Flokkur: "Bænamál"

10.03.14

  12:49:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 162 orð  
Flokkur: Bænamál, Miðaldafræði íslenzk, Ýmis skáld, Guð-fræði (bæði kristin og heimspekileg), Klaustur

Úr Lilju eftir Eystein munk (d. 1361)

 

María, vertu mér í hjarta,

mildin sjálf, því að gjarnan vilda' eg,

blessuð, þér, ef mætta' eg meira,

margfaldastan lofsöng gjalda;

lofleg orð í ljóðagjörðum

listilegri móður Christi

öngum tjáir að auka lengra:

Einn er drottinn Maríu hreinni.

 

Rödd engilsins kvenmann kvaddi,

kvadda af engli drottinn gladdi,

gladdist mær, þá er föðurinn fæddi,

fæddan sveininn reifum klæddi,

klæddan með sér löngum leiddi,

leiddr af móður faðminn breiddi,

breiddr á krossinn gumna græddi,

græddi hann oss, er helstríð mæddi.

 

Þó grét hún nú sárra súta

sverði nist í bringu og herðar,

sitt einbernið, sjálfan drottin,

sá hún hanganda' á nöglum stangast,

armar svíddu af brýndum broddum,

brjóst var mætt. Með þessum hætti

særðist bæði sonur og móðir

sannheilög fyrir græðing manna.

 

Fyrir Maríu faðm inn dýra,

fyrir Máríu grát inn sára

lát mig þinnar lausnar njóta,

lifandi guð með föður og anda.

Ævinlega með lyktum lófum

lof ræðandi á kné sín bæði

skepnan öll er skyld að falla,

skapari minn, fyrir ásján þinni.

      

08.05.13

Ný Messubók kirkjunnar

Það var fögur og hrífandi stund í dómkirkju Krists konungs í gær, þegar í helgigöngu presta og leikmanna var borin inn ný Messubók kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, raunar sú eina í fullkominni mynd, og lögð á altarið. Biskup okkar, Pétur Bürcher, stýrði athöfninni og sjálfur forseti Íslands viðstaddur, einnig megnið af prestum biskupsdæmisins, enda eru þeir með synodus þessa dagana. Biskupinn, séra Jakob Rolland og séra Patrick Breen fluttu ávörp, og fagurlega spilaði kaþólsk nunna á fiðlu – og systurnar sungu fagra hymna, síðast Regina Coeli (Himnadrottningin) sem margir tóku undir.

Meðal þess, sem séra Jakob vék að í ávarpi sínu, var hin gleðilega fjölgun kaþólskra hér á landi, en tala þeirra hefur ... [frh. neðar]

Read more »

29.02.12

  13:07:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 133 orð  
Flokkur: Bænamál, Trúarleg ljóð JVJ

Kom þú, Faðir

 

Komdu hér, Faðir, og faðma mig

í faðminum þínum hlýja.

Gefðu mér ást að elska þig –

þú ávallt býður mér fría

náð þína nýja.

Láttu mig aldrei ásjónu þína flýja!

 

Read more »

18.05.10

Kaþólsk tónlist endurreisnartímans

Í fyrradag var glæsilegur tónlistarþáttur á Rás 1, "Endurreisninni þeytt", þar sem þáttarstjórnandi, Halla Steinunn Stefánsdóttir, ræddi við Árna Heimi Ingólfsson tónlistarfræðing. Fjallaði hann um endurreisnartímabilið, ekki sízt kaþólska tónlist síðmiðalda og fram undir lok 16. aldar, m.a. um Thomas Tallis og William Byrd í Bretlandi (sbr. fyrri pistil um þá HÉR á Kirkjunetinu).

Þessi þáttur ber kaþólskri menningu fagurt vitni, tónlistin hafði náð þar svo miklum hæðum í lok miðalda, að tónverkin, sem varðveitzt hafa, sýna, með greiningu fræðimanna, að það hefur útheimt ótrúlega þjálfun og færni, sem fáir kórar ráða við nú, til að geta flutt margt af þeim verkum.

Read more »

23.01.10

  01:32:44, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 220 orð  
Flokkur: Bænamál, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Messu- og tíðasöngur

Te Deum – við þetta er gott að hvíla huga sinn og styrkjast

Thomas Tallis (c.1505–1585) hefur skilið eftir sig undursamlega hymna og messusöngslög. Á því myndbandi, sem hér fylgir, fer saman hágæða-kórsöngur og fallegar Kristsmyndir. Því miður vantar hér upplýsingar um það, hver kórinn er, en hann veldur ykkur ekki vonbrigðum! Þetta er gott efni til að dvelja við fyrir svefninn eða í kyrrð morgunsins.

