Flokkur: "Fósturvernd"

Blaðsíður: 1 2

13.07.06

  21:35:01, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 892 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Siðferði og samfélag, Kristindómur og stjórnmál

Siðferði og samfélag – nauðsyn kristins varnarstarfs

Eftir því sem ég frétti, les og hugsa meira um óviðunandi réttarstöðu hinna ófæddu, sífellt meiri ásækni gegn lífshagsmunum þeirra, um siðferði hjúskaparmála, upplausn fjölskyldna, viðkvæmt og áhættusamt uppeldi barna, þróunina hér, á Norðurlöndum og víðar, m.m., verður mér æ betur ljós þörfin á því, að hér rísi upp kristinn, samkirkjulegur félagsskapur sem sinni þessum málum sérstaklega, þ.e.a.s. söfnun heimilda, rannsóknum og upplýsingastarfi, m.a. með stofnun vefseturs. Siðferði og samfélag gæti t.d. orðið nafnið á slíkum félagsskap eða rannsóknarstofnun.

Read more »

05.07.06

  16:32:57, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 396 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Siðferði og samfélag, Árásum svarað á trú og kristni

Nýjasta móðgun stjórnvalda við kristindóm og siðferði: gjörnýting fósturvísa

Hrikalegar fréttir eru í loftinu – komu fram í fréttum Ríkisútvarpsins í dag kl. 18 og voru til frekari umfjöllunar í 'Speglinum' á Rás 1 sama kvöld. Heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, hefur í hyggju að leggja fram frumvarp sem heimili notkun fósturvísa til stofnfrumurannsókna. Auðshyggjan og heiðin viðhorf gagnvart helgi mannlegs lífs stefna æ lengra í sigursókn sinni gegn lífsins gildum. Enginn stjórnmálamaður virðist hirða hætishót um að þverbrotið er gegn kristnum grundvallarlögum í því efni. Sama ásækni heimshyggjunnar birtist í nýrri fóstureyðingarpillu, sem nú virðist keyrð í gegn til notkunar án lagaheimilda. Þetta bætist ofan á hina falsnefndu "neyðargetnaðarvörn" sem nörruð var inn á þjóðina með ráðherravaldi án lagasetningar né lagaheimildar á árinu 2001, og fóstureyðingarnar "hefðbundnu" skv. lögunum frá 1975, sem nánast alla tíð hafa verið túlkuð allt of vítt og misnotuð til deyðingar þúsunda á þúsundir ofan. Þessu til viðbótar eru vændis-gælufrumvarp ráðherra og stjórnarfrumvarp (nú lög) um fjölskyldumál sem hvorki samrýmast kristnum ákvæðum né náttúrurétti.

Read more »

03.07.06

  13:55:02, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1195 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Sir William Liley – ævi hans og störf að rannsóknum og lækningum á ófæddum börnum

Erindi flutt á fundi Lífsvonar 12. des. 1992

Maður sá sem hér segir frá var einn af brautryðjendum fósturfræðinnar (á latínu: fœtologia), þeirrar greinar læknisfræðinnar, sem fjallar um hina ófæddu frá fyrstu stigum til fæðingarinnar. Með rannsóknum sínum lagði hann grunninn að lækningaaðferðum sem síðan hafa bjargað lífi þúsunda barna. Ævi hans var stutt, en þeim mun farsælli, og þó að það eigi ekki alltaf fyrir brautryðjendum að liggja að hljóta viðurkenningu í lifanda lífi, þá fór þessi maður ekki varhluta af því að falla í skaut allur hugsanlegur heiður, sem fremstu vísindamönnum í læknisfræði getur hlotnazt. Það er áhugavert að kynna sér starfsferil hans, en fyrir okkur lífsverndarsinna er jafnframt og ekki síður áhugavert að kynnast því, hvernig hann, eftir margra ára rannsóknir á hinum ófæddu, gerðist einn af stofnendum lífsverndarsamtaka í landi sínu. Þar gaf hann málstaðnum óskipta krafta sína, eins og honum var framast unnt, og sýndi með fordæmi sínu, m.a. í eigin fjölskyldulífi, hve heilsteyptur hann var í viðurkenningu sinni og baráttu fyrir helgi lífsins – jafnt hinna veikburða sem hinna heilbrigðu.

Read more »

25.06.06

  22:33:57, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 2036 orð  
Flokkur: Fósturvernd

William Liley: Minnsta mannsbarnið

Kaflar úr grein eftir Sir William Albert Liley, prófessor í lífeðlisfræði ófæddra og nýfæddra barna (perinatal physiology), Auckland-háskóla, Nýja-Sjálandi. Áður birt í Lífsvon, fréttabréfi Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, 1. tbl. 9. árg. (marz 1993), s. 6–8. Upphaflega var þetta fyrirlestur, sem Liley flutti 1979 á fundi Right-to-Life-lífsverndarsamtakanna í Kanada, en birtist í málgagni Society for the Protection of Unborn Children í Eng-landi, Human Concern, sumarið 1980. Ritstjóri Lífsvonar fekk leyfi SPUC til að þýða erindið á íslenzku og birta í bók, sem ráðgert er að komi út um lífsverndarmál. Hér eru birtir nokkrir kaflar úr þessari stórfróðlegu grein.

Framfarir í fósturfræði
Okkar kynslóð er sú fyrsta í sögunni, sem fengið hefur nokkuð raunsanna mynd af þróun mannlegs lífs frá getnaði. Það var ekki fyrr en 1930, að menn gátu fylgzt með egglosi í konu. Árið 1944 varð fyrst unnt að greina í smásjá samruna mannlegrar sáðfrumu og eggfrumu. Á 6. áratugnum gátu menn loks gert sér grein fyrir atburðarás sex fyrstu daganna í þróun mannlegs lífs – fyrstu skrefum fósturvísisins á sinni ævintýralegu braut. .... FRAMHALD hér neðar!

