Flokkur: "Hin heilaga arfleifð"

Blaðsíður: 1 2

19.05.08

  21:10:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1248 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Tólfpostulakenningin sem hluti hinnar heilögu arfleifðar erfikenningar kirkjunnar

Sjá grísk-íslenskan millilínutexta (interlinear) hér samkvæmt texta Fílóþeos Brýenniós metrópólítana í Níkomedíu.

Í Trúfræðsluriti rómversk kaþólsku kirkjunnar er vikið svofelldum orðum að hinni heilögu arfleifð eða erfikenningu:

Þessi lifandi arfleifð, sem fram er komin í Heilögum Anda, er kölluð erfikenning enda aðgreinist hún frá Heilagri Ritningu þótt hún tengist henni nánum böndum. Í gegnum erfikenninguna “varðveitir kirkjan eilíflega, í kenningu sinni, lífi og tilbeiðslu, allt það sem hún sjálf er, allt það sem hún trúir og lætur það ganga að erfðum til allra kynslóða. Ummæli hinna heilögu feðra vitna um hina lífgandi nærveru þessarar erfikenningar og þau sýna fram á hvernig auðlegð hennar er úthellt í starfi og lífi kirkjunnar, í trú hennar og bænum”. (78)

Og nokkru síðar:

Erfikenningin sem hér um ræðir er komin frá postulunum og lætur hún það ganga í erfðir sem þeir námu af kenningu og breytni Jesú og það sem Heilagur Andi kenndi þeim. Fyrsta kynslóð kristinna manna hafði ekki Nýja testamentið í skriflegum búningi og er Nýja testamentið sjálft skýrt dæmi um ferli hinnar lifandi erfikenningar (83).

Read more »

15.05.08

  06:49:37, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 767 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Hin heilaga arfleifð og Ritningarnar – Sophronij arkimandríti

Í huga Silúan starets var hlýðnin óhjákvæmileg forsenda vaxtar í hinu andlega lífi. Skilningur hans á hlýðninni var samofinn afstöðu hans til hinnar heilögu arfleifðar og Orðs Guðs.

Hann leit á líf kirkjunnar sem líf í Heilögum Anda og hina heilögu arfleifð sem óaflátanlegt starf Heilags Anda í kirkjunni. Þar sem hin heilaga arfleifð felst í eðli sínu í eilífri og óaflátanlegri nærveru Heilags Anda í kirkjunni er hún jafnframt til­vistarlegur grundvöllur hennar. Þannig umvefur hin heilaga arfleifð allt líf kirkjunnar og það í svo ríkum mæli, að Ritn­ingarnar sjálfar eru eitt tjáningarforma hennar. Þetta hefur í för með sér að ef kirkjan væri svipt arfleif­ð sinni yrði hún ekki söm og áður vegna þess að boðskapur Nýja testamentisins er orð Andans „ekki skrifað með bleki, heldur með Anda lifandi Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi“ (2Kor 3. 3-6). Ef við gerðum ráð fyrir því að kirkjan glataði með einum hætti eða öðrum öllum sínum ritum: Gamla og Nýja testamentinu, verkum hinna heilögu feðra og öllum helgisiðabókum sínum, myndi hin heilaga arfleifð endurskrifa Ritningarnar, vafa­laust ekki orðrétt og með öðru tungutaki. En að meginhluta til yrði inntak hinna nýju ritninga tjáning þeirrar sömu trúar „sem heilögum hefur í eitt skipti fyrir öll verið í hendur seld“ (sjá Júd 1. 3). Þær yrðu tjáning þess sama og eina Anda sem sífellt er að starfi í kirkjunni.

Read more »

11.05.08

  07:31:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 348 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Í einingu Heilags Anda er kirkjan kaþólsk og alheimsleg – Joseph Ratzinger kardínáli (Benedikt páfi XVI)

„Vér heyrum þá tala á vorum tungum um stórmerki Guðs" (P 2. 11). Hvítasunnudagur opinberar okkur hina kaþólsku og alheimslegu kirkju. Heilagur Andi kunngerir nærveru sína með náðargjöfum tungnanna. Þannig endurnýjar hann og snýr atburðinum í Babel (1M 11) til betri vegar, þessari ytri tjáningu þeirra sem í hroka sínum vildu vera eins og Guð í sínum eigin mætti – það er að segja án Guðs – að byggja brú til himins: Babelsturninn. Slíkur hroki er tilefni deilna í heiminum og setur upp veggi aðskilnaðar. Vegna hrokans viðurkennir maðurinn einungis sinn eiginn skilning, sinn eigin vilja, sitt eigið hjarta. Afleiðingin er sú að hann er þess ekki lengur umkominn hvorki að skilja tungutak annarra fremur en að heyra raust Guðs.
Heilagur Andi, hin guðdómlega elska, skilur bæði og glæðir skilning á tungutaki annarra. Hann skapar einingu úr óeiningu. Þannig talar kirkjan allar tungur frá upphafi tilurðar sinnar. Frá upphafi er hún kaþólsk og alheimsleg. Brúin á milli himins og jarðar er sannarlega til: Þessi brú er krossinn og það er elska Drottins okkar sem hefur smíðað þessa brú. Hönnun þessarar brúar er ofar getu tækninnar: Takmark Babels verður og hlýtur að misheppnast. Einungis elska Guðs holdi klædd megnar að uppfylla slíkt takmark . . .

Read more »

12.03.08

  17:37:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 6113 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

INNGANGUR – að Prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Sjá myndir. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Það hefur vakið undrun mannfræðinga að þar sem ritlistin hefur ekki skotið rótum varðveitast munnlegar arfsagnir einstaklega vel þar sem þjálfun minnisins gegnir lykilhlutverki. Til að mynda skráðu trúboðar arfsagnir Iroquisindíána í norðanverðum Bandaríkjunum í „fríríkjum“ (relations) Jesúíta. Þegar Franz Boas rannsakaði þessar sömu arfsagnir 300 árum síðar höfðu indíánarnir varðveitt þær frá orði til orðs þrátt fyrir gjörbreytt menningarumhverfi. Sovéskir mannfræðingar komust að raun um að shamar (töfralæknar) í Miðasíu gátu þulið hindrunarlaust arfsagnir ættbálka sinna svo þúsundum skipti í bundnu máli. Ástralskir mannfræðingar hafa bent á þá staðreynd að munnlegar arfsagnir frumbyggjanna eru umgjörð um mikilvæga þætti í lífsafkomu þeirra: Hafa að geyma lífsnauðsynlegar upplýsingar um vatnsból, fjarlægðir, veiðilendur og græðandi jurtir svo að eitthvað sé nefnt. Arfsagnir frumbyggjasamfélaga gegndu þannig mikilvægu hlutverki til forna hvað laut beinlínis að sjálfri lífsafkomu þeirra og tilvist.

