Flokkur: "Til umhugsunar"

24.05.08

  20:54:40, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 188 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

SAMFÉLAG HEILAGRA

Bæði Gamla testamentið og Nýja testamentið tala um líf eftir þetta líf.

Annað Vatikan þingið lagði mikla áherslu á sambandið milli okkar sem lifum á jörðinni og dýrlinganna, sem eru á himnum. Þetta er mikilvæg kenning í kaþólsku kirkjunni.

Til eru fjögur tilverustig. Þrjú þeirra eru í einingu við Guð og eitt er ekki. Síðasttalda tilverustigið er helvíti.

Hin þrjú eru:

•Kirkja pílagrímanna á jörðinni — það erum við.

•Hin líðandi kirkja í hreinsunareldinum — það eru hinir hólpnu.

•Hin sigursæla kirkja á himnum — til hennar teljast dýrlingarnir.

Sambandið milli okkar og þeirra, sem við höfum þekkt, en eru dánir, er ekki minna en á meðan þeir lifðu. Bæði hinir hólpnu í hreinsunareldinum og dýrlingarnir á himnum leggja hart að sér til að hjálpa okkur að komast í himnaríki. Þó að sálirnar séu í himnaríki eða í hreinsunareldinum þýðir það ekki að þær séu aðgerðalausar. Þær voru hluti af mannkyninu meðan þær lifðu á jörðinni og þær vita að við þörfnumst hjálpar þeirra.

20.05.08

  21:19:38, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 332 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Guð hefur látið menn vita að hann væri til

Guð hefur látið menn vita að hann væri til:

1. með hinum sýnilega heimi;

2. með rödd samviskunnar;

3. en einkum með yfirnáttúrlegri opinberun.

1. Hús getur ekki byggt sig sjálft. Miklu síður getur hin mikla alheimsbygging með sínum dásamlega útbúnaði hafa orðið til af sjálfu sér. Alvitur og almáttugur skapari hlýtur að hafa gjört hana. Þess vegna kemst heilög ritning svo að orði: "Himnarnir segja frá Guðs dýrð og festingin kunngjörir verkin handa hans." (Sám. 18,2). "En spyr þú skepnurnar og þær munu kenna þér, fugla loftsins og þeir munu fræða þig, eða jörðina og hún mun svara þér og fiskar hafsins munu segja þér það: Hver þekkti ekki á öllu þessu, að hönd Drottins hefur gjört þetta." (Job. 12,7). "Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til." (Sálm. 13,I)

2. Í hverri mannssál er ………

Read more »

17.05.08

  21:26:04, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 241 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Þríeinn Guð

Kafli úr bókinni "Kaþólskur siður" (1995).

(Bl. 28)

"……… Spurningin "Hver er Guð?" er grundvallarspurning sem menn bera alltaf upp þegar trúmál ber á góma og guðfræðin leitast alltaf við að svara.

Fremsta umfjöllunarefni Biblíunnar er að Guð opinberar sig mönnunum og þar með fylgir fremsta og hin algera sannfæring um að til sé einn Guð, að Guð sé einn. Þá sannfæringu tók kirkjan í arf frá gyðingum, og hinu sama er trúað í islam sem játar opinberum Guðs eins og hún er í Gamla testamentinu: "Heyr Ísrael! Drottinn er vor Guð, hann einn er Drottinn". Allt frá fyrstu öldum kirkjunnar hefur hún hvað eftir annað fundið ástæðu til að leggja áherslu á þá trú.

Guð er einn en ekki í stærðfræðilegum skilningi. Hann er kærleikur og það er hann í sjálfum sér. Kærleikur hans birtist í samfélagi við hann og milli manna. Í Gamla testamentinu eru hugmyndirnar um hann óljósar. Þar er talað um hina guðlegu visku og Anda Guðs eins og um persónur væri að ræða. Það er ekki fyrr en í Nýja testamentinu sem það er sagt ljósum orðum að samfundum við Guð fylgi "náðin Drottins Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag Heilags anda."

Þessi nýi skilningur spratt upp af kynnum manna af Jesú Kristi. Guð opinberaði sig í Jesú. ………"

01.05.08

  20:44:24, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 726 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Heilög Teresa frá Lisieux. Hvers vegna varð hún fyrir valinu?

