. mánudag, kl. 4 síðdegis. Það var faðir Jakob Rolland sem söng messuna. Salurinn var fullur af fólki og messan markar upphaf vetrarstarfs Kærleikssystra móðir Teresu frá Kalkútta. Í vetur munu þær verða með tómstundastarf fyrir húsfélagið síðdegis á mánudögum.

Hápunktur messunnar fannst mér vera þegar misjafnlega mikið bæklað fólk gekk með fórnargjafirnar upp að altarinu til föður Jakobs. Fullorðinn maður langt leiddur af mænusigð bar þannig vínið og sjaldan hef ég séð svo barnslega gleði lýsa með jafn áþreifanlegum hætti af ásjónu nokkurs manns. Það er einnig gleðilegt til þess að hugsa hversu djúpan samhljóm kaþólska kirkjan á í hjörtum Íslendinga. Rétt eins og gamall heimilisvinur sem brá sér í langt ferðalag, en er nú kominn aftur heim: Ecclesia nostra, Mater dulcifer!

Að messunni lokinni buðu Teresusystur messugestum í kvöldmat sem þær framreíddu sjálfar af mikilli elsku. Sannast sagna minnti þetta mig sjálfan á máltíðir frumkristinna manna; Ubi caritas, ibi Deus est. Fyrirhugað er að halda slíkar messur einu sinni í mánuði á vetri komandi síðdegis á mánudögum.

09.08.06

  09:45:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 550 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um stríð og frið

„Einn þeirra, sem með Jesú voru, greip til sverðs og brá því, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað. Jesús sagði við hann: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla“ (Mt 26. 51-52). Hér opinberar Jesús okkur andlegt lögmál blóðhefndarinnar: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn! Það er þetta sem Benedikt páfi XVI áminnir hina trúuðu á með tilmælum sínum um að biðja fyrir friði í Líbanon og Ísrael. Að biðja fyrir friði og taka einn dag til yfirbóta. Þér öðlist ekki vegna þess að þér biðjið ekki segir Jesús. Mikil speki býr því að baki þessara orða hins heilaga föður.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

21.07.06

  21:15:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 117 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Glæsileg biskupsmessa í Skálholti

Var að koma úr messunni í Skálholti í dag sem var afar tilkomumikil og kirkjan þéttskipuð fólki, bæði kaþólskum og lúterskum. Vil vekja athygli á merkisritlingi um Ísleif biskup Gissurarson sem kom út í tilefni dagsins og tekið saman af Skúla Sæland. Skúli hefur verið afar vandvirkur við samning verksins. Í reynd er þetta fyrsta sérritið sem gefið hefur verið út um Ísleif biskup. Hér er farið yfir sögu Ísleifs samkvæmt heimildum sem til eru um hann auk þess sem leitað er er fanga hjá helstu fræðimönnum sem hafa fjallað um hann. Einnig er tæpt á helstu álitamálum sem upp hafa komið varðandi lífshlaup hans.

12.06.06

  09:02:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 375 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Áminning hl. Ágústínusar (354-430) til vantrúarmanna

„Þeir munu Guð sjá“

Við viljum sjá Guð, við leitum hans og þráum ákaft að sjá hann. Hver er það sem þráir þetta ekki? En takið eftir því sem guðspjallið segir: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.“ Gerið það sem nauðsynlegt er til að sjá hann. Ef við líkjum þessu við eitthvað úr raunheiminum, hvernig getur þú þráð að íhuga sólina ef auga þitt er sjúkt? Ef augu þín eru heilbrigð veitir birta hennar þér mikla gleði, en ef þau eru sjúk veldur þetta þér sársauka. Þér mun vissulega ekki gefast að sjá það í óhreinleika hjartans sem sést einungis í hreinu hjarta. Þér verður vísað frá og úr fjarlægð muntu ekki sjá.

Hversu iðulega blessaði Drottinn ekki fólkið? Hvaða ástæðu tilgreindi hann sem býr eilífri sælu að baki, hvaða góðverk, hvaða náðargjafir, hvaða verðskuldun, hvaða endurgjald? Ekkert annað sæluboðanna segir: „Þeir munu Guð sjá.“ Þetta er það sem hin greina frá: „Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki; ; sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa; sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða; sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir heilagleikanum, því að þeir munu saddir verða. Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.“ Ekkert þeirra segir því: Þeir munu Guð sjá.“

Þeim sem eru hjartahreinir er gefið fyrirheit um að sjá Guð. Þetta er ekki að ástæðulausu vegna þess að þau augu sem sjá Guð eru augu hjartans. Þetta eru þau augu sem Páll postuli vék að þegar hann sagði: „Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar“ (Ef 1. 18). Sökum þess að þessi augu eru sjúk á núverandi tímaskeiði upplýsast þau í trú. Síðar munu þau njóta guðdómlegs ásæis vegna þess að þau hafa styrkst . . . „Nú sjáum vér sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá auglitis til auglitis“ (1 Kor 3. 12). ( Hugleiðing 53).

SJÁ VEFRIT KARMELS: RITNINGARLESTUR DAGSINS

20.05.06

  12:49:50, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1952 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um kaþólskar fyrirbænir samkvæmt hinni heilögu arfleifð

Þetta eru inngangsorðin í verkinu „Hl. Fílómena blóðvottur – Litli katakompudýrlingurinn“ og sjá má á Vefrit Karmels.