Read more »

19.06.06

  09:02:49, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 210 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Samfélagsréttindi, kjaramál

Réttur ófæddra kvenna

Á kvennadaginn er margt rætt um kjör kvenna, réttindi þeirra og virðingu. Því verður ekki á móti mælt, að víða er pottur brotinn hvað þessi mál snertir í þjóðfélagi okkar þrátt fyrir umliðinn kvennaáratug. En gleymdu ræðumenn dagsins samt ekki því, sem mikilvægast er, sjálfri forsendu allra annarra réttinda, réttinum til lífsins?

Íslenzkar konur! Á hverju ári eru nálægt 500 kynsystur ykkar sviptar réttinum til lífs á sjúkrahúsum landsins. Eiga þau ófæddu meybörn ekki líka tilkall til samúðar ykkar og órofa samstöðu? –– Jón Valur Jensson.
–––––––––––––––
Þessi smápistill birtist í Velvakanda í Morgunblaðinu 30. okt. 1985. Hér hefur nánast engu verið breytt nema tölunni um fjölda þeirra ófæddu mey-barna sem týna lífinu í "löglegri fóstureyðingaraðgerð" á hverju ári, en sú tala hefur hækkað úr 350 í 500 árlega – og hér gert ráð fyrir, að sveinbörn séu jafnmörg meybörnum. Þessi fjölgun er ekki merki þess, að réttarstaða hinna ófæddu hafi batnað hætishót hér á landi á umliðnu 21 ári. (Þó að kvennadagurinn sé 24. okt., á allt eins við að endurbirta þetta 19. júní.)

21.05.06

  22:03:41, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 837 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Fólksfækkunarhættan

Hve langan tíma tekur hægfara sjálfsmorð þjóðar?

MEÐAL-barnafjöldi á hverja konu í Þýzkalandi, Austurríki, Grikklandi, Ung-verjalandi, Ítalíu, Spáni, Rússlandi, Póllandi og Tékklandi er nú um 1,3 börn (+/–0,09), en þyrfti að vera 2,1 á hverja konu eða hver hjón til þess eins að viðhalda stofninum óskertum. Hafa menn leitt hugann að því, hversu langan tíma það taki hina ungu kynslóð viðkomandi þjóða að detta niður í fjórðung núverandi stærðar ... og niður í aðeins 10%? – Myndirðu trúa þessu svari: ÞRJÁR KYNSLÓÐIR ... og FIMM KYNSLÓÐIR?! Einmitt þetta er það svar sem fer næst sanni, þ.e. ef áfram er gert ráð fyrir 1,3 börnum á hverja konu.

Read more »

20.04.06

  00:05:23, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 302 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Fólksfækkunarhættan

Barnaborg? – já, ef rétt er stjórnað!

Eftirfarandi grein sendi ég Fréttablaðinu 30. marz sl., en hún hefur ekki fengizt þar birt. Því er hún nú, 3 vikum síðar, sett á Kirkjunetið. – JVJ.

Það er rétt hjá Svandísi Svavarsdóttur (Fréttabl. 30/3), að “Reykjavík á að vera barnaborg”. Kjörið væri fyrir þennan upprennandi stjórnmálamann að byrja á því að beita sér gegn fósturdeyðingunum, sem á rúmum þremur áratugum hafa svipt um 11.000 hérlendar kynsystur hennar lífinu. Hefði Reykjavík ekki misst af þessum meybörnum og jafnmörgum sveinum til, væru þar sennilega a.m.k. 8.000 fleiri einstaklingar í aldursflokknum 0–30 ára, en ekki færri utan borgarinnar. Þetta var þjóðarauður, sem við fórum á mis við – m.a. vegna stefnu föður hennar, harðskeyttra samherja hans og pólitíkusa sem brugðust í þessu máli í öllum flokkum. Í staðinn höfum við hér fátæka austantjaldsmenn sem látnir eru sofa í skúrum eða á steingólfinu þar sem þeir vinna sína byggingarvinnu. Það er þó einungis forsmekkurinn af þeim vandræðum sem Vesturlandamenn eiga eftir að upplifa, þegar afleiðingar fólksfækkunarstefnunnar hitta þá sjálfa harðast fyrir í sívaxandi mæli á næstu fimm áratugum.

Vinstri jafnt sem hægri menn, sem áður fundu sinn blóraböggul í þeim ófæddu, ættu að huga að þessu, vilji þeir barnvæna borg og sjálfbæra þjóð í sjálfstæðu landi.

Ég hef samúð með hugmyndum Svandísar um gjaldfrjálsan leikskóla, en teldi heilbrigðara að fólk yrði látið borga nákvæmlega 10% kostnaðar (rúml. 9.000 krónur á barn á mánuði) til að varðveita kostnaðarvitund okkar – og þakkarskuld – í allri velferðinni. – En gleymum ekki okkar minnstu bræðrum og systrum!

10.04.06

  21:42:40, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 280 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Blóðug og barbarísk manndráp

Þeir, sem hafa efazt um, að fóstureyðingar séu blóðugur barbarismi, ættu að líta á heimasíðu samtakanna The UK LifeLeague í Bretlandi, á http://uklifeleague.com/ – Strax þar á forsíðunni blasa við tvær myndir, sem fylla munu flesta undrun og óhugnaði. Skoðið þetta vefsetur, þar er margs konar fróðleikur um hina ófæddu, líf þeirra og dauða, baráttuna fyrir réttindum þeirra, tölulegar staðreyndir og fleira. Þegar ég fór inn á heimasíðuna, tjáði teljarinn mér, að þá væri búið að drepa um 70.067.825 fóstur í heiminum bara frá 1. janúar þessa árs til þessa dags, 10. apríl 2006. Fleiri myndir af hinum blóðuga vígvelli fósturdrápanna eru þar einnig, á vefslóðunum: http://www.uklifeleague.com/abortion-image-gallery/p4Index1.htm og þar um kring.

Read more »

25.03.06

  13:26:21, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1760 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Um “neyðargetnaðarvörn” – rangfærslum og lögleysu mótmælt

Grein þessi birtist í samanþjappaðri mynd í Mbl. 20. des. 2000, því að frumgerð hennar var sögð of löng fyrir blaðið. Hér er hún birt í upprunalegri, ýtarlegri gerð. Taka má fram, að Mbl.greininni [1] var ekki svarað í blaðinu.