Stúlka, sem er tuttugu og fjögurra ára, deyr í litlu Karmelklaustri í hjarta Normandí í Frakklandi en það landsvæði var ekki þekkt af miklum trúaráhuga. Farið var með líkama systur Teresu í kirkjugarð bæjarfélagsins og fylgdu henni einungis fáeinir vinir. Þetta vakti litla athygli. En varla var búið að loka gröfinni er fögur mildi hennar fór að koma í ljós. Fljótt varð hún umræðuefni allra. Fyrst í einu héraði síðan í öðru, síðan í Frakkland, allri Evrópu, í hinum gamla og nýja heimi. Nafn hennar var á vörum trúaðra jafnt sem ótrúaðra, þeirra sem enn gátu farið með nafn Krists og þeirra sem höfðu gleymt því.

Hvers vegna varð hún fyrir valinu þegar svo margir, sem höfðu látist um líkt leyti og hún, höfðu sannað dyggðir sínar með áþreifanlegum og opinberum hætti; helgir karlar og helgar konur sem höfðu þjónað hinum fátæku; trúboðar, postular og píslarvottar; trúrækið fólk af öllum stigum? ………

Read more »

14.04.08

  20:38:31, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 316 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Aðeins Guð getur fyrirgefið syndir

Það er satt að aðeins Guð getur fyrirgefið syndir. Þess vegna hneyksluðust menn á Jesú þegar hann sagði: "Syndir þínar eru fyrirgefnar." Menn sögðu að hann guðlastaði, að hann gerði sig að Guði. En kaþólskir trúa því að hann sé Guð og geti því, hafi getað og muni geta fyrirgefið syndir. Kirkjan kennir að Jesú hafi komið í þennan heim til að frelsa mennina frá syndum og færa þeim eilíft líf, að hann hafi látið lífið á krossinum vegna synda mannanna.

……… kirkjan er líkami Krists á jörðinni og hún heldur starfi hans áfram. Það væri í ósamræmi við starf Jesú og guðdóm ef kirkjan hefði ekki sérstakt umboð til að fyrirgefa syndir.
Jesús hefur sagt: "Hverjum sem þið fyrirgefið syndirnar, þeim eru þær fyrirgefnar, og hverjum sem þér synjið, þeim er synjað."

Þarna setur Jesús sáttmála Guðs og manna og fær lærisveinunum umboð til að fyrirgefa syndir. Þetta umboð hefur síðan gengið að erfðum í vígsluröð kirkjunnar allt frá Jesú.

Kaþólski presturinn fær þetta umboð Jesú til að fyrirgefa syndir þegar hann er vígður.

Kirkjan kennir að sakramentin séu sérstakir náðarfarvegir Guðs til mannanna til að standa gegn synd og til að öðlast andlegan þroska. Sakramentunum er því oft líkt við næringu. Þau séu andleg næring. Enginn nærist einu sinni á ári. Því sé gott að neyta þeirrar næringar oft og reglulega til að fá styrk til að standa gegn hinu illa og auka andlegan þroska. Margir kaþólskir skrifta því regulega. Ef það er ekki gert er hætta á að samviskan gangi stöðugt lengra í málamiðlun sinni við hið illa, myrkvist og verði blind á mun góðs og ills. ………

11.04.08

  18:57:41, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 140 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Hinir hjartahreinu taka á móti fagnaðarerindinu

"Litli prinsinn fór aftur að sjá rósirnar:

- Þið eruð alls ekki líkar minni rós, þið eruð ekkert ennþá, sagði hann við þær. Þið hafið ekki bundist neinum og enginn hefur bundist ykkur. Þið eruð eins og refurinn minn var. Hann var aðeins refur eins og þúsundir annarra refa. En ég hef gert hann að vini mínum og nú er hann einstakur í heiminum.

... Og hann sneri aftur til refsins:
- Vertu sæll, sagði hann.
- Vertu sæll, sagði refurinn.

- Hér er leyndarmálið. Það er mjög einfalt: Maður sér ekki vel nema með hjartanu. Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum.
- Það mikilvægasta er ósýnilegt augunum, endurtók litli prinsinn til þess að festa sér það í minni."

