Ótrúlega hratt hefur tíminn liðið frá andláti þessa elskaða leiðtoga sem undirritaður eins og margir aðrir áttu að andlegum föður, hvetjandi og gefandi í tilverunni. Hann var frá okkur tekinn þremur árum fyrir páfaheimsóknina 1989. Um hann ritaði undirritaður á 20. ártíð hans 2006:
"Hinrik biskup var afskaplega hjartahlýr, laus við allt yfirlæti, en þeim mun sannari maður meðbræðrum sínum, það sást í öllu hans viðmóti. Margoft skildi ég við hann á tröppunum við hús hans í Egilsgötu, þar sem hann, brosandi og uppörvandi, bað mér og mínum blessunar og velfarnaðar í bak og fyrir. Það gerði hann líka, þegar ég var erlendis við nám, og þakka ég hér og nú fyrirbænir hans allar.
Hrífandi fagur þótti mér Gregorssöngur biskups, þegar hann hóf upp raust sína í messunni með orðum Níkeujátningarinnar: Credo in unum Deum ... Það var eitthvað innilega hreint og fallegt við tón hans og hreim, en hann lærði einnig allnokkuð í íslenzku og flutti predikanir sínar á því máli.
Trú hans var einlæg og fölskvalaus, hann verður jafnan lifandi dæmi og fyrirmynd um sannan og gefandi lærisvein Krists."
Sjá nánar hér: 20. ártíð Hinriks biskups Frehen – Persónuleg minning. Sjá einnig grein eftir Gunnar F. Guðmundsson, cand. mag., sem mikið starfaði fyrir biskupinn: Dr. Hinrik H. Frehen biskup – Minning.
Blessuð sé minning Hinriks biskups. Megi ljós Guðs lýsa honum. ––JVJ.
Nú eru fimm dagar rúmir til hátíðlegrar biskupsvígslu í Kristskirkju í Landakoti, öðru nafni Basiliku Krists konungs. Séra Jakob Rolland minnti á þetta í hámessu nýliðins sunnudags og hvatti alla kaþólska til að sækja þessa vígslumessu, sem verður nk. laugardag, 31. október, kl. 18.00.
Séra Davíð Tencer, kapúcínamunkur og sóknarprestur í sókn heilags Þorláks á Reyðarfirði, hefur verið kallaður og útvalinn til að taka við af herra Pétri Bürcher sem biskup kaþólskra á Íslandi. Við fögnum þessu og biðjum fyrir því að hann fái þjónað sínu nýja embætti af sömu gleðinni og fúsleikanum sem hefur einkennt störf hans hingað til. Um lífshlaup hans og ævistarf var fjallað hér nýlega í þessum pistli (með mynd): Nýtt biskupsefni kaþólskra.
Svo vildi til, að þetta sunnudagskvöld var stutt, en mjög áhugaverð frétt í Sjónvarpinu frá Kollaleiru í Reyðarfirði, þar sem sagt var frá starfi munkanna þar, en einkum frá byggingu kaþólskrar kirkju, Þorlákskirkju, á staðnum, og hvernig hjálp margra hefur gert hana mögulega, einkum viðirnir í hana, en þar er um bjálkabyggingu að ræða, úr fallegum ljósum viði. Mest af bjálkunum er gefið af vinum munkanna í Slóvakíu. Einnig er sagt frá ýmsum helgigripum sem kirkjunni hafa borizt; – "eins og Davíð sagði: Guð undirbýr allt."
Sjón er sögu ríkari, því að þetta er á vef Sjónvarpsins, þar sem líka sést í séra Davíð fyrir altarinu (í eldra helgihúsi á staðnum) og ómur heyrist af tilbeiðslutextum: Hér eru þessar kvöldfréttir Sjónvarpsins, umfjöllun um kaþólsku kirkjuna byrjar þar þegar um 20 mín. eru liðnar af fréttatímanum.
