« RósakransinnPílagrímsferðin til Meðugorje 1989 - 16. kafli »

08.07.07

  13:05:37, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 487 orð  
Flokkur: Bænir

Blessun vinnunnar - margföldun tímans

Í hugskoti mínu fann ég minningarbrot um lestur á hugleiðingum einhvers heilags manns, það gæti verið haft eftir hl. Montfort um gildi þess að blessa vinnuna og gefa Guði verkið. Hann hafði fyrir sið að biðjast fyrir áður en hann hóf vinnu sína og taldi að við það afkastaði hann meiru heldur en ef hann hefði ekki beðist fyrir. Ég minnist þess einnig að hafa heyrt haft eftir einhverjum sjáendanna í Meðugorje að fólk hefði engan tíma til nokkurs hlutar af því það bæðist ekki nóg fyrir.

Ég hef einnig haft af því spurnir að hluti af andlegri leiðsögn Opus Dei felist í því að blessa vinnuna því þá blessi vinnan þann sem vinnur. Þetta er í mótsögn við skoðanir sumra af afneiturum trúarinnar sem segja að betra sé að taka til hendinni en að eyða tímanum í bænir. En ef málið er skoðað nánar þá tekur það hlutfallslega ekki langan tíma að fara með Faðir vor, Maríubæn og Dýrð sé Föðurnum, sér í lagi ef um nokkurra klukkutíma verk er að ræða. Ef trúaður einstaklingur fer með nokkrar stuttar bænir áður en hann hefur verk sitt þá gefst honum tækifæri til að kyrra hugann og einbeita sér að verkinu. Í öllu starfi koma fyrir óvænt lítil atvik og hindranir sem tefja fyrir þeim sem vinnur. Segja má að hvert fulllokið verkefni feli í sér röð slíkra lítilla hindrana eða verkefna sem þurft hefur að sigrast á. Það eru þessar litlu hindranir sem gjarnan verða þess valdandi að fólk þreytist, missir þolinmæðina eða gefst upp svo það þarf að hvíla sig til að safna kröftum á nýjan leik. Ástæðan kann að vera sú að fólk sér eftir tímanum og þrekinu sem það þarf að eyða í þetta að því er virðist fullkomlega tilgangslausa atvik. Ef um trúað fólk er að ræða sem biður áður en það hefur starfið þá sér það kannski ekki eins sárt á eftir tímanum sem fer í þessar tafir því það trúir og er fullt fullvissu um að Guð geti nýtt sér tímann á sinn leyndardómsfulla hátt. Það er sátt við töfina og tekst á við hana af einbeitingu og án þess að missa þolinmæðina í þeirri fullvissu að tímanum sé vel varið. Hluti af hinu svokallaða tímaleysi nútímafólks kann einmitt að eiga rót sína að rekja til sárrar tilfinningar um að tímanum sé varið til einskis, í eftirsjá eftir algerlega glötuðum mínútum og andartökum sem hafa ekki falið í sér sýnilegan efnislegan ávinning né heldur neina ánægju.

No feedback yet