(Litli prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry, bls. 61-62)

04.04.08

  13:19:59, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 469 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Upprisubrúin

Í Recife, höfuðborginni í fátækasta hluta Brasilíu, hafa nokkrar systur sest að í "favelunni". Favelan er fátækrahverfið. Þar býr fólk í kofum og hreysum, sem tjaslað er saman úr pappakössum, blikkplötum, spýtnarusli og hverju því, sem það hefur fundið. Í þessum skúrum er ekkert vatn, ekkert frárennsli og ekkert rafmagn. Systurnar búa við sömu kjör og hitt fólkið og lifa eins og það. Ef þær geta krækt sér í eitthvað að gera á milli, eiga þær peninga fyrir mat. Annars ekki. Alveg eins og hinir íbúarnir.

"Við viljum bara vera hérna", segja systurnar. "Við viljum sýna fólkinu að við og það séum samskonar fólk." Þegar fólkið kemur til okkar og spyr: "Hvað eigum við að gera?" þá segjum við: ………

Read more »

27.03.08

  18:58:14, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 240 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Kærleikur Guðs til mannkynsins

Boðskapur Drottins vors Jesú Krists til heimsins — fagnaðarerindi guðspjallanna — opinberar okkur hinn gríðarmikla kærleika Guðs til mannkynsins; kærleika sem er svo mikill að hann er ólýsanlegur. Heilagur Jóhannes guðspallamaður segir þetta með einföldum hætti þegar hann skrifar: „Guð er kærleikur“.

Þessi kærleikur Guðs til mannkynsins kemur hvað skýrast fram í holdtekjunni þegar önnur persóna hinnar Háheilögu Þrenningar gerðist maður. „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf Son sinn eingetinn“.

Þessi ólýsanlegi kærleikur Guðs til okkar krefst viðbragða af okkar hálfu. Þegar við komumst að raun um að Guð er miskunnsamur kærleikur, finnum við fyrir löngun til að fara til hans og gerum það af fyllsta trausti. Smám saman breytist þetta traust í kærleika.

Þannig hefst kærleikur okkar til Guðs með kærleika hans til okkar. Ég elska Guð því hann elskar mig. Við verðum að vaxa í kærleika til Guðs á hverjum degi. Þetta er mikilvægt atriði, annars glötum við því stöðuglyndi sem við þurfum á að halda til að vaxa í vináttu við Guð. Ef það gerist missum við auðveldlega sjónar á Guði og hættum að vaxa í heilagleika.

Heilagur Jóhannes af krossi, einn mesti dýrlingur Karmelreglunnar, skrifaði eitt sinn: „Einungis kærleikur getur endurgoldið kærleika“.

09.03.08

  21:46:56, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 179 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Páskar í öðrum löndum

Kafli úr trúfræðslubókinni KOMIÐ OG SJÁIÐ.

Í kaþólsku kirkjunum á Íslandi komum við kristnir menn saman frammi fyrir páskakertinu, sem er tákn hins upprisna Krists. Við hyllum Krist sem sigraðist á dauðanum. Á páskanóttina syngjum við: "Kristur er upprisinn, hallelúja." Síðan höldum við messuna hátíðlega með gleði í hjörtum okkar.

Í Grikklandi, Rússlandi og mörgum nágrannalöndum þeirra er kirkjuklukkunum hringt allan laugardaginn fyrir páska og það er páskaskraut í verslunum. Á miðnætti gengur presturinn út um kirkjudyrnar og boðar þrisvar sinnum: "Kristur er upprisinn." Síðan er kveikt á páskakertunum og þau ganga frá manni til manns í kveðjuskyni.

Alla vikuna eftir páska heilsa menn með orðunum: "Kristur er upprisinn." Og svarið við því er: "Já, hann er sannarlega upprisinn." Síðan fara menn hús úr húsi og heilsa upp á fólkið. Það gefur hvert öðru gjafir, sérstakelga lituð páskaegg. Þau eru tákn hins n‡ja lífs sem blómgast á páskunum.

