Okkar vinsæli prestur séra Jürgen Jamin, sem þjónaði hér Kristskirkju um margra ára skeið sem sóknarprestur, unz hann hélt til doktorsnáms og mikilvægra trúnaðarstarfa fyrir kirkjuna í Róm og Feneyjum, er nú staddur á Íslandi, messaði í Landakoti í dag og fagnaði gömlum vinum í kirkjukaffi í safnaðarhemilinu á eftir.
Predikun hans fjallaði um píslarvottinn heilagan Lárentíus (Laurentius, f. um 225 í Aragon á Spáni, d. 10. ágúst 258) og um auðæfi kirkjunnar, sem dýrlingurinn benti keisarans mönnum á, að væru fólgin í hinum mikla sæg meðlima kirkjunnar, fátækum, sjúkum, blindum og krypplingum.
Keisarinn Valerianus hafði áður látið taka páfann af lífi, hinn gagnmerka Sextus 2., biskup Rómaborgar, og fyrirskipað (í byrjun ágúst 258) aftöku allra biskupa, presta og djákna, og nú reiddist hann svo Lárentíusi, að hann lét húðstrýkja hann og steikja til dauðs á rist. Árið áður hafði Sextus páfi skipað hann fremstan sinna sjö djákna í Rómaborg og treyst honum þar fyrir fjársjóðum kirkjunnar og útdeilingu á ölmusu til fátækra.
Fyrir dauða sinn hafði Lárentíus fengið fyrirskipun veraldlega valdsins um að afhenda allar eigur kirkjunnar til keisarans innan þriggja daga, en í staðinn notaði hann tímann til að dreifa eignum kirkjunnar meðal fátækra og fá þá til að mæta frammi fyrir höll keisarans, og er Lárentíus í einni heimild sagður hafa mælt við umboðsmann Valeríans, bendandi á mannsöfnuðinn: "Kirkjan er sannarlega rík, mun ríkari en keisari yðar."
Lárentíus var höfuðdýrlingur í ekki færri en átta kirkjum hér á landi og aukadýrlingur í nokkrum, að því er fram kemur í bók dr. Árna Björnssonar, Sögu daganna. Meðal kirkna, sem helgaðar voru honum, var Holtskirkja í Önundarfirði, Skálmarnesmúlakirkja, Lundarkirkja í Lundarreykjadal, kirkjan í Görðum á Akranesi, Grundarkirkja í Eyjafirði og kirkjan í Reykjahlíð við Mývatn.
Einn af kaþólskum biskupum Íslands bar nafn þessa dýrlings, Lárentíus Kálfsson (f. 10. ágúst 1267, d. 16. apríl 1331), Hólabiskup 1324–31, og er af honum Lárentíus saga, sem talið er víst að sé eftir lærisvein hans og vin, sr. Einar Hafliðason (1307–1393), Hólaráðsmann og officialis á Breiðabólstað í Vesturhópi (var sonur hans Árni í Auðbrekku, faðir Þorleifs sýslumanns, föður Björns ríka, riddara og hirðstjóra á Skarði, og eru allir núlifandi menn af þjóðarstofninum af þeim langfeðgum komnir).
Eftir nafni píslarvottsins heita margir fyrr og nú, þeir sem nefnast Lárus, Lars, Lafranz, Lawrence, Lorenz, Laurent og ýmsum fleiri útgáfum af nafni hans.
Öxi´ og jörðu eftirlátið
eldrautt þá var blóð.
Minningu um merka feðga
man vor frjálsa þjóð.
Biskupi var kær sín kirkja,
kær sem land og trú.
Fann í vanda frelsi Íslands
frelsishetja sú.
Ártíð þessi á oss minnir
afbrot framið mest.
Iðrun synda, sátt og mildi
sakir læknar best.
Þar er hjálpin þörfin mikla,
þá sem einnig nú.
Lifir kristin kirkja fyrir
kærleik, von og trú.
Þetta eru 2. og lokaerindið (4.) í ljóðinu 7. nóvember 1550 eftir herra Pétur Sigurgeirsson. Það birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins 4. nóvember 2000, á kristnihátíðarárinu. Pétur heitinn biskup var norðanmaður eins og Jón biskup Arason, blessaðrar minningar.