Read more »

11.11.09

  01:24:18, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 347 orð  
Flokkur: Bænamál, Bækur

Guð, hvers vegna?

Bók eftir brezkan Jesúíta, Gerard W. Hughes, prest, kennara og rithöfund, er komin í prentun á vegum Skálholtsútgáfunnar. Bókin heitir Guð, hvers vegna? Þýðandinn er séra Vigfús Ingvar Ingvarsson á Egilsstöðum (en hann er einnig ritstjóri Kirkjuritsins). Má lesa sér til um höfundinn og verk hans hér á vefsetri hans, einnig hér. Sagt verður nánar frá bókinni síðar. Á meðan má vísa til þess, að hér er formáli hennar á ensku. Bókin fjallar um bænalífið, með leiðsögn um andlegar æfingar.

Read more »

23.09.09

  16:03:31, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 398 orð  
Flokkur: Kirkjulatína, Bænamál, Miðaldasaga og kirkjan, Trúarljóðaþýðingar JVJ, Kenning kaþólskrar kirkju

Boëthius: Quod mundus stabili fide

De consolatione philosophiæ, liber II, metrum VIII

(þ.e. 8. ljóð í 2. bók í ritinu Huggun heimspekinnar)

Að heimur stöðugur standi,
þótt stórum breytist í þróun ;
að eining endalaus haldist
með öllu kviku, þó stríði ;
að röðull rósrauðan morgun
fram reiði gullnum í vagni,
en nótt, sem vísað er veginn
af Venus, ljómi í tungli ;

Read more »

19.09.09

  22:39:12, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 514 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Bænamál, Miðaldafræði íslenzk, Ýmis skáld, Miðaldasaga og kirkjan

Karla-Magnúsar bæn

  • Róms af bás þó ræðu spinni,
  • rekks ei mýkir lyndi það,
  • hefur hann lás í hendi sinni
  • Himnaríkis dyrum að.

Nokkur gömul handrit á ég, þar á meðal vísna- og bænamál, og var vísan sú undarlega úr einu þeirra. Er þar um að ræða 3. erindi úr átta vísna bréfi, ortu af Ólafi Erlindssyni til Jóns í Bót. Er það austfirzkt efni, ritarinn B. Sveinsson í Viðfirði.

En efnið, sem hér fer á eftir, handrit sem ég birti nú þennan hluta úr: Karla-Magnúsar bæn, er fagurlega ritað, en skrifarans eða eiganda ekki getið. Tvískipt er það og hér aðeins birt úr fyrri hlutanum, en í upphafsorðum þess seinni sést, að skrifað er þetta örugglega eftir 1747.

Read more »

06.09.09

  22:53:08, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 629 orð  
Flokkur: Bænamál, Ýmis skáld, Kristindómur og menning, Kaþólskir Íslendingar

Torfi Ólafsson, sálmahöfundur og velgjörðarmaður kaþólskrar kirkju

Eins og Þjóðkirkjan hefur átt sálmakveðskap Sigurbjörns Einarssonar, sem óx fram með árunum og varð með því bezta sem sú kirkja hefur alið af sér í andlegum ljóðum og innilegri trúrækni, þannig eigum við kaþólikkar okkar Torfa Ólafsson, sem hefur um langt árabil auðgað kirkju sína að þýddum sálmum og frumsömdum trúarversum.

Það skal þakkað, sem vel er gert, og hvað má heita betra tilefni en hrifning á kirkjubekk við lestur eins af hans þýddu sálmum, og gott var að taka undir hann með öðrum í sömu messu nýliðins dags. En það er líka tilefni, að nú í vor, 26. maí, hélt Torfi upp á níræðisafmæli sitt, og er það höfðinglegur aldur sem hann ber með prýði, því að andlega hress er hann og fer flestra erinda sinna gangandi og heldur sér þannig við góða heilsu.

Read more »

08.03.08

  11:33:34, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 100 orð  
Flokkur: About our website. Kirkju.net, Bænamál, Miðaldasaga og kirkjan, Skólaspekin

Bæn heil. Tómasar frá Aquino

Sit, Jesu dulcissime, sacratissimum corpus tuum et sanguis dulcedo et suavitas animae, salus et sanctitas in omni tentatione, gaudium et pax in omni tribulatione, lumen et virtus in omni verbo et operatione, et finalis tutela in morte.
Megi hinn alhelgi líkami þinn og sætleiki blóðs þíns, blíðasti Jesú, vera yndi sálar minnar, hjálpræði og heilagleiki í sérhverri freisting, fögnuður og friður í sérhverri raun, ljós og styrkur í hverju orði og verki og hinzta vernd mín á dauðastundinni.