23.02.08

  08:59:06, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 361 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Allar syndir heimsins - Futon J. Sheen

Eftir að hafa etið síðustu kvöldmáltíðina með postulum sínum,
fóru Jesús og hinir ellefu til Getsemane garðsins. Jesús kraup og baðst fyrir. Á meðan hann baðst fyrir lögðust allar syndir heimsins, fortíðar, nútíðar og framtíðar, á herðar hans og íþyngdu honum.

•Fyrsta syndin, synd Adams og Evu var þarna.
•Synd Kain, sem drap bróður sinn var þarna.
•Viðurstyggð Sódómu og Gómorru.
•Bölvun heiðingjanna.
•Syndir Guðs útvöldu.

•Allar syndir voru þarna og krömdu Jesú, svo að hann sveittist blóði.

•Syndir drýgðar í sveitum, sem fá alla ………

Read more »

20.02.08

  20:18:04, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 297 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Kafli úr föstuboðskap páfa á fagnaðarárinu 2000

……… 2. Við vorum dauð fyrir syndina (sbr. Ef 2. 5). Þannig lýsir Páll postuli stöðu mannsins án Krists. Það var þess vegna sem Sonur Guðs vildi sameinast mannlegu eðli til þess að leysa það frá þrældómi syndar og dauða.

Andspænis myrkri syndarinnar og getuleysi mannanna til þess að frelsa sjálfa sig af eigin rammleik, birtist hjálpræðisverk Krists í allri sinni dýrð: "Guð setti hann fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýndi Guð réttlæti sitt" (Rm 3. 25). Kristur er lambið ………

Read more »

18.02.08

  12:53:40, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 398 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Harmaljóð - notað á föstudaginn langa

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

1 Af því að ég hef leitt þig út af Egyptalandi, hefur þú búið frelsara þínum kross. Af því að í fjörutíu ár hef ég leitt þig gegnum eyðimörkina og fætt þig á manna og leitt þig inn í harla gott land, hefur þú búið frelsara þínum kross.

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

2 Heilagi Guð, heilagi Guð. Heilagi sterki, heilagi sterki. Heilagi, ódauðlegi, miskunna þú oss.

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

3 Hvað hefði ég átt að gjöra frekar fyrir þig, sem ég gjörði ekki? Ég hef gróðursett þig sem fegursta úrvalsvínvið minn en þú ert orðinn mér afar beiskur; því að þú hefur svalað þorsta mínum með ediki og níst síðu Frelsara þíns með spjóti. Þín vegna hef ég hirt Egypta ásamt frumburðum þeirra, en þú hefur ofurselt mig til húðstrýkingar.

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

4 Ég hef leitt þig út úr Egyptalandi og sökkt Faraó í Rauðahafið; en þú hefur ofurselt mig æðstu prestunum. Ég hef opnað fyrir þér hafið; en þú hefur opnað síðu mína með spjóti. Ég hef gengið á undan þér í skýstólpa; en þú hefur leitt mig fyrir dómstól Pílatusar.

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

5 Ég hef fætt þig á manna í eyðimörkinni; en þú hefur slegið mig í andlitið og húðstrýkt mig. Ég hef gefið þér heilnæmt vatn úr kletti að drekka; en þú hefur gefið mér að drekka gall og edik.

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

6 Þín vegna hef ég slegið konunga Kanaanslands; en þú hefur slegið mig í höfuðið með reyrstaf. Ég hef gefið þér veldissprota konungs; en þú hefur látið þyrnikórónu á höfuð mitt. Ég hef upphafið þig af miklum mætti; en þú hefur hengt mig á krosstréð.

Lýður minn, hvað hef ég gjört þér? Með hverju hef ég hryggt þig? Svara þú mér!

12.09.07

  06:04:05, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 72 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Síðasta sjö orð Jesú Krists á krossinum

(14. september er upphafning hins heilaga kross)

1 "Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra." Lk 23:34

2 "Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís." Lk 23:43

3 "Kona, nú er hann sonur þinn." "Nú er hún móðir þín." Jn 19:26

4 "Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?" Mk 15:34

5 "Mig þyrstir." Jn 19:28

6 "Það er fullkomnað." Jn 19:30

7 "Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!" Lk 23:46

27.02.07

  22:26:16, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 349 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Jesús heldur áfram að lækna í gegnum okkur!

