« Eru “augljósar mótsagnir” í Biblíunni, m.a. um samkynja mök fólks? Skoðanaskipti við ritstjóra um forvitnileg málPortúgalska þingið ákveður þjóðaratkvæðagreiðslu um fósturdeyðingafrumvarp »

20.10.06

  23:13:29, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 327 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Stofnfrumurannsóknir og tæknifrjóvgun (IVF)

Bush gegn nýtingu stofnfruma úr mannsfóstrum

George W. Bush á heiður skilinn fyrir að beita neitunarvaldi sínu gegn offorsi efnishyggjumanna (flestra demókrata) sem gjörnýta vilja fósturvísa að vild lyfjarisa-auðmagnsins. Honum sé þökk að setja kapítalismanum siðferðisleg mörk í því tilliti. Það var verðugt, að loks þegar hann í 1. skipti beitti því neitunarvaldi, sem forsetanum er falið á hendur, skyldi það vera í þágu lífsins, til að tryggja friðhelgi hins mannlega fósturvísis.

Sama gæfan fylgdi ekki Clinton forseta. Hann beitti tvívegis neitunarvaldi gegn samþykkt beggja þingdeilda um bann við fósturdeyðingu rétt fyrir eða réttara sagt við framkallaða fæðingu (partial-birth abortion), jafnviðbjóðsleg og sú drápsaðferð þó er á ófæddu barni, oftast um eða eldra en 6 mánaða. Bush forseti skrifaði hins vegar undir slík lög síðar með mikilli ánægju.

Þrátt fyrir synjun Bush á staðfestingu frumvarpsins, sem rætt var um hér byrjun, munu stofnfrumurannsóknir blessunarlega halda áfram í Bandaríkjunum, bæði á frumum úr fullorðnu fólki (án þess að "fórna" lífi fósturvísa) og á frumum úr fylgjunni (legkökunni, placenta). Að ímynda sér, eins og sézt hefur í skrifum manna hér á landi, að Bush forseti eða kristnir menn yfirhöfuð hafi nokkuð á móti því að finna nýjar leiðir til lækninga, sýnir einungis, hve veraldarhyggjan á Íslandi er komin langt í því að búa sér til sinn eigin undarlega fantasíuheim.

––––––––––––
Hluti þessa pistils birtist áður á eftir frétt á Vísir.is. – Hér hafði þessi pistill minn (vistaður 22. júlí) hins vegar "frosið inni". (Fyrir opinbera birtingu hans ætlaði ég mér að bæta einhverju við hann, sem ekki gat orðið úr strax, og þá grófst hann undir binginn af nýrri greinum og gleymdist! Svona er maður nú takmarkaður!)

13 athugasemdir

Athugasemd from: Viggó E. Viðarsson
Viggó E. Viðarsson

Í fyrsta lagi verð ég að vera sammála banni við framkallaða fæðingu (partial-birth abortion). En ég sé aftur á móti ekki ástæðu til að banna nýtingu stofnfruma úr fóstrum. Er ekki eins gott að nýta þau til fulls í staðin fyrir að eyða þeim? Með því þjóna þau að minnsta kosti einhverjum tilgangi.

“Að ímynda sér, eins og sézt hefur í skrifum manna hér á landi, að Bush forseti eða kristnir menn yfirhöfuð hafi nokkuð á móti því að finna nýjar leiðir til lækninga, sýnir einungis, hve veraldarhyggjan á Íslandi er komin langt í því að búa sér til sinn eigin undarlega fantasíuheim.” Ekki held ég þessir aðilar séu á móti lækningum svo framalega sem þær samræmast þeirra trúarbrögðum og í því felst bæði galli og hroki. Það er nefnilega merkilegt með kristið fólk hvernig það telur að ef þú ert ekki kristinn þá hafi viðkomandi ekki siðferði. Sem er nú ansi merkilegt því ef maður skoðar mannkynssöguna þá eru nú mörg verstu ódæðisverk framin af kristnu fólki eða í nafni Guðs. Trú getur verið af hinu góða en um leið og það er farið að þröngva henni uppá á aðra þá er trúin komin inná ranga braut. Það er ekkert sem gefur trúarhópum rétt til að þvinga sínum skoðunum uppá aðra sem ekki trúa. Virðing þarf að fara í báðar áttir.