Grundvöllur kenningar kirkjunnar þegar leitað er fyrirbæna hinna heilögu er fólginn í kenningunni um samfélag hinna heilögu. Samfélag hina heilögu felst í hinum trúföstu á himnum, á jörðu og í hreinsunareldinum sem mynda í heild hinn leyndardómsfulla líkama Krists sem er höfuð hans. Öll sú umhyggja sem lýtur að einum hópnum er umhyggja hinna og allir hjálpa öllum. Við hér á jörðinni með því að ákalla hina heilögu á himnum og biðja fyrir sálunum í hreinsunareldinum og hinir heilögu á himnum með því að biðja fyrir okkur. Ekki er unnt að orða hina kaþólsku kenningu betur en hl. Jeróme (331-420) gerði:

Ef postularnir og píslarvottarnir báðu fyrir öðrum meðan þeir voru enn í líkamanum, hversu miklu fremur munu þeir þá ekki gera það eftir að þeir hafa verðið krýndir kórónu sigurlaunanna! Einn maður, Móse, ávann 600.000 mönnum fyrirgefningar Guðs og Stefán, sem líkti eftir Drottni og var fyrsti píslarvotturinn í Kristi bað Guð um að fyrirgefa ofsækjendum sínum. Mun máttur þeirra verða minni nú þegar þeir dvelja með Kristi? Páll postuli segir að 216 sálir sem sigldu með honum hafi verið gefnar honum. Eftir að hann hvarf héðan til að lifa með Kristi lokar hann þá vörunum og segir ekki eitt aukatekið orð til handa þeim sem trúðu predikun hans um alla heimsbyggðina? (Contra Vigilant, P. G. XXIII, 344). [1]

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

25.03.06

  10:47:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 563 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Guð mun vel fyrir sjá

Í barnslegu trúartrausti sínu trúði sóknarpresturinn í Ars [1] á forsjá Guðs í öllum efnum. Enginn gerði sér ljóst hvernig hann fór að því, en hann rak stórt heimili fyrir munaðarlausar stúlkur, alls 60. Og vitaskuld nefndi hann þennan griðarstað sinn „La Providance“ (Forsjónina).

Árið 1829 var svo komið að allt kornið var því sem næst gengið til þurrðar, einungis ein handfylli korns var eftir. Þetta voru erfiðir tímar þar sem uppskeran hafði brugðist. Þeir sem höfðu séð sóknarprestinum fyrir korni voru orðnir þreyttir á kvabbinu í honum og hann veigraði sér við að fara enn einu sinni á fund þeirra. Satt best að segja var sóknarpresturinn jafnvel búinn að ganga fram af verndardýrlingum sínum með látlausum bænum sínum. Ástandið var orðið svo alvarlegt að það hvarflaði jafnvel að sóknarprestinum að senda stúlkurnar sínar á brott.

Þá datt honum allt í einu í hug að snúa sér til hl. Francis Regis sem hann bar djúpstæða lotningu fyrir. Meðan þessi heilagi maður lifði á jörðinni hafði hann hvað eftir annað séð hinum snauðu fyrir fæði með kraftaverkum, þannig að engin ástæða var til þess að ætla, að hann myndi ekki halda því áfram af himnum.

Sóknarpresturinn fór upp á kornloftið og sópaði því litla korni sem eftir var í haug, faldi helgar menjar hins heilaga manns undir korninu og lét síðan stúlkurnar sínar biðja. Að nokkrum stundum liðnum sagði hann Jeanne-Marie Chanay sem sá um eldhússtörfin og ofninn að fara upp á loft og ná í það litla sem eftir var af korninu.

Hún varð við beiðni hans, þrátt fyrir að hún gerði sér ljóst „að það væri með öllu tilgangslaust.“ Þegar hún reyndi að ljúka hurðinni upp stóð hún föst, engu var líkara en að þungt farg hvíldi á henni að innanverðu. Loksins þegar hurðin lét undan átti Jeanne-Marie erfitt með að trúa eigin augum. Kornið flæddi út og niður stigann og herbergið var fullt af korni upp í þakrjáfrið. Hún hljóp niður stigann og greindi sóknarprestinum frá því sem borið hafði að höndum.

Hann varð hálf hissa, reyndar ekki svo mjög, og sagði við litlu munaðarleysingjana sína: „Ég treysti ekki á gæsku Guðs, elsku smælingjarnir mínir og ætlaði að fara að senda ykkur í burtu. Vissulega hefur hann veitt mér ráðningu.“ Fólk sagði að kornið hefði verið óvenjulegt á litinn. Þannig fyllir trúin geymslur manna með hinni himnesku uppskeru.

GUÐ MUN VEL FYRIR SJÁ!

[1]. Fullu nafni hét hann Jean Baptiste Marie Vianney (1786-1859). Hann var fæddur í Lyonhéraðinu. Þar sem „gáfnaljósin“ sem stóðu að baki frönsku byltingarinnar höfðu bannað fólki að biðja, fór hann iðulega með foreldrum sínum í hlöðu eina til að vera við messu. Allir prestar voru í felum og þegar þeir náðust voru þeir umsvifalaust hálshöggnir. Það var þá sem Jean Baptiste litli tók þá ákvörðun að gerast prestur.

16.03.06

  21:04:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1613 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Hin stríðandi kirkja og heimurinn

Við hér á Kirkjunetinu höfum ekki farið varhluta af því orðbragði sem einkennir málflutning samkynhneigðra og stuðingsmanna þeirra. Hér er einungis tekin nokkur dæmi um slík gífuryrði: „Hreinræktuð heimska,“ „deyjandi menningarkimi,“ „forneskjuleg hirðingjahugsun,“ „trúarofstopi,“ „ómerkilegur útúrsnúningur,“ „þvælusálgreining,“ „della,“ „að skemmta skrattanum, „hommahatur,“ „óþol á samkynhneigðum,“ „ofstækismenn,“ „öfgafull, ósanngjörn og óumburðarlynd kristin trú,“ „að sverta mannorð samkynhneigðra, gera úr þeim sjúk og hættuleg skrímsli og hafna tilverurétti þeirra.“ Og heilög Ritning fer heldur ekki varhluta af þessu og boðskapur hennar dæmdur sem „réttlæting á þrælahaldi, þjóðarhreinsunum og kvennakúgun.“ Í reynd hefur atgangur þessa fámenna hóps verið slíkur á undanförnum árum að margir veigra sér við að lenda í orðaskaki við þessa menn. Í Laugarnesskólanum í gamla daga hefði Marínó kennari tekið í eyrað á þeim nemenda sinna sem gripið hefðu til slíks munnsafnaðar og leitt þá fram á gang og látið þá standa þar fram að frímínútunum.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