Read more »

17.02.08

  08:14:47, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1445 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Sjónvarpsstöðin Ómega boðar ómengaðan gyðingdóm

Nú í vikunni hefur útvarpsstöðin Ómega sent út reglulega boðskap bandarískra rabbía. Þeir grípa til hinnar hefðbundnu fölsunar Gyðinga á heilögum Ritningum sem ég hef vikið hvað eftir annað að hér í skrifum mínum á kirkju.net. Hún felst í því að í masóríska textanum hefur tímatal textans verið aðlagað gyðingdóminum til að sanna að Kristur geti ekki verið hinn „rétti“ Messías. Þessarar fölsunar tímatala gætir hvorki í Septuagintutexta kirkjunnar né í samversku Biblíunni. Samkvæmt þessari tímatalsfölsun eru 1400 ár klippt í burtu: Afmáð!

Erfitt er að sjá hvers vegna sjónvarpsstöð sem telur sig kristna gerir slíkt nema því aðeins til að „spilla boðskap Krists.“

Read more »

08.02.08

  08:19:16, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1178 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð, Tjaldbúð Móse sem forgildi heilagrar kirkju

1. Fastan: Vegur til hins sanna frelsis

SJÁ MEÐFYLGJANDI MYND

Í fyrsta hirðisbréfi sínu kemst hr. Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup svo að orði: „Og hvar er þá hina sönnu hamingju að finna? Hvar er hún? Hamingjan er auðvitað aðeins fullkomin í Paradís. En á þessari stundu bendir Jesús á sjálfan sig í guðspjalli dagsins: „Sælir eru friðflytjendur .... sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu...“ Þetta eru orð hins sama Jesú er sagði í Nasaret: „Andi Drottins er yfir mér.“ Og þessi andi er sannarlega styrkur, ljós, gleði og friður. Leitið hans því ekki annars staðar: Hann er hið innra með ykkur, í hjarta ykkar.“

Vafalaust vefst það fyrir mörgum hversu mjög fastan er samofin sæluboðum Drottins í Fjallræðunni. Þegar blessaður Guerric frá Igny (1080-1157) vék að inntaki sæluboðanna komst hann svo að orði:

Það er ljóst að allt snýst þetta um upprisu hjartans og vöxt í verðskuldun á hinum átta þrepum dyggðanna sem beina mönnum í stigvaxandi mæli frá lægsta til hæsta stigs fullkomleika Fagnaðarerindisins. Með þessum hætti munu þeir að minnsta kosti nálgast og sjá Guð guðanna á Síon (Sl 84. 8) í þessu musteri sem spámaðurinn kemst svo að orði um: „Forsalur þess var átta álnir“ (Esk 40. 37). 

Read more »

29.01.08

  10:48:47, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 864 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Einingarkirkjan á Norðurlöndunum verður reist við Östenbäckklaustrið í Svíþjóð

Um árabil hefur sænska Þjóðkirkjan staðið fyrir rekstri klausturs í Östenbäck skammt frá Stokkhólmi. Faðir Ceasarius hefur gegnt stöðu ábóta frá upphafi. Fyrir skömmu kom sænski arkitektinn Bo Svalby með líkan af væntanlegri kirkju við klaustrið. Þann 8. janúar s.l. komu síðan nokkrir leiðtogar hinna ýmsu kirkjudeilda á Norðurlöndum saman í Östenbäckklaustrinu til að fagna væntanlegum framkvæmdum. Hér er sameiginleg yfirlýsing þeirra:

Þar sem við komum hér saman um þá sýn að reisa Einingarkirkjuna við Östenbäckklaustrið viljum við nota þetta tækifæri til að tjá sameiginlegt samþykki okkar á náð klausturlífsins. Það er verk Anda Guðs meðal okkar og víðsvegar um heiminn að glæða margvíslegar kallanir og snúa að nýju til kirkjudeilda sem snéru baki við klaustursamfélaginu fyrir hart nær 500 árum síðan.

Það er með gleði sem við játum opinberlega mikilvægi þess klausturs sem biskupar sænsku kirkjunnar ákváðu að stofna fyrir 18 árum. Hér snýst málið fyrst og fremst um hina andlegu íhugun. Líf í hjarta Guðs er grundvallarforsenda trúverðugs kristins vitnisburðar í heiminum. Það er frá hjartanu sem blóðið streymir. Með sama hætti miðlar klausturhreyfingin lífi til hinna ýmsu lima hennar með óaflátanlegri bæn. Köllunin til klausturlifnaðar hefur spásagnargildi. Með því að benda á veginn til hins ferska vatns glæða samfélögin lífsafstöðu þegar sérdrægni neysluhyggjunnar leiðir til einstaklingsbundinna fjötra og upplausnar mennskra samskipta.

Read more »

10.01.08

  09:27:54, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 856 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um skyldur og ábyrgð kaþólskra útgefenda og þýðenda í löndum mótmælenda

Skyldur og ábyrgð kaþólskra útgefenda og þýðenda í þeim löndum þar sem mótmælendur eru ríkjandi er mikil vegna þess að allt verður að vega og meta í ljósi hinnar heilögu arfleifðar kirkjunnar. Rétt eins og gilti um kommúnistaríkin fyrrum er hugtakafölsun veraldarhyggjunnar afar víðtæk í kirkjulegum skilningi. Við skulum taka sem dæmi orðið lýðræði sem kommúnistar gáfu nýtt merkingarinntak: Orðið „alþýðulýðveldi“ sem í reynd fól í sér einræði flokksins.