21.10.06 @ 20:08
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Viggó er beðinn að halda sér hér við efni greinarinnar, eins og hann gerir raunar í fyrri klausunni, en ekki í þeirri síðari. Það kemur jú til af því, að hann gefur sér kolvitlausa forsendu þar: “Það er nefnilega merkilegt með kristið fólk hvernig það telur að ef þú ert ekki kristinn þá hafi viðkomandi ekki siðferði” (þarna hefði ég nú sagt: “að ef menn séu ekki kristnir, þá …"). – Þessi fullyrðing og alhæfing stenzt ekki um kristna menn, og eitt fyrsta dæmið og sönnun þess, að Viggó skjátlist þarna, er Páll postuli: hann segir í Róm.2.14-15:

“Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál. Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samvizka þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra, sem ýmist ásaka þá eða afsaka.”

Þannig að það er ekki kristin fullyrðing að segja, að ókristnir menn geti ekki haft eitthvert siðferði (og ratað oft á það rétta í hugsun sinni og verkum). Þetta var sem sagt vindmylla einber, sem Viggó slóst þarna við. Og síðan lætur hann fylgja setningu sem hljómar oft úr munni gagnrýnenda kirkjunnar, en miklu minna er til í en þeir ímynda sér yfirleitt.

Þegar hins vegar Viggó segir: “um leið og það er farið að þröngva henni [trúnni] upp á aðra þá er trúin komin inná ranga braut …” þá er bæði ég og t.d. páfinn Benedikt 16. honum innilega sammála (eins og fram kom í fyrirlestri páfans í Regensburg), enda beinist þvingun til trúar beinlínis gegn sjálfu hinu frjálsa og viljuga eðli trúarinnar.

En svara skal ég hinni efnislegu spurningu Viggós í fyrri klausunni: “Er ekki eins gott að nýta þau [fóstur eða stofnfrumur úr fóstrum] til fulls í staðinn fyrir að eyða þeim? – SVAR: Hvort tveggja er algerlega ósiðlegt. Það er siðferðislega rangt að deyða mannlegan fósturvísi. Notkunin á honum “í þágu lífs annarra", eins og sumir kalla, er sömuleiðis ósiðleg. Við höfum ekki leyfi til að gjörnýta líf annarra og taka það frá þeim til að bæta eða framlengja okkar eigið líf. Góður tilgangur helgar ekki illt meðal (sbr. Róm.3.8). Og þakka þér svo, Viggó, þessa umræðu.

21.10.06 @ 23:33
Athugasemd from: Viggó E. Viðarsson
Viggó E. Viðarsson

Afsakaðu að ég skyldi fara útfyrir efni greinarinar. Með nýtingu á fóstri þá er þetta náttúrulega spurning um skilgreiningu á lífi. Mín skilgreining er sú að þetta sé ekki vitsmunalega vera fyrr en það er hægt að mæla heilastarfsemi. Ég get aftur á móti ekki sagt að það sé sú regla sem eigi að gilda fyrir alla því ekki allir hafa sömu skoðun. Þess vegna ættu lögin að vera rúm í þessu efni og þess vegna vera til nefnd sem ákvæði svona hluti með tiliti til skoðana foreldra. Eitt enn af því að þú vitnar í biblíuna, fyrir mér eru það ekki rök því að ég sé biblíuna sem eitt af bestu tækjum sögunar til að hafa stjórn á fólki. Fyrir mér er til dæmis enginn munur á biblíuni og kóraninum að því leiti að bæði verkin eru notuð til að hafa stjórn á almúganum. Ég er ekki að meina þetta sem óvirðingu bara mín skoðun.

PS. Mig langar til að útskýra mál mitt aðeins betur en vil ekki fara langt út fyrir greinina. Er einhverskonar spjallborð á síðunni þar sem ég komið því að.

PSS. Ég hef mjög gaman af því að rökræða trúmál og þakka þér fyrir tækifærið sem þessi vefsíða gefur mér og öðrum til þess.