08.03.06

  07:53:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 733 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Abba Makaríos og skrattinn

Meðan abba Makaríos hafðist við í þeim hluta eyðimerkurinnar þar sem hann settist að (vegna þess að neðri eyðimörkin var þéttsetin bræðrum), horfði hann niður eftir veginum kvöld eitt og sá djöfulinn koma í mannslíki íklæddan línkyrtli með ótal götum og úr hverju gatanna sveiflaðist lítil krús. Og öldungurinn sagði við hann: „Hvert ert þú nú að fara, illvirki.” Og hann svaraði: „Ég er að fara til að erta bræðurna sem búa í hinu neðra.” (neðri eyðimörkinni). Og öldungurinn sagði: „Hvers vegna ertu með svona margar krúsir meðferðis?” Og hann sagði: „Ég er með einhverja huggun fyrir bræðurna og ástæðan til þess að ég ber svona margar krúsir er sú, að ef þeim geðjast ekki að einni, þá sýni ég þeim aðra. Og ef þeim gest ekki að henni sýni ég þeim enn aðra. Því fer ekki milli mála að einhver þeirra kemur að notum.”

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

06.03.06

  11:05:35, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 479 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Tók Ísland að byggjast í upphafi fimmtu aldar?

Ari fróði hefur staðfest tilvist papanna í Landnámu og minnist sérstaklega á að þeir hafi skilið eftir „bagla og bjöllur.“ Eitt höfuðeinkenni keltneskrar kristni var T krossinn sem var borinn sem stafur og bjöllur léku veigamiklu hlutverki í keltnesku helgisiðunum og voru svo að segja einkennismerki reglumeðlima.

En önnur forn og athyglisverð frásögn hefur varðveist sem virðist hafa farið fram hjá sagnfræðingum. Þetta er frásögn heilags Brendans (um 486-578) í Navigatio (Sjóferðunum). Allt trúarlíf papanna var líkt og grundvallað á 107. Davíðssálminum: „Þeir sem fóru um hafið á skipum, ráku verslun á hinum miklu vötnum, þeir hafa séð verk Drottins og dásemdir hans á djúpinu“ (v. 23, 24). Paparnir lögðu út á ókunn djúp hafsins til að finna hið fyrirheitna land. Í Navigatio greinir Brendan frá því að hann og sæmunkar hans hafi fundið eyju sem byggð var reglu íhugunarmunka. Samfélag þetta lifði undir ströngu þagnarheiti, en ábótinn rauf þagnareiðinn nægilega lengi til að greina Brendan frá því, að þeir hefðu hafist hér við í 80 ár. Allan þennan tíma höfðu þeir verið lausir við alla sjúkdóma og ekkert óhapp borið að höndum. Einn af munkum Brendans varð svo snortinn af þessari frásögn og hinu heilaga líferni papanna, að hann bað um leyfi til að ganga í samfélagið sem honum var fúslega veitt.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

03.03.06

  10:48:21, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1401 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Manngerðirnar þrjár

Í grein minni um heimspekinginn og stærðfræðinginn Blaise Pascal (Blaise Pascal og eldurinn) gaf ég hálfpartinn loforð um að fjalla um manngerðirnar þrjár í riti hans Pensées (§ 66). Þar víkur hann að dýrð holdsins, dýrð vitsmunanna og dýrð andans. Við skulum íhuga þetta örlítið nánar.

Dýrð holdsins: Þau Jón og Gunna eru fyrirmyndar hjón og lifa sátt við hlutskipti sitt. Þau vinna bæði úti og hún stundar heilsuræktina af kappi og mætir reglulega í saumaklúbb vinkvennanna þar sem þær ræða um daginn og veginn og þau hneykslismál sem eru efst á baugi hverju sinni. Fótboltinn og enska deildarkeppnin skipa öndvegissess í lífi Jóns og svo er hann heltekinn af jeppadellu. Þær eru ekki svo fáar stundirnar sem hann hefur varið í jeppann sinn og nú getur hann ekki á heilum sér setið fyrr en hann hefur eignast nýju þokuluktirnar sem komu í Bílabúð Benna í síðustu viku og kosta ekki nema fimmtíuþúsund kall. Að vísu er Gunna ekki hrifin af þessu vegna þess að þá hefur hann varið 300.000 krónum í jeppann á hálfu ári. Hún er hrædd um að þetta gæti orðið til þess að þau yrðu að slá ferðinni um páskana til Kanarí á frest. En í það heila tekið eru þau ánægð með líf sitt og verðbréfin sem þau keyptu í fyrra hafa margfaldast í verði. Grundvallarregla þeirra í lífinu er að skipta sér ekki af því sem þeim kemur ekki við. Þau hafa ekki farið í kirkju síðan hún Pálína frænka dó í fyrra og kjósa fremur að sofa út á sunnudögum.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

26.02.06

  18:17:38, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 702 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Hvernig Guð mætir stundum manninum

Eldingar virðast hafa áhrif á einhver djúp svið í sálarlífi mannsins sem stundum geta leitt til breytingar á stefnu einstaklinga í lífinu. Þannig segir sá mikli guðsþjónn Meistari Eckhart þegar hann víkur að hinum eilífa getnaði Orðsins í mannssálinni:

