« Vísindi elskunnar – hl. Teresa af JesúbarninuÓ Hjarta, elskuríkara öllu öðru – Heil. Geirþrúður frá Helfta (1256-1301) »

30.05.08

  09:54:25, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1630 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú

Bréf hans heilagleika Benediktusar XVI í tilefni 50 ára minningar útkomu hirðisbréfsins „Haurietis Aquas (Uppsprettu vatnanna).“

Í dag, 50 árum síðar, hafa orð Jesaja spámanns sem Píus XII setti í upphafi hirðisbréfs síns þegar hann minntist aldarminningar aukinnar áherslu á Hátíð hins Alhelga Hjarta Jesú í allri kirkjunni ekki glatað inntaki sínu: „Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins“ (Jes 12. 3).

Með því að glæða guðræknina á Hjarta Jesú hvatti „Haurietis Aquas“ hina trúuðu að opna sig fyrir leyndardómi Guðs og elsku hans og heimila henni að ummynda sig. Að liðnum 50 árum er þetta enn verðug viðleitni fyrir kristið fólk til að halda áfram að dýpka samband sitt við Hjarta Jesú til þess að glæða trú sína á frelsandi elsku Guðs og fagna henni stöðugt í lífi sínu.

Síðusár Endurlausnarans er uppspretta sú sem hirðisbréfið „Haurietis Aquas“ víkur að: Við verðum að leita til þessarar uppsprettu til að öðlast sanna þekkingu á Jesú Kristi og sannreyna elsku hans með djúpstæðari hætti.

Þannig mun okkur auðnast að skilja betur hvað það felur í sér að þekkja elsku Guðs í Jesú Kristi, að sannreyna þetta með því að beina augliti okkar til hans með slíkum hætti, að við lifum í þessari reynslu af elsku hans að fullu og öllu, þannig að við getum vitnað um hana fyrir öðrum.

Ég vitna til orða æruverðugs forvera míns, Jóhannesar Páls II: „Í Hjarta Krists lærir mannshjartað að þekkja hið sanna og einstæða takmark lífs síns og örlaga sinna, að skilja áþreifanleika kristilegs lífernis og að forðast ákveðna spillingu mannshjartans og að sameina sonarelskuna á Guði og náungum sínum“.

Með öðrum orðum: „Hin sanna viðreisn Hjarta Frelsarans mun glæðast þegar siðmenning Kristshjartans verður grundvölluð á rústum haturs og ofbeldis“ (Úr bréfi til Peter-Hans Kolvenbach, yfirboðara Jesúítareglunnar vegna helgunar Claude de la Colombiè, 5. október 1986: L’Osservatore Romanum, enska útgáfan, 27. október 1986, bls. 7).

Í hirðisbréfinu Deus Caritas Est vitnaði ég til Fyrsta Jóhannesarbréfisins: „Oss hefur lærst að trúa í þeirri elsku sem Guð ber til vor,“ til að leggja áherslu á að það sem það felur í sér að vera kristinn er stefnumót við Persónu.

Þar sem Guð opinberaði sig með djúpstæðum hætti í holdtekju Sonar síns þegar hann gerði sjálfan sig „sýnilegan,“ þá er það í samfélaginu við Krist þar sem við gerum okkur ljóst hver Guð er í raun og veru (spr. Haurietis Aquas, nr. 29-41; Deus Caritas Est, nr. 12-15).

Enn að nýju: Þar sem dýpstu tjáninguna á elsku Guðs má finna í gjöf Krists okkur til handa á krossinum, dýpstu tjáninguna á elsku Guðs, þá er það um fram allt annað með því að horfa til þjáningar hans og dauða þar sem við sjáum óumræðilega elsku Guðs á okkur með sífellt ljósari hætti: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf Son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf“ (Jh 3. 16).

Auk þess felur þessi leyndardómur elsku Guðs ekki einungis í sér inntak tilbeiðslunnar og guðrækninnar á Hjarta Jesú, heldur er hann inntak allrar sannrar guðrækni og kristinnar tilbeiðslu. Þar af leiðandi er mikilvægt að leggja áherslu á að grundvöllur guðrækninnar er jafn gamall sjálfum kristindóminum.

Í reynd er einungis mögulegt að vera kristin með því að við beinum augum okkar til kross Endurlausnarans, „horfa til hans, sem þeir stungu“ (Jh 19. 37; Sk 12. 10).

Hirðisbréfið Haurietis Aquas bendir réttilega á að síðusár Krists og naglaförin séu fyrir fjölmargar sálir „tákn og ummerki þessarar elsku“ sem mótaði líf þeirra hið innra með áþreifanlegum hætti (spr. nr. 52).

Að berum skyn á elsku Guðs í hinum krossfesta Eina varð þeim að innri reynslu sem knúði þær til að játa með Tómasi: „Drottinn minn og Guð minn!“ (Jh 20. 28) og gerði þeim kleift að öðlast dýpri trú með því að meðtaka elsku Guðs af fúsleika (spr. Haurietis Aquas, nr. 49).

Dýpsta inntak þessarar guðrækni á elsku Guðs opinberast einungis með því að íhuga af meiri kostgæfni framlag hennar ekki einungis til þekkingarinnar, heldur einnig og sérstaklega hina persónulegu reynslu af þessari elsku í trúfestu í þjónustunni við hana (spr. Haurietis Aquas, nr. 62).

Það er augljóst að ekki er unnt að skilja reynslu og þekkingu að: Önnur skírskotar til hinnar. Það að auki er óhjákvæmilegt að leggja áherslu á að sönn þekking á elsku Guðs er einungis hugsanleg með hugarfari sem mótast af auðmjúkri bæn og af takmarkalausum fúsleika.