Veikindi og þjáningar hafa alltaf verið meðal stærstu vandamála, sem fólk hefur orðið að horfast í augu við í lífinu. Þegar við erum alvarlega veik, verðum við fljótt vanmáttug og auðsæranleg. Við verðum hrædd. Og þegar við erum mjög veik, finnum við stundum fyrir návist dauðans.

Vanheilsa getur gert okkur reið, þunglynd og bitur. Stundum snúumst við gegn Guði þegar við erum veik, vegna þess að við sökum hann.

En vanheilsa getur líka haft gagnstæð hrif. Hún getur hjálpað okkur til að þroskast, svo að við sjáum skýrar hvað er mikilvægt og hvað ekki í lífi okkar. Mjög oft getur vanheilsan hvatt okkur til að leita að Guði og snúa okkur til hans.

Samúð Jesú með hinum sjúku og hinar mörgu lækningar hans eru tákn um það að Guð vakir yfir okkur og lætur sér annt um okkur. Frelsari okkar læknar ekki aðeins líkamann með því að taka burt sjúkdóma. Hann læknar líka sálir okkar með því að taka burt syndina. Samúð hans gagnvart öllum sem þjást gengur svo langt að hann gerir jafnvel þeirra þjáningar að sínum eigin. "Ég var sjúkur og þér vitjuðuð mín."

Ást Jesú á hinum sjúku hefur varðveist um aldir í kirkjunni. Fyrst í klaustrunum, þar sem hinir sjúku fundu skjól. Seinna helguðu margar prestareglur og nunnureglur sig því að annast sjúka.

Til að finna dæmi um það þurfum við ekki að leita mjög langt. Við þurfum aðeins að minnast þess að þrjú af sjúkrahúsunum hér á Íslandi voru í mörg ár rekin af Sankti Jósefs systrum og Fransiskus systrum. Þessar systur og þúsundir fleiri víðsvegar um heim hafa helgað æfi sína því að hjálpa sjúkum. Þær feta í fótspor Jesú.

Jesús heldur áfram að kenna, lækna og þjóna — í gegnum okkur!

22.02.07

  17:28:27, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 321 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Galli og synd er ekki það sama.

Galli og synd er ekki það sama. Galli er veikleiki í skapgerð okkar sem gerir okkur auðveldara fyrir að drýgja vissar syndir. Ágallinn er varanlegur nema við losum okkur við hann.

Aftur á móti er syndin eitthvað sem við drýgjum á gefnu augnabliki.

Við skiljum betur muninn á galla og synd ef við hugsum okkur að gallinn sé rótin og syndin laufblöðin. Það er þannig með arfann sem við reynum að reita í garðinum að það er ekki nóg að slíta blöðin, við verðum einnig aðrífa upp ræturnar. Að öðrum kosti munu laufblöðin vaxa fljótt aftur. Það sama á við syndina í lífi okkar, hún mun endurtaka sig nema því aðeins að við losum okkur við þann ágalla sem veldur henni.

Að megin hluta eru ágallar mannsins sjö að tölu eftir því sem kaþólskir guðfræðingar segja okkur. Suma þeirra höfum við öll í einhverju mæli.

Fyrsti ágallinn er HROKI. Hroki er uppspretta margra synda eins og gegndarlausrar framagirni, ofurtrúar á eigin andlegri getu, hégóma, monts og svo framvegis.

Sá næsti er ÁGIRND. Ágirnd er uppspretta margra synda eins og þjófnaðar, fjársvika, arðráns, vinnusvika, okurstarfsemi og svo framvegis.

Þriðji ágallinn er LOSTI. Lostinn er uppspretta margra synda sem ganga gegn hreinlífi.

Fjórði er REIÐI. Reiðin er uppspretta margra synda eins og mannvígs, deilna, haturs, meinfýsi, skemmda á eignum og svo framvegis.

Fimmti ágallinn er ÓHÓF. Óhóf er uppspretta synda eins og ofáts og ofdrykkju.

Sjötti er ÖFUND. Öfundin er uppsprettasynda eins og rógburðar, óvildar og svo framvegis.

