« De sancta cruce (Um helgan kross)Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðar andstæðingum gegn fóstureyðingum í vil »

01.03.06

  17:17:49, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 746 orð  
Flokkur: Kraftaverk

Blaise Pascal og eldurinn

Franski heimspekingurinn Blaise Pascal fæddist í Clermont-Ferrand þann 19. júní 1623 og andaðist í París 19. ágúst 1662. Hann tilheyrir þeim fágæta hópi manna sem fæðast af og til á jörðu sem gæddir eru snilligáfu. Hann gaf út verk um þríhyrningafræði, líkindareikning og veðmál auk heimspekirita sinna. Til marks um hæfileika hans á sviði stærðfræðinnar ber eitt af helstu forritunarmálum tuttugustu aldarinnar nafn hans honum til heiðurs.

Hvað áhrærir framsetningu hans og stílbrögð, þá hóf hann franska tungu upp í nýjar og óþekktar hæðir og áhrifa hans gætir enn í dag í frönskum bókmenntum. Eftirfarandi röksemdafærsla hans varð fræg í rökfræðinni sem nefnd er rökfræðin um veðmálið:

Guð er til eða hann er ekki til og við verðum óhjákvæmilega að veðja á hann eða ekki.

Ef við veðjum á hann og Guð er – ósegjanlegur ávinningur.
Ef við veðjum á hann og Guð er ekki – ekkert tap.
Ef við veðjum gegn honum og Guð er – ósegjanlegt tap.
Ef við veðjum gegn honum og Guð er ekki – hvorki tap eða ávinningur.

Í þriðja tilvikinu felst tilgáta þar sem ég hlýt óhjákvæmilega að tapa öllu. Því segir spekin mér að veðja á þá tilgátu sem færir mér allt í hendur, eða að minnsta kosti að tapa engu. [1]

Ótaldar eru þær ánægjustundir sem ég hef orðið aðnjótandi við lestur rits hans Pensées. Hvílík snilld! Kafli hans um manngerðirnar þrjár einn réttlætir tilveru þessa verks. Franskur vinur minn sagði mér einu sinni að þeir hefðu varið þremur mánuðum til að íhuga þennan stutta kafla, áður en þeir komust að niðurstöðu í heimspekideildinni. Ef til vill mun ég fjalla um hann síðar vegna þess að hann er gulls ígildi.

Ég sagði hér að ofan að Pascal hefði hafið franska tungu upp í nýjar og óþekktar hæðir. Það var aðeins einu sinni sem honum brást bogalistin og þessi mikli ritsnillingur festi nokkur sundurlaus orð á blað með skjálfandi hendi. Blaðsnifsið sem nefnt er pergament Pascals saumaði hann inn í skyrtu sína og bar ávallt á sér þar til hann andaðist. Það var þjónn hans sem fann það að honum látnum:

Frá því klukkan hálf ellefu til hálf tólf, eldur! [2]

Þetta var það sem þessi konungur heimspekinganna sannreyndi á leiftrandi andartaki hinnar guðdómlegu raunnándar þegar eldur elskunnar braust út í öllu sínu almætti:

Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs,
Ekki Guð heimspekinganna og fræðimannanna,
Fullvissa, Fullvissa, Ljúfleiki, Gleði, Friður.

Þegar Kristur brýst inn í líf okkar í krafti náðar sinnar er hann ætíð MÚRBRJÓTUR sem ryður öllum hindrunum úr vegi. Það er þessi sannleikur sem tjáður er með mósaikmyndinni í Skálholtsdómkirkju eftir Nínu Tryggvadóttur. Þetta mikla meistaraverk sýnir Krist koma í gegnum vegg kirkjuskipsins að utan til móts við hina trúuðu. Fjölmargir sem íhugað hafa þetta stórbrotna listaverk finna hvernig þeir dragast að myndinni. Þeir eru ekki svo fáir útlendingarnir sem hafa upplifað þá reynslu, að þeir eru líkt og knúnir til að snúa til baka til landsins til að bera altaristöfluna enn einu sinni sjónum: Hafa látið hrífast af verkinu. Þannig hrífumst við af Guði þegar hann brýst inn í okkar eigið líf.

[1]. Taka ber fram að þessi orð skrifaði Pascal löngu áður en hann upplifði þá reynslu sem vikið er að hér að neðan. Alla ævi hafði hann leitast við að finna Guð með heimspekilegri rökhyggju.
[2]. “L’an de grace 1654 lundi, 23 november, jour de Saint Clément, pape et martyr, et autre au martyrologe, veille de Saint Chrysogone, martyr et autres, depuis environ dix heures et demie du soir jusques environ minuit et demie, Feu.” (Á ári náðarinnar 1654, þann 23. nóvember, minningardagur hl. Klements, páfa og píslarvotts og annarra píslarvotta, minningardagur heilags Krysostoms. Um það bil klukkan hálf ellefu um kvöldið þar til nákvæmlega klukkan hálf tólf: Eldur!) Bremond, Histoire Littéraire du Sentiment Religieux en France, Vol. IV., bls. 359.