Ekki verður hjá því komizt að andmæla fullyrðingum og áróðri heilbrigðisyfirvalda um verkun svokallaðrar neyðargetnaðarvarnarpillu. Áberandi dæmi um þetta er málflutningur dr. Reynis Tómasar Geirssonar í Mbl. 25. okt. 2000 og Sóleyjar Bender í sama blaði 11. nóv. s.á. Bæði boða þau “neyðargetnaðarvörn” (skammst. NGV) sem úrræði í takmörkun barneigna, en verður fótaskortur á sannleikanum í ofurkappi sínu að koma þessum pillum á framfæri.

Hér á eftir verður sýnt fram á (1) að sumar helztu staðhæfingar þeirra eru byggðar á sandi, jafnvel rangfærslu á alkunnum vísindalegum staðreyndum, og (2) að sú notkun á “NGV”, sem þau leggja til að tekin verði upp, er í reynd ólögmæt, þar sem hún er andstæð lögum nr. 25/1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar o.fl.

Read more »

  02:17:20, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 2424 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Bænamál

Sigurviss bæn fyrir ófæddum

Í dag er dagur ófæddu barnanna. Við skulum hugsa til þeirra og til skyldu okkar að undirbúa þennan heim fyrir komu þeirra og móttöku meðal okkar. Við skulum beygja kné okkar í iðrun og örvæntingu yfir því, að við höfum brugðizt í því hlutverki okkar að standa vörð um líf hinna ófæddu – að flæma burt af landi þessu hinn illa anda fósturdeyðingarhyggjunnar og "auðveldra lausna" sem allar eru á kostnað ófædda barnsins og móður þess, sem oftast verður að bera afleiðingarnar. En örvæntum ekki um sjálf okkur nema til þess eins að festa hug okkar þá þegar á Drottni Guði Föður okkar, sem annast eitt og sérhvert okkar af óumræðilegri elsku sinni. Sigur trúarinnar er í raun þegar unninn: allt sem við getum gert er að samverka með Guði í verki hans, og kenning trúarinnar veitir okkur fullvissu um að við getum borgið lífi margra ófæddra barna, íklædd hertygjum Heilags Anda, hvers 'vopn' er bænin. "En trú vor, hún er siguraflið sem hefur sigrað heim-inn" (I.Jóh. 5.4) – það er hún sem gefur okkur þessa sigurvissu djörfung.

Gakktu nú til bæna þinna í því hugarfari og þeirri fullvissu, að með hverju einasta hrópi á hjálp fyrir líf og heill hinna ófæddu verði a.m.k. einu ófæddu barni borgið.

Read more »

25.02.06

  04:03:41, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1269 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju, Lúthersk kristni

Lúther gegn hjónabandi samkynhneigðra

  Eftirfarandi grein var send DV 12. janúar, en fekkst þar ekki birt þrátt fyrir ítrekuð tilmæli. Þá var hún send Fréttablaðinu um 28. jan., en fekkst þar heldur ekki birt, þótt stytt væri niður fyrir 3000 slög til að fá þar inni. En hér er sagt aðeins frá viðhorfum Lúthers til kynmaka samkynja fólks, auk þess sem vikið er að svo ólíkum hlutum sem Gamla testamentinu, skrifum Platóns, ummælum Jesú um Sódómu og skriftaboðum Þorláks biskups helga.

Jón Einarsson, lipur fastapenni á DV, skrifaði pistil um mál samkynhneigðra 10. janúar sl. og ræddi þar viðhorf Karls biskups og ummæli Jónínu Bjartmarz alþm. á Stöð 2. Rétt var af Jóni að leiðrétta orð hennar um hjónabandið sem "sakramenti" í Þjóðkirkjunni, því að það er alls ekki lútherskur skilningur. Nú er hún lærður lögfræðingur og reyndur þingmaður. Það er því viss mælistika á þekkinguna á kristnum sið og trú á síðari tímum að slík frammámanneskja láti þvílík orð falla í sjónvarpsviðtali. Annað var þó ískyggilegra, sem nafni minn lét hjá líða að minnast á, þ.e. að í sama viðtali lagði hún til að trúfélög yrðu "skylduð til að blessa samkynhneigða". [Frh. neðar.]

Read more »

03.01.06

Börn eiga skilið foreldra sem eru hjón, segir Benedikt páfi

Börn eiga skilið að eiga gifta foreldra, segir Benedikt páfi XVI. Þetta kom fram í ræðu sem hann hélt nýlega á ráðstefnu leiðtoga suður-amerískra biskupa um fjölskylduna og lífið. "Börnin eiga rétt á að fæðast og vaxa upp í fjölskyldu sem grundvallast á hjónabandi," sagði hann og hvatti allt samfélag kirkjunnar "til að kynna hið einstaka gildi hjónabandsins í allri sinni auðlegð, þessa fyrirkomulags náttúrunnar sem kalla má föðurleifð mannkyns."

Í ræðunni, sem flutt var á spænsku, staðhæfði Benedikt XVI að "sú afhelgun, sem nú gætir víða, tálm[i] samvizku almennings að uppgötva sem vert væri eðli og hlutverk fjölskyldunnar sem stofnunar." Nú á síðustu árum hafi "ranglát lög" verið sett, sem opinberi "vanþekkingu á grundvallaratriðum hjónabandsins."

Read more »

17.09.05

  10:51:53, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 788 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Bænamál

Beðið fyrir ófæddum börnum

Áður birt í lífsverndarblaðinu Mannhelgi, nr. 1 (ágúst 1987), en hér með nokkrum viðbótum.

Drottinn Guð, vér felum þér á hendur ófædd börn þessa lands og foreldra þeirra. Kenn þú þjóð vorri að virða mannslífið og veita bágstöddum hjálp í sérhverri nauð.

+ + + + +

Drottinn, vak þú yfir sérhverju barni, fæddu sem ófæddu, og gef þú öllum foreldrum styrk til að standa saman í gagnkvæmum kærleika og í hlýðni við vilja þinn.