22.10.06 @ 00:45
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Já, þakka þér, og velkomið er þér að ræða þau mál hér við okkur. Spjallborð erum við ekki með, ég hef satt að segja ekki áhuga á því, í bili a.m.k., að taka slíkt upp, einfaldlega vegna mikilla anna minna og annarra, sem eru hér til málsvarnar fyrir kaþólska trú og kirkju. En margt mun nú koma hér fram í pistlum, sem þú munt geta rætt með okkur, auk þess sem benda má þér og öðrum á að líta yfir greinar hér í gagnasafni okkar (t.d. með hjálp efnismöppu-flokkunar okkar) eða nota leitarforritið (LEIT) til að finna greinar þar sem fjallað er um einhver atriði, hugtök, persónur í kirkjusögunni eða annað sem menn vilja skyggnast eftir, t.d. trúaratriði eða samtímamál (m.a. í sambandi við fósturdeyðingar og lífvísindi).

Um annað í svari þínu skal ég ræða í næsta innleggi mínu.

22.10.06 @ 10:50
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Vitaskuld færði ég í innleggi mínu í nótt engin ýtarleg (hvað þá tæmandi) rök fyrir hinni kaþólsku afstöðu í sambandi við lífshelgi mannlegs lífs frá upphafi þess við frjóvgun. Viggó kemur svo inn á það mál í svari sínu í morgunsárið. Hann byggir afstöðu sína á því, að “þetta sé ekki vitsmunalega vera fyrr en það er hægt að mæla heilastarfsemi” og gefur sér þar með, að einungis sem (aktúell) vitsmunaleg vera ætti frumfóstrið rétt á að njóta mannréttinda. Þó veit Viggó sem er, að allt efnið í vitsmunaveruna, fyrir utan næringu, er að finna í erfðavísum fósturvísisins, en hann myndi þá trúlega svara því til, að hann eigi við: hugsandi veru, manneskju sem í reynd er með heila og beitir honum í verki. En þar með er hann að útiloka persónu, sem liggur meðvitundarlaus (ekki heiladauð, en með óvirka heilastarfsemi) frá því að teljast mannleg vera.

Einna bezt er Viggó svarað með því að benda honum á afar góða rannsókn og útleggingu á þessum lífsspursmálum – og um það hvað teljist mannlegt líf og mannleg vera – í grein eftir dr. Dianne N. Irving. Sjálfur er ég vitaskuld ekkert kennivald né sérfræðingur í þessum efnum, en sú grein, þar sem ég hef einna helzt komið inn á þetta mál, er Um “neyðargetnaðarvörn” – rangfærslum og lögleysu mótmælt, og vísa ég hér með til hennar. En umfram allt: lesið hina merkilegu og bráðsjöllu grein eftir dr. Dianne Irving!

Að lokum: Viggó sér “Biblíuna sem eitt af bestu tækjum sögunar til að hafa stjórn á fólki,” en því andmæli ég – nema í þeirri merkingu, að Biblían flytur boðskap Guðs, sem ætlað er að hafa áhrif á hugsun okkar og lífsstefnu ––– og er eitthvað að því, Viggó? – vilt þú ekki sjálfur hafa áhrif á hugsun annarra öðru hverju, og er það ekki bara eðlilegur partur mannlegrar tilveru og samfélags? ––– en: þetta vill Guð gera með okkar eigin samsinni, að okkar eigin vilja (ekki með ytri þvingunarstjórn) og með okkar eigin samstarfi með honum, því að okkur er ætlað að vera samverkamenn (gr. synergoi) Guðs, eins og postulinn segir, ekki viljalausir róbótar hans eða þrælar undir kúgunarvaldi. Kristinn maður er sem slíkur ekki þræll, heldur frjáls. Þetta tengist einnig því, sem ég minntist á hér ofar um hið frjálsviljuga eðli trúarinnar, sem páfinn var einmitt að ræða um í Regensburg í liðnum mánuði.

Góðar stundir, og Guð blessi þig.

22.10.06 @ 11:12
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég ætlaði að setja hér inn vefslóð á vissa grundvallar-grein eftir Dianne N. Irving, PhD, sem ég á útprentaða, en finn hana ekki á netinu sem stendur, en mun setja slóðina inn síðar ásamt öðru efni frá henni.

22.10.06 @ 12:19
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Greinin mikilvæga eftir Dianne N. Irving, Ph.D., heitir When Do Human Beings Begin? “Scientific” Myths and Scientific Facts og er aðgengileg þarna hjá útgefandanum, Libertarians for Life, en upphaflega birtist hún í tímariti þeirra samtaka, International Journal of Sociology and Social Policy, Vol. 19, nr. 3/4 (1999), þ.e. sérheftinu Abortion and Rights. Það væri mjög þarft verk að þýða þessa grein á íslenzku. Hún ætti svo sannarlega heima t.d. á Vísindavefnum.

