Á fyrstu öldum kristninnar sneru þúsundir manna baki við heiminum og fóru út í eyðimörkina til að vera nær Guði. Þeir vildu helga líf sitt Guði, elska hann og þjóna honum. Í eyðimörkinni lifðu þeir mjög einföldu lífi. Þeir föstuðu oft og báðust fyrir. Þeir höfðu reglur til að koma á skipulagi og aga í lífi sínu. Við getum fundið ljóslífandi dæmi um þetta í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði.
Nú á meðal þessa fólks var munkur sem var kallaður Abba Móse. Hann hafði mikið orð á sér fyrir heilagleika. Það gerðist einu sinni að munkarnir sem bjuggu á sama svæði og Abba Móse, ákváðu að þeir skyldu allir fasta viku fyrir páska til þess að ………
Einu sinni var maður sem fór til fátæks lands sem trúboði.
En þegar hann sá hina sáru fátækt fólksins varð honum mjög brugðið og spurði Guð hví hann gerði ekki eitthvað til að létta á fátæktinni.
Fljótlega svaraði Guð honum djúpt í hjarta hans:
"Ég gerði nokkuð, ég skapaði þig!"
Og Guð hefur einnig skapað okkur!
Móðir Teresa frá Kalkútta átti það til að segja eftirfarandi sögu:
„Múhameðstrúarmaður stóð við hlið mér og horfði á eina af okkur systur binda um sár holdsveiks manns, sem hún gerði af mikilli umhyggju og ást. Systirin sagði ekki orð við holdsveika manninn en hún gerði honum mikið gagn.
Múhameðstrúarmaðurinn sneri sér að mér og sagði:
„Öll þessi ár hef ég trúað því að Jesús Kristur væri spámaður; einungis það, ekkert annað. En í dag hef ég komist að því að hann er Guð. Hann hefur látið ómælandi kærleika flæða um hjarta og hendur þessarar systur.““
Móðir Teresa bætti ávallt við eftir að hafa sagt þessa sögu:
„Enn þann dag í dag, veit þessi systir ekki að með hinni góða þjónustu sinni við holdsveika manninn bar hún Jesúm inn í líf Múhameðstrúarmanns.“
Hér eru samræður sem áttu sér stað milli föðurs og sonar.
Faðirinn spurði soninn hvað hann ætlaði að gera við líf sitt.
"Ég ætla að læra einhverja iðn."
"Og síðan hvað?", spurði faðirinn.
"Ég ætla að stofna mitt eigið fyrirtæki."
"Og síðan hvað?."
"Ég ætla að vera duglegur að vinna og verða ríkur", sagði sonurinn.
"Og síðan hvað?"
"Þegar ég verð gamall mun ég lifa á peningunum mínum."
"Og síðan hvað?", spurði faðirinn.
"Ég bíst við að einhvern daginn muni ég svo deyja", sagði sonurinn.
"Og síðan hvað?", spurði faðirinn.
En þá varð aðeins hljóð.
Sonurinn hafði ekki enn lært að líta framhjá sjálfum sér og þessu lífi.
Ein af uppáhaldssögum mínum um traust á Guð, er frásögn af manninum sem gekk eftir háum klettavegg. Til allrar óhamingju rann hann til og féll fram af klettabrúninni. Honum tókst þó að grípa í trjágrein.
En þá gerði maðurinn sér grein fyrir því að hann gat ekki híft sjálfan sig upp og var smátt og smátt að missa takið. Fyrir neðan hann var hundrað metra fall! Hann fór því að biðja ákaft:
"Guð, ertu þarna - þú verður að hjálpa mér?"
Maðurinn endurtók þetta í sífellu.
Í fyrstu gerðist ekkert, en þá svaraði Guð og sagði:
"Já, hvað viltu?"
"Guð, þú verður að hjálpa mér - en flýttu þér."
Guð svaraði: "Lofarðu að gera hvað sem ég bið þig um?"
"Já, auðvitað, en þú verður að flýta þér að hjálpa mér,"
"Lofarðu í raun og veru að gera hvað sem ég bið um?"
"Já, hvað sem er - segðu mér bara hvað ég á að gera - en hjálpaðu mér?