Tekið af vefsetrinu Corpusthomisticum.org, sem inniheldur verk Thómasar.

25.03.06

  03:17:20, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 2424 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Bænamál

Sigurviss bæn fyrir ófæddum

Í dag er dagur ófæddu barnanna. Við skulum hugsa til þeirra og til skyldu okkar að undirbúa þennan heim fyrir komu þeirra og móttöku meðal okkar. Við skulum beygja kné okkar í iðrun og örvæntingu yfir því, að við höfum brugðizt í því hlutverki okkar að standa vörð um líf hinna ófæddu – að flæma burt af landi þessu hinn illa anda fósturdeyðingarhyggjunnar og "auðveldra lausna" sem allar eru á kostnað ófædda barnsins og móður þess, sem oftast verður að bera afleiðingarnar. En örvæntum ekki um sjálf okkur nema til þess eins að festa hug okkar þá þegar á Drottni Guði Föður okkar, sem annast eitt og sérhvert okkar af óumræðilegri elsku sinni. Sigur trúarinnar er í raun þegar unninn: allt sem við getum gert er að samverka með Guði í verki hans, og kenning trúarinnar veitir okkur fullvissu um að við getum borgið lífi margra ófæddra barna, íklædd hertygjum Heilags Anda, hvers 'vopn' er bænin. "En trú vor, hún er siguraflið sem hefur sigrað heim-inn" (I.Jóh. 5.4) – það er hún sem gefur okkur þessa sigurvissu djörfung.

Gakktu nú til bæna þinna í því hugarfari og þeirri fullvissu, að með hverju einasta hrópi á hjálp fyrir líf og heill hinna ófæddu verði a.m.k. einu ófæddu barni borgið.

Read more »

17.09.05

  12:51:53, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 788 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Bænamál

Beðið fyrir ófæddum börnum

Áður birt í lífsverndarblaðinu Mannhelgi, nr. 1 (ágúst 1987), en hér með nokkrum viðbótum.

Drottinn Guð, vér felum þér á hendur ófædd börn þessa lands og foreldra þeirra. Kenn þú þjóð vorri að virða mannslífið og veita bágstöddum hjálp í sérhverri nauð.

+ + + + +

Drottinn, vak þú yfir sérhverju barni, fæddu sem ófæddu, og gef þú öllum foreldrum styrk til að standa saman í gagnkvæmum kærleika og í hlýðni við vilja þinn.

+ + + + +

Drottinn Jesú Kristur, þú sem sagðir: “Leyfið börnunum að koma til mín,” vér biðjum þig: Tak í ríki þitt ófæddu börnin, sem var varnað þess að mega fæðast, og fyrirgef þeim, sem syndgað hafa gegn þínum smæstu bræðrum [eða: gegn vilja þínum].

+ + + + +

Drottinn Guð, vér biðjum um virðingu fyrir lífinu og sérstaklega gagnvart ófæddum börnum. Lát þú alla menn kannast við lífsgildi þeirra og að þú einn ert Herra yfir lífi og dauða. Veit foreldrum þeirra styrk, og lækna þú sérhvert sakbitið hjarta. (Söfnuður: Drottinn, vér biðjum þig, bænheyr þú oss – eða: heyr vora bæn.)

+ + + + +

Algóði faðir ... Blessa þú verðandi mæður og ófædd börn, og veit þeim öryggi, góða heilsu og líf.

(Bæn sr. Hjalta Þorkelssonar í Kristskirkju 24. febr. 1985 og 16. febr. 1986. Hann hefur einnig beðið sérstaklega fyrir fósturverndarstarfinu.)

+ + + + +

Drottinn, þú sem ert lífið sjálft, hjálpaðu okkur til að meta allt líf, sem þú skapar, hjálpaðu okkur til að virða allt líf – nýfætt, ófætt, fullvaxta og það sem ellin hrjáir. Hjálpaðu okkur til að sýna hvert öðru hlýju og nærgætni ...

(Úr bæn sr. Solveigar Láru Guðmundsdóttur í hugvekju í Sjónvarpinu, 28. apríl 1985.)