+ + + + +

Drottinn Jesú Kristur, þú sem sagðir: “Leyfið börnunum að koma til mín,” vér biðjum þig: Tak í ríki þitt ófæddu börnin, sem var varnað þess að mega fæðast, og fyrirgef þeim, sem syndgað hafa gegn þínum smæstu bræðrum [eða: gegn vilja þínum].

+ + + + +

Drottinn Guð, vér biðjum um virðingu fyrir lífinu og sérstaklega gagnvart ófæddum börnum. Lát þú alla menn kannast við lífsgildi þeirra og að þú einn ert Herra yfir lífi og dauða. Veit foreldrum þeirra styrk, og lækna þú sérhvert sakbitið hjarta. (Söfnuður: Drottinn, vér biðjum þig, bænheyr þú oss – eða: heyr vora bæn.)

+ + + + +

Algóði faðir ... Blessa þú verðandi mæður og ófædd börn, og veit þeim öryggi, góða heilsu og líf.

(Bæn sr. Hjalta Þorkelssonar í Kristskirkju 24. febr. 1985 og 16. febr. 1986. Hann hefur einnig beðið sérstaklega fyrir fósturverndarstarfinu.)

+ + + + +

Drottinn, þú sem ert lífið sjálft, hjálpaðu okkur til að meta allt líf, sem þú skapar, hjálpaðu okkur til að virða allt líf – nýfætt, ófætt, fullvaxta og það sem ellin hrjáir. Hjálpaðu okkur til að sýna hvert öðru hlýju og nærgætni ...

(Úr bæn sr. Solveigar Láru Guðmundsdóttur í hugvekju í Sjónvarpinu, 28. apríl 1985.)

+ + + + +

Eftirfarandi athugasemd og bæn var bætt við bréf herra Péturs Sigurgeirssonar biskups til allra presta Þjóðkirkjunnar, dags. 26. apríl 1985, varðandi bænarefni hins almenna bænadags 1985 (12. maí), en þá var beðið “fyrir börnum, fæddum og ófæddum, og framtíð þeirra”:

“Í Handbókinni eru bænir í sérstökum aðstæðum, nr. 29 og 30 (bls. 60–61), sem henta vel bænarefni dagsins, Þar má bæta við bæn á þessa leið:

Drottinn, vak þú yfir sérhverju barni, fæddu sem ófæddu, og gef þú öllum foreldrum styrk til að standa saman í gagnkvæmum kærleika og í hlýðni við vilja þinn. Kenn þú þjóð vorri að virða mannslífið og veita bágstöddum hjálp í sérhverri nauð, fyrir Jesú Krist, Drottin vorn."

+ + + + +

Vér biðjum fyrir sjúkum, sorgmæddum og einstæðingum, fyrir öllum börnum, fæddum jafnt sem ófæddum og einkum þeim sem búa við erfið kjör ....
Þannig tíðkaði sr. Björn Jónsson, prestur og prófastur á Akranesi, að fella bænarorð fyrir hinum ófæddu inn í almennu kirkjubænina; fer vel á þessu í samhenginu (sbr. einnig næstu bæn og síðustu bænina hér á eftir).

+ + + + +

Bænir sr. Hjalta Þorkelssonar í Kristskirkju á 6. sunnudag í páskaföstu 1985 og 2. sd. í föstu 1986:

Algóði Faðir: Jesús sagði, að þú myndir heyra bænir vorar bornar fram í þínu nafni, því biðjum vér: Fyrir kirkju þinni ...
...
Fyrir sjúkum og sorgmæddum ...
Fyrir börnum þessa lands, fæddum sem ófæddum: Varðveit þau öll í föðurkærleika þínum, og gef þeim líf og heilsu og góðan þroska. (Söfn.: Drottinn, vér biðjum þig, bænheyr þú oss.)
Fyrir þeim, sem bera ábyrgð á lífi barna: Gef þeim styrk í hlutverki þeirra og náð til að fæða þau og koma þeim til manns. (S. svarar.)
Fyrir öllum framliðnum ...

+ + + + +

(Drottinn Guð, vér biðjum ...) Fyrir verðandi mæðrum og ófæddum börnum þeirra. Gef, að mæðurnar geri sér ljósa ábyrgð sína og öll börn megi lifa það að komast til vits og þroska. (Söfn. svarar.)

(Bæn sr. Hjalta Þorkelssonar í Kristskirkju 29. des. 1985, sunnudaginn næsta eftir messudag saklausu barnanna í Betlehem, sem er 28. des.)

+ + + + +

Vilt þú, Drottinn, blessa börn þessarar þjóðar, bæði fædd og ófædd. Vilt þú gefa, Drottinn, að við mættum veita þeim enn af þeirri miskunn, sem þú einn hefur yfir að ráða og vilt veita okkur í gegnum þitt orð og þitt verk ...

(Úr bæn sr. Valgeirs Ástráðssonar á æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar, 2.3. 1986.)

+ + + + +

Vér biðjum fyrir öllum, sem skortir heilsu og styrk, fyrir sjúkum, sorgmæddum og einstæðingum, fyrir börnum sem búa við erfið kjör. Opna augu vor fyrir gildi alls lífs, sem kviknar samkvæmt sköpun þinni. Helga allt líf í móðurlífi, svo að það megi fæðast og opinbera dýrð þína. Opna augu vor fyrir neyð náungans, og veit oss hugrekki til að koma honum til hjálpar. Fyrir Jesúm Krist, Drottin vorn. (Söfn.: Drottinn, heyr vora bæn.)

(Úr almennri kirkjubæn sr. Tómasar Sveinssonar á pálmasunnudag, 23. marz 1986. Þetta dæmi ásamt öðrum sýnir vel, hve eðlilega bæn fyrir ófæddum börnum getur fallið inn í hina almennu kirkjubæn.)

Endum þetta á vekjandi orðum Móður Teresu:

Við skulum biðja hvert fyrir öðru. Mín sérstaka bæn er sú, að við megum elska heitt þessa Guðsgjöf, barnið, því að barnið er stærsta gjöf Guðs til heimsins og til fjölskyldunnar og til sérhvers okkar. Og biðjið, að fyrir hjálp þessa kærleika megið þið vaxa í heilögu líferni; því að heilagleiki er ekki eitthvað, sem aðeins fáum getur hlotnazt; hann er blátt áfram skylda þín og skylda mín.

