« Og þarna tóku margir trú á hann„Áður en Abraham fæddist, er ég.“ »

06.04.06

  05:15:41, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 536 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd

Bresk rannsókn leiðir í ljós að ófædd börn finna til

LONDON, 5. apríl 2006 (LifeSiteNews.com) – Enn önnur rannsókn hefur leitt í ljós að ófædd börn skynja sársauka, jafnvel enn frekar en við.

Rannsókn sem gerð var við University College í London og byggð er á heilaskönnununarmyndum af ófæddum börnum sem teknar voru þegar blóðsýni voru tekin leiðir þetta í ljós samkvæmt fréttum BBC í gær. Könnun gaf til kynna flæði blóðs og súrefnis til heila barnanna meðan sýnin voru tekin sem sýnir með áþreifanlegum hætti, að um viðbrögð gegn sársauka er að ræða í heilanum.

„Við höfum sýnt fram á í fyrsta skiptið að tilfinning gagnvart sársauka nær til heila ófæddra barna,“ sagði prófessor Maria Fitzgerald, sérfræðingur í þróunartaugalífsfræði við „Thomas Lewis Pain Research Centre“ við „University College.

„Áður vissum við þetta ekki með neinni vissu, þrátt fyrir að álykta mætti, að ófædd börn skynji sársauka.“

Dr. Paul Ranalli, prófessor í taugalífsfræði við „University of Toronto“ sagði s. l. ár með skírskotun til sársaukaskyns ófæddra barna: „Eini munurinn á barni í móðurlífi á þessu stigi og á barni sem liggur í súrefniskassa er sá, hvernig börnin meðtaka súrefnið, annað hvort í gegnum naflastrenginn eða með hjálp lungnanna. Ekki er um neinn mun að ræða á taugakerfinu.“

Prófessor Fitzgerald framkvæmdi aðra rannsókn 1998 á sársaukaskyni ófæddra barna. Hún komst að þeirri niðurstöðu, að börn í móðurlífi hafi meira sársaukaskyn en fullorðið fólk og eldri börn.
 
„Ófætt barn nýtur ekki góðs af hinu náttúrlega kerfi líkamans til að deyða sársauka, en í fullorðnum dregur það úr sársaukaboðum þegar þau berast til miðtaugakerfisins,“ komst hún að orði á þessum tíma.

Þrátt fyrir að fyrri rannsóknir gæfu til kynna að ófædd börn gætu sýnt áþreifanleg viðbrögð við sársauka og aðsteðjandi hættu, þá var unnt að leiða slíkt hjá sér sem ummerki um líkamleg viðbrögð, en ekki við sársauka.

Rannsóknarteymi Fitzgeralds segir að þessar nýjustu niðurstöður séu ljósar og leiða megi að því líkur, að mikill sársauki hafi áhrif á síðari þroska heilans.

Fjölmargar rannsóknir verið birtar á síðari árum sem gefa til kynna að frumfóstrið eða ófædd börn skynji mikinn sársauka, meðal annars bandarísk rannsókn sem studdist við hátíðnihljóð og vídeómyndir sem sýndi, að börn sem einungis eru 28 vikna gömul gráti í móðurlífinu.

Birting þessara rannsókna hefur orðið þess valdandi, að „lög um sársaukamörk“ verði sett til að draga úr sársaukanum við fóstureyðingar á ófæddum börnum sem deydd eru miskunnarlaust.