Merka grein og vel ritaða eftir Jón Viðar Jónsson, rithöfund og leiklistargagnrýnanda, er að finna í Morgunblaðinu í dag: Á fimm hundruð ára afmæli heilagrar Teresu frá Avila (1515-1582) – en í dag er messudagur hennar. Jón Viðar, sem kynnir sig sem kaþólskan leikmann, segir frá henni á áhugaverðan hátt og tengir það klaustri reglu hennar hér á Íslandi, Karmelklaustri í Hafnarfirði, segir frá erfiðri baráttu heil. Teresu (og samherja hennar, heil. Jóhannesar frá Krossi) og ritum þeirra, sem Jón Rafn Jóhannsson hefur þýtt á íslenzku og fáanleg eru í klaustrinu, sem og með pöntun gegnum þennan vef: http://www.lulu.com/spotlight/jonrafn/ – Þar geta menn kynnzt einhverjum mestu auðæfum kaþólskrar dulspeki (mystíkurinnar). Teresa var ekki aðeins tekin í tölu heilagra, heldur einnig (árið 1970) í tölu kirkjufræðara (doctores Ecclesiæ).
Miðaldir eiga meiri' en flestir hyggja
málsbót og rómversk kirkjan af þar ber. [Frh. neðar]
'Klofningur yfirvofandi í dönsku kirkjunni' er fyrirsögn á frétt á Rúv-vefnum, lesinni þar í hádeginu í dag. Ástæðan? Gifting samkynhneigðra í lúthersku kirkjunni þar. Margir prestar og leikmenn eru þessu mjög andvígir. Síðasta örþrifaúrræðið er að sniðganga biskupinn á Fjóni með vali á öðrum nú síðdegis sem leiðbeinanda presta. Og enska kirkjan ólgar af mótmælum.
Lengi sá ritari þessara orða það fyrir, að samkynhneigðramálin gætu reynzt kristnum kirkjum og kenningu mjög skeinuhætt. Allt er það komið fram, sem ég óttaðist, og meira til (nýjasta áhlaupið hér er fráleit kynbreytingarlöggjöf).
Samnefnd grein um þetta er nýbirt á Vísisvefnum. Á sama tíma og græskulítil heimspressan slær upp “niðurstöðum könnunar” hinnar hlutdrægu Guttmacher-stofnunar (AIG) um áhrif löggjafar á fjölda fósturdeyðinga, löglegra sem ólöglegra, í löndum heims, þá er viðeigandi að benda á staðreyndir um ýtarlega könnun á áhrifum banns við fósturdeyðingum í einu ríkja Mið-Ameríku, El Salvador. Raktar eru niðurstöður hennar skv. uppl. læknisins Rene Leiva í British Medical Journal, en framlag hans nefnist 'Illegal abortion in El Salvador: no evidence of increase maternal mortality'.
Í raun hefur mæðradauði minnkað í El Salvador ...
Mikil umræða er nú meðal kaþólskra manna í Bandaríkjunum vegna ráðagerða stjórnar Notre Dame-háskólans kaþólska að veita Barack Obama Bandaríkjaforseta heiðursdoktorsgráðu í lögfræði. Þykir mörgum þetta skjóta skökku við vegna þeirrar afar hörðu fósturdeyðingastefnu sem hann hefur fylgt af fremsta megni allt frá því að hann sat á löggjafarþinginu í Illinois. Nánar verður fjallað um þetta mál hér á síðunni, þegar tími gefst til.
Hér var fyrir helgina rætt um róttæka tillögu lausungarhyggjumanna (líberalista) í drögum að ályktun fjölskyldunefndar Sjálfstæðisflokksins. Annað tveggja alvarlegustu atriðanna þar, þ.e.a.s. að svipta presta hjónavígslurétti, var fjarlægt úr tillögunni í meðförum fjölskyldunefndar (á morgunfundi á föstudag), en úrslitin urðu þó ekki endanlega ljós, fyrr en sú meðferð málsins var staðfest af sjálfum landsfundinum.
Áfram er þó keyrt á það, að ein og söm hjúskaparlög skuli lögtekin fyrir bæði homma og lesbíur eins og fyrir venjuleg hjón. Verði þetta einhvern tímann að veruleika á hinu háa Alþingi – þrátt fyrir sáralitla ásækni samkynhneigðra í staðfestingu samvistar (frá árinu 1996) – þá má búast við því, að landsmönnum verði þaðan í frá uppálagt að tala um 'hjónabönd' samkynhneigðra og um slík pör sem hjón. Alltjent myndi það þá komið inn í alla lagabálka, sem snerta hjónabandið, ennfremur í skólabækur o.s.frv.
