Tíu umhverfisboðorð kristninnar.
RÓM, 12. nóv. 2004 (Zenit.org). Mannkynið er kallað til ábyrgðarfullrar umsjónar með sköpuninni. Þetta var eitt af því sem kom fram á ráðstefnunni „Siðfræði og umhverfið“ sem hófst í Evrópska háskólanum í Róm á mánudaginn var. Séra Scarafoni, rektor háskólans útskýrði að hin kristna sýn á umsjónarhlutverk mannsins væri grundvölluð á þeim skilningi að maðurinn væri frjáls og viti borin vera, kölluð til þróunar hins skapaða heims.
„Þessu má ekki rugla saman við sigurglaða sýn á mannlegt ástand og athafnir, sem tilheyrir vísindalegri og hugmyndafræðilegri afstöðu gagnvart mannlegu eðli“ bætti presturinn við. „Kaþólsk siðfræði er grundvölluð á kærleiksboðinu sem er meðvitað um mannleg mistök en líka sjálfsöruggt um að fólk geti gert gott með hjálp náðar Guðs.“
Renato Martino kardínáli forseti Páfaráðs um réttlæti og frið tók næstur til máls. „Svar kirkjunnar við Malthusískri svartsýni setur traust sitt á eiginleika mannkyns til að sigrast á vandamálum. „Þessi viðleitni verður samt að fara fram á siðlegum nótum“ sagði kardínálinn. „Athafnir fólks í hinum skapaða heimi má ekki líta á einungis sem æfingu í tæknilegri getu til að takast á við hlutina“ bætti kardínálinn við og vitnaði í hugmyndir Jóhannesar Páls II. um „mannlega umhverfisfræði“ sem leiðbeinandi í þessu sambandi. Umhverfisfræðileg vandamál eru að upplagi mannfræðileg vandamál. Það hvernig við nálgumst náttúruna er undir því komið hvernig við nálgumst okkur sjálf og Guð. Þegar við afneitum hlutverki Guðs í lífi okkar þá setjum við sjálf okkur í hans stað og missum um leið sjónar á þeirri ábyrgð sem fylgir því að annast hinn skapaða heim.