Ný rannsókn sem leiðir í ljós að börn gráta í móðurlífi:

http://www.lifesite.net/ldn/2005/aug/05082606.html

16 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Innilegar þakkir fyrir þetta, nafni minn. – Ég er með ýmsar fleiri heimildir um þetta, sem þyrftu að komast á Kirkjunetið. En hvert er viðbragð “pro-choice-manna", þegar þeir fá svona fréttir? Afneitun! En afneitun er val – val um að horfast ekki í augu við staðreyndir, heldur þverskallast við að skoða málið í kjölinn – og láta ekki, ef þeir sjálfir reynast óvissir að athugun lokinni, hina veikburða og smáu a.m.k. njóta efans. Værum við úti í skógi á bjarnarveiðum, sæjum svo í hálfrökkri eitthvað stórt, sem verið gæti björn, en gæti líka verið maður, þótt við hefðum ekki átt hans von, þá væri alls ekki siðlegt né verjandi að skjóta á það skotmark. Mannslífið á alltaf að njóta vafans. Eins er um fóstur, sem þjáist eða virðist (í augum einhvers) e.t.v. þjást – þeir, sem drepa það, breyta ekki siðlega. Þeim mun þyngri verður dómur þeirra á efsta degi. Já, að hugsa sér – að fullorðinn, virðulegur læknir eða annar framkvæmandi verksins geti varpað sér út í yztu myrkur eilíflega vegna einhvers lítils fósturs! En svona er þetta, því að “það, sem þér gjörið einum þessara minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér,” segir frelsari okkar (Mt.25.40, 45), sem um leið er dómari allra manna (Mt.25.31–45 og Jóh.5.22, Post.10.42 o.fl. hliðstæður, sjá 1981-Biblíuna, neðanmáls við Jóh.5.22). “Hversu torvelt mun verða fyrir þá, sem auðæfin hafa, að ganga inn í Guðsríkið!” (Mk.10.23). “Villizt ekki!” (sjá I.Kor.6.9 o.áfr.).

06.04.06 @ 07:58
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Orð Jesaja standa fyrir sínu. „Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum, og líta ekki miskunnaraugum til ungbarna (Jes 13. 18). Og ennfremur: „Drottinn hefur byrlað þeim sundlunaranda, svo að þeir valda því, að Egyptaland er á reiki í öllum fyrirtækjum sínum, eins og drukkinn maður reikar innan um spýju sína“ (Jes 19. 14). Svo mörg voru þau orð.

06.04.06 @ 09:42
Guðmundur D. H.

Ef þú ert að setja fóstureyðingar og það að börnum í móðurkviði finni til, þá má ég gjarnan benda á það að á fóstureyðingar eru bannaðar eftir 16. viku meðgöngu, en það sem þú nefnir hér er að fóstrum á 28. viku finni til.

Ekki teygja orð mín til og frá með því að ætla það að ég vilji meina að börnum fyrir 28. viku finni ekki til, ég bara hef ekki hugmynd um það.

19.04.06 @ 23:13
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þau finna til, vinur, mun yngri en 28 vikna.

Það er því miður ekki rétt hjá þér, að fóstureyðingar séu bannaðar hér eftir lok 16. viku. Lögin nr. 25/1975 heimila þær eftir þann tíma, en ekki af félagslegum ástæðum. Árin 1982–90, þegar fósturdráp hér á landi voru á bilinu 612–714 árlega (nema árið 1984: 745), var 73 (sjötíu og þremur) ófæddum börnum á aldrinum 17–20 vikna slátrað og þrettán sem voru eldri en 20 vikna. (Sjá Lífsvon, fréttabréf Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, IX/i, marz 1993, bls. 11–12. Það blað má skoða í Þjóðarbókhlöðu, en það fæst ókeypis hjá mér.) – Þessar tölur eru trúlega hærri núna, þegar bundinn er endi á líf um 1000 ófæddra barna árlega.

Svo vil ég vinsamlega benda þér á vefsíðu mína Fóstureyðingar og samvizkumál. Ennþá sorglegri vefsíða er Blóðug og barbarísk manndráp.

Með kveðju og góðum óskum.

20.04.06 @ 01:34
Guðmundur D. H.

Jón Valur: Þetta með 16. viku er rétt hjá þér, en fóstureyðing eftir þennan tíma er einungis gerð í undantekningartilfellum.

Sbr. lög um fóstureyðingar:
“10. gr. Fóstureyðing skal framkvæmd eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku meðgöngutímans.
Fóstureyðing skal aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans, nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu. Einnig skal fóstureyðing leyfileg eftir 16 vikur, séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.
Slíkar undanþágur eru aðeins heimilar að fenginni skriflegri heimild nefndar, skv. 28. gr.”