Fjöldann allan af Google-tilvísunum er að finna á þessa og fleiri greinar eftir dr. Irving, sem gegnir prófessorsstöðu í heimspeki og líf-siðfræði við bandaríska menntastofnun.

22.10.06 @ 21:46
Athugasemd from: Viggó E. Viðarsson
Viggó E. Viðarsson

“Að lokum: Viggó sér “Biblíuna sem eitt af bestu tækjum sögunar til að hafa stjórn á fólki,” en því andmæli ég – nema í þeirri merkingu, að Biblían flytur boðskap Guðs, sem ætlað er að hafa áhrif á hugsun okkar og lífsstefnu ––– og er eitthvað að því, Viggó? – vilt þú ekki sjálfur hafa áhrif á hugsun annarra öðru hverju, og er það ekki bara eðlilegur partur mannlegrar tilveru og samfélags?”

:) Ég veit ekki hvort að guð sé til en ég veit allavega að með mínar skoðanir þá trúi ég þeim ekki blint. Ég er alltaf til að hlusta á rök annara. Það er nú orðið langt síðan ég las Biblíuna en segir ekki einhverstaðar þar að maður eigi ekki að trúa blint? Því að þó að biblían eigi að koma frá guði þá var hún náttúrlega færð í letur af mönnum sem jafnvel hafa viljað hafa áhrif á hugsunargang sinna samtíðarmanna. Ef að það að trúa gerir þann sem trúir hamingjusaman þá er ekkert nema gott um það að segja en ég er samt ekki viss um að viðkomandi trú gefi þeim aðilum rétt til að hlutast til um líf annara. Annars verður eflaust aldrei sátt um notkun stofnfruma. Vonandi finnum við einhverja aðra leið til að ná þeim árangri sem talið er að stofnfrumurannsóknir geti náð.

Ég mun nýta dauða vinnu tímann til að lesa yfir fleiri greinar hér og tjá mig þar ef að ég tel að ég hafi eitthvað fram að færa.

Með þökk

23.10.06 @ 04:24
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Viggó: “Vonandi finnum við einhverja aðra leið til að ná þeim árangri sem talið er að stofnfrumurannsóknir geti náð.” – En það er hreint ekkert að því að nota stofnfrumur úr þér eða mér eða hverjum öðrum lifandi manni eða nýdauðum – heldur ekkert að því að nota þær úr fylgjunni. Einungis þegar mennsku lífi er fórnað til þess, er það ósiðlegt. (Með þessu er ég þó ekki að réttlæta klónun manneskju, tek það fram.)

Tal þitt, Viggó, um blinda trú er út fyrir efnið, blind trú er ekki nefnd í máli mínu, ég hef ekki boðað hana sem slíka. Hins minnist ég ekki, að Biblían tali um “að maður eigi ekki að trúa blint"; en hún talar líka alveg nógu skýrt um það, að skynsamleg geti trúin verið og eigi satt að segja að vera það. Kristnum mönnum er sagt (í I. Pét. 3.15) að “vera ávallt reiðubúnir að svara hverjum manni, sem krefst raka hjá yður fyrir voninni (annar lesháttur: trúnni), sem í yður er". Þetta þýðir, að okkur er ekki einfaldlega ætlað að segja: “Ég trúi þessu bara, þetta er kristin trú, ég ræði þetta ekki frekar og get það ekki, ég get bara boðað þér trú – trúin byggist ekki á rökum, heldur trausti, og ef hún væri sönnuð, þá væri hún ekki lengur trú.” Þótt síðustu 10 orðin séu rétt og sömuleiðis alveg rétt, að trúin byggi á trausti eða feli það í sér, þá er þekking samt sem áður forsenda trúar og trúarinntakið sjálft framsett í skynsamlegri heild (ekki ósamstæðri og ólógískri), og jafnan er hægt að afsanna mótrök gegn trúnni, þ.e. að þau séu annaðhvort röng (rangt hugsuð eða fela ekki í sér meinta niðurstöðu) eða snerta ekki sanna trú sem slíka. Í þessu öllu er Tómas frá Aquino mikill og skynsamlegur meistari. Mæli með honum á næsta námsstigi þínu.