Mjög alvarleg tillaga var hluti af drögum að ályktun fjölskyldunefndar Sjálfstæðisflokksins, sem fyrir lágu, þegar landsfundur kom saman í fyrradag. Tvenns konar árás á kristinn sið og kristin gildi felst í þeim:
1) að hjónavígsluréttur verði tekinn af kirkjum og trúfélögum; 2) að hjónabandið verði formlega "afkynjað" – látið ná jafnt yfir hjónaband karls og karls eða konu og konu eins og hið náttúrlega hjónaband karls og konu. Að þvílík tillaga komi fram á flokksþingi þeirra, sem íhaldssamastir eru taldir á stjórnmálasviðinu, sýnir ljóslega, hversu alvarlega er sótt að kristnum grundvallargildum á þeim vettvangi.
Á landsfundinum er uppi virkt og vonandi árangursríkt varnarstarf gegn þessari tillögu, en endanleg ákvörðun fundarins verður þó ekki ljós, fyrr en allsherjarfundur hinna 1900 landsfundarfulltrúa hefur tekið afstöðu til tillagna þessarar róttæku fjölskyldunefndar.
Drögin eru þannig:
Nú er stefnt að stofnun þeirra í öllum flokkum og framboðum. Sá fyrsti er nýlega til orðinn í Frjálslynda flokknum, og leiðir hann hinn góðkunni Guðsteinn Haukur Barkarson. Í Sjálfstæðisflokknum hefur verið unnið að stofnun slíks hóps frá 7. febrúar, með útsendu bréfi til ýmissa kristinna flokksmanna, sem birt var áðan í þessari vefgrein: Hvatningarbréf um stofnun kristins málefnahóps í Sjálfstæðisflokknum. Vísast hér með til ýtarlegrar greinargerðar fyrir þessu máli í því bréfi. Þið, sem áhugann hafið, vísið öðrum á þetta eða áframsendið það! En nú er Sjálfstæðisflokks-fólkið í slíkum málefnahópi einmitt að fara að hittast fyrir landsfundinn, sem hefst síðdegis á morgun.
Þáttur um þetta efni, m.a. um fyrri tilþrif kirkjunnar á sviði þjóðfélagsmála og hvort kristnir menn nú á dögum eigi að gefa sig í stjórnmálabaráttu, var frumbirtur á Omega-sjónvarpsstöðinni á fimmtudag og í endursýningum áfram, í 5. sinn (það síðasta í bili) í dag, þriðjudag, kl. 13:00. Þar sit ég, Jón Valur Jensson guðfræðingur, fyrir svörum í hálftíma þætti hjá Guðsteini Hauki Barkarsyni, þekktum Moggabloggara, sem nýlega gekk í Íslensku Kristskirkjuna.
Afar tær rödd lífsverndarhyggju í innleggi konu nokkurrar, sem Anna heitir, heyrðist á Útvarpi Sögu í dag (en eitthvað átti útvarpsstjórinn þar erfitt með að meðtaka boðskapinn). Í viðtalinu komu fram hjá Önnu þessari skýr dæmi um misbeitingu starfsmanna heilbrigðiskerfisins og hörmulega framkvæmd fósturdeyðingalaganna. Sá þáttur er endurfluttur um kl. 23.50 í kvöld (og líklega aftur seinnipartinn á sunnudaginn).
Allnokkuð hefur verið rætt og skrifað í vefpistlum um atriði sem snerta kristindóm og stjórnmál upp á síðkastið, og hef ég sjálfur tekið þátt í því.
Þann 9. marz hófst á vefsvæði Morgunblaðsins birting greina á vefsetri nýrra, kristinna stjórnmálasamtaka. Pistlarnir eru ekki birtir undir nafni (heldur K1, K2, K3 o.s.frv.), en nú þegar er þar samt ýmislegt áhugavert að finna, eins og sjá má á yfirskrift greina á borð við Hver er þessi flokkur kristinna lífsgilda?, Sé fjölskyldan sterk, munu aðrir þættir þjóðfélagsins eflast, Friðun og verndun (um nauðsyn fósturverndar) og Gjöldum varhug við frumvarpi um tilraunir á stofnfrumum. (Vel að merkja var það frumvarp ...