7 athugasemdir

Athugasemd from: Magnús Ingi Sigmundsson
Magnús Ingi Sigmundsson

Í sambandi við veðmálið: hvað ef einhver veðjar á að Guð sé til og gerist Votti Jehóva? Hefur hann meiri möguleika en sá sem trúir ekki á Guð til að komast til himna? Margir geta verið guðleysingjar eða vantrúaðir á Guð, en samt iðkað dygðugt líf, skv. þeirra samvisku. Samkvæmt okkar trú geta aðeins þeir sem eru í Kaþólsku kirkjunni orðið hólpnir. Með undantekningu þeir sem ekki vita um Kaþólsku kirkjuna.

02.03.06 @ 21:34
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þeir, sem eru í því ástandi, sem kallast ignorantia invincibilis, “ósigrandi vanþekking” (eða: vanþekking sem hingað til er ósigruð, þ.e. af þeirri upplýsingu, sem sviptir hulunni frá sjónum viðkomandi vanþekkingarmanna), geta vel verið hólpnir, ef þeir trúa á Krist eða meðtaka a.m.k. Guð sjálfan og allar þær leiðir sem hann kann að hafa á færi sínu okkur til lausnar og hjálpræðis. Svo segir sjálfur Thómas Aquinas (Summa Theologica). Og ýmsir hafa þróað þessa hugmynd lengra, svo sem Karl Rahner, SJ, með tali sínu um “nafnlausan (anonyman) kristindóm". Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki, að aðrar kirkjur séu hin sanna kirkja Krists – orþódoxa kirkjan er þó viss undantekning, því að hún stendur svo rótföst í hinni heilögu arfleifð og þétt við hlið okkar í svo mörgu, s.s. tölu sakramentanna o.m.fl. En hver kirkja (kristinn söfnuður) á þó einhverja hlutdeild í eðliseinkennum og jafnvel andlegum gjöfum hinnar sönnu kirkju Krists (en ekki endilega í þeim öllum – né fullkomna hlutdeild) – það hygg ég sé afstaða II. Vatíkanþingsins.

En þakka þér annars, Jón, fyrir þína góðu grein um þann elskulega, einlæga, alhuga mann Blaise Pascal. (PS. Hann hefur náttúrlega heitið eftir þeim góða manni heil. Blasíusi, sem kirkjan öll leitar árnaðar – fyrirbæna – hjá einu sinni á ári með bænir sínar gegn sjúkdómum í hálsi og öndunarfærum.)

02.03.06 @ 22:36
Athugasemd from: Sr. Denis O'Leary
Sr. Denis O'Leary

Magnús,
hvaðan hefur þú þetta:
“Samkvæmt okkar trú geta aðeins þeir sem eru í Kaþólsku kirkjunni orðið hólpnir."?

Í trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar stendur orðrétt:

1260. “Þar sem Kristur dó fyrir alla og þar sem allir menn eru í raun og veru kallaðir til sama hlutskiptis, sem er guðdómlegt, ber okkur að halda að Heilagur Andi geri öllum kleift að gerast hluttakendur í páskaleyndardóminum með þeim hætti sem Guð þekkir.” [62] Hver sá maður sem er fáfróður um fagnaðarerindi Krists og um kirkju hans en leitar sannleikans og gerir vilja Guðs í samræmi við skilning hans á honum, getur orðið sáluhólpinn. Gera má ráð fyrir að sá maður mundi hiklaust hafa löngun til skírnar vissi hann um nauðsyn hennar.

Með kveðju,
sr. Denis.

02.03.06 @ 22:40
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Í fyrsta lagi var Pascal kaþólskur, þó að hann aðhylltist Jansenisma síðar á ævinni. En ég setti inn athugasemd [1] til að leggja áherslu á að hann hafi leitað Guðs með rökum heimspekinnar þar til hann upplifði eldinn. Orð hans sjálfs bera reynslu hans best vitni:

Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs,
Ekki Guð heimspekinganna og fræðimannanna,
Fullvissa, Fullvissa, Ljúfleiki, Gleði, Friður.

03.03.06 @ 07:41
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Veit ég vel um janseniskt víxlspor Pascals. En við metum hann samt að þeim verðleikum sem við finnum hjá honum, rétt eins og Thómas Aquinas og aðrir skólaspekingar (og kirkjufeður margir á undan þeim) nýttu sér margvísleg sannindi sem heimspekingarnir (þótt heiðnir væru) höfðu fundið með skynsemi sinni og opnum hug. En ekki er minna virði vitnisburður Pascals um vitjan Heilags Anda – þar er hann kominn í tengsl við mystíkera kirkjunnar, Jóhannes þinn af Krossi, Jón, og alla hina. Og hér skapast líka tengipunktur okkar við einlæga bænarinnar hugleiðslumenn í öðrum söfnuðum, svo sem Hvítasunnumenn. Hinir, sem reyna ekki einu sinni að smakka og finna hve Guð er góður (Sálm.34.9, I.Pét.2.3), fara trúlega að mestu á mis við þá reynslu. En grundvöllurinn er alltaf trú – að trúa Kristi sem okkar guðdómlega fræðara – því að enginn setur von sína á það, sem hann trúir ekki, né elskar þann sem hann trúir ekki að sé til.