Hið sama má segja um veraldarhyggjuna (secularism) sem er í engri samhljóðan við afstöðu kirkjunnar. Við skulum taka orðið „guð“ sem dæmi. Samkvæmt skilgreiningum málvísindamanna veraldarhyggjunnar er orðið „guð“ samheiti sem skrifa ber með litlum staf og þetta er það sem við sjáum einmitt í fjölmiðlum í dag. Hryggilegt er að sjá hvernig mótmælendur hafa látið undan veraldarhyggjunni í þessum efnum í útgáfustarfsemi sinni.

Read more »

08.01.08

  09:48:27, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1957 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Evkaristían er ein og algjör: Líkami Krists í einingu Heilags Anda

Evkaristía kirkjunnar – sakramenti elskunnar – er ein og algjör, allur algjörleiki Krists sem Guðs og manns. Hún er brauð lífsins sem nærir alheimslegt samfélag kirkjunnar. Út frá kaþólsku sjónarhorni felur orðið „þjóðkirkja“ í sér þversögn. Fyrir siðaskiptin var rómversk kaþólska kirkjan á Íslandi hluti hins alþjóðlega samfélags kirkjunnar. Þetta blasir meðal annars við sjónum í fornleifauppgreftrinum á Skriðuklaustri. Þar fundu hinir sjúku og umkomulausu sér friðarathvarf: Líknarheimili (hospicio). Það var rekið á sama grundvelli og sambærilegar stofnanir á meginlandinu. Sama gilti um alla Guðs kristni. Til að mynda hafði verið rekið 600 manna líknarheimili í bænum Maldon í Essex á Englandi. Öll lagðist þessi starfsemi niður á þeim svæðum þar sem áhrifa mótmælenda urðu ríkjandi. Konungsvaldið sölsaði undir sig eigur kirkjunnar og slíkur rekstur var ekki „arðbær“ að mati lénsmanna konungsvaldsins.

Read more »

03.12.07

  06:57:03, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 85 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – stutt athugasemd

Ég vil vekja athygli lesenda á því að fyrstu þrjár greinarnar (kaflarnir) í Prestkonungum Adamskynslóðarinnar hafa verið auknar og endurbættar bæði hvað varðar textann og myndræna framsetningu.

Meðan á verkinu hefur staðið hef ég safnað að mér miklum upplýsingum um efnið og mun þannig endurskoða hverja greinina (kaflann) eftir aðra.

Nú er Inngangurinn að verkin – síðbúinn – loksins kominn á kirkju.net!

JRJ.

TENGILL Á INNGANGINN
TENGILL Á FYRSTU GREININA
TENGILL Á AÐRA GREININA
TENGILL Á ÞRIÐJU GREININA

23.11.07

  09:46:30, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 6457 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 16

16. FRÁ ÍRSKAHAFINU TIL GULAHAFSINS

Sjá myndir 16. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Hér að framan hefur verið leitast við að rekja slóð prestkonunga Adamskynslóðarinnar frá frumheimkynnum þeirra í Gan Eden (grein 1). Í grein 2 er vikið að fjórverutákninu sem var samofið „me“ eða endurspeglun hins guðdómlega réttlætis á jörðu í uppljómun erkienglanna. Í grein 3 var fjallað um það hvernig nafn Guðs breiddist út um hið semíska málsvæði og í grein 4 um þá frumtrú sem ríkjandi var á meðal frumbyggjasamfélaga um allan heim til forna. Í grein 5 er athyglinni beint að fráfallinu frá Guði og enn frekar í grein 6 með hinum blóðugu barnafórnum Kanaaníta. Í greinum 7 og 8 er fjallað um þá eingyðistrú sem prestkonungarnir báru með sér til Fornegyptalands og í grein 9 frá helgisiðahring þeim sem kenndur er við Enok spámann og var samofinn konungsvaldinu og velferð hins mennska samfélags í Austurlöndum nær.

Read more »

08.11.07

  08:44:43, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 6602 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 15

15. DYSJARNAR OG STEINHRINGARNIR Í EVRÓPU OG REITASKIPTING LANDS

Sjá myndir 15. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans.

Ég bið lesandann að hverfa nú með mér 4800 ár aftur í tímann í huganum eða til ársins 2800 f. Kr. Litli drengurinn sem vakti yfir geitahjörðinni í fjallinu fyrir ofan þorpið sitt á suðurströnd Spánar skammt vestan Almería nútímans, varð furðu lostinn þegar hann skreið undan skinninu í morgunkulinu og leit til hafs. Hann sá það sem aldrei hafði sést áður þar um slóðir: Flota risastórra svartra skipa sem stefndu að landi. Drengurinn var í senn undrandi og skelkaður og því hljóp hann niður í þorpið og greindi föður sínum frá því sem borið hafði honum fyrir sjónir. Faðir hans varð jafn undrandi og eftir að hafa hlustað á frásögn hans fór hann þegar í stað til öldungsins í þorpinu sem skipaði öndvegi í ráðinu og greindi honum frá skipunum ókunnu og furðulegu sem nálguðust heimaslóðir þeirra. Sjálft stóð þorpið í um 250 metra hæð yfir sjávarmáli því að enn var fólki í fersku minni flóðið mikla sem komið hafði óvænt og hrifið mér sér allt sem var á vegi þess. Öldungarnir sögðu að það hefði verið sökum þess að hinn Æðsti hefði fyllst bræði vegna synda mannanna. Öldungaráðið var þegar í stað kvatt saman með því að blása í gjallarhornið og ákveðið í skyndi að gera út sendinefnd valinkunnra manna til að kanna málið enn frekar. Þegar þeir nálguðust flæðarmálið höfðu sum skipanna þegar náð landi og skipverjarnir kepptust við að draga þau á þurrt land. Eitt skipanna var sýnu stærst og í stafni þess mátti sjá fugl sem sendimennirnir sáu þegar í stað að var fálki.

Read more »

30.10.07

  11:01:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 4277 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 14

SÚLA ENOKS SPÁMANNS OG VIKNASPÁDÓMUR

Sjá myndir 14. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans.

Árið 1012 f. Kr. barst Akhenaten faraó í Egyptalandi eftirfarandi bréf frá Abimilku konungi í Týros: „Til konungsins, sólar minnar, guðs míns, guða minna. Boð Abimilku, þjóns yðar . . . Höllin í Ugarít varð eldi að bráð eða [fremur] helmingur hennar er horfin. [1] Af einskærri heppni sem er afar fágæt innan fornleifafræðinnar fannst brunasviðin fleygrúnatafla í litlu hliðarherbergi við inngang hallarinnar í Ugarít sem nefnd hefur verið KTU-1.78. Hún er úr svo nefndu „Vestrabókasafni“ og má nú sjá í fornleifasafninu í Damaskus. Mynd 14.1

Á framhlið hennar má lesa eftirfarandi orð:

Á nýju tungli í Hiyyaru var dagurinn hafður að háði er sólar (gyðjan) settist með Rashap að hliðverði sínum.