"Allt í lagi", sagði Guð. "Ef þú vilt að ég bjargi þér,
slepptu þá takinu!"
Dag nokkurn var Makaríos ábóti á leið aftur í klefa sinn með fáeinar pálmagreinar sem hann hafði sótt í votlendið. Á leiðinni mætti hann djöflinum. Hann bar sigð og reyndi að slá til ábótans með henni en tókst ekki.
Þá sagði djöfullinn við hann:
"Makaríos, ég lið hræðilegar kvalir þín vegna, því ég get ekki sigrað þig. Og samt geri ég allt eins og þú."
"Þú fastar - og ég borða aldrei."
"Þú vakir - og mér kemur ekki dúr á auga."
"En þú sigrar mig aðeins á einu sviði."
"Og hvert er það?" spurði Makaríos."
"Það er auðmýkt þín sem kemur í veg fyrir að ég sigri þig."
Úr ummælum eyðimerkurfeðranna.
Einu sinni fóru tveir menn upp á fjall að veiða fugla. Þeir notuðu net. Lögðu það og fóru heim.
Næsta dag var netið fullt af dúfum. Annar maðurinn sagði:
„Þetta er góð veiði.“
En hinn maðurinn sagði: „Nei, þessir fuglar eru of horaðir. Það er ekki hægt að selja þá á markaðinum. En kannski gætum við alið þá og fitað.“
Svo þeir ólu fuglana. Allir fuglarnir átu nema einn. Hann át ekki, svo hann horaðist á meðan hinir fitnuðu. Að lokum, komu mennirnir til að flytja þá til markaðarins, og selja. En fuglinn sem forðaðist matinn, slapp úr netinu. Hann einn hlaut frelsi!
Eitt sinn sagði Móðir Teresa:
"Um daginn dreymdi mig að ég stæði við hlið himnaríkis en heilagur Pétur sagði við mig:
"Farðu aftur til jarðarinnar, hér eru engin fátækrahverfi".
Til er saga um tvo menn. Báðir voru andlega sinnaðir og miklir hugsuðir.
Dag einn gengu þeir meðfram sjávarströnd. Á göngunni ræddu þeir
leyndardóma Guðs. Hvor um sig var sannfærður um, að útskýringar hins á því hvað Guð þýddi fyrir hann, væru lélegar. Þeir fundu hugmyndum hvor annars um Guð, allt til foráttu.
Skyndilega gengu þeir fram á lítinn dreng sem var að leika sér í vatnsborðinu. Hann hafði grafið litla holu í sandinn og hljóp í sífellu niður að sjónum og dýfði leikfangafötunni sinni í vatnið og hljóp aftur upp ströndina til að hella vatninu í holuna. Þeir horfðu á hann nokkra stund þar sem hann hljóp fram og aftur og tæmdi og fyllti fötuna sína.
Þeim fannst þetta fyndið svo að þeir gengu til hans og spurðu hvað hann væri að gera. Drengurinn benti í átt að sjónum og sagði þeim alvarlega, að hann ætlaði að taka allt vatnið úr honum og hella því í holuna sem hann hafði grafið í sandinn. Mennirnir tveir brostu og héldu fram göngu sinni og ræddu áfram um Guð.
Skyndilega stansaði annar þeirra og sagði: "Veistu að rétt áðan fannst okkur það fyndið, þegar drengurinn sagði okkur frá því sem hann var að reyna að gera. En umræða okkar um Guð hefur verið alveg eins. Það er jafn ómögulegt fyrir okkur að skilja leyndardóma Guðs, eins og það er fyrir drenginn að hella öllu vatni sjávarins í þessa holu. Hugir okkar eru eins og þessi hola en veruleiki Guðs er eins stór og hafið."
Að venju fór sr. Jean–Marie Vianney reglulega á daginn í kirkju sína til að lesa þar tíðarbænir sínar. Hann tók oft eftir bónda nokkrum sem stóð í anddyri kirkjunnar. Hann var hvorki með bænabók né rósakrans heldur spennti hann aðeins greipar sínar og horfði fram á við í átt til háaltarisins þar sem guðslíkamahúsið var.
