« Hvert er stefnt í málum samkynhneigðra? – nmgrr. 17–37Tekur Framsókn mið af kristnu siðferði eða ímynduðum fjölda samkynhneigðra? »

03.01.06

Börn eiga skilið foreldra sem eru hjón, segir Benedikt páfi

Börn eiga skilið að eiga gifta foreldra, segir Benedikt páfi XVI. Þetta kom fram í ræðu sem hann hélt nýlega á ráðstefnu leiðtoga suður-amerískra biskupa um fjölskylduna og lífið. "Börnin eiga rétt á að fæðast og vaxa upp í fjölskyldu sem grundvallast á hjónabandi," sagði hann og hvatti allt samfélag kirkjunnar "til að kynna hið einstaka gildi hjónabandsins í allri sinni auðlegð, þessa fyrirkomulags náttúrunnar sem kalla má föðurleifð mannkyns."

Í ræðunni, sem flutt var á spænsku, staðhæfði Benedikt XVI að "sú afhelgun, sem nú gætir víða, tálm[i] samvizku almennings að uppgötva sem vert væri eðli og hlutverk fjölskyldunnar sem stofnunar." Nú á síðustu árum hafi "ranglát lög" verið sett, sem opinberi "vanþekkingu á grundvallaratriðum hjónabandsins."

"Menn hafa gert tillögur um ný fjölskylduform, sum þeirra áður óþekkt í menningarsögu þjóðanna, þar sem snúið er frá því séreðli sem fjölskyldan hefur," sagði hann og vék þar óbeint að hjónaböndum fólks af sama kyni.

"Börnin eru vissulega okkar mesta dýrmæti, það sem mest er í metum haft í fjölskyldunni," hélt páfinn áfram. "Þess vegna er nauðsynlegt að öllum sé hjálpað til að gera sér grein fyrir því hve glæpur fóstureyðinganna er illur sjálfum sér – og að sem atlaga við lífið strax á frumskeiði þess er þetta líka árás á þjóðfélagið sjálft."

Kirkjan minnir "stjórnmálamenn og löggjafarþing, sem eru í þjónustu sameiginlegrar velferðar," á skyldu þeirra "að verja grundvallarrétt til lífs sem er ávöxtur kærleika Guðs," bætti hann við.

Þegar þetta gleymist, sagði páfi, er verið að auðvelda "útrýmingu eða geðþóttanýtingu frumfósturs í þágu vísindalegra framfara," en án siðferðis "verða vísindin ógnun við manneskjuna sjálfa, sem þar með er gerð að einberum nytjahlut eða tæki."

"Þegar menn teygja sig svo langt", bætti hann við, "er verið að ofbjóða þjóðfélaginu og skekja grunn þess, með margs konar hættulegum afleiðingum."

(ZENIT.org 05120406)

3 athugasemdir

Athugasemd from: Aðalbjörn Leifsson
Aðalbjörn Leifsson

Mikið rosalega er ég sammála Benedikti páfa. Útrýming fóstra í móðurkviði er glæpur, það segir í boðorðunum númer 6 samkvæmt minni Biblíu þú skallt ekki morð fremja. Það er ekki til neitt sem heitir “hjónaband samkynhneigðra” […]. Drottinn Guð blessaðu Páfann og söfnuð hans og aðra kristna í Jesú nafni bið ég þig Amen.

08.02.06 @ 15:22
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það sem hefur komið okkur kaþólskum mjög á óvart er hversu marga trúfasta Guð á í öðrum kirkjudeildum sem beygja sig ekki fyrir Baal. Þannig lét hann eftir 7 þúsund í Ísrael.

08.02.06 @ 15:53
Jón Valur Jensson

Þakka ykkur báðum, bræður, ég er sammála ykkur, þessum orðum sem hér standa (og þetta segi ég eftir að vefstjóri sló hornklofa utan um nokkur orð í fyrstu athugasemdinni).

Ja, reyndar kemur mér þetta ekki alveg á óvart, Jón, ég hef lengi talið fjölda trúfastra vera í öðrum kirkjum líka. En “leifar einar [munu] frelsaðar verða” (Róm.9.27) – það er sístæð viðvörun til okkar allra.

08.02.06 @ 22:19
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software