31.07.05

  21:52:57, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 3765 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Fóstureyðingar og samvizkumál

Erindi flutt í Útvarpi Sögu 25. júlí 2005.

Sælir, góðir hlustendur.
Ég heiti Jón Valur Jensson, er guðfræðingur að mennt, frá Háskóla Íslands, og með framhaldsnám í siðfræði og trúarheimspeki við háskólann í Cambridge á Englandi. Með námi vann ég almenna vinnu til lands og sjávar, ekki sízt á togurum úti á landi. Ég væri þó trúlega orðinn prestur í Þjóðkirkjunni, ef ég hefði ekki ákveðið að taka kaþólska trú, áður en námi lauk, en ég starfa nú sem forstöðumaður Ættfræðiþjónustunnar.

Þetta er í 3. sinn, sem ég tala hér í þessum þætti. Ég þakka Arnþrúði útvarpsstjóra þann heiður að fá að kynna viðhorf mín til mála.

Nú væri full þörf á því að ræða hér um miklu fleira en ófædd börn og fóstureyðingar, sem og heilsufarsafleiðingar þeirra, sem ég tók til umfjöllunar í hinum þáttunum. En það vill svo til, að í liðinni viku kom hér upp á Útvarpi Sögu allfjörug umræða um siðferði fóstureyðinga, og ég vil ekki svíkja menn um nokkur svör við andmælum þeirra, enda rennur mér blóðið til skyldunnar, vegna þess að ég lít svo á, að hér sé um að ræða mesta þjóðar- og siðferðismein nútímans, bæði hér á Íslandi, á Vesturlöndum og víðar. Þess vegna þarf það engrar afsökunar með, að ég klári nú fyrstu klukkustund mína í þessari þáttaröð með því að tala einmitt um þetta mál.

Umræðan hér um daginn spannst út frá því, að í liðinni viku tilnefndi George Bush dómarann John Roberts til að skipa sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna. Talið er víst, að hann sé hlynntur takmörkun fóstureyðinga, en þær eru nú um 1,3 milljón árlega þar í landi. Það væri þess vegna lífsverndarsinnuðu fólki fagnaðarefni, ef hann hlyti staðfestingu þingsins í þessa stöðu, vegna þess að Hæstiréttur þar er í lykilaðstöðu til að túlka – og endurtúlka – stjórnarskrána á þann veg, sem breyta myndi í reynd öllu lagaumhverfi fóstureyðinga.

Samkvæmt skoðanakönnun, sem birtist í Washington Post í fyrradag, telja 59% Bandaríkjamanna, að þingið ætti að staðfesta þessa skipun Roberts í dómarasætið, 23% voru andvígir því, en 18% tóku ekki afstöðu [sjá heimild 1]. Ég vildi láta þessa getið, vegna þess að í nefndum þætti Gústafs Níelssonar, Bláhorninu, kom fram það sjónarmið, að það yrði aldrei aftur snúið með fóstureyðingarnar hér á Íslandi – það væri "bara pólitískur ómöguleiki". Þessu er ég ósammála. Ekki aðeins vegna þess, að straumurinn er gegn fóstureyðingum í einu helzta lýðræðisríki heims, Bandaríkjunum, heldur af ýmsum öðrum ástæðum sem tengjast framvindu mála í heiminum. Það er t.d. viðblasandi á Vesturlöndum, að mannfjölgun er nálægt því að stöðvast, og í sumum löndum eins og Þýzkalandi, Ítalíu og Svíþjóð eru svo fáar fæðingar á hverja konu, að fólki þar mun fækka í stórum stíl á næstu áratugum. T.d. er talið að Þjóðverjum muni fækka um heilar 23 milljónir til ársins 2050 [heimild 2]. Um leið verður stórfelld aukning á fjölda fólks á lífeyrisaldri, en það leggur síauknar álögur á skattkerfið og vinnandi menn vegna lífeyrisbóta og heilbrigðisþjónustu hinna öldruðu. Bara til þess eins að fara ekki aftur úr í framleiðslu og efnahag þurfa Evrópusambandsríkin að flytja inn um 44 milljónir verkamanna til ársins 2050, skv. Tölfræðistofnun Evrópu [3]. Þó virðist nú einkar ólíklegt, að menn telji það létt verk og einfalt að leysa þetta fólksfækkunar-vandamál með innflutningi fólks af öðrum uppruna, t.d. frá löndum múslima. Félagsleg aðlögun þess fólks hefur reynzt erfiðari en menn óraði fyrir, og upp eru komin illviðráðanleg vandamál í samskiptum við þetta fólk eða öllu heldur: öfgamenn sem leynast meðal samlanda sinna í röðum nýbúa.

En á sama tíma og þessi fólksfækkun vofir yfir – samanber, að mannfjöldi í ESB mun hrapa úr 13% mannkyns niður í 7% um miðbik þessarar aldar, verði ekkert að gert [4] – þá er afar ólíklegt, að sú pólitíska tækifærisstefna og það gervi-frjálslyndi, sem boðar s.k. "frjálsar fóstureyðingar" og samhliða þeim síaukinn innflutning fólks frá öðrum löndum, allt í nafni framfara, þá er afar ólíklegt, endurtek ég, að sú vanhugsaða stefna haldi óskertum áhrifum sínum eða fylgi meðal þessara þjóða og þeirra sem stýra þar málum.

Þótt umtalsverð þrenging á heimildum til fóstureyðinga í Bandaríkjunum verði hugsanlega ekki fyrr en á árunum 2010–15, þá er víst, að það mun einnig hafa áhrif hér í Evrópu, þótt ekki væri nema vegna þess, að sú fækkun fóstureyðinga mun enn auka á forskot Bandaríkjanna á Evrópubandalagið í mannfjölgun og efnahagskrafti.