+ + + + +

Eftirfarandi athugasemd og bæn var bætt við bréf herra Péturs Sigurgeirssonar biskups til allra presta Þjóðkirkjunnar, dags. 26. apríl 1985, varðandi bænarefni hins almenna bænadags 1985 (12. maí), en þá var beðið “fyrir börnum, fæddum og ófæddum, og framtíð þeirra”:

“Í Handbókinni eru bænir í sérstökum aðstæðum, nr. 29 og 30 (bls. 60–61), sem henta vel bænarefni dagsins, Þar má bæta við bæn á þessa leið:

Drottinn, vak þú yfir sérhverju barni, fæddu sem ófæddu, og gef þú öllum foreldrum styrk til að standa saman í gagnkvæmum kærleika og í hlýðni við vilja þinn. Kenn þú þjóð vorri að virða mannslífið og veita bágstöddum hjálp í sérhverri nauð, fyrir Jesú Krist, Drottin vorn."

+ + + + +

Vér biðjum fyrir sjúkum, sorgmæddum og einstæðingum, fyrir öllum börnum, fæddum jafnt sem ófæddum og einkum þeim sem búa við erfið kjör ....
Þannig tíðkaði sr. Björn Jónsson, prestur og prófastur á Akranesi, að fella bænarorð fyrir hinum ófæddu inn í almennu kirkjubænina; fer vel á þessu í samhenginu (sbr. einnig næstu bæn og síðustu bænina hér á eftir).

+ + + + +

Bænir sr. Hjalta Þorkelssonar í Kristskirkju á 6. sunnudag í páskaföstu 1985 og 2. sd. í föstu 1986:

Algóði Faðir: Jesús sagði, að þú myndir heyra bænir vorar bornar fram í þínu nafni, því biðjum vér: Fyrir kirkju þinni ...
...
Fyrir sjúkum og sorgmæddum ...
Fyrir börnum þessa lands, fæddum sem ófæddum: Varðveit þau öll í föðurkærleika þínum, og gef þeim líf og heilsu og góðan þroska. (Söfn.: Drottinn, vér biðjum þig, bænheyr þú oss.)
Fyrir þeim, sem bera ábyrgð á lífi barna: Gef þeim styrk í hlutverki þeirra og náð til að fæða þau og koma þeim til manns. (S. svarar.)
Fyrir öllum framliðnum ...

+ + + + +

(Drottinn Guð, vér biðjum ...) Fyrir verðandi mæðrum og ófæddum börnum þeirra. Gef, að mæðurnar geri sér ljósa ábyrgð sína og öll börn megi lifa það að komast til vits og þroska. (Söfn. svarar.)

(Bæn sr. Hjalta Þorkelssonar í Kristskirkju 29. des. 1985, sunnudaginn næsta eftir messudag saklausu barnanna í Betlehem, sem er 28. des.)

+ + + + +

Vilt þú, Drottinn, blessa börn þessarar þjóðar, bæði fædd og ófædd. Vilt þú gefa, Drottinn, að við mættum veita þeim enn af þeirri miskunn, sem þú einn hefur yfir að ráða og vilt veita okkur í gegnum þitt orð og þitt verk ...

(Úr bæn sr. Valgeirs Ástráðssonar á æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar, 2.3. 1986.)

+ + + + +

Vér biðjum fyrir öllum, sem skortir heilsu og styrk, fyrir sjúkum, sorgmæddum og einstæðingum, fyrir börnum sem búa við erfið kjör. Opna augu vor fyrir gildi alls lífs, sem kviknar samkvæmt sköpun þinni. Helga allt líf í móðurlífi, svo að það megi fæðast og opinbera dýrð þína. Opna augu vor fyrir neyð náungans, og veit oss hugrekki til að koma honum til hjálpar. Fyrir Jesúm Krist, Drottin vorn. (Söfn.: Drottinn, heyr vora bæn.)

(Úr almennri kirkjubæn sr. Tómasar Sveinssonar á pálmasunnudag, 23. marz 1986. Þetta dæmi ásamt öðrum sýnir vel, hve eðlilega bæn fyrir ófæddum börnum getur fallið inn í hina almennu kirkjubæn.)

Endum þetta á vekjandi orðum Móður Teresu:

Við skulum biðja hvert fyrir öðru. Mín sérstaka bæn er sú, að við megum elska heitt þessa Guðsgjöf, barnið, því að barnið er stærsta gjöf Guðs til heimsins og til fjölskyldunnar og til sérhvers okkar. Og biðjið, að fyrir hjálp þessa kærleika megið þið vaxa í heilögu líferni; því að heilagleiki er ekki eitthvað, sem aðeins fáum getur hlotnazt; hann er blátt áfram skylda þín og skylda mín.

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software