Dag nokkurn spurði presturinn hann hvað hann væri eiginlega að gera allan þann tíma.
Bóndinn svaraði:
„Jesús horfir á mig og ég horfi á hann.“
Á meðal þeirra hluta sem Jesús hefur beðið okkur að gera, er að elska óvini okkar — trúlega einn af þeim erfiðustu hlutum sem hann hefur óskað af okkur.
Einu sinni ætlaði fyrrverandi fangi að heilsa upp á vin sinn, sem hafði einnig verið í sama fangelsi. Þeir töluðu saman um stund um reynslu sína í fangelsinu og Þá spurði annar maðurinn hinn:
"Ertu búinn að fyrirgefa Því fólki sem sá til Þess að við værum settir á þennan hræðilega stað?"
"Já. Það hef ég gert," svaraði hinn maðurinn.
"Jæja, ekki ég," sagði sá fyrri. "Ég ber ennþá brennandi hatur til þeirra."
"Fyrst það er þannig," sagði vinur hans, "þá halda þeir þér enn í fangelsi."
Óvinir okkar eru ekki þeir sem hata okkur, heldur frekar þeir sem við hötum.
Kennari nokkur í framhaldsskóla einum sagði nemendum sínum í upphafi skólaársins að í lok hvers mánaðar yrðu þeir að skila skrifaðri ritgerð. Ef ritgerðinni yrði ekki skilað á réttum tíma, táknaði það núll í einkunn fyrir ritgerðina. Og þetta skyldu nemendurnir; engin ritgerð þýddi núll í einkunn.
Í lok fyrsta mánaðarins vantaði fimm ritgerðir og nemendurnir báðu kennarann um meiri tíma, sem þeir og fengu. "Látið þetta ekki gerast aftur", sagði kennarinn.
Í lok annars mánaðarins höfðu tíu ritgerðir ekki skilað sér og aftur báðu nemendurnir kennarann um meiri tíma, sem hann veitti þeim. "Látið þetta ekki gerast aftur", sagði kennarinn.
Í lok þriðja mánaðarins hafði kennarinn ekki fengið fimmtán ritgerði og nemendurnir sárbændu kennarann um meiri tíma.
"Adam, hvar er ritgerðin þín?" spurði kennarinn.
Adam svaraði: "Vertu rólegur, kennari, þú færð hana í næstu viku".
"Adam, þú færð núll í einkunn", sagði kennarinn. Adam varð mjög reiður.
"Eva, hvar er ritgerðin þín?"
Eva svaraði: "Engan æsing, kennari, þú færð hana í næstu viku."
"Eva. Þú færð núll í einkunn". Eva varð líka mjög reið.
"Þetta er ekki sanngjarnt", hrópaði Adam. "Þetta er óréttlátt!"
Þá brosti kennarinn og sagði: "Allt í lagi Adam, vilt þú réttlæti?"
"Já, ég krefst réttlætis," öskraði Adam.
Kennarinn sagði þá: "Gott og vel, ef ég man rétt varst þú líka of seinn að skila þinni ritgerð í síðasta mánuði. Er það ekki rétt hjá mér?"
Hann svaraði játandi.
"Allt í lagi, ég mun líka breyta einkunn þinni frá síðasta mánuði í núll", sagði kennarinn. "Eru einhverjir fleiri hér sem vilja réttlæti"?
Enginn annar vildi réttlæti.
Kæru vinir! Guð er miskunnsamur, en ekkert okkar á rétt á þeirri miskunn. Hún er ávallt og með öllu ókeypis gjöf Guðs til okkar. Við skulum ekki ganga að því sem vísu.
Til er saga um mann, sem hafði verið mikill drykkjumaður, en í lok gerðist trúmaður og reglumaður um leið.
Nokkrum mánuðum síðar mætti hann gömlum drykkjufélaga sínum.
"Nú ert þú víst orðinn svo trúaður, að þú trúir á kraftaverk", sagði hann háðslega.
"Já, ég trúi á kraftaverk", svaraði hinn.
"Þú getur þá líklega skýrt það út fyrir mér, hvernig Jesús breytti vatni í vín, í Kana."