23.10.06 @ 11:16
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Ég veit ekki hversu sterkur leikur það er að nota skoðanir George Bush um mál sem þessi. Trúarsannfæring hans nær ekki lengra en svo að honum virðist finnast fátt athugavert við fjöldamorð í útlöndum. En þar erum við reyndar að tala um fólk sem aðhyllist aðra trú en hann sjálfur. Kannski eru Múslimar ekki fólk í augum “sannkristinna"?

01.11.06 @ 16:26
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er ekki aðeins út fyrir efnið, heldur í ósamræmi við staðreyndir. Bandaríkin eru ekki með fjöldamorð í Írak né Afganistan, heldur eru það al-Qaída-liðar og súnnítar (og í seinni tíð jafnvel sjítar) sem að slíku standa. Þótt aðrir snúi hlutunum á hvolf, er ekkert sem ætti að knýja þig til þess sama, Haukur Viðar.

01.11.06 @ 18:37
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Hendur BNA-manna eru litaðar blóði frá fornri tíð, og valdatíð Bush hefur engu breytt til batnaðar. Ég þarf ekki einu sinni að leita út fyrir Bandaríkin.

Bush hefur látið taka margan landa sinn af lífi sem ríkisstjóri, og sem forseti hefur hann neitað dauðadæmdum föngum um náðun.

Miskunnarleysi sem setur smánarblett á trúbræður hans.

02.11.06 @ 01:43
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Trúbræður hans (sem eru raunar ekki kaþólskir – en kristnir, jú, það er alveg rétt) eru aðeins ábyrgir fyrir sínum eigin orðum og gerðum.

Sem ríkisstjóri lét Bush ekki taka neinn af lífi, það var ekki á hans könnu, heldur dómsmálayfirvalda og ríkislaganna í Texas. Þessu “og” í miðklausu þinni, Haukur, var því ofaukið. Hitt er rétt, að sem ríkisstjóri Texas neitaði hann einhverjum dauðadæmdum föngum um náðun. Ég hygg það sé rangt hjá þér, að hann hafi gert það sem forseti, því að mig rekur ekki minni til, að forsetinn hafi náðunarvald yfir dauðadæmdum föngum í einstökum ríkjum Bandaríkjanna. Hann hefur kannski slíkt vald yfir þeim, sem dæmdir eru af alríkisdómstóli – hafði það máske í tilfelli fjöldamorðingjans Timothys McVeigh. En sú aftaka var a.m.k. ekki í ósamræmi við lögmál Gamla testamentisins, það er þó á hreinu.

Fyrsta setning þín, Haukur, í þessu síðasta innleggi þínu er ómakleg og meiðandi og í ósamræmi við það, sem segir í skilyrðum innleggja hér. Svona loðnar árásir á heila þjóð vegna einhvers, sem hafi átt sér stað “frá fornri tíð", koma ekki í stað sönnunar fyrir því, að Bandaríkin séu að fremja “fjöldamorð í útlöndum” á yfirstandandi tíð. Mér finnst þörf fyrir meiri rökfærslur í innleggjum þínum, það er alltaf fengur að rökræðu, en taumlaus yfirlýsingagleði verður oft til lítils.

Þú verður að láta þér þessa umræðu nægja um þetta mál út fyrir efnið, Haukur Viðar (líttu aftur á fyrirsögn og efni greinar minnar). Þú hefur í nógu löngu máli sett fram það undirliggjandi sjónarmið þitt, að Bush sé ekki trúverðugur sem andstæðingur drápa og gjörnýtingar á fósturvísum. Tilgangur þinn hefur þó naumast verið að skrifa um dauðarefsingar og “fjöldamorð” á ábyrgð Bush – þá hefðirðu allt eins getað skrifað um það í eitthvert dagblað nú eða fyrir löngu. Mig grunar, að tilgangurinn fyrir innleggi þínu hafi þvert á móti verið sá að reyna að spilla fyrir málflutningi mínum gegn stofnfrumurannsóknum. En þér er velkomið að ræða um þær rannsóknir hér – ekki að ræða óskyld mál um George W. Bush frekar.

02.11.06 @ 09:34
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software