Á bakhlið töflunnar má lesa varnaðarorð musterisprests sem varar við því að mikil ógæfa muni steðji að Ugarít eftir að lömbum var fórnað og lifrin úr þeim skoðuð:

Tvær lifrar skoðaðar: Hætta!

Read more »

24.10.07

  10:33:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 8157 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 13

UM HEILÖG FJÖLL OG PÝRAMÍDA.

Sjá myndir 13. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Í síðustu grein var fjallað um hinn súmerska Meskiagkashker eða Kús Biblíunnar og son Kams sem „hvarf til sjávar og komst til fjallanna.“ Hér er átt við Súdan og Eþíópíu og allt fram á 5. öld e. Kr. héldu afkomendur hans áfram að reisa pýramída í grafarborgum sínum. Annar sona Kams eða Pút hélt til Líbýu [1], sá þriðji til Kanaanslands og sá fjórði eða Mísraím (1M 10. 6) til Egyptalands. Enn í dag nefnist Egyptaland Al Masr á arabísku. Nafnið er dregið af fornegypsku forsetningunni „m“ eða frá og a-s-r eru aser eða æsirnir, sheptiu eða hinir öldnu. Hér er um viðurnefni að ræða sem þýðir frá eða „tilheyrir aser.“ Á konungslista prestsins Manaþeó í Bók Síríusar er Mísraím talin vera fyrsti faraó Egyptalands sem einnig er nefndur Men.es (bókstaflega hin smurða kóróna á súmersku). Hebreska nafnið er þannig m-isr með fleirtöluendingunni „im“ eða fylgjendur „isr.“ Assýringar sem töluðu einnig semískt mál nefndu Egyptaland Mushri. Þannig sjáum við að Masr (arabíska), Misr (hebreska) og Musri (akkadíska) er viðurnefni fyrsta her-ur konungsins í Egyptalandi, þess sem lét draga sefskipin frá Rauðahafinu til Nílar og vikið var að hér að framan. Í akkadísku er endingin „i“ jafngildi forsetningarinnar „af“ (af Musr).

Read more »

13.10.07

  09:54:26, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 7478 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 12

BORG SHEPTIU (HINNA ÖLDNU), EYJA HINNA BLESSUÐU OG GRAFARHAUGAR ÁRFEÐRANNA.

Þegar hinn merki málvísindamaður Max Müller leitaðist við að kanna frumgerð og þróun hins indóevrópska samfélags sem varð til í Zagros og Elbrusfjöllunum og dreifðist þaðan út til til Mesopótamíu, Indlands og um Evrópu, þá gerði hann sér lista yfir margvísleg lykilorð líkt og„plógur;“ „hjól;“ „hús;“ „járn;“ „brons;“ „naut;“ „geit;“ „hestur“ og „vagn“ svo að dæmi sé tekið. Þannig leitaðist hann við að rekja þróun samfélagsgerðarinnar í ljósi málssögunnar. Ef við grípum til sömu aðferðarfræðinnar hvað áhrærir trúarafstöðu Súmera má kynnast ýmsum þáttum hennar.

Read more »

04.10.07

  14:49:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 8739 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 11

ORKUSNERTINGAR VINDA ELDS OG LOFGJÖRÐAR

Ég hef kosið að nefna prestkonunga Adamskynslóðarinnar Syni réttlætissólarinnar og það ekki að ástæðulausu. Í hugarheimi eingyðistrúarinnar var það sólin sem var hin sýnilega mynd hins ósýnilega Guðs. Á tímum árfeðra Biblíunnar hafði Guð ekki enn opinberað hina endanlegu mynd sína á jörðu eða með orðum hl. Péturs Chrysológusar (406-450):

Elskan getur ekki sætt sig við að sjá ekki takmark elsku sinnar. Er það ekki sannleikanum samkvæmt hvað varðar öll hin heilögu, að þau mátu allt lítils sem þau öðluðust meðan þau gátu ekki séð Guð? . . . Þetta er það sem Móses hafði hugrekki til að segja: „Lát mig þá sjá dýrð þína!“ (2M 33. 18). Og sálmaskáldið segir: „Guð, snú oss til þín aftur og lát ásjónu þína lýsa“ (Sl 80. 4). Er þetta ekki ástæðan sem bjó því að baki að heiðingjarnir gerðu sér skurðgoð? Í villu sinni sáu þeir það með augum sínum sem þeir tilbáðu. Guð þekkti dauðlega menn sem voru sárþjakaðir af þrá eftir að sjá sig. Það sem hann kaus til að gera sig sýnilegan var mikið á jörðu ekki síður en á himnum vegna þess að það sem Guð samlíkti sjálfum sér við á jörðu getur ekki verið án vegsemdar á himnum: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss“ (1M 1. 26) . . . Megi því enginn hugsa sem svo að Guði hafi skjátlast þegar hann kom til mannanna sem maður. Hann holdgaðist meðal okkar svo að við gætum séð hann. [1]

Read more »

02.10.07

  09:18:10, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 6578 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 10

MÓTUNARSKEIÐ NÝRRAR HEIMSMYNDUNARFRÆÐI Í SAMHLJÓMAN VIÐ BOÐSKAP PRESTKONUNGA ADAMSKYNSLÓÐARINNAR

Margir minnast þess að hafa séð kort miðaldamanna af heiminum, líkt og kort Þjóðverjans Heinrichs Bünting sem birtist í „Itinerarium Sacrae Scripturae: Die gantze Welt in ein Kleberblatt.“ Hér er það heimsmyndunarfræðin sem ræður ferðinni í stað vísindalegrar hugsunar varpana (projections). Hér er það Jerúsalem sem er heimsmiðjan þar sem krossinn, tré lífsins, skipar öndvegið: „Stat crux, dum volvitur orbis“ (alheimurinn snýst umhverfis hinn stöðuga kross). Í Sköpunarsögu Biblíunnnar er það tré lífsins sem stóð í miðju garðsins. Tréð var miðja alls veruleika og sá heimsás sem tengir himinn og jörð. Súmerar tjáðu þetta þegar þeir sögðu dur-an-ki (himininn á jörðu). Eridu var elst slíkrar heimsmiðja þar sem kiskanutréð stóð, eins og vikið var að í síðustu grein. Mikilvægasti „nafli“ heimsins í Súmer var musterið í Nippur og í hinu allra helgasta musterisins voru töflur örlaganna eða me-töflurnar varðveittar. Súmverskir kortagerðarmenn staðsettu það því af mikilli nákvæmni líkt og starfsbræður þeirra í nútímanum. (Mynd 10. 1).