Já, hvers vegna ættu ekki að vera horfur á því, að einnig Alþingi komi auga á nauðsyn þess að takmarka verulega heimildir til fóstureyðinga? Hvað mundi t.d. gerast, ef alþingismönnum yrði gert kleift að kynna sér allar þær nýju upplýsingar sem komið hafa fram um undursamlegan þroskaferil fóstursins í móðurkviði? Það eru sífellt að koma fram nýjar upplýsingar, t.d. bara í fyrra með þrívíddar-ómsjármyndum. Þá kom í ljós, að fóstrið opnar ekki í fyrsta skipti augun 26 vikna gamalt, eins og talið hafði verið, heldur ekki seinna en 18 vikna gamalt. Þetta er bara eitt dæmi.

Svo er líka önnur ástæða, sem Alþingi ber að gæta að: Efast nokkur um, að hér séu nú ólíkt betri lífskjör hjá almenningi heldur en fyrir 30 árum, þegar fóstureyðingalögin voru sett? Hvers vegna hefur fóstureyðingum þá ekki fækkað? Hvers vegna eru, þvert á móti, rúmlega 1000 fóstureyðingar að meðaltali hér á landi síðustu fimm árin, en voru nálægt 430 á ári fyrstu fimm árin eftir setningu laganna? Það skyldi þó ekki vera vegna hreinnar efnishyggju, vegna þess að menn séu að flýta sér í lífsgæðakapphlaupi og skeyti ekkert um mannlegt líf, sem enn ber ekki mikið á? En er það siðræn, heilsteypt og heiðarleg afstaða? Eða er það kannski eins og séra Þorbergur Kristjánsson, fyrrv. formaður Prestafélags Íslands, lýsti þessu á fundi Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, árið 1992: að val konunnar eigi m.a. þær rætur í afstöðu umhverfisins, sem fólgin er í lögum landsins – að þau séu tekin sem "nokkur mælikvarði á rétt og rangt" – þau gefi henni "rétt til að hindra fæðingu barnsins, sem hún ber undir belti, og þar með sé henni "óbeint [...] sagt, að barnið hennar hafi ekkert manngildi, fyrr en eftir 12. viku, nema því aðeins, að hún kjósi sjálf að líta svo á, að það eigi að njóta helgi lífsins. Ekki er ólíklegt, að þetta komi til með að móta afstöðu hennar" [5].

Þannig má velta því fyrir sér, hvort við höfum varpað glýju í augu grandalausra kvenna, blekkt þær í raun með þessari löggjöf, sem eigi að vera svo einföld lausn. En þar með var hleypt af stað skriðu, sem við ráðum ekki við – eða öllu heldur: ómanneskjulegu verksmiðju-færibandi, sem liggur út í einhvern öskuhaug, færibandi sem hinum ófæddu er fleygt upp á, blóðugum, lemstruðum, sundurhlutuðum, án þess að geta rönd við reist, ... og allt þetta m.a. vegna þess, að mæðrum þeirra – og jafnvel foreldrum mæðra þeirra – hafði verið talin trú um, að þessi fóstur væru ekki neitt neitt – bara skynlaus vefjahnúður eða frumuköggull ! En ekki er það í samræmi við staðreyndir. Vegna aldurs og þroska eyddra fóstra hér á Íslandi, sem margir halda að séu flest eða öll innan 12 vikna marka, bendi ég á, að 1982–99 var eytt tæplega 500 fóstrum sem voru 13 vikna og þaðan af eldri, þar af 213 sem voru 17-20 vikna og 26 yfir 20 vikna. Skv. annarri rannsókn á 12 ára tímabili (1975–87) fóru einungis um 1,1% allra fóstureyðinga á Íslandi fram á 1–5 vikna fóstrum, en 27,4% á 6–7 vikna fóstrum, 28,9% á 8 vikna og 42,7% á níu vikna fóstrum og eldri [6]. En fegurð og fínleiki 8–12 vikna fósturs og 100% mannlegt útlit þess er þess eðlis, að það lætur engan fara í grafgötur um mennsku þess.

En m.ö.o. fara langflestar fóstureyðingar fram, þegar fóstrið er löngu komið með hjarta, sem slær (í lok 3. viku), heila, sem sendir frá sér heilabylgjur (6 vikna fóstur), útlimi sem hreyfa sig – það stendur jafnvel og gengur 8 vikna gamalt í fósturbelgnum, eins og í ljós kom á þrívíddar-ómsjármyndum, sem próf. Stuart Campbell gerði kunnar í fyrra og sagt er frá á vefsíðum brezka útvarpsins BBC [7].

Samt sem áður skauta margir nokkuð svo léttilega fram hjá því að líta nokkuð til þess, hvort fóstrið eigi ekki sinn eigin lífsrétt. Sú afstaða virðist t.d. liggja því að baki sem grundvallarforsenda, þegar menn halda því fram, að fóstureyðingar séu mál, sem konur eigi bara að ráða sjálfar. Þetta er t.d. skoðun Gústafs okkar Níelssonar, þess ágæta manns, sem ég á oftast gott með að vera sammála, en finnst líka ágætt til tilbreytingar að eiga við hann rökræðu í máli, þar sem á milli ber. Trúlega er þetta í hans huga frjálshyggjuafstaða, út frá þeirri hugsun, að rétt þinn yfir þinni eigin sál og líkama beri ótvírætt að tryggja – hver maður sé bezti gæzlumaður eigin réttinda og eigi að fá að athafna sig eftir vild. En ýmsir frjálshyggjumenn andmæla þó fóstureyðingum, t.d. Hannes Gissurarson, og benda á, að réttur þinn nær þó ekki hársbreidd lengra en að nefi náungans. Fóstrið er ekki móðirin, hún er ekki með tvö ónæmiskerfi, tvö hjörtu, sem slá, fjórar hendur sem hreyfa sig o.s.frv. Fóstrið er sérstök, einstæð og lifandi mannvera og á sín eigin réttindi í krafti þess.

En skoðun Gústafs á valfrelsi kvenna minnir líka á aðra röksemd, sem heyrist oft í þessari umræðu: "Konur eru alveg færar um að taka siðferðislega ákvörðun fyrir eigin hönd um fóstureyðingu – þær þurfa ekkert á öðrum að halda til þess!" Við skulum gefa þessu sjónarmiði fulla áheyrn, – rýna betur í það og reyna svo að finna rökrétta lausn á málinu til að fullnægja öllu réttlæti.