Merka grein og vel ritaða eftir Jón Viðar Jónsson, rithöfund og leiklistargagnrýnanda, er að finna í Morgunblaðinu í dag: Á fimm hundruð ára afmæli heilagrar Teresu frá Avila (1515-1582) – en í dag er messudagur hennar. Jón Viðar, sem kynnir sig sem kaþólskan leikmann, segir frá henni á áhugaverðan hátt og tengir það klaustri reglu hennar hér á Íslandi, Karmelklaustri í Hafnarfirði, segir frá erfiðri baráttu heil. Teresu (og samherja hennar, heil. Jóhannesar frá Krossi) og ritum þeirra, sem Jón Rafn Jóhannsson hefur þýtt á íslenzku og fáanleg eru í klaustrinu, sem og með pöntun gegnum þennan vef: http://www.lulu.com/spotlight/jonrafn/ – Þar geta menn kynnzt einhverjum mestu auðæfum kaþólskrar dulspeki (mystíkurinnar). Teresa var ekki aðeins tekin í tölu heilagra, heldur einnig (árið 1970) í tölu kirkjufræðara (doctores Ecclesiæ).
Mjög athyglisverður var Skáldatími, þáttur Péturs Gunnarssonar rithöfundar, á Rás 1 í kvöld. Afar fróðlegur var hann um fiskveiðar Frakka í norðurhöfum og hvernig hinum mikla fjölda sjómanna þeirra hér við land var nauðsyn á tvenns konar liðsinni í landi: læknis- eða sjúkrahúsþjónustu og prestsþjónustu, fyrir utan aðstoð björgunarsveita bænda og annarra við Suðurlandið þegar skútur þeirra strönduðu og þeir komust nauðuglega af.
Pétur fjallar framan af um skrif tveggja rithöfunda um mál Franzmanna hér við land, Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness, en síðan um erfiðar lífsaðstæður sjómannanna um borð og byggir þar ekki sízt á franskri skáldsögu, mjög vinsælli á 19. öld, Pecheur d'Islande, eftir Pierre Lothi. Vincent van Gogh og Paul Gaugain þekktu þá skáldsögu, og van Gogh hafði áhuga á að gera myndefni eftir sögunni ...
Í hámessunni sl. sunnudag las sr. Jakob Rollant biskupsritari upp bréf herra Péturs biskups Burcher, þar sem hann skýrir frá því, að hann hafi sent Franz páfa lausnarbeiðni sína frá biskupsembættinu. Hann er á sínu sjötugasta aldursári, en heilsa hans leyfir ekki, að hann gegni þessu starfi áfram í okkar kalda landi; hann er m.a. með mjög viðkvæm lungu og þolir ekki eldfjallaryk.
Pétur Bürcher hefur gegnt biskupsembætti í tvo áratugi, fyrst sem aðstoðarbiskup í Sviss, en síðustu sjö árin sem Reykjavíkurbiskup og hefur notið bæði trausts og vinsælda safnaðarins, enda mikið ljúfmenni. Lausnarbeiðni hans liggur fyrir hjá páfanum; gera má ráð fyrir að hún verði samþykkt.
Ekki mun biskupinn okkar sitja auðum höndum eftir það; hann mun áfram gegna ýmsum störfum, m.a. í Jerúsalem, fyrir hjálparsamtök sem hann áður starfaði fyrir.
Biskupinum fylgja beztu árnaðaróskir frá söfnuði hans hér. Var bæði beðið fyrir honum og fyrir eftirmanni hans í hámessunni í Kristskirkju sl. sunnudag.
,,Það verður auðveldara að svífa til himna ef vasarnir eru ekki fullir af gulli" (séra Frans van Hooff – dæmi um alvörugefna fyndni hans!).
Einn var sá kaþólskur prestur hér á landi, hógvær og af hjarta lítillátur, sem nánast ekkert bar á nema fyrir tilviljun nánast þegar hann var að berjast fyrir hugsjón sinni, en sá var Frans van Hooff, þjónandi prestur á Akureyri og síðar í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði (d. 4. maí 1995 í Jerúsalem, 77 ára). Hann vann það kraftaverk að senda marga stærðarinnar gáma fulla af fötum og skóm (en einnig eldhúsáhöldum, reiðhjólum, verkfærum og ritvélum, m.a.) til þurfandi fólks í Póllandi, Afríku og Rússlandi. Sjá um fatasöfnun hans t.d. tilkynningu hans í Velvakanda 20. sept. 1988 hér, og HÉR! er afar falleg grein um hann eftir Karmelsystur á prestsvígsluafmæli hans 25.7. 1992. Stutt æviágrip hans er hér, og þetta eru minningarorð um hann eftir Jón Ágústsson og önnur og ennþá fróðlegri minningargrein í Mbl. 29. júlí 1995, hún er eftir Ragnar Geir Brynjólfsson á Selfossi, ritstjóra þessa Kirkjunets, og loks er hér falleg hugleiðing eftir sr. Frans á Kirkjunetinu: María og Eva.