Hinn svaraði: "Jesús er Guð og Guð getur gert svona. En gerðu svo vel að ganga heim með mér. Þá skal ég sýna þér annað kraftaverk, sem hann hefur gert. Jesús hefur breytt áfengi í húsgögn, góð föt og hamingjusama fjölskyldu."
Dag einn kom eiginmaður heim úr vinnu að öllu í óreiðu. Börnin voru enn í náttfötunum, úti að leika sér í drullunni. Tóm matarílát og umbúðir voru út um allt.
Þegar hann kom inn í húsið kom hann að jafnvel enn meiri óreiðu. Óhreinir diskar, hundamatur á gólfinu, brotið glas undir borðinu og sandur við bakdyrnar. Leikföng og föt út um allt og lampi sem hafði oltið á gólfið.
Maðurinn klofaði yfir leikföngin og flýtti sér upp tröppurnar, í leit að eiginkonunni. Hann var áhyggjufullur þar sem hann hélt að hún væri veik.
Hann fann hana í svefnherberginu, í rúminu að lesa bók. Hún brosti og spurði hann hvernig dagurinn hefði verið.
Hann horfði ringlaður á hana og spurði:
"Hvað gerðist hér í dag?"
Hún svaraði brosandi:
"Á hverjum degi þegar þú kemur heim úr vinnunni, spyrð þú mig hvað ég hafi gert í dag?"
"Já," svaraði hann.
"Í dag gerði ég það ekki!"
Það er til saga um prest sem tók eftir konu sem sat ein í kirkjunni og bað til Jesú í guðslíkamahúsinu.
Klukkustund seinna, sá presturinn að hún var þar enn.
Önnur klukkustund til viðbótar leið og enn var hún þar í bæn.
Þegar þar var komið, gekk presturinn til konunnar og spurði hvort það væri eitthvað sem hann gæti gert fyrir hana.
„Nei, þakka þér fyrir, faðir“, svaraði hún.
„Ég hef fengið alla þá hjálp sem ég þarf á að halda frá Jesú.“
Heilög Teresía frá Lisieux er mjög vinsæll dýrlingur í kaþólsku kirkjunni (d. 1897).
Þegar faðir hennar var ungur að árum, fór hann í prestaskóla
með það í huga að gerast kaþólskur prestur. Þar var honum sagt að hann hefði enga köllun til prestþjónustu.
Móðir hennar gekk í klaustur ogætlaði að gerast nunna, en það fór á sama veg - henni var sagt að hún hefði ekki köllun til að gerast nunna.
Bæði urðu þau fyrir gífurlegum vonbrigðum og hugleiddu hvað Guð hefði í huga. Þau tvö hittust og giftust og áttu mörg börn. Fjórar dætur þeirra gerðust nunnur og sú yngsta var Teresía.
Á einhvern hátt þarfnast Guð okkar allra. Fyrir tilstilli okkar getur hann gert góða hluti. Það er ef til vill ekki fyrr en við komumst til himna, að við fáum séð hvað Guð hafði í huga fyrir okkur og hvernig hann vann sín verk í gegnum okkur.
Til er saga um mann og konu sem áttu tal saman. Konan var kristin en
maðurinn ekki. Maðurinn spurði konuna hvort hún færi ætíð að vilja Guðs.
"Já" svaraði hún, "mér er skylt að gera það sem Guð almáttugur leggur fyrir mig".
"Gott og vel," sagði maðurinn. "En hvað myndir þú gera ef Guð segði þér að stökkva yfir þennan háa vegg þarna? Mundir þú stökkva?"
"Auðvitað stykki ég" sagði konan.
"En það er ómögulegt," sagði maðurinn. "Hvernig færir þú að því? Þessi múr er allt of hár til að þú getir stokkið yfir hann."
"Ef Guð ætlaðist til þess af mér," svaraði konan, "þá væri það mitt hlutverk að stökkva en hlutverk Guðs að sjá til þess að ég gæti það!"
Guð krefst aldrei neins af okkur, sem okkur er um megn.