Ýmsir hafa glímt við þessa mótbáru gegn málstað fósturverndarsinna – t.d. var það gert í málgagni 3500 manna lögfræðingasamtaka í Bretlandi, Association of Lawyers for the Defense of the Unborn, sem beita sér fyrir réttarvernd hina ófæddu. Meðal röksemda, sem lögfræðingarnir tína til gegn sínum eigin málstað, er einmitt þessi: "Konur eru færar um að velja það, sem er siðferðislega rétt – og geta farið eftir sinni eigin samvizku" [8].

Svar þeirra er athyglisvert og hljóðar svo: "Þetta er öldungis rétt, – en HÆFILEIKINN til að velja það, sem er siðferðislega rétt, og til að fara eftir samvizku sinni felur alls ekki í sér, að fólk hljóti að velja Í REYND það, sem er siðferðislega rétt. Og HÆFILEIKI manna til að hlýða samvizku sinni þýðir ekki, að menn FARI alltaf eftir samvizku sinni. Og sá hæfileiki þýðir heldur ekki, að samvizka sérhvers manns virki með eðlilegum, áreiðanlegum hætti. Ef einhver efast um þessi orð, þá getur hann litið á dæmin allt í kringum sig."

Þarna eiga þeir að sjálfsögðu við, að ótal-oft hefur samvizka okkar brugðizt. Hún er á stundum illa upplýst og fellir þá rangan dóm, ellegar, að við hlýðum fremur annarri röddu, öðrum sjónarmiðum en rödd samvizkunnar. Hver neitar því?

Fyrrnefndri kröfu um fullt samvizkufrelsi kvenna til að ákveða hlutskipti hinna ófæddu hefur líka verið svarað með öðrum og snaggaralegri hætti: "Ef þú telur það í raun og sann, að konur séu færar um að taka þessa siðferðisákvörðun sjálfar, þá skaltu upplýsa þær um allar staðreyndir um meðgönguna, um þroskastig þess ófædda barns sem þær ganga með, mynd af því eins og það lítur út [eða af öðru fóstri á sama skeiði], veittu þeim upplýsingar um áhættuna, sem fylgir aðgerðinni – og fáðu þeim í hendur skrifleg gögn um allt þetta. Ég veit, að konur geta tekizt á við sannleikann, og þess vegna skulum við hætta að fela fyrir þeim staðreyndirnar" (tilvitnun lýkur) [9]. En því er við að bæta, að einmitt þessi tillaga hefur fallið í grýttan jarðveg hjá þeim félagsráðgjöfum, sem gefa græna ljósið á fóstureyðingar hjá konum (sem þeir gera, undarlegt nokk, í nánast öllum tilvikum). Ráðgjafarnir, þessir voldugu, opinberu leyfisgjafar, vilja ekki, að konum séu kynnt öll gögn, sem málið varða, og telja að myndir af fóstri á því skeiði, sem barnið er á, sem konan ber undir belti, séu bara til að íþyngja konunni við ákvörðun hennar! Þeim finnst sem sé skárra, að hún komist í slíkar myndir eftir á og fái þá sína eftirsjá eða bakþanka! Er þessi stétt kannski bara að hlífa sjálfri sér í starfi með því að láta konur ganga illa upplýstar til fóstureyðingar?

Mitt eigið svar við spursmálinu um samvizkufrelsi mæðra til að láta eyða börnum sínum, er þetta: frelsi mitt eða þitt til fylgja eigin samvizku felur ekki í sér heimild til að þverbrjóta siðalögmálið né heldur mikilvæg og RÉTTLÁT landslög, t.a.m. varðandi virðinguna fyrir mannslífinu.

Það er engin afsökun fyrir fóstureyðingu, að konan eigi erfitt með þessa ákvörðun – að hún velkist í vafa og gangi þungum skrefum til þessarar aðgerðar. Hafi konan, barnsfaðir hennar eða foreldrar slíkar samvizkukvalir, ættu þau einmitt að taka mark á þeim – til þess er samvizkan! Eigi það við að segja, að það sé þung ákvörðun fyrir konu að fara í fóstureyðingu, hvað má þá segja um útburð barna að fornu? Var það ekki ennþá erfiðari ákvörðun? En er sú staðreynd einhver ástæða til þess að leyfa útburð barna? – kvöl konunnar sé bara það verð, sem hún þurfi að greiða? Nei, að sjálfsögðu ekki. Hvort tveggja, fóstureyðing og barnaútburður, er valdbeiting sem sæmir ekki siðuðu þjóðfélagi.

Með þessu er ég ekki á neinn hátt að dæma þær konur, sem hafa það á baki sér að hafa farið í fóstureyðingu, eins og einn viðmælandi Gústafs taldi þó í þættinum. Ég er einfaldlega að setja fram þá kröfu, að fóstureyðingar verði bannaðar, þetta á ekki að vera leyfilegt. Það á að leysa vandamálin með öðrum hætti en þessum, og þar að auki kennir lífið sjálft fólki að fást við erfiðleikana. Mér er t.d. í ljósu minni bráðung kona sem í viðtali í BBC sagði, að það sé náttúrlega ekki um annað að ræða en að standa með barni sínu. Hafa þó konur hér á landi miklu betri aðstöðu til fæðingarorlofs og ódýrra leikskóla en í Englandi. En okkar ungu konum er att út í fóstureyðingu á grundvelli vanþekkingar, og það gerir það vissulega afsökunarvert, eftir á að hyggja, hjá mörgum konum, sem hafa ekki vitað betur. Þær eru líka þannig fórnarlömb fóstureyðinga, og það er engin tilviljun, að víða um lönd eru til félög þeirra, t.d. Women for Life – og Rachel, sem kennir sig við Rakel í Biblíunni, sem saknaði barna sinna sem frá henni höfðu verið tekin. En það er ekki einungis andleg áþján, þunglyndi og jafnvel sjálfsvígshugsanir, sem hrjá sumar þessara kvenna, heldur einnig líkamleg eftirköst af ýmsu tagi, eins og ég rakti hér í þætti mínum 4. júní. Þar kom t.d. fram, að skv. mati fyrrv. yfirlæknis fæðingardeildar Landspítalans, dr. Gunnlaugs Snædal, hafa á bilinu 700 til 1530 konur orðið ófrjóar af völdum hefðbundinna fóstureyðinga hér á landi frá júní 1975 til marzloka á þessu ári [10]. Spyrja má, í framhaldi af því: Eru ekki þar á meðal ýmsar þeirra kvenna, sem nú standa í biðröð eftir því að fá að ættleiða barn eða eru í tímafrekum tilraunum til að verða þungaðar, tilraunum sem eru jafnframt afar kostnaðarmiklar fyrir heilbrigðiskerfið? Sjáið þið nokkra vitglóru í þessu?

