« Merkur vefur með kardínálum kirkjunnar – og um ofsóttan biskup tékkneskan: Stepán TrochtaKarla-Magnúsar bæn »

23.09.09

  14:03:31, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 398 orð  
Flokkur: Kirkjulatína, Bænamál, Miðaldasaga og kirkjan, Trúarljóðaþýðingar JVJ, Kenning kaþólskrar kirkju

Boëthius: Quod mundus stabili fide

De consolatione philosophiæ, liber II, metrum VIII

(þ.e. 8. ljóð í 2. bók í ritinu Huggun heimspekinnar)

Að heimur stöðugur standi,
þótt stórum breytist í þróun ;
að eining endalaus haldist
með öllu kviku, þó stríði ;
að röðull rósrauðan morgun
fram reiði gullnum í vagni,
en nótt, sem vísað er veginn
af Venus, ljómi í tungli ;


að brim á blóðþyrstu hafi
sé bundið traustum í viðjum ;
að löndum bannað sé leysast
úr læðing, mörk sín að víkka ;
sú skipan heims allra hluta,
jafnt hafs sem uppheims og jarðar,
er lögmál eilífrar ástar.

Ef bönd sín leysti hún, brysti
það bróðurþel, sem allt tengir,
og styrjöld háð væri stöðug
og strítt gegn veraldar gangi,
sem nú í trausti við náum 
að njóta í fegurð lífsins.

Ást bindur sáttmála sönnum
allt saman : þjóðir og lýði,
og hún, með heilögu bandi,
í hreinleik elskendur tengir ;
hún tryggir félögum trúum
þau tryggðabönd, er þeir sverjast.

Hve sælir, mannanna synir,
ef ást sú anda´ ykkar leiðir,
sem öllu stýrir á himnum !

Jón Valur Jensson þýddi.

Anicius Manlius Severinus Boethius (um 480–524), kristinn fræðimaður af rómverskum senatoraættum, oft nefndur “síðasti Rómverjinn og fyrsti skólaspekingurinn”, var ræðismaður í Róm og hirðmaður Þjóðreks mikla Austgotakonungs (þess sem fornsögur kalla Þiðrik af Bern). Eftir úrvalsmenntun í Róm lagði hann lengi stund á vísindi í Aþenu, varð gagnmenntaður í öllum bókfræðum fornaldar og skrifaði mörg rit. Hann var aðeins kominn áleiðis með þá fyrirætlun sína að þýða gervöll verk Aristotelesar o.fl. á latínu, þegar hann, þá orðinn æðsti ráðherra, var rægður fyrir konungi, varpað í dýflissu, píndur og tekinn af lífi. Rit hans Um huggun heimspekinnar, sem hann vann að í fangavistinni, varð ein áhrifamesta bók miðalda og t.d. þýdd á ensku af Elfráði konungi ríka (Alfred the Great) á 9. öld og nánast á hverri kynslóð síðan, t.d. af Chaucer á 14. öld og Elísabetu drottningu á 16. öld. Ritið er að mestu í óbundnu máli, en mörg ljóðanna 39 eru afar stílfögur og sögð eins og hinzti hljómur af nánum tengslum við klassískan skáldskap fornaldar.

Frumtexti ljóðsins:

Quod mundus stabili fide
Concordes variat vices,
Quod pugnantia semina
Foedus perpetuum tenent,
Quod Phoebus roseum diem
Curru provenit aureo,
Ut quas duxerit Hesperos
Phoebe noctibus imperet,
Ut fluctus avidum mare
Certo fine coerceat,
Ne terris liceat vagis
Latos tendere terminos,
Hanc rerum seriem ligat
Terras ac pelagus regens
Et caelo imperitans amor,
Hic si frena remiserit,
Quidquid nunc amat invicem
Bellum continuo geret
Et quam nunc socia fide
Pulchris motibus incitant,
Certent solvere machinam.
Hic sancto populos quoque
Iunctos foedere continet,
Hic et coniugii sacrum
Castis nectit amoribus,
Hic fidis etiam sua
Dictat iura sodalibus.
O felix hominum genus,
Si vestros animos amor
Quo caelum regitur regat.

Þýðingin var áður birt í Merki krossins, 2. hefti 2006. 

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þetta Jón sem og aðra nýlega pistla. Ég get ekki lagt mat á þýðinguna þar sem ég kann ekki latínu en íslenski textinn er snilld. Myndlíkingarnar eru einkar fallegar , t.d. þessi: „að röðull rósrauðan morgun/ fram reiði gullnum í vagni“ B.kv. Ragnar.

29.09.09 @ 17:49
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software