Greinilega vann séra Frans í sama anda og núverandi páfi, Franz I, og báðir líkja þeir með sínum hætti eftir andanum í lífsverki heilags Franz frá Assisi.
Væri nú ekki full þörf á því, að kaþólska kirkjan á Íslandi beitti sér sérstaklega fyrir matarsöfnun vegna hins hræðilega ástands í Sýrlandi, þar sem konur jafnvel selja sig til að fá handfylli af hrísgrjónum til að börn þeirra verði ekki hungurmorða? Um það fjallar þessi hörmulega AFP-frétt á Mbl.is fyrir þremur dögum: Hungrað fólk selur sig fyrir bolla af grjónum.
Miðaldir eiga meiri' en flestir hyggja
málsbót og rómversk kirkjan af þar ber. [Frh. neðar]
Í Fréttatímanum 8.–10. júlí (nýútkomnum) er að finna ofurlitla klausu á bls. 2:
"Leiðrétting
Í umfjöllun Fréttatímans 24. júní um kynferðisbrot í Landakotsskóla var ranglega sagt að Hinrik Frehen hefði verið sá biskup kaþólsku kirkjunnar sem fékk ábendingar um kynferðisbrot árið 1963. Hið rétta er að þá var annar maður biskup kaþólskra á Íslandi. Hinrik Frehen tók ekki við sem biskup fyrr en 1968. Beðist er afsökunar á þessum mistökum. Þau voru blaðsins en ekki viðmælandans."
Við þessa frétt í blaðinu má bæta, að þá fyrst kom Hinrik Frehen til Íslands, er hann hafði verið valinn biskup kaþólskra. Hann gegndi aldrei neinu öðru embætti hér, fyrr en hann var kallaður til biskupsdóms.
Blessuð sé minning þessa mæta manns. –JVJ.
Hátíðarandi var ríkjandi í blíðskaparveðri í Rómaborg í dag, þegar því var lýst yfir, að pólski páfinn Jóhannes Páll 2., fæddur Karol Józef Wojtyła, væri kominn í tölu blessaðra. Péturstorgið í Vatíkaninu og allar nærliggjandi götur voru yfirfullar af pílagrímum, m.a. frá Póllandi. Meira en milljón manns tók þátt í gleðinni sem þarna ríkti, og heima í hverju kaþólsku landi var gerla fylgzt með atburðunum í sjónvarpi.
Togstreitu milli fjárframlaga til kirkna og til fátækramála verður oft vart. En rétt eins og menn geta sannarlega eytt fé sínu til áhugamála, félagasamtaka, íþróttaiðkunar, menningarmála og uppbyggingar á slíkum vettvangi – oft jafnvel af skattfé allra, þannig er ekkert fremur hægt að amast við frjálsum framlögum manna til byggingar dómkirkju eins og til dæmis þessarar nýendurreistu í Izhevsk í Udmurtíu austur við Úralfjöll. Kirkjuhúsin eru til þess að halda utan um hina trúuðu og iðkun trúar, þar nærist hún, tjáir sig og byggist upp til að geta gefið af sér, fyrst í fjölskyldunni, en einnig út til náungans.
Á nýliðnum degi messaði Benedikt XVI. páfi í hinni fornfrægu borg Santiago de Compostela á NV-Spáni, en milljónir pílagríma sóttu dómkirkju heilags Jakobs þar heim á miðöldum og hafa gert allar aldir síðan. Páfinn bað þar Evrópu að taka sér stöðu með Guði.