Sjöundi er LETI. Leti er uppspretta margra synda eins og að vanrækja fjölskylduna og vinnuna, að fara ekki til messu á sunnudögum að ásettu ráði, að biðjast aldrei fyrir og svo framvegis.

21.02.07

  22:27:42, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 191 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Hversu vel þekki ég sjálfan mig?

Hversu vel þekki ég sjálfan mig?

Þessa mikilvægu spurningu ætti hver og einn ætti að spyrja sig. Margir dýrlingar hafa í skrifum sínum gefið góðar ráðleggingar í þeim efnum. Spurningin er mikilvæg vegna þess að ef við reynum að svara henni getur það þroskað andlegt líf okkar. Það gerir okkur kleift að sjá okkur í því ljósi sem Guð sér okkur. Þetta er að sjálfsögðu merking sannrar auðmýktar — að sjá sjálfan sig í því ljósi sem Guð sér okkur. Engin sýndarmennska, ekkert er falið, við birtumst eins og við erum í raun og veru með alla okkar kosti og galla.

Heilagur Antoníus mikli, sem kallaður hefur verið faðir munkalífs, var fæddur í Egyptalandi í kringum árið 251. Margt af því sem hann skrifaði hefur varðveist fram á okkar tíma. Eftirfarandi sagði hann eitt sinn um auðmýktina: „Ég sá ginningar óvinarins hvert sem litið var og ég sagði: „Hvað fær staðist slíkar ginningar?“ Og ég heyrði rödd sem sagði við mig:„Auðmýktin“.“

25.09.06

  20:58:36, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 172 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Við þekkjum ríki Guðs á kærleikanum

Móðir Teresa frá Kalkútta átti það til að segja eftirfarandi sögu:

„Einu sinni stóð Múhameðstrúarmaður við hlið mér og horfði á eina af okkur systur binda um sár holdsveiks manns, sem hún gerði af mikilli umhyggju og ást. Systirin sagði ekki orð við holdsveika manninn en hún gerði honum mikið gagn.

Múhameðstrúarmaðurinn sneri sér að mér og sagði: „Öll þessi ár hef ég trúað því að Jesús Kristur væri spámaður; einungis það, ekkert annað. En í dag hef ég komist að því að hann er Guð. Hann hefur látið ómælandi kærleika flæða um hjarta og hendur þessarar systur.““

Móðir Teresa bætti ávallt við eftir að hafa sagt þessa sögu:

„Enn þann dag í dag, veit þessi systir ekki að með hinni góða þjónustu sinni við holdsveika manninn bar hún Jesúm inn í líf Múhameðstrúarmanns.“

16.05.06

  20:47:09, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 25 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Hið eina sem nauðsynlegt er til þess að hið illa sigri

Einhver sagði eitt sinn:

"Hið eina sem nauðsynlegt er
til þess að hið illa sigri,
er að gott fólk,
geri ekki neitt".

14.05.06

  21:33:23, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 118 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Hvers vegna ræður kirkjan til pílagrímsferða?

Kirkjan ræður til pílagrímsferða:

1. vegna þess, að það er kristinn siður, jafn gamall kirkjunni;

2. vegna þess, að þær veita mikla blessun, þegar þær eru framkvæmdar á réttan hátt.

Þegar á elstu tímum fóru kristnir menn pílagrímsferðir til þeirra staða, þar sem Jesús lifði og leið dauða, og sömuleiðis til legstað postulanna og píslarvottanna. Að vísu er Guð alstaðar nálægur og heyrir bænir okkar, hvar sem við biðjum hann, en á vissum helgum stöðum er honum það þóknanlegt að auðsýna okkur sérstaka náð. Slíkir staðir eru nefndir náðarstaðir.

05.05.06

  21:14:46, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 70 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Liturinn á skrúðanum

Liturinn á skrúðanum hefur sérstaka merkingu.

Hvítt merkir sakleysi og andlegan fögnuð, (hátíðir Drottins, Guðsmóður, englanna, játendanna og meyjanna).

Rautt er litur elds og blóðs (hvítasunna, hátíðir píslarvottanna).

Grænt merkir von eilífs lífs (sunnudagarnir eftir þrettánda og hvítasunnu).