Ugglaust eru ekki allir sannfærðir um réttmæti fósturverndarstefnunnar. En ég vil þá benda þeim á myndirnar á vefsíðunni www.lifsvernd.com/fosturtroski.html .

Eitt aðaleinkenni þeirra hryðjuverkaárása, sem nýlega voru gerðar á fjölda fólks í London og Sjarm-el-sjeik í Egyptalandi, er það, að þeim var beint gegn SAKLAUSUM. Nánast allir eru því sameinaðir í hryllingi sínum og fordæmingu á þvílíkum ódæðisverkum. En einmitt þetta sama einkenni á við um fóstureyðingar: að þeim er beint gegn SAKLAUSUM og þeim sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Það rennur kannski upp ljós fyrir einhverjum, að það sé ekki svo fráleitt, sem haft er eftir Mahatma Gandhi, – þessi orð hans: "Það virðist deginum ljósara, að fóstureyðing væri glæpur" [11]. Þetta var afstaða hans, en við getum a.m.k. ályktað út frá því, sem hér er fram komið, að það er okkur ekki til neinnar vegsemdar að bjóða konum steina fyrir brauð – að svíkja þær um upplýsingar um sitt ófædda barn og aðstoð í bágindum þeirra, heldur freista þeirra til fóstureyðingar, sem síðar kemur í bakið á mörgum þeirra með heilsuspjöllum og sektarkennd. Því síður ætti Alþingi að ætla heilbrigðisstéttinni að vinna þessi heilsuspillandi verk, oftast á alheilum konum sem ganga með alheil börn. Slíkt gengur þvert á móti þeim tilgangi þeirrar stéttar að starfa fyrir lífið og heilbrigði kvenna sem karla, mæðra sem barna. Því ætti með löggjöf að leysa bæði konur, lækna og hjúkrunarfólk undan þessari áþján, fóstureyðingunum.

Nú getur einhver sagt: "En hefur Alþingi nokkuð viljað gera í þessu máli? Er þá ekki vonlaust að búast við einhverri breytingu fyrr en eftir áratugi?" – Svarið er fólgið í þínu eigin brjósti: frumkvæði verður að koma í þessu réttlætismáli frá ÞÉR, sem hlustar og tekur þetta til þín – og frá þér, sem hefur séð myndir af hinum ófæddu í móðurkviði og látið vitundina um sorglegt hlutskipti sumra þeirra – fimmta hvers ófædds barns – snerta þig, vekja þig til meðaumkunar. Og eigum við ekki, hægt og bítandi, að snúa þeirri meðaumkun okkar upp í miskunnarverk: upp í aðgerðir til að tala máli hins ófædda barns? Aðgerðarleysi stjórnvalda hingað til er engin afsökun fyrir OKKUR, að við gerum ekki neitt í málinu. Knýr ekki samvizkan okkur, og erum við ekki fullveðja fólk, með sjálfsvirðingu til að fylgja eftir sannfæringu okkar?

Við getum þá haft í huga það, sem mikill mannréttindafrömuður, Martin Luther King, sagði eitt sinn á ferli sínum: "Sá tími kemur, að maður HLÝTUR að taka afstöðu, sem gefur hvorki ÖRYGGI né PÓLITÍSK ÁHRIF né VINSÆLDIR, heldur byggir á því, að samvizkan segi manni, að það sé hin RÉTTA afstaða" [12].

Góðir hlustendur, ég þakka áheyrnina. Ég heiti Jón Valur Jensson, og þeim, sem áhuga hafa á þessu málefni, er velkomið að hafa samband við mig.

HEIMILDIR:
1. http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/content/article/2005/07/22/AR2005072201430.html?referrer=email&referrer=email
2. ALDU News and Comment, Spring 2004, No. 101, bls. 1. Þetta tölublað (101) má nálgast gegnum vefsíðuna http://www.aldu.org.uk/newsletters.htm
3. Eurostat, sbr. frétt á vefsíðunni http://english.pravda.ru/society/2001/04/10/3472.html
4. Sama heimild.
5. Lífsvon, fréttabréf Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, IX/i, marz 1993, bls. 1–3: 'Helgi lífsins', ræða sr. Þorbergs Kristjánssonar á Lífsvonarfundi 12. des. 1992.
6. Sbr. Lífsvon, fréttabréf Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, IX/i, marz 1993, bls. 10.
7. Sjá grein á vefsíðu BBC: http://news.bbc.co.uk/2/hi/health/3846525.stm – ennfremur tíu mynda röð af hinum ófæddu, sem hefst á vefsíðunni http://news.bbc.co.uk/2/hi/in_pictures/3847319.stm
8. ALDU News and Comment, Summer 2002, No. 94, bls. 2.
9. David Six, í svari sem nálgast má gegnum vefsíðuna http://www.spectator-online.com/vnews/display.v/ART/2003/04/17/3e9f64379ed24?in_archive=1
10. Ég geri betri grein fyrir forsendum þessa mats læknisins i 2. útvarpserindi mínu um þessi mál, 4. júní 2005, sem birtast á hér á þessari heimasíðu.
11. Tilvitnað hér skv. www.ohiolife.org/fetal/index.asp
12. Tilvitnað hér skv. www.ohiolife.org/abortion/index.asp

1 2

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blogging tool