„Benedicto" og „Viva el Papa", kalla þúsundir manna, sem næturlangt hafa beðið komu hans til Barcelona, höfuðborgar Katalóníu á Austur-Spáni.
John Henry Newman, einn merkasti hugsuður og rithöfundur kirkjunnar á 19. öld, maður sem háði fræga andlega baráttu og yfirgaf ensku biskupakirkjuna til að gerast kaþólskur, hefur nú loksins verið tekinn í tölu blessaðra (e. beatified). Það gerðist í Birmingham, þar sem hann starfaði lengi, og Benedikt páfi 16. gegndi hér sjálfur aðalhlutverki. Við munum segja nánar frá þessum atburði bráðlega.
Uppteknum hætti heldur undirritaður með því að vilja minnast hér genginna kaþólskra kennimanna. Hér er endurbirt nánast óbreytt 15 ára minningargrein um einn merkilegra manna í presta röð, erlendan mann, Jan Habets, sem varð þó svo inngróinn umhverfi sínu í Stykkishólmi og þátttakandi í andlegu lífi Íslendinga, að það var ekkert eðlilegra en að tala um hann sem séra Jón Habets, eins og hann kallaði sjálfan sig í greinarskrifum. En því er þessi grein birt nú, svo skömmu fyrir jól, að þessi fjórði sunnudagur í aðventu er ártíðardagur hans.
Hér er um fróðlegan lista að ræða sem nær yfir alla páfana frá upphafi. Má smella á hvert nafn til að fá æviskrá viðkomandi páfa á latínu, stutta eða langa eftir atvikum, með myndum o.fl. Í dálki þar til vinstri má finna vísanir á æviskrár á öðrum tungumálum, m.a. er sú spænska gjarnan ýtarlegri en ýmsar aðrar, en þær frönsku, ensku og þýzku einnig góðar um marga páfa.
Mjög fræðandi vefur um kardínála kaþólsku kirkjunnar reynist vera HÉR, og spannar hann yfir heil 1897 ár. Þar eru ýmsar vefslóðir til upplýsingar um þá, m.a. þessi listi í tímaröð frá árinu 112 til 2009; þar má síðan smella á nafn-línu hvers kardínála til að sjá æviágrip hans. Svo eru þarna ennfremur heil æviágrip þeirra á tímabilinu 999–2009, rúmum þúsund árum,
Hafi kristin trú staðið höllum fæti hér í álfu fyrir þremur áratugum, um það leyti sem andkristin löggjöf um fósturdeyðingar var keyrð í gegn í flestum vestrænum ríkjum, þá hefur ástandið ekki skánað í þeim efnum, eins og við ættum flest að vita. Í Sovétveldinu voru virkir kristnir menn ofsóttir, en þeim er ekki (ennþá) stungið í fangelsi fyrir vitnisburð sinn meðal þessarar þjóðar, þótt hitt tíðkist í æ meira mæli, að þeir séu hæddir og affluttir í orðum á vefsíðum og í fjölmiðlum. En lítum nú til upprifjunar og íhugunar á smápistil úr Kirkjuritinu, tímariti Prestafélags Íslands, í 3. hefti þess 1975, í erlendum fréttaþætti ritstjórans, þess mæta manns sr. Guðmundar Óla Ólafssonar í Skálholti:
"Guði sé lof fyrir járntjaldið!"
Kunngjört var í Páfagarði föstudaginn 30. júní, að Benedikt páfi hafi ákveðið að opna öll skjalasöfn Vatíkansins frá 1922–febr.1939. Með því móti munu menn öðlast fyllri innsýn í það, sem hugsað var og gert á vegum kaþólsku kirkjunnar á þeim uppgangsárum fasisma og nazisma í Evrópu, en tími þessi spannar m.a. yfir spænsku borgarastyrjöldina 1936–39.
Í tilkynningu Vatíkansins var sagt, að þann 18. september yrðu bæði opnuð skjöl leyndarskjalasafns páfa og skjalasafn utanríkisráðuneytis Páfagarðs frá stjórnarárum Píusar XI. Nánar tiltekið er þetta tímabilið 6. febrúar 1922 til 10. febrúar 1939.
Síðustu athugasemdir