"Ég hef séð of mörg börn vansæl vegna þess að foreldrarnir hugsa ekki nógu vel um þau, viljum við virkilega bæta á þann fjölda?" Þannig spyr ung kona í langri umræðu um fósturdeyðingar á annarri vefsíðu í gær. Þetta svar birtist þar í gærkvöldi:
Kannski ekki endilega, en viljum við SAXA Á ÞANN FJÖLDA? Um það snýst spurningin á þessari vefsíðu.
Ríkisstjórnin tilkynnti í hádeginu 10. nóv., að hún hyggist leggja 100 milljónir króna í íslenzkukennslu útlendinga og nýbúa á næsta ári. Þetta er þó allt of lítið.[1] Ég hafði áður lagt til á annarri vefsíðu, að ríkisframlög til þessara mála yrðu tuttugufölduð. En hver eru framlög ríkisins til íslenzkukennslu útlendinga á þessu ári? Hugsið fyrst út í þetta: Hve miklu eyðum við í menntamál? Sumir sjá jafnvel ofsjónum yfir því, að við leggjum peninga í að kenna útlendingum íslenzku! Hvað ætli það séu margir tugir milljarða, sem íslenzka skólakerfið fær í sinn hlut? En á þessu ári eyðir ríkið einungis 18,8 milljónum í það að kenna útlendingum íslenzku! [2]
Eftirfarandi stutt frétt í Mbl. setur að manni hroll, því að brezkt fyrirtæki er greinilega byrjað á því með all-lúalegum kaupahéðna-hætti að gera konur samsekar um að láta nota egg úr sér til að frjóvga þau og gjörnýta síðan fósturvísinn (frumfóstrið) til tilraunastarfsemi.
Eftirfarandi bréf sendi ég allmörgum vinum, er ég hafði fengið mig fullsaddan af fregnum af sorglegum uppákomum veraldarhyggjunnar á Íslandi.
Rvík, 5. febr. 2005. – Sælir, kristnu bræður, og gleðilegt nýtt ár.
– Fundarboð í dag um hugsanlegt 'kristilegt framboð', sennilega á vegum sömu aðila og staðið hafa að slíku áður, vakti mig til umhugsunar. Reyndar hef ég ekki áhuga á því framboði – er og hef verið í öðrum flokki og mun reyna að vinna þar að málum áfram, ekki sízt kristnum siðgæðismálum, svo sem fósturvernd og varðstöðu um fjölskylduna o.m.fl. Hitt er annað mál, að mér finnst að kristnir menn í öllum flokkum og utan allra flokka eigi að mynda með sér samband til að kanna möguleika á samstöðu um helztu mál og knýja á um kristnar áherzlur á ýmsum vettvangi, m.a. í pólitísku flokkunum og einstökum félögum þar, s.s. ungliðadeildum og staðbundnum félögum. Eins getur þetta orðið heildarvettvangur til að örva til aðgerða, til dæmis mótmælagöngu gegn fóstureyðingum, sem eru okkar stærsta siðferðisböl og mest knýjandi úrlausnarefni. Og með ýmsum hætti gæti slíkt heildarsamband kristins fólks innan og utan stjórnmálaflokka orðið hvatning til þess, að í stjórnmálaflokkunum verði stofnaðir kristnir málefnahópar eða til dæmis vinnuhópar um lífsverndarmál.
Eftir því sem ég frétti, les og hugsa meira um óviðunandi réttarstöðu hinna ófæddu, sífellt meiri ásækni gegn lífshagsmunum þeirra, um siðferði hjúskaparmála, upplausn fjölskyldna, viðkvæmt og áhættusamt uppeldi barna, þróunina hér, á Norðurlöndum og víðar, m.m., verður mér æ betur ljós þörfin á því, að hér rísi upp kristinn, samkirkjulegur félagsskapur sem sinni þessum málum sérstaklega, þ.e.a.s. söfnun heimilda, rannsóknum og upplýsingastarfi, m.a. með stofnun vefseturs. Siðferði og samfélag gæti t.d. orðið nafnið á slíkum félagsskap eða rannsóknarstofnun.
Síðustu athugasemdir