Ef þessi fæðing nær í raun og veru fram að ganga megnar ekkert að halda aftur af þér: Allt beinir þér til Guðs og þessarar fæðingar. Við sjáum líkingu við þetta í eldingunni. Hvað sem hún lýstur, hvort sem það sé tré, dýr eða maður, snýr sá sem á hlut að máli sér að henni með þrumugnýnum. Maður sem snýr við henni baki snýr sér samstundis við til að bera hana augum. Öll þúsunda laufblaða trésins snúa sér við til að verða vitni að þessu leiftri. Sama gegnir um alla þá þar sem þessi fæðing nær fram að ganga. Þeir snúa sér þegar í stað til þessa getnaðar af öllum mætti, jafnvel einungis með jarðneskum hætti. Já, það sem áður var til hindrunar verður nú ekkert annað en til hjálpar. Ásjóna þín snýr sér svo fullkomlega til þessa getnaðar, hvað sem þú svo kannt að sjá og heyra, að þú meðtekur ekkert annað en þennan getnað. Allir hlutir eru einfaldlega Guð og þú sérð ekkert annað en Guð í öllum hlutum. Rétt eins og sá sem horfir lengi í sólina sér ekkert annað en sólina hvað sem hann svo horfir á. Ef þetta er ekki fyrir hendi, þetta áhorf til Guðs og að sjá Guð í öllu og fjölbreytileikanum, þá hefur þú ekki enn upplifað þennan getnað.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

22.02.06

  16:50:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1180 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Álitsgjafinn (der Besserwisser)

Orðið „besserwisser“ á þýsku skírskotar til þess sem telur sig „vita“ allt betur en allir aðrir. Það þýðir einnig þann sem leitast við að þvinga „þekkingu“ sinni upp á aðra gegn vilja þeirra. Ég finn ekkert annað betra orð yfir þetta á íslensku en álitsgjafi. Samfara þessu vanþroskamerki fylgir einnig annar ágalli sem best er lýst sem athyglissýki, að láta aðra taka eftir sér í tíma og ótíma, bókstaflega að trana sér fram.

Þetta eru hvimleiðir lestir og áberandi fylgikvilli svo kallaðrar kranablaðamennsku þar sem dælan er látin ganga allan liðlangan daginn, án þess að hafa í rauninni nokkuð til málanna að leggja. Því eru álitsgjafarnir vinsælir hjá fjölmiðlum sem leggja sig fram um slíkt af því að þeir eru ávallt tiltækir. Ég verð að ljóstra hér upp dálitlu leyndarmáli sem lýsir þessu vel. Á dagblaði sem ég vann við fyrir fjölmörgum árum og heyrir nú sögunni til, var haldið úti sérstökum dálki um málefni líðandi stundar. Dálkurinn var unninn rétt fyrir útkomu blaðsins og því var tíminn oft knappur og erfitt gat reynst að ná í menn. Þannig hafði blaðið komið sér upp ákveðnum hóp slíkra álitsgjafa. Þetta kom sér vel vegna þess að það skipti ekki nokkru máli um hvað málið snérist: Álitsgjafarnir höfðu vit á öllu og jafnframt skoðun.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

20.02.06

  09:42:28, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2870 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Var Adam Biblíunnar einstaklingur eða samfélagsheild?

Ég svara þessari spurningu bæði og í ljósi heilagrar Ritningar í þessu samhengi: „Hönd Drottins kom yfir mig, og hann flutti mig burt fyrir Anda sinn og lét mig nema staðar í dalnum miðjum, en hann var fullur af beinum . . . „Mannsson, hvort munu bein þessi lifna við aftur?“ Ég svaraði: „Drottinn Guð, þú veist það!“ Þá sagði hann við mig: „Tala þú af guðmóði yfir beinum þessum og seg við þau . . . „Sjá, ég læt lífsanda í yður koma, og þér skuluð lifna við“ (Esk 37. 1, 3, 5).

Guð er sjálfum sér ætíð samkvæmur og óumbreytanlegur í ráðsályktun sinni og mætir manninum alltaf eins og hann er: SEM SAMFÉLAGSVERU. Frá upphafi hefur kirkjan skilið þessi orð sem hluta ráðsályktunar Guðs. Í þessu tilviki er okkur greint frá því að Guð muni blása nýjum lífsanda í hús Ísraels, Heilögum Anda sínum. Drottinn endurtekur þetta með sama hætti þegar hann grundvallar kirkju sína á jörðu. Fyrst blés hann lífsanda sínum í samfélagið til að skapa einingu sem er forsenda komu Heilags Anda. Síðan sjáum við hvernig þessi eining er grundvöllur komu Andans á hvítasunnunni: „Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum“ (P 1. 14).

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

19.02.06

  09:53:53, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 649 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um áreiðanleika Biblíutexta

Komið hefur í ljós þegar tímasetningar Biblíunnar eru kannaðar, að gríska Sjötíumannaþýðingin (LXX) hefur reynst standa sjálfum frumtextanum næst. Þetta er sá texti sem tilheyrir kanón kirkjunnar. Af þremur textum Sköpunarsögunnar er það svo nefndur Codex Alexandrinus eða Alexandríutexti sem er heillegastur, en hann er varðveittur í British Museum. Í honum hefur Sköpunarsaga Biblíunnar varðveist í heild ásamt Mósebókunum.

