« Erkibiskupinn í Kantarabyrgi segir, að samkynhneigðir verði eins og aðrir að breyta venjum, hegðun, hugmyndum og tilfinningum sínum, þegar þeir vilja taka þátt í hinu kristna, kirkjulega lífiNæturvers »

31.08.06

  10:08:44, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 746 orð  
Flokkur: Málefni samkynhneigðar á sviði þjóðfélags og kirkju

Blaðamaður fer á gönuhlaup í umræðu um samkynhneigð

Guðmundur Steingrímsson á oft góða spretti í Bakþönkum Fréttablaðsins. En 19/8 geysist þessi Pegasus fram úr sjálfum sér, angraður af auglýsingu Samvinnuhóps kristinna trúfélaga þar sem hann kvað því „lýst í grófum dráttum hvernig lækna megi samkynhneigð." Gengur grein hans öll út frá þeirri forsendu hans.

En hvað sagði auglýsingin? Textinn var eins stuttur og verða mátti.

‚Frjáls úr viðjum samkynhneigðar' var yfirskriftin. Á eftir fylgdu 5 erlendar vefslóðir og ein íslenzk (www.kirkju.net/index.php/jon?jon=51) auk texta: „Á meðan þúsundir ganga niður Laugaveginn til að fagna samkynhneigð, eru þúsundir manna um allan heim að fagna frelsi frá því sem þeir kalla fjötra samkynhneigðar. Já, það er til önnur og betri leið. Fjölmörg hjálparsamtök starfa nú um heiminn sem hjálpa þeim sem vilja losna úr viðjum samkynhneigðar." Einnig þessi orð Richards Cohen: „Fólk getur breytt kynhneigð sinni og gerir það. Ég hef gert það og hjálpað öðrum til að gera það sama."

Hvar er minnzt á lækningu í þessum texta? Hvergi! GS meðhöndlar því staðreyndir gróflega og gerir eigin skáldsýn að grundvelli háðsádeilu. Dagfarsprúður maður tekur á sig gervi Don Kíkóta og heggur í vind. Þar bregður hann nafngreindum sómamönnum um ergi, sem áður hét, og lágu þyngstu viðurlög við þvílíkum áburði í Grágás. Klínir í þokkabót háðungarnafni á Betel-söfnuð. Fæ ég ekki varizt þeim grun að GS hafi misst stjórn á sér þegar hann tók trú á eigin hugsmíð. Sýnir það gæfumuninn á góðri trú og vondri.

Vissulega hafa sumir, jafnvel læknar, talað um samkynhneigð sem heilsufarsröskun. En auglýsingin ræddi málið ekki á þeim nótum. Taka ber fram til að forðast misskilning, að undir ærnum þrýstingi aðgerðahóps samkynhneigðra felldu samtök bandarískra geðlækna (APA) úr gildi skilgreiningu sína á samkynhneigð sem geðröskun árið 1973, með heilum 3.600 atkvæðum í því 25.000 manna félagi. 1977 var skoðanakönnun meðal 10.000 félagsmanna APA. „Af þeim sem svöruðu kváðust 69% álíta ‚samkynhneigð sjúklega umbreytingu (pathological adaptation), andstætt eðlilegu tilbrigði (normal variation),' 18% voru því ósammála, 13% óvissir" (‚Sick Again? Psychiatrists vote on gays', Time, 20.2. 1978, s. 102). Vitaskuld er þetta álit fárra hér á landi. Eru ekki íslenzkir lesendur miklu betur upplýstir en svo, eftir áralanga, ítarlega fræðslu gagnmenntaðra fjölmiðlamanna um efnið? Nema hvað.

Það undarlega gerðist 12. þ.m. [1] að dr. Gerald P. Koocher, forseti bandarísku sálfræðingasamtakanna, lýsti yfir stuðningi við meðhöndlun þeirra sem aðþrengdir eru vegna óviljugrar löngunar sinnar til sama kyns. Leggur hann áherzlu á að virða beri valfrelsi manna til að fara í meðferð til að minnka aðdrátt þeirra til sama kyns og styrkja möguleika þeirra til gagnkynhneigðar, svo fremi þeir hafi óþvingaðir kosið að fara í meðferðina. Í ljósi þess hve þetta viðhorf læknisins er „ógeðslegt", eins og GS gæti orðað það, má heita eðlilegt að fjölmiðlar okkar þögðu allir um þessa yfirlýsingu sem hefði komið flatt upp á fjölda Íslendinga og sjálfan landlækni.