Eitt sinn kom ungur maður til kennara síns og bað hann að segja sér
einhverja skemmtilega sögu. Kennarinn sagði þá þessa sögu:
Einu sinni fór maður í ferðalag. Hann fyllti malpokann sinn af ágætum mat og ljómandi ávöxtum. Ferðinni var heitið yfir eyðimörk, víða og gróðurlausa, til fjarlægs héraðs. Fyrstu dagana fór hann um brosandi og frjósöm héruð. Þar voru aldintré og nóg af góðum ávöxtum, sem ferðamenn gátu tínt sér til hressingar eftir þörfum. En þessi ferðamaður nennti því ekki, þótti hægara að eta matinn og ávextina úr malpokanum sínum. En nú kom hann í eyðimörkina. Þegar hann hafði farið hana nokkra daga, hafði hann lokið nestinu. Nú komst hann í skelfilega neyð, eins og vænta mátti, því að ekkert var fyrir hendi, nema glóðheitur sandurinn. Að nokkrum dögum liðnum gafst hann upp af hungri og þorsta og þarna lét hann lífið með miklum harmkvælum.
“Þessi maður hefur verið í meira lagi heimskur", sagði ungi maðurinn, “að honum skyldi ekki detta í hug í tæka tíð að hann þyrfti að fara yfir svona breiða eyðimörk."
“Já, heimskur var hann", svaraði kennarinn. En ert þú þá skynsamari? Þú ert á ferðalagi, ævilangri ferð og leiðin liggur til eilífðarinnar. Nú er tími fyrir þig að tína hina gullnu ávexti hinnar sönnu speki -
kristindómsins. Enn er tími til þess fyrir þig að búa þig undir að fara
yfir eyðimörkina, svo að þú náir til hins fagra héraðs, eilífðarinnar. Ef þú gerir það ekki, getur farið eins fyrir þér og grunnhyggna ferðamanninum.
Heilagur Anton hinn mikli er kallaður faðir munkanna. Hann fæddist í
Egyptalandi um 251. Líf hans hafði mikil áhrif á uppbyggingu
munkalífsins.
Eitt sinn var hann að hvílast ásamt sumum af sínu
meðbræðrum fyrir utan kofa sinn í eyðimörkinni. Veiðimaður átti leið
þangað og blöskaraði á sjá Hinn mikla Anton aðgerðalausan.
"Hvers konar munkur ert þú - að eyða tímanum svona?
Anton svaraði: "Spenntu boga þinn og skjóttu ör."
Veiðimaðurinn gerði það.
"Gerðu það aftur."
Veiðimaðurinn gerði það.
"Gerðu það aftur."
Í þetta skipti skaut hann ekki ör, en sagði í staðinn við Anton:
"Ef ég spenni alltaf boga minn þá mun hann brotna."
"Þetta er hárrétt", sagði Anton. "Og það er það sama með okkur."
Ef við ofreynum okkur, þá munum við líka gefa undan. Við
þörfnumst hvíldar stundum.
Einu sinni var maður sem fór til fátæks lands sem trúboði.
En þegar hann sá hina sáru fátækt fólksins varð honum mjög brugðið og spurði Guð hví hann gerði ekki eitthvað til að létta á fátæktinni.
Guð svaraði honum djúpt í hjarta hans og sagði:
"Ég hef gert nokkuð - ég skapaði þig!"
Einu sinni ákvað Guð að taka sér hvíld. Í sex daga hafði hann verið að
skapa alskyns hluti. En á sjöunda deginum settist hann niður og tók sér
hvíld! Hann naut hvíldarinnar svo mikið, að hann ákvað að deila þessari
hugmynd með okkur!
Í Gamla testamentinu var laugardagurinn, síðasti dagur vikunnar hvíldardagur, í minningu þess, að Guð skapaði heiminn á sex dögum, en hvíldist hinn sjöunda. En frá dögum Nýja testamentisins höldum við helgan sunnudaginn, fyrsta dag vikunnar, vegna þess að Kristur reis upp frá dauðum á sunnudegi.
Einu sinni heyrði ég viðtal við mann sem hafði lent í alvarlegu bílslysi.
Hann dó næstum því, en margir báðu fyrir honum og á endanum náði hann sér að fullu.
Í viðtalinu, talaði hann um að hann myndi eftir að eitthvað hefði gerst rétt á eftir slysinu. Hann stóð fyrir framan dómshásætið og Jesús var að segja honum allt sem hann hafði aðhafst í lífi sínu.