Read more »

23.09.07

  14:23:02, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 5596 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 9

HELGISIÐAHRINGUR PRESTKONUNGSINS ENOKS: BOÐSKAPUR IÐRUNAR, FYRIRGEFNINGAR OG LOFGJÖRÐAR

Í riti sínu „Traditionwanderungen: Euphrat-Rhein“ lýsir sænski samanburðartrúfræðingurinn Waldemar Liungmann því hvernig mannfórnir þróuðust með svo nefndri Amratíamenningu í Fornegyptalandi þegar hún tók að leggja stund á jarðrækt um það bil 5000 f. Kr. Fórnardýrið var vafið inn í sefhólk og síðan var höfuðið skorið af. Líkaminn var síðan limaður í sundur, kynfærunum varpað í vatn en líkamspartarnir grafnir í akurlendið. Fórn þessi fór fram í lok uppskerutímans í miðjum maímánuði, en vatn Nílar tók aftur að rísa þann 17. júní.

Read more »

18.09.07

  17:08:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 5746 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 8

BOÐSKAPUR PRESTKONUNGANNA UM MAA OG HREINLEIKA HJARTANS

Nútímamanninum hættir ávallt til að vanmeta forfeður sína. Þegar veldi kommúnista í Austurþýskalandi leið undir lok gafst fræðimönnum kostur að nýta sér tæki Stasi, leyniþjónustunnar, til vísindarannsókna. Þegar forn egypsk papýrushandrit voru könnuð með innfrárauðrum myndatökum kom í ljós, að þau höfðu verið endurnýtt. Endurvinnsla er því ekki eitthvað sem er nýkomið til sögunnar. Þá kom í ljós að upphaflega var hér um innflutningsskýrslur egypsku tollþjónustunnar að ræða. Erlendar skipakomur voru færðar af mikilli samviskusemi og það sem kom fræðimönnum á óvart var að áætlunarsiglingar að vetrarlagi voru stundaðar með reglubundnum hætti, svo reglubundnum, að nöfn sömu skipstjórnarmannanna mátti sjá sífellt endurtekin. Áður höfðu fræðimenn talið að vetrarsiglingar hefðu verið með öllu útilokaðar á þessum tíma. Sjálfur hef ég siglt í vondum veðrum í Norðuratlantashafi og við Íslandsstrendur, en í eina skiptið sem ég lenti í hafsnauð var á Miðjarðarhafinu. „Sirocco-vindurinn“ skellur á alls óvænt án þess að gera boð á undan sér og ef sæfarendur eru ekki viðbúnir steðjar mikil hætta að höndum. Í okkar tilviki voru lestar skipsins opnar í blíðviðrinu vegna þess að við höfðum verið að kalka þær.

Read more »

15.09.07

  10:27:04, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 3986 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 7

EINGYÐISTRÚIN MEÐAL FORNEGYPTA

(Sjá Myndir 7).

Eina þeirra fjölmörgu tilvísana um eingyðistrú sem finna má meðal Fornegypta má sá í fornu papýrsushandriti, svo kölluðu Pétursborgarhandriti 1116A sem Dr. Alan H. Gardiner birti eftirfarandi þýðingu á í „The Journal of Egyptian Archeology (Vol. I, bls. 34, 1920):

Guð . . . skapaði himinn og jörð . . . Hann setti ágangi vatnsins mörk og skapaði loftið til að glæða líf sem hann blés þeim í nasir. Þeir eru hans eigin ímynd og gerðir úr hans eigin holdi . . . Hann eyddi óvinum sínum og tortímdi sínum eigin börnum vegna þess að þau hugðust rísa upp gegn honum.

Í athugasemdum við þennan texta kemst Gardiner svo að orði: „Þessi texti sem skírskotar til eingyðistrúar . . . er ótvíræð tilvísun til hinnar kunnu goðsagnar um tortímingu mannsins sem hefur þannig borist okkur í hendur úr gröf Setesar I.“

Textinn skírskotar til sömu atburðarásarinnar og lesa má um í Sköpunarsögu Biblíunnar um sköpun heimsins og flóðið mikla. Hann leiðir okkur fyrir sjónir að Fornegyptum var alls ekki ókunnugt um hinn eina og sanna Guð. Það að textinn skuli finnast í gröf Setesar I faraós (1290-1279 f. Kr.) af nítjándi konungsættinni greinir okkur frá því að arfleifðin um hinn eina Guð lifði meðal Fornegypta frá upphafi vega.

Read more »

09.09.07

  09:11:31, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 3108 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 6

GOÐ KANAANÍTA OG BARNAFÓRNIRNAR

(Sjá myndir 6)

Trúarbrögðin í borginni Ebla í Sýrlandi var sambland af kanaanískum og súmerskum goðum um 2300 f. Kr. Eblabúar tilbáðu súmersku goðin Enki og Nidakul. Dagón var sérstakur verndarguð borgarinnar, en yfirguðinn El eða hinn súmerski Anú (Ea í Akkad). Kanaanísk goð eins og Baal, Hadad, Balatu og gyðjan Astarte voru áberandi, en borgarbúar tilbáðu einnig goð Húrríta. Í Úgarít eru hin kanaanísku áhrif enn meira áberandi. Ljóst er að sú sálmaarfleifð sem kemur fram á úgarísku leirtöflunum er ævaforn menningararfleifð. Leiða má af því líkum að hún hafi varðveist í munnmælum í Súmer þar til tekið var að færa hana í letur með tilkomu ritlistarinnar um 3300 f. Kr. Í Úgarít er þessari arfleifð snúið upp á hin heiðnu goð. Þegar við lesum brotið úr sálminum sem birt var í grein þrjú og gæti í fljótu bragði séð verið komin úr Davíðssálmum Biblíunnar, verður að hafa í huga er hér er verið að tilbiðja höfuðgoð borgarinnar:

Drottinn himins og jarðar,jörðin var ekki, þú skapaðir hana.Ljós dagsins var ekki, þú skapaðir það,morgunljósið sem enn var ekki skapaðir þú.