Vona ég nú að grein mín hafi róandi áhrif á Guðmund og stilli strengi hans til að leika æ fegur af fingrum fram í andagift sinni.

Grein þessi birtist í Fréttablaðinu 31. ágúst 2006.
Umræða verður opin á þessa grein í 1–3 daga.

––––––––––––––––
Neðanmálsgreinar (bætt við hér í netútgáfunni):

[1] Merkilegt má heita, að þetta bar upp á sama dag og 20–25.000 manns fögnuðu eða forvitnuðust um 'GayPride'-samkomuna í miðbæ Reykjavíkur. Þrátt fyrir hvíldarlitla umræðu fjölmiðla um mál samkynhneigðra þann dag og undangengna viku, umræðu sem öll beindist í eina átt, þá er eins og enginn fréttamaður hafi séð það sem fréttnæmt – eða þorað að birta það sem frétt – þegar óvilhallur fulltrúi stórra sálfræðingasamtaka vefengir með þessum hætti þá viðteknu kennisetningu margra, að það sé beinlínis ljótt eða rangt að bjóða samkynhneigðum meðferð til að hafa áhrif á kynhneigð þeirra.

10 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hér þurrkaðist greinin út fyrir slysni ásamt tveimur athugasemdum, sem vont var að missa, en hér á ég þó þá fyrri:

Höfundur: Haukur Viðar Alfreðsson. Athugasemd (kl. 10:30):

Hvað vilja kristnir menn þá kalla samkynhneigð?

Ávana? Kæk?

Síðari athugasemdin var frá mér, fylgir hér í kjölfarið.

31.08.06 @ 10:46
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

[Hér mun ég reyna að færa aths. mína inn aftur eftir minni:]

Sæll, Haukur Viðar. Það kemur ýmislegt til álita í þessu efni, þó ekki, að hér sé um arfgenga hneigð að ræða, því að fyrir því er engin sönnun, nema síður sé. Að kalla samkynhneigð sjúkdóm er ekki komið frá kristinni trú, og hvergi er talað þannig í Biblíunni né (svo að mig reki minni til) meðal kirkjufeðra í fornöld – né heldur virðist það koma frá grískum heimspekingum, t.d. ekki Platón, þótt hann færi hörðum orðum um samkynja kynmök í Lögunum, einhverju síðasta og þroskaðasta riti sínu.

Ég ætla ekki að gera langt mál úr þessu hér og nú, en hvað varðar spurningu Hauks um hugsanleg áhrif ávanabindingar í þessu efni, get ég vísað til smáumfjöllunar í seinni aths. minni við grein dr. Einars Sigurbjörnssonar, ‘Hjónaband – samvist – sambúð’, þ.e. í neðanmálgrein [1] þar og í ‘Aukaþanka’ í lokaklausu minni.

31.08.06 @ 11:02
Steingrímur  Valgarðsson

Ég lagði spurningu fyrir alla stjórnmálaflokkana. Hún hljómaði svona: Hver er afstaða flokksins til lögleiðingar á kirkjulegri hjónavígslu samkynhneigðra?

Frjálslyndi flokkurinn sagði:

Í kaflanum ,,Velferð og mannréttindi” í Málefnahandbók Frjálslynda flokksins segir:
,,Samkynhneigðir njóti fullra mannréttinda og jafnréttis í íslensku samfélagi.”
Því styðjum við þær óskir samkynhneigðra að þeir fái að játast fyrir guði rétt eins og annað fólk.

Vinstri grænir sögðu:

Við höfum eftir því sem ég man ekki ályktað um þetta beinlínis, en ég og við fleiri höfum lýst þeim sjónarmiðum að viðurkennd trúfélög eigi að sjálfsögðu að hafa heimild til að vígja samkynhneigða eins og aðra. Þá geta þeir prestar sem það vilja framkvæmt slíkar athafnir en aðrir sem eru á móti því verða þá að sjálfsögðu ekki neyddir til þess.