Með ítarlegum samanburði við samverska Biblíutextann og hinn masóríska texta Gyðinga kemur í ljós, að Gyðingar hafa með markvissum hætti breytt öllum tímasetningum til samræmis við trúarafstöðu sína. Allt má rekja þetta til þess tíma sem kristnir menn tóku að beina spádómsorðum Biblíunnar að Gyðingum sjálfum í frumkirkjunni. Allflestir Gyðingar trúðu því að rétt eins og maðurinn hafði verið skapaður á sjötta degi sköpunarinnar, þá myndi Messías birtast á sjötta „degi“ (1000 ár) mannkynssögunnar vegna þess að fyrir Guði er einn dagur sem þúsund ár.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

13.02.06

  11:54:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1522 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Af Tübingenmönnum og fleira

Eitt þeirra þjóðfélagsmeina sem þjakaði evrópskt samfélag síðmiðaldanna var ofvöxtur í þeirri þjóðfélagsstétt sem nefndist „aðalsmenn.“ Yfirleitt voru þeir iðjulausir með öllu og höfðu lítt annað fyrir stafni en að syngja ballöður og gæða sér á vínum og heilsteiktum grísum, milli þess sem þeir fóru um sínar heimasveitir og lömdu á búandkörlum og frömdu húsbrot. Því datt hyggnum landstjórnarmönnum það snjallræði í hug, að senda þá í „krossferð“ til að létta á áþjáninni heima fyrir.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

12.02.06

  20:22:24, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 157 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Hvernig öðruvísi?

Oft eru hvatvísar yfirlýsingar lúterskra presta dálítið broslegar. Þannig segir séra Þórhallur Heimisson: „Kaþólska kirkjan á Íslandi hefur alltaf verið öðruvísi en kirkjan á meginlandinu.“ Þetta hefur alveg farið fram hjá okkur kaþólskum. Hvernig?

Kannske á hann við einlífi presta (celibacy). Hann gerir sér augljóslega ekki grein fyrir því að kirkjan er sveigjanleg þegar á reynir. Prestum á Íslandi, Grænlandi og í harðbýlum löndum Austurlanda nær var heimilað að kvænast á miðöldum ef þeir æsktu þess. Hvers vegna? Þessi lönd voru svo harðbýl að prestar komust trauðla eða ekki af án eiginkvenna og barna og að stunda búrekstur.

Hvað áhrærir sjálfa guðfræðina. Miklu ósegjanlega var hún ekki fegurri, tærri og háleitari guðfræðin í Hómilíubókinni en þessi ósköp sem þeir eru að boða í þessum fríkirkjum í dag.

  17:56:32, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 908 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Fúlt vin á lekum belgjum

Grein sem Morgunblaðið vildi ekki birta, skrifuð 15. janúar s. l.

Það er með vaxandi undrun sem meðlimir rómversk-kaþólsku kirkjunnar og Rétttrúnaðarkirkjunnar á Íslandi hafa fylgst með umræðum þeim sem farið hafa fram um eðli og inntak hjónabands karls og konu. Hvað áhrærir ummæli herra Karls Sigurbjörnssonar biskups lútersk-evangelísku kirkjunnar um að hún þarfnist "umþóttunartíma" áður en hún taki afstöðu til "giftingar" homma og lesbía, langar mig einungis að segja þetta: Hin almenna (kaþólska)
kirkja mótaði afstöðu sína til hjónabands karls og konu fyrir tvö þúsund árum. Í samhljóðan við hana er hjónaband karls og konu eitt sakramentanna sjö og óaðskiljanlegur hluti hinnar heilögu arfleifðar. Jafnvel sjálfur páfinn í Róm og patríarkarnir í Konstantínópel og Moskvu geta ekki vikið út af arfleifðinni. Þetta er eitt þeirra náðarmeðala sem frumkirkjan þáði úr
höndum Drottins, sakramenti (leyndardómur).

Heilagleikalögin í Þriðju Mósebók eru afdráttarlaus: Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð (3 M 18. 22). Þetta er sannleikur sem endurtekinn er í fyrsta varðveitta trúfræðslukveri frumkirkjunnar, Tólfpostulakenningunni (Didache) samið um 60-120? e. Kr.: Þú skalt ekki iðka kynvillu [saurga drengi] (2. 2). Jafnframt minni ég á orð Guðs Drottins er hann mælti meðan hann dvaldist meðal okkar í holdtekju sinni á jörðu: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram (Matt 5. 17, 18).

Það kemur ekki á óvart að almenningur í landinu hafi "ruglast í ríminu" sökum iðju og eljusemi vegvilltra falsboðenda orðs Guðs: Drottinn hefur byrlað þeim sundlunaranda, svo að þeir valda því, að Egyptaland er á reiki í öllum fyrirtækjum sínum, eins og drukkinn maður reikar innan um spýju sína (Jes 19. 14). Þetta hafa þeir gert með dyggum stuðningi þeirrar forarvilpu siðleysis sem úthellt hefur verið yfir heimsbyggðina frá smiðju Satans í Hollywood undanfarna áratugi, eðjupytti blygðunarlausrar vantrúar og botnlausrar blindu gagnvart siðrænum gildum kristindómsins.

Veturinn 1906 til 1907 jókst ungbarnadauði í Vínarborg svo mjög, að læknar stóðu uppi ráðþrota. Að lokum veitti einn þeirra því athygli, að þessi banvæna sýking virtist ekki hafa nein áhrif á sængurkonur Gyðinga og nýbura þeirra. Við nánari rannsókn kom í ljós að það voru læknarnir sjálfir sem báru sýkinguna á milli sængurkvennanna. Ástæðan var sú að þeir þvoðu ekki hendur sínar og sótthreinsuðu. En samkvæmt lögmáli Móse er sængurkonum gert að dvelja í einangrun í átta daga að fæðingu barns lokinni (hreinsunardagarnir). Þannig veittu lögmálsákvæðin Gyðingakonunum og hvítvoðungunum vernd.

Við falsboðendur orðs Drottins vil ég segja þetta: Iðrist og laugið hendur ykkar í silfurtærri uppsprettu guðspjallanna. Látið af þeirri iðju ykkar að bera andlega sýkingu sundlunaranda ykkar til barna Guðs til að deyða þau eftir endurfæðingu þeirra í Drottni Jesú Kristi (þ.e. eftir skírnina).