Read more »

06.09.07

  13:28:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2954 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 5

FJÖLGYÐISTRÚIN SIGRAR Í SÚMER

(Sjá einnig myndir 5)

Þegar við virðum fyrir okkur það trúarmynstur sem ríkjandi var í borginni Ebla á úttmörkum súmerska ríkisins, þá sjáum við þar greinileg ummerki bæði um svo kallaðan „henotheism“ og fjölgyðistrú. Orðið „henotheism“ er myndað úr grísku orðunum „eis“ eða frá og „enos“ eða einn. Orðið felur í sér að játa einn guð sem yfirguð auk annarra guða. Það er þetta mynstur sem við sjáum með áþreifanlegum hætti í Súmer og Akkad þegar þessi samfélög taka að þróast í átt til fjölgyðistrúar. Hér er það Anu (Súmer) og Ea (Akkad) sem eru yfirguðirnir eða höfuðguðirnir. Í upphafi var það Anu, karlguðinn, og gyðjan Ki eða jörðin sem gátu guðinn Enlil samkvæmt súmerskri goðafræði. Þeirrar þróunar gætir ávallt í landbúnaðarsamfélögum að kvenfrjósemisgyðjan komi til sögunnar. Eftir því sem samfélagið þróaðist fjölgaði goðunum sem tilheyrðu fjölskyldu guðanna og nefndir voru „anunaki (anu=himinn; na= og; ki= jörð). Það er alþekkt fyrirbrigði innan trúarbragðafræðinnar að meðal fjölgyðistrúarbragða er hinni æðstu Verund þokað smám saman til hliðar og í Súmer var hætt að líta á Anu sem Guð og hann gerður að sjálfu himinhvolfinu (og ljóst er að það gerir engar siðrænar kröfur til manna).

Read more »

05.09.07

  07:04:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 3418 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 4

FRUMTRÚIN Á HINA ÆÐSTU VERUND UM ALLAN HEIM MEÐAL FRUMBYGGJASAMFÉLAGA (NATÜRVÖLKER)

(Sjá Myndir 4)

Í fjórða og fimmta kafla Sköpunarsögunnar er okkur greint frá því hvernig málin þróuðust meðal mannkynsins á jörðinni á ákveðnum stað og tíma eða í Gan Eden. Biblían kallar hinn fallna kynstofn Adams syni Kains, en syni ljóssins afkomendur Sets. Hér er vikið að árfeðrunum tíu eða „Sarku.“ Biblían er fáorð þegar hún víkur að syni Sets eða Enos: „En Set fæddist og sonur, og nefndi hann Enos. Þá hófu menn að ákalla nafn Drottins“ (1M 4. 26). Þetta eru hinir smurðu prestkonungur sem rísa hæst með Enok (En-me-en-duranna?) sem „gekk með Guði og hvarf, af því að Guð nam hann burt“ (1M 5. 24). Þetta er fyrsta dæmið um uppnumningu í Biblíunni og við sjáum það endurtaka sig þrisvar sinnum síðar. Elía var numinn upp í „eldlegum vagni (2K 2. 11) og síðan var það Jesús. Kirkjan trúir því einnig að Guð hafi numið Maríu Guðsmóður burt. Þetta er mikilvægt vegna þess að þetta bíður allra hinna trúuðu sem virða boðorð Guðs. Biblían er ávallt markviss í boðskap sínum til mannanna barna eins og trúarkenningarnar (dogma).

Read more »

03.09.07

  09:10:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2141 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 3

3. ÚTBREIÐSLA NAFNS GUÐS FRÁ SÚMER OG AKKAD TIL SÝRLANDS
OG KANAANLANDS

Sjá myndir 3. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Þessi kafli hefur verið aukinn og endurbættur bæði hvað varðar texta og myndræna framsetningu.

Súmerar nefndu hinn hæsta Guð annað hvort „Anú“ eða „Êlû.“ [1] Fyrra heitið skírskotar til hins himneska, þess sem er á himnum eða An: Hins fremsta eða æðsta. Við rekumst auk þess á orðið í ýmsum samsettum orðum líkt og é.an.na (hús Guðs, musteri); gal.an.zu (almáttugur, alvitur); ku.li.an.na (vinur hins himneska); men.an.uras.a (kóróna himins); an.se.il (að lyfta höfði til himins); u.an.na (hið himneska ljós). Orðið „Êlû“ er sömu merkingar og við sjáum jöfnum höndum einnig orðin „el“ (skínandi), el.lû (hreinn) og el.elû (ljúfleiki). Þannig nefndu Súmerar paradísargarð Biblíunnar (1M 2. 15) annað hvort „an.ed.in“ eða „êlû-ed.in,“ hinn himneska garð. Þeir gripu einnig til orðsins din.gir sem myndað er úr „di“ (að vilja eða ætla sér) og „gar“ (að frelsa). Sjá Mynd 3. 1.

Read more »

25.08.07

  10:33:23, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2478 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 2

KYNSTOFN LJÓSSINS OG FJÓRVERUTÁKNIÐ

Sjá myndir 2. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Þessi kafli hefur verið aukinn og endurbættur bæði hvað varðar texta og myndræna framsetningu.

Í fornum kaldeiskum frásögnum af sköpun heimsins er vikið að „Zalmat-qagadi“ eða hinum fallna kynstofni sem nefndur var „Ad-mi“ eða „Ad-ami“ og „Sarku“ eða kynstofni ljóssins. Það eru þessir afkomendur Adams sem Biblían nefnir syni Sets (1M 5. 3) og ég vík að sem sonum Réttlætissólarinnar eða prestkonungum Adamskynslóðarinnar.