Framsóknarflokkurinn sagði:

Við höfum ekki fjallað sérstaklega um það mál.
Almenn afstaða okkar er sú að verið er að fjalla um málið innan þjóðkirkjunnar og ekki verður hreyft við því fyrr en að þeirri vinnu er lokið.

Hinir flokkarnir hafa ekki svarað.

Kv Steini

31.08.06 @ 21:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég þakka þér elju þína, Steingrímur, að leiða þessi svör í ljós, til viðbótar við fyrri uppl. þínar úr herbúðum stjórnmálaflokkanna. Þetta er að vísu utan efnis vefgreinarinnar hér ofar, en vegna mikilvægs heimildagildis þessa innleggs geri ég í því tilfelli undantekningu frá meginreglunni. En ef ræða ætti þessa hluti í framhaldi af innlegginu, væri betra að færa þá umræðu á aðra vefsíðu.

31.08.06 @ 21:25
Athugasemd from: Árni Gunnar Ásgeirsson
Árni Gunnar Ásgeirsson

Það vantar inn í þessa söguskoðun þína að árið 1973 höfðu viðmið í geðlæknisfræðum breyst frá því að telja að flokka það sem ,,abnormal behavior” sem var mjög sjaldgæft, í það að flokka aðeins það sem veldur fólki, geranda hegðunarinnar eða þeim sem hann umgengst, óþægindum.

Þegar í ljós kom að það var ekki kynhneigð manna sem var að valda óþægindum, heldur hegðun annars fólks í garð samkynhneigðra, þótti ekki viðeigandi að hafa samkynhneigð á lista American Psychiatric Association.

Í dag eru viðmiðin enn önnur. Nú er það hegðun sem kemur í veg fyrir aðlögun að samfélagi, þ.e. eðlilega virkni. Það væri fráleitt að halda því fram að samkynhneigðir geti ekki mætt í vinnuna og borið virðingu fyrir samborgurum sínum. Samkynhneigðir veldur aðeins þeim óþægindum sem velja að láta hana gera það.

Að lokum má benda á að DSM-IV flokkar ekki bara geðsjúkdóma, heldur allt það sem kallast abnormal behavior. Því er ekki rétt að segja að samkynhneigð hafi verið flokkuð sem sjúkdómur til 1973, heldur sem einhvers konar röskun, og eins og áður sagði var það vegna ófullnægjandi skilgreininga sem þykja fráleitar í dag.

06.09.06 @ 15:56
Athugasemd from: Árni Gunnar Ásgeirsson
Árni Gunnar Ásgeirsson

Síðasta efnisgreinin kemur kjánalega út hjá mér. Nú er ég ekki að segja JVJ hafa að DSM innihaldi bara geðsjúkdóma, heldur aðeins að leggja áhersluna á að sjúkdómar og raskanir eru ekki það sama.

06.09.06 @ 15:58
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er ekki rétt eða nákvæmt útskýrt hjá þér í fyrri klausunum kl. 17:56, Árni Gunnar. Ég á eftir að fjalla um þessi mál síðar. En rétt er, að þetta var flokkað sem (heilbrigðis)röskun fremur en beinn sjúkdómur. Og ekkert í kristinni erfikenningu (þ.m.t. biblíulegri) kennir að þetta sé sjúkdómur.

06.09.06 @ 16:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Greinin mín hér ofar er einnig birt á http://www.visir.is/apps/pbcs.dll/article?AID=/20060831/SKODANIR03/108310005/1079 – ásamt umræðu um hana, en 1. þ.m. lagði ég inn svör við gagnrýni Bjarka Þórs Baldvinssonar sálfræðinema (31/8) á ýmislegt í grein minni. Tel ég mig hafa svarað öllu, sem veigur virtist í hjá Bjarka þessum.

08.09.06 @ 07:20
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Enn hefur Bjarki ekki getað hrakið andmæli mín.

24.09.06 @ 21:34
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Og hér læt ég umræðum lokið um grein þessa.

01.10.06 @ 01:17
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution free blog software