Upphafið að hruni Sovétríkjanna mátti rekja til lítils trékross sem reistur var í borginni Novi Sad í Póllandi, sem fólk tók að safnast um. Þetta varð upphafið að Samstöðu (Solidarnosh) pólsks almennings gagnvart ógnaroki kommúnismans. Borginni Novi Sad var ætlað að verða að fyrstu fyrirmyndarborg og ímynd kommúnismans án allra kirkna.

Milljónir rússneskra karla og kvenna báru þessum sama krossi vitni með því að úthella blóði sínu í fórn píslarvættisins í útrýmingarbúðum sósíalfasismans.

Allt mátti rekja þetta til andvaraleysis umbótasinnaðra rússneskra stjórnmálamanna sem leiddi til þess að sósíalfasisminn bókstaflega "rændi" rússnesku þjóðina ávinningi stjórnarumbóta Kerenskij-stjórnarinnar og dúmunar (rússneska þingsins).

Við andvaralausa stjórnmálamenn á Íslandi vil ég segja þetta: Fjölmargir forystumanna fyrir bættri afkomu almennings á Norðurlöndum, í Englandi og Þýskalandi í upphafi tuttugustu aldar komu úr kristnum söfnuðum. Þetta voru einstaklingar sem létu hrífast af orðum Drottins í lögmálinu: Hann rekur rétt munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði (5 M 10. 18). Látið ekki afturgöngu guðsafneitunar sósíalfasismans ræna þjóðina þessari vegsemd Guðs. Ég bið lýðræðissinnaða stjórnmálamenn að hafa þetta í huga til að hefta megi þessa framsókn dauðamenningar guðsafneitunarinnar.

Í stað draumsýna hugvillna sósíalfasismans um guðlausar borgir skulum við fremur horfa til borgar Guðs eins og hún endurspeglast í mannshjartanu, eins og skáldjöfurinn og presturinn Einar Sigurðsson frá Heydölum sá hana birtast í guðsímynd kornvoðungs fyrir fjögur hundruð árum (í ljóðinu: Af stallinum Christí):

Skapaðu hjarta hreint í mér
til híbýlis er sómir þér
saurgan allri síðan ver
svo ég þér gáfur (dyggðir) færi.

Þá mun íslensku þjóðinni farnast vel í "Guð vors landi" á tuttugustu og fyrstu öldinni og njóta blessunar Guðs í ríkum mæli.

08.02.06

  10:44:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 847 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Panhagían (Hin Alhelga)

Þegar hl. Silúan frá Aþosfjalli (1866-1938) var ungur maður var hann sterkbyggður og stæðilegur. Iðulega sat hann á þorpskránni og að eigin sögn gat hann hesthúsað þremur brúsum af vodka á kvöldi, án þess að verða meint af. Að minnsta kosti taldi hann sér sjálfum trú um þetta. Svo kom hún, Panhagían, Guðsmóðirin, óvænt til hans og sagði við hann byrstri röddu: „Mér fellur það illa, Simeon (þetta var skírnarnafn hans) hvernig þú hagar þér!“

Eftir að hafa gegnt herþjónustu í lífvarðadeild tsarsins í St. Pétursborg með sóma, snéri hann heim þar sem hann dvaldist í viku með fjölskyldu sinni, áður en hann hélt til Aþosfjalls þar sem hann dvaldi alla ævi sem munkur og varð afar helgur maður.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

06.02.06

  21:27:28, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1620 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

ALLAH MEHABA (Guð er kærleikur)

Fyrir fjölmörgum árum stóð ég í bréfaskriftum við afar fjölfróðan jesúítaföður í Alexandríu í Egyptalandi. Nafn hans er Henry Boulad S. J. Jesúítarnir í Alexandríu hafa hvað eftir annað staðið í samræðum (dialog) við íslamska guðfræðinga og þekkja því trúarafstöðu þeirra vel. Þeir hafa rekið menntaskóla í nokkra áratugi í Egyptalandi. Í kristindóminum opinberar Guð sjálfan sig í mennskri mynd, staðreynd sem hljómar eins og argasta guðlast í eyrum íslamskra guðfræðinga. Þeir vara fylgjendur sína við að leggja eyra að slíku guðlasti, þessa lítillækkun á almáttugum Guði. Og múslimar fullyrða engu að síður að Guð sé kærleikur! Þetta er það sem faðir Boulad heyrði með eigin eyrum sheikinn segja við nemendur sína í morgunbænunum. Ég gef honum orðið:

Þetta er það sem ég heyri þennan morgunn á Nílarbökkum með eigin eyrum:

„ALLAH MEHABA“ (Guð er kærleikur).

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

05.02.06

  15:18:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1548 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um viðræður milli trúar, vísinda og veraldarhyggju (secularism)

Um miðjan janúar s.l. lagði Benedikt páfi XVI áherslu á viðræður milli trúar og vísinda annars vegar og veraldarhyggju (secularism) hins vegar. Mig langar þannig að víkja örlítið að viðræðum kirkjunnar og stjarneðlisfræðinnar um heimsmyndunarfræðina (cosmology). Árið 1989 var Alheimsþing stjarneðlisfræðinga þannig haldið í Vatíkaninu. Ástæðan er sú að á þessu sviði eiga kirkjan og vísindin samleið. Benedikt páfi er þannig einungis að feta í fótspor forvera síns, Jóhannes Páls páfa II. Bandaríski stjarneðlisfræðingurinn Robert Jastrow hefur komist vel að orði í þessu sambandi: „Nú sjáum við að staðreyndir stjörnufræðinnar falla að afstöðu Biblíunnar til sköpunar heimsins. . . Fjölmargir vísindamenn sætta sig ekki við að heimurinn hafi orðið til með þessum hætti. Guðfræðingar eru í hæsta máta ánægðir með þær sannanir sem leiða í ljós að alheimurinn átti sér upphaf, en stjörnufræðingarnir bregðast undarlega við. Viðbrögð þeirra varpa athyglisverðu ljósi á hina vísindalegu hugsun – sem krafist er að sé óhlutbundin – þegar staðreyndir sem vísindin sjálf hafa uppgötvað rekast á grunvallaratriði trúarjátningar okkar.“ Við getum einnig orðað þetta öðruvísi: Vantrú og guðsafneitun (atheism) er einungis ákveðið afbrigði trúar sem játar að Guð sé ekki til.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