Fjólublátt merkir auðmýkt og iðrun (aðventan og fastan).

03.05.06

  21:19:36, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 333 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Hvernig hefur Guð látið menn vita að hann væri til?

Guð hefur látið menn vita, að hann væri til:
1. með hinum sýnilega heimi;
2. með rödd samviskunnar;
3. en einkum með yfirnáttúrlegri opinberun.

1. Hús getur ekki byggt sig sjálft. Miklu síður getur hin mikla alheimsbygging með sínum dásamlega útbúnaði hafa orðið til af sjálfu sér. Alvitur og almáttugur skapari hlýtur að hafa gjört hana. Þess vegna kemst heilög ritning svo að orði:

"Himnarnir segja frá Guðs dýrð og festingin kunngjörir verkin handa hans." (Sám.18,2).

"En spyr þú skepnurnar og þær munu kenna þér, fugla loftsins og þeir munu fræða þig, eða jörðina og hún mun svara þér og fiskar hafsins munu segja þér það: Hver þekkti ekki á öllu þessu, að hönd Drottins hefur gjört þetta." (Job.12,7).

"Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til." (Sálm.13,I)

2. Í hverri mannssál er rödd, sem segir okkur hvað gott sé og hvað illt. Ef við gerum eitthvað gott hrósar hún okkur, en ef við höfumst eitthvað illt að ávítar hún okkur. Þessa rödd nefnum við samvisku. Við höfum eigi gefið okkur samviskuna sjálfir, og getum heldur eigi látið hana hætta að segja okkur til þó við vildum, að minnsta kosti ekki að fullu og öllu. Hvaðan kemur hún? Hún kemur frá Guði, sem hefir ritað lögmál sitt í hjörtu okkar manna. Þess vegna segir hl. Páll postuli um heiðingjana:

"Þeir sýna, að verk lögmálsins er ritað í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber vitni." (Róm.2,15)

3. Í opinberuninni fáum við fullkomna þekkingu á Guði, þess vegna segir hl. Jóhannes guðspjallamaður:

"Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eingetni, sem er í skauti Föðurins hefur lýst honum." (Jóh. I,18).

Guð hefur staðfest opinberunina með óteljandi kraftaverkum.

25.04.06

  14:30:06, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 169 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

“Ég hef mína barnatrú!”

Oft gerist það að fólk sem fann sterkan kærleika til Guðs sem börn, kemst að því sem fullorðið fólk að Guð er ekki lengur mikilvægur. Það sem gerist er að skilningur einstaklingsins á Guði vex ekki og þroskast í samræmi við hærri aldur. Þegar maðurinn nær svo fullorðinsaldri hefur hann enn hugmynd barnsins um Guð í huga sér og heldur að Guð sé einungis fyrir börn.

Heilagur Páll postuli segir: "Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn."

Við verðum að biðja Guð um að skilningur okkar á honum vaxi og þroskist. Sem fullorðnir einstaklingar eigum við að leggja barnslegar hugmyndir um Guð til hliðar og setja þroskaðar hugmyndir í þeirra stað. Því Guð er einnig mikilvægur fyrir okkur fullorðna fólkið!

24.04.06

  20:39:14, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 125 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Til hvers erum við hér á jörðunni?

Við erum hér á jörðunni til þess að þekkja Guð, elska hann og þjóna honum, þ.e.a.s. að við erum hér á jörðunni til þess að gera Guðs heilagan vilja; og komast á þann hátt til himnaríkis.

Einasta markmið okkar er: Að komast til himnaríkis, til Guðs, Föður vors.

Það var einmitt það, sem Frelsari okkar átti við, þegar hann sagði við Mörtu: "Eitt er nauðsynlegt" (Lúk. 10,42), og þegar hann sagði við lærisveina sína: "Því að hvað mun það stoða manninn, þótt hann vinni allan heiminn, en bíði tjón á sál sinni " (Matt. 16,26).

Vegurinn að þessu markmiði er að gera Guðs vilja.

23.04.06

  22:33:05, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 23 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Biðjið eins og allt sé háð Guði en starfið eins og allt sé háð ykkur

"Biðjið eins og allt sé háð Guði en starfið eins og allt sé háð ykkur."
Eignað hl. Ignatíusi frá Loyola.