03.03.06 @ 10:19
Athugasemd from: Magnús Ingi Sigmundsson
Magnús Ingi Sigmundsson

Í trúfræðsluritinu stendur:

“Utan kirkjunnar er ekkert hjálpræði”

846. (161, 1257) Hvernig ber að skilja þessa staðhæfingu sem kirkjufeðurnir endurtóku svo oft? [335] Sett fram með jákvæðum hætti þýðir hún að allt hjálpræðið kemur frá Kristi, höfðinu, fyrir kirkjuna sem er líkami hans: Kenningu sína grundvallar [þetta kirkjuþing] á Heilagri Ritningu og erfikenningunni, það er að segja, að kirkjan, nú hér á jörð sem í útlegð, er nauðsynleg til sáluhjálpar. Því Kristur, sem er okkur nærverandi í líkama sínum sem er kirkjan, er hinn eini meðalgöngumaður og einstaki eini vegur til hjálpræðis. Hann tók fram í skýrum og með ákveðnum orðum sjálfur um nauðsyn trúar og skírnar, og staðfesti með því nauðsyn kirkjunnar; því það er eins og menn gangi gegnum dyr, er þeir verða meðlimir kirkjunnar í skírninni. Það er því, að hver sá er veit að kaþólska kirkjan var sett af Guði fyrir Jesúm Krist sem nauðsynleg stofnun, neitar samt að verða meðlimur hennar, eða vera áfram meðlimur hennar, getur eigi vænst hjálpræðis. [336]

847. Þessi yfirlýsing beinist ekki að þeim sem eiga enga sök á því sjálfir að þekkja ekki Krist eða kirkju hans: Þeir sem eiga ekki sjálfir sök á því að þeir þekkja ekki til fagnaðarboðskapar Krists eða kirkju hans, geta einnig orðið sáluhólpnir ef þeir leitast samt sem áður við að þekkja Guð og reyna með verkum sínum, fyrir náðina, að gera vilja hans, eins og þeir þekkja hann, samkvæmt samvisku sinni 337

848. (1260) “Enda þótt Guð geti, eftir leiðum sem honum einum eru kunnar, leitt þá, sem eiga enga sök á því sjálfir að þekkja ekki guðspjallið, til þeirrar trúar sem verður að hafa til að þóknast honum, hefur kirkjan engu að síður þeirri skyldu að gegna og einnig þann helga rétt að kynna fagnaðarboðskapinn öllum mönnum.” [338]

Enda tók ég fram: “Með undantekningu þeir sem ekki vita um Kaþólsku kirkjuna.”
Þeir sem vita ekki um Kaþólsku kirkjuna eiga möguleika á að verða hólpnir, en spurning með þá sem vita um hana en hafna henni. Hversu mikil fáfræðin er og hversu mikil höfnunin er, það getur Guð einn dæmt um, sjálfsagt.

03.03.06 @ 10:48
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Enn einu sinni vitna ég í minn mann, hl. Gregoríos frá Nyssa. Hann sagði að karfa Móse hefði verið ofin úr egypskum sefi, og átta þar með við að kirkjan ætti að nota sér hið góða úr heiðindóminum. Sjálfur valdi hann sér nýplatónismann sem tjáningarform fyrir hugsanir sínar vegna þess að hann var ríkjandi heimspeki samtíðar hans og hann var að tala við samtíðarmenn sína. En eins og Jean Danielou bendir réttilega á, hefði hann þess vegna getað gripið til búddískrar heimspeki þar sem sá sannleikur sem tjáður er verður ávallt hinn sami. Sama gerðu þau Tómas og Edith Stein (phenomenologían).

En í mínum huga er Tómas frá Akvínó fyrst og fremst einn af mestu djúphyggjumönnum kirkjunnar og notar Aristóteles til að tjá reynslu sína. Ég hef háð mikla orrahríð um þetta við vini mína Orþodoxana, og eftir að hafa hlustað á rök mín samsinntu þeir mér. Tómas er í hópi þeirra stóru og verðskuldar enn í dag fyllstu athygli. Strákarnir á Vantrúarnetinu hefðu til að mynda gott að því að kynna sér kenningar hans um skammtafræðina.

En þeir kjósa frekar að binda sig fasta við úrelta heimsmynd nítjándu aldarinnar um vélrænan heim klukkuverksins, eða eigum við að segja bíta sig fasta eins og steinbítur í sjóvettling?

03.03.06 @ 10:51