Maðurinn sagði að það eina sem hann hafi geta sagt þegar Jesús minntist á syndir sem hann hafði drýgt var: "Já, Drottinn, ég gerði það, já, Drottinn ég gerði það."
Hann sagði að hann hefði ekki getað sagt neitt annað, það var ekki hægt að
vera með neinar afsakanir, vegna þess að hann vissi að allt sem Jesús segði var satt.
Hvernig skyldi verða dæmt í málum okkar þegar okkar tími kemur?
Tveir bræður, ungir drengir, voru að fá sér göngutúr og villtust
vetrarkvöld eitt. Það var nístingskuldi. Þeim varð því kaldara sem þeir urðu þreyttari að ganga. Loks gáfust þeir upp. Þeir voru staddir á auðri sléttu, þar sem hvorki var hús né tré, sem hægt var að flýtja í skjól við. Drengjunum varð æ kaldara.
Þá klæddi eldri drengurinn sig úr jakkanum og vafði honum um bróður sinn. Já, hann gerði meira. Hann fór úr fleiri flíkum og bjó svo um yngri bróður sinn.
Drengjanna var saknað undir eins um kvöldið og þeirra leitað alla nóttina.
Um morguninn fundust þeir. Yngri drengurinn var með lífi, en sá eldri
hafði króknað.
Eldri bróðirinn hafði fórnað lífi sínu fyrir bróður sinn.
Ó Jesú bróðir besti.
Í guðfræði Austurlanda er lögð áhersla á að við getum á engan hátt vitað neitt um eðli Guðs og að við þekkjum hann aðeins fyrir "verk" hans.
Einu sinni stóð forn kastali í fögru dalverpi. Nokkru eftir aldamótin 1800 átti barón nokkur kastalann. Hann átti einn son.
Einu sinni kom ferðamaður til að skoða kastalann, en sonur barónsins var ekki heima. Talið barst að trúmálum. Kom þá í ljós að ferðamaðurinn var trúleysingi.
„Ég þekki Guð ekki. Ég hef aldrei séð hann,“ sagði ferðamaðurinn.
Daginn eftir gengu þeir umhverfis kastalann. Meðal annars sá ferðamanninum mynd, sem hékk á einum veggnum. Ferðamaðurinn dáðist að henni og spurði, hver hefði málað hana.
„Sonur minn“, svaraði baróninn.
„Það er sannarlega vel fær maður“, sagði ferðamaðurinn.
Í aldingarðinum lét ferðamaðurinn í ljós aðdáun sína og spurði, hver annaðist garðinn.
„Sonur minn“, svaraði baróninn.
„Það er sannarlega vel fær maður,“ sagði ferðamaðurinn.
Síðar um daginn fóru þeir til næsta þorps og komu að húsi, þar sem sonur barónsins hafði stofnsett skóla fyrir munaðarlaus börn.
„Það er sannarlega vel fær maður. Þér eruð hamingjusamur maður að eiga slíkan son“, sagði ferðamaðurinn í aðdáunarróm.
„Hvernig vitið þér, að ég eigi góðan son? Þér hafið aldrei séð hann,“ spurði baróninn skyndilega.
„Vegna þess, að ég hef séð verk hans. Eftir þeim dæmi ég svo, að hann hljóti að vera góður maður og mjög vel fær. Ég tel mig þekkja hann nokkuð, því að ég dæmi hann eftir verkum hans,“ sagði ferðamaðurinn.
Það sagði baróninn: „Þannig dæmi ég einnig um eiginleika Guðs. Verk hans lýsa því, að vísdómur hans er takmarkalaus.“
Til er saga um mann sem elskaði dýr. Hann sá eitt sinn örn í búri og þótti sárt að sjá þennan konung fuglanna þannig firrtan frelsinu. Þess vegna keypti dýravinurinn örninn. Fór hann því næst með hann burt úr borginni, þar sem hann hafði keypt hann og að fjallsrótum. Þar opnaði hann búrið, en örninn var hinn rólegasti í opnu búrinu. Þá stjakaði dýravinurinn við honum, svo að hann gekk út úr búrinu. En ekki reyndi hann til að hefja sig til flugs. Þannig leið löng stund, að örninn gekk hægt umhverfis búrið.