Mig langar til að benda þér á, að þú getur fundið tölur yfir fóstureyðingar á vef Hagstofu: www.hagstofa.is

Og að lokum spyr ég: Finnst þér ómögulega réttlætanlegt að framkvæma fóstureyðingu á fóstri sem er annað hvort mjög líklega vanskapað/skaddað eða felur í sér mikla áhættu fyrir móðurina að eiga?

(Lögin ber að túlka með fyrirvara, hvort sem ég eða aðrir ólöglærðir menn gera það, þar eð lög eru gjarnan flóknari úrlestrar en virðist í fljótu bragði)

20.04.06 @ 13:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Guðmundur, en ég held þú þurfir ekki að benda mér á neitt í þessu sambandi. Ég er fyrrverandi formaður Lífsvonar og ritstjóri Lífsvonarblaðsins og hef skrifað fjölda greina um þessi mál. Að sjálfsögðu þekki ég netupplýsingarnar á vef Hagstofunnar.

Það er hægt að kalla þessi tilfelli eftitr lok 16. viku “undantekningartilfelli", þótt lögin geri það ekki. Þetta ER heimilt skv. lögunum, fer þá bara gegnum þessa nefnd vegna þeirra sérstöku undanþágna. Þú hélzt því hins vegar fram hér í fyrra innleggi þínu, að “fóstureyðingar [væ]ru bannaðar eftir 16. viku meðgöngu,” sem er einfaldlega í ósamræmi við staðreyndir. ‘Undanþágurnar’ eru ekki undanþágur frá lögunum, heldur gilda um þær sérstök ákvæði laganna, önnur en um meginregluna.

Það er ekki “réttlætanlegt að framkvæma fóstureyðingu á fóstri sem er … mjög líklega vanskapað/skaddað". Slíkt er að láta tilganginn helga meðalið og að ráðast á saklaust mannslíf. Um seinni hluta spurningar þinnar, þar sem innt var eftir þessu, get ég svarað þér seinna, það er heldur snúnara mál að svara, ég hef ekki tíma til þess rétt núna.

PS. Svo bendi ég þér á, að allir, sem skrifa hér athugasemdir, eiga að gera það undir fullu nafni. Vefsíðan, sem þú gefur upp hjá þér ( http://binhex.EU.org/ ), virðist ekki virka, þannig að ekki sjáum við þar, hver þú ert. Hér skrifa allir undir fullu nafni, við gerum engar undantekningar; og gefðu upp netfang, takk.

20.04.06 @ 17:45
Guðmundur Daði Haraldsson

Ég biðst forláts með þetta varðandi nafnið mitt, leiðréttist hér með.

Hitt, varðandi vefsíðuna mína, þá er það um hana að segja að hún er niðri vegna bilunar og lítið við því að gera í bili. Hins vegar hef ég alltaf gefið upp netfang (tölvupóstfang).

Varðandi það að að ég héldi því fram að fóstureyðingar væru bannaðar eftir 16. viku meðgöngu er alveg rétt hjá þér, en þú leiðréttir mig og ég hefði því talið að það mál væri úr sögunni. Ég sé enga ástæðu til að ræða það nokkuð frekar.

20.04.06 @ 18:12
Guðmundur Daði Haraldsson

Ein pæling enn, ekki alveg ótengt fóstureyðingum, en fjarskylt þó.

Hvað finnst ykkur um getnaðarvarnir og ófrjósemisaðgerðir? Finnst ykkur það réttlætanlegt?