24.03.06

  09:03:28, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 76 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Guð einn er nóg!

Lát þú ekkert trufla þig,
ekkert hræða þig;
allir hlutir eru hverfulir,
en Guð er ávallt óumbreytanlegur;
þrautseig þolinmæði
nær hverju og einu marki;
hann sem á Guð er í engu ávant;
Guð einn er nóg.

Hl. Teresa af Jesú
(Tkk 227)

Nada te turbe;
nada te espante;
todo se pasa;
Dios no se muda,
la paciencia
todo lo alcanza.
Quien a Dios tiene,
nada le falta.
Solo Dios basta.

Santa Teresa de Jesús

21.03.06

  07:20:20, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 105 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Ég er góði hirðirinn

Sumar af elstu táknmyndum kristinna manna, sem málaðar eru á veggi í Katakompunum í Róm, eru af Jesú sem ungum skegglausum fjárhirði þar sem hann heldur á sauð á öxlum sér. Augljóslega var "góði hirðirinn", mjög vinsælt meðal fyrstu kristinna manna.

Eins og við vitum þá eru guðspjöllin uppfull af dæmum um kærleika Jesú:

• "Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrgðar, og ég mun veita yður hvíld." (Mt11:28)

• "Ég er góði hirðirinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina." (Jh10:11)

21.05.05

  22:06:28, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 67 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Löngunin eftir Guði

"Löngunin eftir Guði er letruð í hið mannlega hjarta vegna þess að maðurinn er skapaður af Guði og fyrir Guð; og Guð dregur manninn linnulaust til sín. Einungis í Guði mun maðurinn finna sannleikann og hamingjuna sem hann leitar sleitulaust.
Þú hefur gert okkur fyrir þig sjálfan og hjarta okkar er órótt, uns það hvílist í þér." (TRÚFRÆÐSLURIT)

18.05.05

  23:01:31, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 350 orð  
Flokkur: Til umhugsunar

Tíu ástæður fyrir því að ég fer aldrei í kirkju :-)

Fólk ber við mörgum mismunandi ástæðum fyrir því að fara ekki í kirkju. Ástæður þessar eru oftast mjög skynsamlegar og góðar eða er það?

Tíu ástæður fyrir því að ég fer aldrei í kirkju
og tíu ástæður fyrir því að ég þvæ mér aldrei.

(1) Ég var neydd/ur til þess að fara í kirkju sem barn.
(1) Ég var neydd/ur til þess að þvo mér sem barn.

(2) Fólk sem fer í kirkju er hræsnarar sem heldur að það sé betra en annað fólk.
(2) Fólk sem þvær sér er hræsnarar sem heldur að það sé hreinna en annað fólk.

(3) Það eru svo margar mismunandi kirkjur að ég get ekki ákveðið hvaða kirkja er best.
(3) Það eru svo margar mismunandi sáputegundir að ég get ekki ákveðið hvaða sáputegund er best.

(4) Ég var vön/vanur að fara í kirkju en fór að leiðast það og hætti því.
(4) Ég var vön/vanur að þvo mér en fór að leiðast það og hætti því.

(5) Ég fer aðeins í kirkju á hátíðum eins og til dæmis á jólum og páskum.
(5) Ég þvæ mér aðeins á hátíðum eins og til dæmis á jólum og páskum.

(6) Enginn vina minna fer í kirkju.
(6) Enginn vina minna þvær sér.

(7) Ég ætla að byrja á því að fara í kirkju þegar ég eldist.
(7) Ég ætla að byrja á því að þvo mér þegar ég eldist.

(8) Ég hef aldrei tíma til þess að fara í kirkju.
(8) Ég hef aldrei tíma til þess að þvo mér.

(9) Það er aldrei nógu hlýtt í kirkjunni á veturna og aldrei nógu svalt í henni á sumrin.
(9) Það er aldrei nógu hlýtt í baðherberginu á veturna og aldrei nógu svalt þar á sumrin.

(10) Fólk sem hvetur til trúar er bara að hugsa um að ná peningum af manni.
(10) Fólk sem hvetur til sápunotkunar er bara að hugsa um að ná peningum af manni.