En allt í einu varð skýjarof og brennheitt sólskinið flæddi yfir umhverfið. Þá lyfti örninn höfðinu og fór að hreyfa vængina. Og skyndilega breiðir hann úr vængjum sínum og lyftir sér til flugs, hærra og hærra.
Meðan maðurinn bindur hamingjuleit sína eingöngu við jarðnesk gæði, líkist hann erninum, sem gleymt hafði fluginu. En þegar hann verður var kærleika hins himneska föður og fegurð himinsins verður honum ljós, þá finnur hann, að lífi hans er ætlað æðra mark og mið.
Til er saga um ríkan mann sem fór fótgangandi í pílagrímsför til frægs helgistaðar. Á leið sinni kom hann við í litlu klaustri þar sem mjög heilagur munkur bjó. Ríki maðurinn og hinn heilagi munkur tóku tal saman. Ríki maðurinn var undrandi að sjá engin húsgögn að frátöldum einföldum borðum og stólum í klaustrinu.
"Bróðir," spurði ríki maðurinn, "hvar eru öll húsgögnin þín?"
"Ég gæti spurt þig sömu spurningar," svaraði munkurinn.
"Ég er ekki með nein húsgögn með mér af því að ég er á pílagrímsför," sagði ríki maðurinn. "Ég er pílagrímur og á bara leið hér um."
"Munkurinn brosti og sagði: "Það er ég líka."
Öll erum við pílagrímar sem eigum leið hjá. Ákvörðunarstaður okkar er Himnaríki. Þess vegna verðum við að gæta okkar á því að ánetjast ekki um af hlutum sem ekki hafa varanlegt gildi.
Til er saga um konu nokkra sem átti 4 ára gamlan son. Barnið veiktist af smitsjúkdómi sem var banvænn. Læknir vöruðu konuna stöðugt við að koma nærri barninu. Að sjálfsögðu var þetta henni mjög erfitt, sérstaklega þar sem hún elskaði barnið mjög heitt.
Dag einn, þar sem hún stóð í fjarlægu horni í svefnherbergi sonar síns, heyrði hún hann spyrja: "Af hverju elskar móðir mín mig ekki lengur?"
Þetta var meira en hún gat þolað og hljóp hún til sonar síns, hélt honum í örmum sér og kyssti hann margsinnis. Fáeinum vikum síðar dóu bæði móðir og sonur og voru þau jarðsett í sömu gröf.
Var þessi móðir heimsk? Var þetta heimskulegur hlutur sem hún gerði? Sumir mundu halda því fram að svo hefði verið. En ekki taldi hún svo vera því kærleikur hennar til sonar síns var það mikill að ekkert annað skipti máli.
Var Guð heimskur að senda Son sinn til jarðar? Ekki taldi hann svo vera því kærleikur hans var það mikill.
Eitt sinn var maður sem bjó í útjaðri bæjar sem hét Davíð. Hús hans lá við aðalveginn inn í bæinn. Dag einn er hann var að vinna í garðinum fyrir framan húsið kom til hans ókunnugur maður.
Aðkomumaðurinn spurði: "Hvers konar fólk býr í þessum bæ?"
Davíð svaraði: "Hvers konar fólk bjó í þeim bæ, sem þú síðast heimsóttir?"
Aðkomumaðurinn svaraði: "Það var hræðilegur lýður. Mér líkaði alls ekki við fólkið. Það var mjög andstyggilegt.
Þá sagði Davíð: "Ég held að þú finnir fyrir samskonar fólk hér."
"Þakka þér fyrir" sagði aðkomumaðurinn og hélt áfram ferð sinni.
Nokkrum mínútum síðar bar að annan aðkomumann.
Þessi síðari aðkomumaður kallaði til Davíðs og spurði: "Hvers konar fólk býr í þessum bæ?"
Davíð svaraði: "Hvers konar fólk bjó í þeim bæ, sem þú síðast heimsóttir?"