Við skulum beina athygli okkar að Set og afkomendum hans eða kynstofni ljóssins vegna þess að þeir skírskotar til hinna tíu prestkonungaætta sem Biblían víkur að og minnst var á hér að framan. Sem afkomendur Adamskynslóðarinnar virtu þeir það réttlæti og fyrirhugun sem Guð hafði opinberað hinum fyrsta andlega manni, Adam. Ljóst er af orðum Biblíunnar að þeir liðu fyrir syndafallið í Edensgarðinum eins og allt dauðlegt hold:

„Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann er einnig hold. Veri dagar hans 120 ár“ (1M 6. 3).

Read more »

19.08.07

  07:35:31, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 203 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Ljósið í hjörtum mannanna er eldur guðdómlegrar elsku – Denis karþúsi (1408-1471)

„Ég er kominn að varpa eldi á jörðu.“ Ég kom úr hæðum upphimnanna og í leyndardómi holdtekju minnar opinberaði ég mig mönnunum til að kveikja eld hinnar guðdómlegu elsku í mannshjörtunum. „Hversu vildi ég, að hann væri þegar kveiktur!,“ það er að segja að hann verði ríkjandi í krafti Heilags Anda og glæði ótalin kærleiksverk!? ?

Read more »

18.08.07

  09:20:45, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 5336 orð  
Flokkur: Synir Réttlætissólarinnar – Af prestkonungum Adamskynslóðarinnar

Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 1

I. UM ARATTA GAN EDEN (URAR(A)TU) EÐA PARADÍSARGARÐINN

Sjá myndir 1. Lesandanum skal bent á að best er að hlaða myndskrá á skjáborð og hafa tiltæka við lestur kaflans því að hér er um þungar pdf skrár að ræða

Þessi kafli hefur verið aukinn og endurbættur bæði hvað varðar texta og myndræna framsetningu.

Í ævafornri súmerskri frásögn sem varðveist hefur á fleygrúnatöflu og er frá því um 2900 f. Kr sem fannst í jörðu er greint frá því að prestkonungurinn Enmerkar í Úruk í Súmer gerði út sendimann til landsins Aratta á Edensléttunni sem Súmerar töldu land hamingjunnar. (Mynd 1. 1) Frásögnin nefnist „Enmerkar og konungur Aratta.“ Sendimanninum var ætlað að ná í gull og eðalsteina (lapis lazuli) til að skreyta hið nýja musteri gyðjunnar Inanna sem Enmerkar var að reisa henni til dýrðar í borginni. Aratta var staðsett hátt upp í Zagrosfjöllunum á vatnaskilum milli Evrópu, Asíu og Austurlanda nær. (Mynd 1. 2) Það er þetta sama landsvæði sem við sjáum að Biblían nefnir Araratland (2K 19. 37) þegar hún víkur að Sanheríb Assýríukonungi og örlögum hans. Vikið verður nánar að þessu síðar (í grein 16) vegna þess að nafn hans tengist þeim stað þar sem örk Nóa hafnaði eftir flóðið mikla, eða á fjallinu Judi Dagh í Kúrdistan sem evrópskir ferðalangar á miðöldum ákváðu illu heilli að kenna við annað fjall mun norðar, það er að segja fjallið Ararat í Armeníu, þvert á ríkjandi arfleifð. Fjallað verður nánar um þetta í grein 16.

Read more »

25.07.07

  07:42:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 804 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Eru konur ekki líka menn?

Svo hefur hlutast til á undanförnum árum að ég hef þurft að hafa töluverð samskipti við lúterskar konur í sambandi við útgáfustarfsemi. Þetta er tilefni spurningar minnar hér að ofan. Vissulega eru allar konur líka menn. Við erum öll sköpuð í „líkingu og mynd“ Guðs (1M 1. 26), en þetta felur í sér að öll berum við Guðsímyndina hulda hið innra eftir skírnina.

Lúterskar konur á Íslandi (og fjölmargar kaþólskar) eru helsýktar af þeim ofsafengna femínisma sem rekja má til þeirra Friedrichs Engels og frú Margrétar Sanger í Bandaríkjunum. Þetta er hugmyndafræði sem er komin beint úr herbúðum hins fallna verndarkerúba – Satans, og gengur þvert á boðskap heilagrar Ritningar.

Read more »

22.02.07

  09:06:18, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 298 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Kirkjan er brúðurin sem mynduð var úr síðusári Krists, eins og Eva var sköpuð úr síðu Adams

Þann 22. febrúar 1931 opinberaðist Jesú systur Faustínu í Plock í Póllandi. Hann var íklæddur hvítum kyrtli og hann hóf aðra hendina upp í blessunarskyni, en hinni þrýsti hann að brjósti sínu. Frá kyrtlinum streymdu tveir ljósgeislar: Annar hvítur, hinn rauður.

Systirin leit á Jesús í þögn og heyrði hann bera upp eftirfarandi bón: „Þú verður að gera málverk samkvæmt þessari fyrirmynd með áletruninni: Jesús, ég treysti þér. Í fyrstu vil ég að þessi mynd verði heiðruð í kapellu þinni og síðan um allan heiminn. Ég gef þetta fyrirheit: Það hjarta sem heiðrar þessa mynd mun ekki fyrirfarast.“

Read more »

20.11.06

  11:28:22, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 497 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Um forna kaþólska merkingu orðsins afláts

Þar sem umræðan milli okkar Jóns Vals Jenssonar snertir ekki „þráðinn“ í umfjölluninni um Vinaleiðina ákvað ég að koma athugasemdum mínum fram í sérstakri grein, en þar andmæli ég þeim skilningi sem kemur fram hjá Jóni Val um merkingu orðsins afláts. Þar sem Hómilíubókin er ein „náttborðsbóka“ minna er orðið mér afar nærtækt. Þær upplýsingar sem koma fram í Hinni íslensku samheitaorðabók [1] eru í fyllsta samræmi við forna málnotkun vil ég benda á eftirfarandi staðreyndir. Þar segir:

aflát: aflausn, fyrirgefning, lausn, sakaruppgjöf, syndafyrirgefning, syndakvittun.

Read more »

10.11.06

  10:59:45, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1600 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Austurkirkjufeðurnir stóðu vörð um Páfadóminn

Upphafið er þetta. Fyrstur kom Pétur postuli:

Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum." (Mt 20. 18-20).

Því næst kom: Heil. Linus (um 66-78).
Þar næst kom: Heil. Anacletus (um 79-91).
Næst Heil. Klement (um 91-109).