03.02.06

  21:50:36, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1043 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Dálítið um pólitíska slagsíðu

Sumir vina minna telja að ég hafi gert mig sekan um pólitíska slagsíðu í skrifum mínum á Kirkju.net. Þeir óttast að ég sé orðinn að hægri sinnuðum öfgamanni, jafnvel falangista vegna tengsla minna við Spán. Þeir þurfa ekki að óttast slíkt. Leyfið mér að útskýra mál mitt.

Sem kaþólskur maður aðhyllist ég þá efnahagsstjórn sem Heilagur Andi boðaði frumkirkjunni: En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál, og enginn þeirra taldi neitt vera sitt, er hann átti, heldur höfðu þeir allt sameiginlegt (P 4. 32).

Þetta er sameignarstefna Heilags Anda og það guðsríki (theocracy) sem hann boðar á jörðu. Sérfræðingar Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa komist að þeirri niðurstöðu, að jörðin gæti auðveldlega brauðfætt 35-50 milljarði íbúa og engin þyrfti að líða skort: Ekkert barn þyrfti að sofna á kvöldin á svangan maga eða verða hálf vanvita sjö ára gamalt sökum skorts á eggjahvítu.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  19:57:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1625 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Vorvindar breytinga?

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, komst svo að orði s.l. sumar í fjölmiðlum: „Guðlaus kapítalismi er ekki hætis hót skárri en guðlaus kommúnismi.“ Davíð er einn af mikilhæfustu stjórnmálamönnunum á Íslandi á tuttugustu öld og verður minnst sem slíks í sögunni. Davíð var einn þeirra fágætu stjórnmálamanna sem hafði einnig „pólitískt innsæi“ til að bera. Meðal annars hafði hann horn í síðu „skriffinnanna“ í Efnahagsbandalaginu: Hann vantreysti þeim.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

  19:53:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 499 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Skaftahliðarfárið

Það var Jónas Kristjánsson sem sem varð fyrstur manna til að nota orðið „kranablaðamennska“ yfir það óráð sem þjakar strákana og stelpurnar í Skaftahlíðinni. Satt best að segja virðist Sigurður Tómasson vera sá eini í þessari aftökusveit almennrar skynsemi og dómgreindar sem haldið hefur sönsum. Mikill er munurinn á þessu hitasóttarfári og þeim vinnubrögðum sem ég kynntist í eldgamladaga þegar ég starfaði við stærsta dagblað Þýskalands. Þá störfuðu þar 3000 manns, þar af 600 blaðamenn, eða álíka mikill fjöldi eins og í Blaðamannafélagi Íslands. Vinnubrögðin voru slík, að þýsku fréttaritararnir í Kaupmannahöfn stafsettu jafnvel íslensk manna- og staðanöfn rétt. Hins vegar tel ég El Pais á Spáni bera höfuð og herðar yfir önnur evrópsk blöð síðustu tvo áratugina fyrir vandaðan og gagnrýnin fréttaflutning. Það voru einmitt þessi vönduðu vinnubrögð blaðsins sem felldu stjórn Aznars illu heilli þegar sósíalfasistarnir komust óvænt til valda í landinu (Það er ljótt að skrökva). Eins og gegndi um skoðanabræður þeirra í Sovétríkjunum sálugu, hafa þessi „frjálslyndu öfl“ hamast við það síðan að afnema kristinn rétt úr spænskri löggjöf. Hér er um skæða farsótt að ræða, eins konar afbrigði andlegrar fuglaflensu. Hinir heilögu feður nefndu þetta hins vegar andlegt bindingarvald myrkraaflanna. Ég er þeim sammála. Þetta er skæður sjúkdómur hjá 365-miðlunum. Til þess að „tolla í tískunni“ dansar svo Moggahróið með á hliðarlínunni líkt og afgamalt kerlingarhró.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

28.01.06

  13:14:57, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1835 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um kristna samstöðu

Þann 23. janúar s.l. fóru fram þingkosningar í Kanda. Úrslitin urðu þau að Frjálslyndi flokkurinn undir stjórn Paul Martins beið afhroð fyrir íhaldsflokki Harpers sem hlaut 38% atkvæða og þar með lykilstöðu í kanadískum stjórnmálum. Enginn stjórnmálaflokkur á vesturhveli jarðar hefur gengið jafn langt í „ofuréttindum“ hómósexúalistum til handa heldur en einmitt Frjálslyndi flokkurinn í Kanada. Einungis árið 2004 áður en lögin voru samþykkt bárust kanadíska þinginu mótmæli frá 75 erlendum þjóðum.