Þegar gengið er út frá þessari innri afstöðu, þá sjáum við að þegar við horfum til síðu hans gegnumstunginni af spjótinu umbreytist þetta í þögla tilbeiðslu. Þegar við horfum til gegnumstunginnar síðu Drottins sem „blóð og vatn“ streymdi frá (spr. Jh 19. 34), þá hjálpar þetta okkur að skynja þær fjölþættu náðargjafir sem rekja má til hennar (spr. Haurietis Aquas, nr. 34-41) sem lýkur upp fyrir okkur öllum öðrum afbrigðum kristinnar tilbeiðslu sem beinist að guðrækni Hjarta Jesú.

Trú, sem skilin er sem ávöxtur af reynslunni á elsku Guðs, er náð, náðargjöf Guðs. En fólk getur einungis sannreynt trúna sem náð að svo miklu leyti sem það meðtekur hana hið innra sem náðargjöf sem það leitast við að lifa í. Guðrækni á elsku Guðs sem hirðisbréfið Haurietis Aquas boðar hinum trúuðu (spr. nr. 72) verður að áminningu til okkar um að gleyma aldrei að hann gekk fúslega í gegnum píslirnar „ fyrir okkur,“ „fyrir mig“.

Þegar við leggjum rækt við þessa guðrækni, þá gerum við okkur ekki einungis elsku Guðs ljósa af þakklæti, heldur höldum við áfram að opna okkur sjálf gagnvart þessari elsku þannig að líf okkar mótast stöðugt meira af henni. Guð sem úthellti elsku sinni “í hjörtum vorum fyrir Heilagan Anda, sem oss er gefinn“ (Rm 5. 5) hvetur okkur stöðugt til að meðtaka þessa elsku. Höfuðinntak þessarar hvatningar er að við felum okkur algjörlega þessari frelsandi elsku Guðs á vald og helgum okkur henni (spr. Haurietis Aquas, nr. 4) sem þannig glæðir samfélag okkar við Guð.

Þetta varpar ljósi á það hvers vegna þessi guðrækni sem beinist algjörlega að elsku Guðs sem framseldi sjálfan sig okkar vegna er ósegjanlega mikilvæg fyrir trú okkar og líf í elsku.

Allir sem meðtaka Guð hið innar mótast af honum. Reynsluna af elsku Guðs ber körlum og konum að lifa sem „köllun“ sem þau verða að bregðast við. Þegar við horfum til Drottins sem „tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora“ (Mt 8. 17) hjálpar það okkur til að öðlast næmleika gagnvart þjáningum annarra.

Þegar við íhugum af tilbeiðslu síðuna sem gegnumstungin var spjótinu gerir það okkur næm fyrir sáluhjálplegum vilja Guðs. Þetta gerir okkur kleift að fela okkur sjálf þessari frelsandi og miskunnaríkri elsku Guðs á vald sem jafnframt styrkir okkur í þeirri þrá að taka þátt í hjálpræðisverkinu og verða að verkfærum hans.

Sú náð sem við öðlumst vegna síðunnar þaðan sem „blóð og vatn“ streymdi (sjá Jh 19. 34) tryggir að líf okkar verði einnig öðrum að „uppsprettu lifandi vatns“ (Jh 7. 38; sjá Deus Caritas Est, nr. 7).

Reynslan af elskunni sem glæðist með tilbeiðslunni á hinni gegnumstungnu síðu Endurlausnarans veitir okkur vernd gegn þeirri áhættu að draga okkur inn í okkur sjálf og fúsari til að lifa fyrir aðra. „Af því þekkjum vér kærleikann, að Jesús lét lífið fyrir oss. Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna“ (1Jh 3. 16; spr. Haurietis Aquas, nr. 38).

Það var einungis með því að reyna þá elsku sem Guð gaf okkur að fyrra bragði sem gerði okkur þess umkomin að bregðast við kærleiksboði hans (spr. Deus Caritas Est, nr. 17).

Þannig opinberast þessi menning elskunnar sem varð sýnileg í leyndardómi krossins í hvert sinn sem Evkaristían er höfð um hönd sem leggur grundvöllinn að getu okkar til að elska og til að leggja okkur sjálf í sölurnar (spr. Haurietis Aquas, nr. 69), þannig að við verðum að verkfærum í höndum Krists: Einungis þannig getum við orðið að sannverðugum vottum elsku hans.

Engu að síður verður að endurnýja á sérhverju andartaki þessa opnun okkur sjálfra gagnvart vilja Guðs: „Elskunni „lýkur aldrei né verður hún fullkomin“ (Deus Caritas Est, nr. 17).

Þannig er ekki unnt að líta á það þegar við „horfum til síðunnar gegnumstungna spjótinu“ sem takmarkalaus þrá Guðs eftir hjálpræði okkar ljómar frá sem einhverja hverfula tilbeiðslu eða guðrækni: Tilbeiðslan á elsku Guðs sem á sér sögulegar og guðrækilegar rætur í tákni hins „gegnumstungna hjarta“ heldur áfram að vera óaðskiljanlegur þáttur lifandi samfélags við Guð (spr. Haurietis Aquas, nr. 62).

Frá Vatíkaninu, 15. maí 2006

BENEDICTUS PP. XVI

Sjá Kristsrósakransinn: http://www.kirkju.net/index.php/2008/02/25/
Haurietis Aquas (Uppspretta vatnanna) á íslensku: http://vefrit-karmels.kirkju.net/index-kirkjunet/sitefolder/haurietisaquas.html

No feedback yet