20.04.06 @ 18:19
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þú getur séð afstöðu kirkjunnar til getnaðarvarna og fjölskylduáætlana í grein minni hér á netinu:

Nauðsynlegustu upplýsingar um NFP (Natural Family Planning). Hún hefst á orðunum:

Hvað er NFP eða náttúrleg fjölskylduáætlun?
NFP er heildarheiti yfir ákveðnar aðferðir sem stuðst er við til að geta barn eða koma í veg fyrir getnað. Þessar aðferðir eru byggðar á athugunum á náttúrlegum ummerkjum eða einkennum frjósemis- og ófrjósemisskeiða konunnar með hliðsjón af tíðahring hennar. Hjón sem styðjast við NFP til að koma í veg fyrir þungun forðast samfarir meðan konan er frjósöm. Engin lyf eða önnur úrræði eru notuð til að forðast þungun. NFP hefur til hliðsjónar gildi einstaklingsins í hjónabandi og fjölskyldulífi, glæðir opinleika gagnvart lífinu og virðir rétt barnsins.

Hún er nú talin 99.3% örugg og er ein þeirra aðferða sem tilgreind er í bæklingi Landlæknisembættisins um getnaðarvarnir (nr. 12). Hún hefur þróast mjög í höndum vísindamanna og á Vesturlöndum er nú stuðst við „frjósemistölvur“ (feritlity computers) með databönkum. Kirkjan mælir ekki með því að fjölskyldur fæði börn sem þeim er um megn að brauðfæða.

Það verður mikill fengur fyrir okkur hér á Kirkjunetinu þegar læknisfræðilega menntaður einstaklingur bætist væntanlega í hóp okkar nú á næstunni.

21.04.06 @ 06:27
Guðmundur D. Haraldsson

Í bæklingi landlæknis er vissulega bent á þessar aðferðir sem þú nefnir, en í bæklingnum er reyndar talað um 98% öryggi. Hvað um það, prósentan skiptir litlu máli í praxís fyrir venjulegt fólk. Og vissulega má koma með rök fyrir því að þessi aðferð sé æskilegri en aðrar.

Þú talar um að NFP virði rétt barnsins. Ber að skilja það sem svo að egg og sæði séu barn á þessu stigi málsins?

21.04.06 @ 16:57
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Líffræðilega er um nýjan einstakling að ræða þegar frumfóstrið (embryo) verður til við samruna hinna 23 litninga konu og karls, það er með sínum 46 litningum. Hormónalyfin hindra að þetta gerist með því að „líma“ eggið við slímhúð legsins og hindra þannig samrunann.

21.04.06 @ 17:07
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Og þarna er reyndar ekki um “egg” að ræða, heldur fósturvísi (sem þá er orðinn nál. 250 frumna lífvera af tegundinni maður); og fósturvísirinn er ekki límdur við slímhúð legsins, heldur festir hann sig þar sjálfur – færnina til þessarar ‘hreiðrunar’ (e. ‘nesting’) er að finna í þessu frumfóstri sjálfu, þótt það hafi þá enga útlimi. Það sendir einnig frá sér hormón, sem veldur þeim umskiptum í ótrúlega margfalt stærri líkama móðurinnar, að tíðahringur hennar stöðvast allan meðgöngutímann.

Heimildir m.a. grein eftir dr. Albert William Liley, prófessor í Nýja-Sjálandi: ‘Minnsta mannsbarnið’, í Lífsvon, fréttabréfi Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, IX/i, marz 1993, bls. 6–8.

21.04.06 @ 17:41
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það væri fengur í því Jón að fá „Lífsvonarblöðin“ skönnuð inn á þennan databanka Kirkjunetsins?

21.04.06 @ 18:53
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hugsanlega, ef hægt er. En ég á þau yngstu (þ.m.t. ofangreint) nánast í heild í tölvutæku formi og var einmitt búinn að hugsa mér að koma allri grein Sir Williams Liley hingað á Kirkjunetið, auk æviþáttar hans, sem ég tók saman og birtist í sama tölublaði. Það sama á við um fleiri greinar þar ….

21.04.06 @ 19:32
Guðmundur D. Haraldsson

Ég biðst forláts, en ég finn ekki þessa grein um NFP?

21.04.06 @ 20:05
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Greinin er hérna [Tengill]

21.04.06 @ 21:32