Í reynd ganga lögin svo langt að mannréttindi annarra hópa eru skert verulega sem vart samræmist vestrænu lýðræðisríki. Þetta sést best á hæstaréttardóminum gegn Chris Kempling prófessor. Hann hafði staðið fyrir undirskriftasöfnun til að standa vörð um kristin siðferðisgildi. Hann var svipur stöðu sinni sem prófessor og er nú atvinnulaus. Allir sem til þekkja gera sér ljóst, að vestanhafs er prófessor sem hrakinn er úr starfi með öllu ókleift að sækja um nýja stöðu. Í dómsniðurstöðunum má meðal annars lesa, að með hliðsjón af starfi hans og ábyrgð hafi hann hvorki rétt til að tjá sig eða njóta trúfrelsis og ef ríkisvaldið viðurkenni „réttindi“ hómósexualista beri skólakerfinu að haga uppfræðslu sinni til samræmis við ákvæði landslaga. Hér er því um beina skoðanakúgun að ræða líkt og tíðkuð var í alþýðu„lýðveldum“ sósíalfasismans.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

27.01.06

  13:11:46, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1579 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um hrun Sovétríkjanna sálugu

– einn þáttur í aðdraganda þess –

Í grein minni, Kristin samstaða, minntist ég lauslega á borgina Novi Sad í Póllandi. Mig langar að greina frá eftirfarandi svo að það verði ekki gleymskunni að bráð. Heilsu minni er þannig varið, að ég gæti þurft að hverfa heim hvenær sem er (sjá Fl 3. 20).

Margir minnast enn föður Lamberts Terstroet sem andaðist í hárri elli í Hollandi árið 2001. Færri gerðu sér grein fyrir því, að hann var einhver virtasti Maríufræðingur (Mariolog) kirkjunnar. Þetta má vafalaust rekja til lítillætis hans og ljúfmennsku. Hann starfaði um 20 ára skeið sem núnsíus Páfagarðs og ferðaðist víða um heim. Mig minnir að hann hafi sagt mér að hann hefði starfað í 67 löndum víðsvegar um heim, síðast í Australíu við skipulagsbreytingar á áströlsku biskupsumdæmunum, áður en hann kom loks til Íslands. Þetta lág svo sem alltaf fyrir honum. Sem ungur prestnemi, einungis sautján ára gamall, spurði faðir hans hann uppúr þurru: „Og hvað ætlar þú svo að gera?“ „Pabbi, við skulum snúa hnattlíkaninu þínu og ég bendi síðan á staðinn blindandi.“ Landið sem kom upp var Ísland, land sem þeir þekktu hvorugur. Ég var svo lánsamur að vera með föður Lambert í bænahópi um tíu ára skeið ásamt fleira góðu fólki. Hann greindi mér frá eftirfarandi.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

26.01.06

  11:33:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 564 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Guðfræðiprófessor á hálum ís

Drottinn sagði við Pontíus Pílatus: „Til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni“ (sjá Jh 18. 37-38). Pílatus svaraði þessu fullur efasemda: „Hvað er sannleikurinn? Ef hann hefði orðað spurninguna rétt, það er að segja ekki HVAÐ heldur HVER, þá hefði hann fengið sama svarið og Drottinn gaf elskuðum lærisveinum sínum við síðustu kvöldmáltíðina og þannig öllum heiminum: „Ég er sannleikurinn“ (Jh 14. 6).

Hálærður prófessor við Háskóla Íslands sem aðhyllist endurskoðunarguðfræði póstmódernismans uppfræddi þjóðina í Ríkisútvarpinu í s.l. vika um að þjónn rómverska hundraðshöfðingjans og hann sjálfur (Mt 8. 5-10) hefðu iðkað hómósexualisma, og þrátt fyrir það hefði Drottinn grætt þjón þess síðarnefnda! Hann vitnaði til orðsins doulos í þessu sambandi orðum sínum til vægis. Í mínum Textus Receptus af Koina texta Nýja testamentisins stendur ekki orðið doulos heldur he pais-mou. Á koinagrískunni þýðir þetta þjónn minn, sveinn minn eða þræll minn. Á koinagrískunni þýðir orðið ho doulos hins vegar ánauðugur maður eða þræll og sögnin doulóo að glata frelsinu. Ekkert er vikið að kynhneigð piltsins í guðspjallinu, en af öllu samhengi textans frá upphafi má ráða að þessi rómverski hermaður var réttlátur og sannsýnn maður. Og Drottinn talaði við hann sem slíkan. Við þurfum einungis að lesa góða gamla Tacitus til að gera okkur ljóst, að slíka heiðursmenn var einnig að finna í röðum Rómverja.

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

23.01.06

  23:24:40, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 670 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Hin Heilaga arfleifð

+Jesús, María.

Bréf til eins hinna trúföstu Krists meðal Hvítasunnumanna.

Jón Valur las upp fyrir mig bréf það sem þú sendir Jóhönnu Sigurðardóttir, alþingismanni, um inntak og eðli kærleikans eða Kristselskunnar í gegnum síma. Eins og talað úr mínu eigin hjarta!

Hin heilaga arfleifð vegur þungt í guðfræði rómversk kaþólsku sem Rétttrúnaðarkirkjunnar. Skilningskortur og afneitun mótmælenda á hinni heilögu arfleifð setur til að mynda mark sitt á alla umræðu manna um samkynhneigð á Íslandi í dag. Það er ekki einungis að Drottinn Guð boði heilagleikalög sín í Ritningunum þegar í Gamla testamentinu: „Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð“ (3 M 18. 22), sem hl. Páll endurtekur í skrifum sínum, til að mynda í Rómverjabréfinu: „Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg, og eins hafa karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars“ (Rm 1. 26. 27). Hin heilaga arfleifð endurtekur þetta með ljósum hætti í Tólfpostulakenningunni (Didache), elsta varðveitta trúfræðslukveri fornkirkjunnar (um 120). Þar má lesa: „Vegirnir eru tveir. Annar er Vegur lífsins, hinn Vegur dauðans. Þeir eiga ekkert sameiginlegt“ (1, 1). Við sjáum berlega af hversu mikilli trúfesti fornkirkjan stóð vörð um boðorð Krists: „Þú skalt ekki fremja morð, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki iðka kynvillu [saurga drengi], ekki iðka saurlifnað, rán, töfrabrögð, svartagaldur og þú skalt ekki myrða ungabörn með fóstureyðingu eða eftir fæðingu þeirra“ (2, 2).

Öll færslan - smellið hér til að lesa alla færsluna »

1 2