« Nýtt hirðisbréf frá kaþólskum biskupum Norðurlanda komið útBaráttan gegn jólunum »

27.12.05

  14:07:45, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 844 orð  
Flokkur: Páfinn, Jólin

Án ljóss Krists nægir ljós skynseminnar ekki

Jólaboðskapur Benedikts páfa XVI.

Páfagarði 25. des, 2005 (Zenit.org). Hér á eftir fer stytt útgáfa af jólaboðskap páfa sem hann las áður en hann flutti jólakveðjur sínar „urbi et orbi“, til borgarinnar Rómar og heimsins. Páfi lagði út af orðum Lúkasarguðspjalls: "...ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn" (Lúk. 2:10-11).

„Í nótt sem leið heyrðum við enn einu sinni ávarp engilsins til fjárhirðanna og upplifðum á ný anda kvöldsins helga í Betlehem þegar sonur Guðs gerðist maður, fæddist í fjárhúsi og dvaldi á meðal okkar. Þennan hátíðardag kveður raust engilsins við á ný og býður okkur, konum og körlum þriðja árþúsundsins að bjóða lausnarann velkominn. Megi nútímafólk ekki hika við að bjóða honum í hús sín, borgir og hvert sem er á jörðinni! Á síðasta árþúsundi og sérstaklega á síðustu öldum hafa gífurlegar framfarir orðið á sviði tækni og vísinda. Í dag er aðgangur greiður að miklum efnislegum gæðum. En karlar og konur þessarar tæknialdar eiga á hættu að verða fórnarlömb eigin vitsmunalegu og tæknilegu afreka og enda í andlegri auðn með tómleika í hjarta. Þess vegna er svo mikilvægt að opna huga og hjarta fyrir fæðingu Krists, þessum hjálpræðisatburði sem getur gefið hverri mannveru nýja von.“

„ 'Vaknaðu, ó maður! Þín vegna gerðist Guð maður' (Hl. Ágústínus.) Vaknið karlar og konur þriðja árþúsundsins! Á jólum gerist hinn almáttugi barn og biður um hjálp og vernd. Aðferð hans til að sýna að hann er Guð skorar mennsku okkar á hólm. Með því að knýja á dyr skorar hann á okkur og mennsku okkar. Hann kallar okkur til rannsóknar á því hvernig við skiljum og verjum lífi okkar. “

„Oft er litið á nútímann sem tíma vakningar skynsemi af værum svefni, tíma upplýsingar mannsins sem kom á eftir myrkum öldum. En án ljóss Krists nægir ljós skynseminnar ekki til að lýsa mannkyninu og heiminum. Það er þess vegna sem orð jólaguðspjallsins: 'Hið sanna ljós, sem uplýsir hvern mann, kom nú í heiminn' (Jóh. 1:9) hljóma nú sterkar en áður sem yfirlýsing um björgun. 'Það er bara í leyndardómi orðsins sem gerðist maður sem leyndardómur mannkyns verður ljós' (Gaudium et Spes nr. 22). “

„Karlar og konur nútímans, þú fullveðja mannkyn en þó oft svo veikburða í sinni og vilja, lát barnið í Betlehem leiða þig! Óttastu ekki, settu traust þitt á hann. Hinn lífgefandi kraftur ljóss hans leggur grunninn að nýrri heimsskipan grundvallaðri á réttlátum siðferðilegum og hagrænum samskiptum. Megi kærleikur hans leiða allar þjóðir heimsins og styrkja hina sameiginlegu vitund þeirra um að þau séu fjölskylda, kölluð til að fóstra skilning og sameiginlegan stuðning. Sameinað mannkyn mun geta horfst í augu við hin mörgu uggvænlegu vandamál nútímans; allt frá hryðjuverkaógn til hinnar auðmýkjandi fátæktar sem milljónir manna búa við, frá mikilli vopnaframleiðslu til farsótta og umhverfisspjalla sem ógna framtíð plánetunnar. “

Að þessu sögðu bað páfi fyrir Afríku, minntist á Darfur og Mið-Afríku, hann bað fyrir friði í Rómönsku Ameríku, fyrir Landinu helga, Írak og Líbanon. Fyrir viðræðum á Kóreuskaga og í Asíu og sagði síðan:

„Á jólum íhugum við að Guð gerðist maður, guðlega dýrð falda undir fátækt reifabarns í jötu. Skapari alheimsins tekur á sig hjálparvana mynd hvítvoðungs. Þegar við meðtökum þessa þversögn þá finnum við sannleikann sem gerir okkur frjáls og kærleikann sem umbreytir lífi okkar. Þetta kvöld í Betlehem gerðist endurlausnarinn einn af okkur, félagi okkar á hvikulum stigum sögunnar. Tökum í útrétta höndina. Það er hönd sem tekur ekkert frá okkur en gefur aðeins.“

„Ásamt fjárhirðunum þá skulum við ganga inn í fjárhúsið í Betlehem undir kærleiksríku augliti Maríu, hins þögula vitnis að yfirnáttúrlegri fæðingu hans. Megi hún hjálpa okkur að upplifa hamingju jólanna, megi hún kenna okkur að varðveita í hjörtum okkar leyndardóm Guðs, sem okkar vegna gerðist maður, og megi hún hjálpa okkur að bera sannleika hans, kærleika og friði vitni í heiminum.“

RGB þýddi úr enskum texta þýddum úr ítölsku.
Heimild: By Knocking at Our Door, God Challenges Us and Our Freedom http://www.zenit.org/english. Kóði: ZE05122502

No feedback yet