« Refsivöndur Evrópu? - Hvernig brotthvarfið frá kristindóminum mun leiða til upplausnar„Ég hef séð Drottin.“ »

18.04.06

  14:42:00, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 941 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

„Brann ekki hjartað í okkur?“

Guðspjall Jesú Krists þann 19. apríl er úr Lúkasarguðspjalli 24. 13-35

13 Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs, sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus. 14 Þeir ræddu sín á milli um allt þetta, sem gjörst hafði. 15 Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. 16 En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki. 17 Og hann sagði við þá: „Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?“ Þeir námu staðar, daprir í bragði, 18 og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: „Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana.“ 19 Hann spurði: „Hvað þá?" Þeir svöruðu: „Þetta um Jesú frá Nasaret, sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum lýð, 20 hvernig æðstu prestar og höfðingjar vorir framseldu hann til dauðadóms og krossfestu hann. 21 Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við. 22 Þá hafa og konur nokkrar úr vorum hóp gjört oss forviða. Þær fóru árla til grafarinnar, 23 en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust enda hafa séð engla í sýn, er sögðu hann lifa. 24 Nokkrir þeirra, sem með oss voru, fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt, en hann sáu þeir ekki.“ 25 Þá sagði hann við þá: „Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað! 26 Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?“ 27 Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.

28 Þeir nálguðust nú þorpið, sem þeir ætluðu til, en hann lét sem hann vildi halda lengra. 29 Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: „Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar.“ Og hann fór inn til að vera hjá þeim. 30 Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. 31 Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum. 32 Og þeir sögðu hvor við annan: „Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ 33 Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu og þá, er með þeim voru, saman komna, 34 og sögðu þeir: „Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni.“ 35 Hinir sögðu þá frá því, sem við hafði borið á veginum, og hvernig þeir höfðu þekkt hann, þegar hann braut brauðið.

Hugleiðing

Þegar Ágústínus kirkjufaðir hugleiddi þennan texta komst hann svo að orði: „Augu þeirra voru svo blinduð til þess að þeir þekktu hann ekki fyrr en við brotningu brauðsins. Til samræmis við hugarástand þeirra sem bar ekki enn skyn á sannleikann, að Kristur myndi deyja og rísa aftur upp, voru augu þeirra einnig blind. Það var ekki sannleikurinn sem villti um fyrir þeim, heldur að þeir voru þess ekki umkomnir að skynja sannleikann.“ Engu að síður er okkur greint frá því að áður en Drottinn lauk upp skilningi þeirra brann hjarta þeirra. Hafið þið fundið til þessa bruna fyrir meðtöku evkaristíunnar. Hl. Jóhannes af Krossi nefndi þetta sviðann. Í upphafi annars erindisins í Loga lifandi elsku segir hann: Ó ljúfi sviði!

Og hann heldur áfram: „Þessi sviði er eins og við höfum sagt Heilagur Andi. Eða eins og kemst að orði í fimmtu Mósebók: Því að Drottinn Guð þinn er eyðandi eldur (5 M 4. 24), það er að segja eldur elsku sem er óumræðilega máttugur og megnar að ummynda þá sál sem hann snertir í sjálfan sig með afgerandi hætti. En hann svíður sérhverja sál með hliðsjón af undirbúningi hennar. Hann svíður eina meira en aðra og þetta gerir hann samkvæmt sinni eigin þóknan og hvenær og hvernig sem hann þráir slíkt. Þegar hann vill snerta eitthvað með eldi sínum, þá brennur sálin á svo háleitu stigi elskunnar, að slíkt jafnast ekki á neinn hátt við áhrif jarðnesks elds vegna þess að hann er takmarkalaus eldur elsku. Af þessum ástæðum nefnir sálin Heilagan Anda í þessari sameiningu sviða. Þar sem sviðinn leiðir í ljós að eldurinn er enn heitari og áhrifameiri og framkallar enn einstæðari áhrif en í öðrum eldfimum efnum, þá nefnir sálin áhrif hans í þessari sameiningu sviða í samanburði við önnur áhrif sameiningarinnar vegna þess að hér er um áhrif elds að ræða sem logar enn ákafar en annar eldur. Þar sem sálin hefur í þessu tilviki ummyndast að öllu leyti í hinum guðdómlega loga, þá finnur hún ekki einungis fyrir þessum sviða, heldur er hún orðin að logandi sviðasári.

Þannig urðu lærisveinarnir eitt með Drottni í sameiningunni við hann, rétt eins og við öll við meðtöku evkaristíunnar!

No feedback yet