Read more »

06.11.06

  11:05:44, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 790 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Afstaða Marteins Lúters til Maríu Guðsmóður

Sökum tilmæla birti ég hér afstöðu Lúters til Maríu Guðsmóður í sérstakri grein. Þetta er lokakaflinn í 6. kaflanum um Hina þrjá myrku daga.

Við það fólk sem tilheyrir lútersk evangelísku kirkjunni á Íslandi og les þessa umfjöllun vil ég einungis segja þetta: Margir trúbræðra ykkar og systra eru orðin miklu lúterskari en sjálfur Marteinn Lúter var nokkru sinni. Við skulum nú rifja upp nokkur ummæla hans um Maríu Guðsmóður. Lúter sagði meðal annars þetta:

„Hún er full náðar og réttilega sögð vera að öllu leyti án syndar . . . Náð Guðs fyllir hana allri gæsku og eyðir allri illsku úr henni . . . Guð er með henni sem felur í sér að allt sem hún gerði eða á eftir að gera er guðdómlegt og áhrif Guðs í henni. Auk þess vakti Guð yfir henni og verndaði hana gegn öllu sem gat unnið henni tjón.“ [1]

Read more »

06.10.06

  07:30:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 500 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

„Sá sem á yður hlýðir, hlýðir á mig, og sá sem yður hafnar, hafnar mér.“

Upphafið er þetta. Fyrstur kom Pétur postuli:

Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum." (Mt 20. 18-20).

Því næst kom: Heil. Linus (um 66-78).
Þar næst kom: Heil. Anacletus (um 79-91).
Næst Heil. Klement (um 91-109).

Síðan komu 260 aðrir og sá síðasti Benedikt páfi XVI. Hann er sá 264 sem skipar sæti Péturs. Þversumma tölunnar 264 er 12 og margfeldið með tölunni 5 sama og 72. Engu er líkara en að Andinn segi okkur með þessu að hann sé réttur maður á réttum stað og tíma. Þó að ljósengill kæmi af himni ofan með miklum mætti og undrum og segði með þrumuraust að öllum heiminum áheyrandi: „Ég ber þau boð frá þeim Hæsta að hann vilji nú að afgönsk kona sem játar Íslam verði páfi, þá yrði svar hins alheimslega biskuparáðs: „Þetta fær ekki staðist, þetta stríðir gegn hinni heilögu arfleifð erfikenninganna.“

Sumir spyrja: „Hver er heilög arfleifð erfikenninganna? Hún felst í miðlun, kenningum, helgisiðum, Ritningum og lífi kirkjunnar. Í framkvæmd felst arfleifðin í uppfræðslu, lífi, helgiþjónustu og tilbeiðslu kirkjunnar þegar sannleika þess raunveruleika sem Kristur og Andinn létu postulunum í té er miðlað frá einni kynslóðinni til annarrar. [1]

Allir sem risið hafa upp gegn hinni heilögu arfleifð hafa annað hvort gert það sökum innblásturs anda sem þeir töldu arfleifðinni æðri eða með því að lesa Ritningarnar með sínum eiginn skilningi án þess að lesa þær í ljósi arfleifðarinnar.

Þrátt fyrir að allir kynslífsfræðingar nútímans og öll veraldleg stjörnvöld segðu að kynlíf fólks af sama kyni sé rétt, æskilegt og lögmætt, þá hafnar kirkjan því í ljósi arfleifðarinnar vegna þess að í samhljóðan við hana er hér um synd að ræða.

Þegar sumir segja að kristnir menn eigi ekki að játa syndir sínar, iðrast og biðja Guð fyrirgefningar sökum þess að þeir hinir sömu hafa misboðið Guði gróflega, þá segir kirkjan í ljósi arfleifðarinnar að þeir gangi á vegi heljar.

Stundum hafa þær stundir komið að einstakir limir kirkjunnar hafa brotið gegn hinni heilögu arfleifð. Þá hafa hinir trúföstu innan hennar ákallað miskunnsaman Guð um hjálp. Og sá sem kom í heiminn til að afmá syndir heimsins hefur þá lotið niður til hennar í miskunn sinni og blásið iðrunaranda siðbótarinnar henni í brjóst. Þannig endurnýjast samfélag kirkjunnar sífellt sökum þess Heilaga Anda sem Drottinn gaf henni við upphaf vegferðar hennar á jörðu.

[1]. Encyclopedia of Catholicism, HarperSanFrancisco 1985, bls. 1261.

20.08.06

  10:04:13, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2469 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Meira um Evkaristíuna

Í dag, sunnudaginn 20. ágúst, er það evkaristían sem er predikun kirkjunnar. Ég vék að henni þann 16. ágúst s. l. í greininni: „Vald kirkjunnar á jörðu – skriftavaldið.“ Þetta vald fól Kristur kirkju sinni í hendur með orðunum: „Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni,“ Þetta er úr textanum í Mt 18. 15-20 þar sem Kristur fjallar um þetta vald hinnar postulegu arfleifðar. Það grundvallast á hlýðni við BOÐORÐ Krists. Þeim sem afneitar þessari hlýðni við boðorðin er ekki heimilað að meðtaka Evkaristíuna vegna þess að sá hinn sami vill ekki játa synd (ir) sínar og segja skilið við fyrri breytni sína.

Read more »

18.08.06

  19:06:33, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 483 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Spádómur heil. Nilosar (dáinn 12. nóvember 1651), einsetumanns á Aþosfjalli

Þýtt úr tímaritinu „The Logos Magazine,“ 1972, bls. 7 – „Klerkastéttin gengur öðru fólki lengra í guðsafneitun sinni.“ (spádómur heil. Cosmas Aitolos, 18. öld).

Frá og með árinu 1900 til miðbiks 20. aldarinnar verður fólk á þessum tímum óþekkjanlegt. Þegar tími komu Antíkrists nálgast myrkvast hugir fólks vegna holdlegra ástríðna og siðleysið og óréttlætið aukast að mun. Heimurinn verður óþekkjanlegur. Útlit fólks mun breytast og útilokað verður að þekkja karlmenn frá kvenfólki sökum blygðunarleysis í klæðaburði og hártísku. Þetta fólk verður miskunnarlaust og eins og villidýr sökum freistinga Antíkrists.

Read more »

1 2