Síðari aðkomumaðurinn svaraði: "Nú þetta var hið elskulegasta fólk. Mér líkaði mjög vel við það. Þau voru mjög vingjarnleg."
Þá sagði Davíð: Ég held að þú finnir fyrir samskonar fólk hér."
Málið er nefnilega að hamingja kemur innan frá!!!
Eftirfarandi saga hefur
hjálpað mér að skilja ástæðu þess.
Einu sinni var maður sem elskaði dýrin mjög, en hafði ekki mikinn tíma fyrir Guð. Einkanlega átti hann erfitt með að skilja allt það sem fólk gerði á jólunum. Hann gat ekki skilið hvernig Guð gerðist maður. Þess vegna fór hann aldrei í kirkju, ekki einu sinni á jólum. En um síðustu jól
gerðist eitthvað sérstakt sem breytti öllu lífi hans. Guð veitti honum sérstaka náð, náð sinnaskipta. Og þannig gerðist það.
Það var áliðið jólanótt og fjölskylda mannsins var farin til miðnæturmessu í kirkjunni. Hann var einn í húsinu. Veðrið hafði verið stillt en skyndilega skall á snjóstormur. Eftir smástund heyrðist einkennilegur hávaði við útidyrnar. Maðurinn leit út um gluggan og sá að nokkrir fuglar
voru að reyna að leita skjóls undan storminum.
Þar sem honum þótti vænt um dýrin fann hann til með þeim og velti fyrir sér hvernig hann gæti hjálpað þeim. Hann ákvað að fara út um bakdyrnar og opna bílskúrsdyrnar. Hlýtt var í bílskúrnum og þar myndu fuglarnir vera öruggir. Hann fór út, opnaði bílskúrsdyrnar og fór aftur inn í húsið. Er hann leit aftur út um gluggann varð hann fyrir vonbrigðum því fuglarnir
höfðu ekki hreyft sig.
Af því að hann unni dýrum, gafst hann ekki upp. En hvað átti hann að taka til bragðs? Þá datt honum í hug að setja fuglafræ í bílskúrinn. Að því loknu kom hann aftur til þess að sjá hvað gerast myndi, en hann varð enn fyrir miklum vonbrigðum þar sem fuglarnir höfðu enn ekki hreyft sig.
Kuldinn var farinn að sverfa að þeim.
En hvað gat maðurinn gert til þess að hjálpa þeim? Í þeirri von að fuglarnir færu yfir í bílskúrinn opnaði maðurinn dyrnar varlega. En hvað gerðist? Þegar hann opnaði dyrnar flugu fuglarnir auðvitað hver í sína áttina en enginn í bílskúrinn.
Maðurinn sagði þá í algerri örvæntingu: "Ef ég gæti nú bara orðið fugl eins og þeir í smástund gæti ég sýnt þeim leiðina til öryggis."
Á því augnabliki hringdu kirkjuklukkurnar og maður þessi áttaði sig skyndilega á því hvers vegna Guð varð sú sköpun sem hann skapaði - hvers vegna Guð varð maður eins og við.
Sú saga er sögð af manni einum sem dreymdi draum.
Í drauminum var hann á gangi eftir strönd í fylgd Jesú.
Þegar maðurinn leit til baka sá hann að stundum voru fótspor eftir tvo menn í sandinum og stundum voru einungis fótspor eftir einn mann.
Hann tók einnig eftir því að tímaskeiðið þegar einungis ein fótspor voru sýnileg, virtist koma heim og saman við það tímabil í lífi hans, þegar hann þjáðist mest.
Maðurinn stöðvaði því og spurði Jesúm: „Hvers vegna yfirgafstu mig þegar ég þurfti mest á þér að halda?“
Jesús brosti til hans og sagði:
„Ég hef aldrei vikið frá þér.
þegar þú þjáðist mest í lífi þínu,
þá tók ég þig í fang mér!“
Tveir menn sátu eitt sinn í fangelsi.
Annar þeirra var bjartsýnismaður en hinn var svartsýnismaður.
Sá svartsýni horfði í gegnum rimlana á glugganum og sá ekkert nema svarta forina.
Hinn bjartsýni horfði í gegnum sömu rimla og sá stjörnuskinið á himni.