« Hinn algildi sannleikur – kærleiki elskunnarUm kveifska menn, arga og sannleikann »

21.04.07

  08:48:09, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 721 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Bjargið alda, borgin mín

Því ber að fagna hvernig forráðamenn bloggsíðu Morgunblaðsins hafa brugðist við vaxandi ágangi nafnlausra níðskrifara, skrifum einstaklinga sem „þora“ ekki að koma fram undur réttu nafni og vega að fólki og samtökum með níðskrifum sínum. Einnig er ljóst að sumir þessara níðskrifara grípa til fleiri nafna en eins í taumlausu hatri sínu á mönnum og málefnum.

Eitt eiga margir þeirra sameiginlegt: Hamslaust hatur á kristindóminum og kirkjunni. Sumir þeirra hafa sér það til afsökunar að vera nýheiðingjar sem eru alls fáfróðir um málefni kirkjunnar. Iðulega er átakanlegt að sjá hvernig þeir opinbera þessa fáfræði sína og því leita þeir skjóls í nafnleyndinni svo að þeim verði ekki núið slíkt um nasir.

Aðrir vita betur en grípa til ósannsöglinnar og útbreiða óhróður sinn með því beinlínis að „skrökva.“ Stór hluti þessara einstaklinga eiga það sameiginlegt að vera kveifskir menn og jafnskjótt og þeim er andmælt ásaka þeir andmælendur sínar um verstu hvatir, fáfræði, þröngsýni eða ofsatrú, mannhatur og níðingsskap. Þannig bera þeir sig illa nú um stund vegna þess sem þeir kalla „vaxandi áhrifa eða þunga bókstafstrúarfólks“ á bloggsíðunum. Þetta „bókstafstrúarfólk“ eru kristnir einstaklingar sem rísa upp trúnni til varnar.

Gott dæmi um vísvitandi rangfærslur slíkra manna – vegna þess að ég trúi því ekki að einstaklingur sem setið hefur í guðfræðideild viti slíkt ekki – er að lýsa því yfir að nafn Guðs sé ókunnugt, að hann hafi aldrei sagt til nafns í bókstaflegum skilningi. Þetta er hin þekkta speglunarkenning sálfræðinnar: Að sjá eigin ágalla í fari annarra og þar er Guð ekki undantekinn. Guð sé því einungis samheiti og í raun og veru bronsaldarmenjar.

Hér vík ég sérstaklega að skrifum Hjalta Ómars Ragnarssonar hér á Kirkjunetinu: http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2007/04/19. Honum til fróðleiks birti ég hér bæn úr fornkirkjunni sem þekkt er sem „Bæn Péturs og hinna postulanna“ og varðveist hefur á papýrusi:

Þú ert heilagur, Drottinn, almáttugur Guð, Faðir Drottins vors Jesú Krists, Paradís ljúfleika, konungssproti, ósegjanleg elska, fullvissa og von.

Þú ert heilagur, Drottinn Guð, þú ert „Konungur konunganna og Drottinn drottnanna, þú einn hefur ódauðleika, þú býrð í ljósi sem enginn fær til komist, sem enginn maður leit né litið getur“ (1Tm 6. 15-16).
Þú ferð um á vængjum vindarins (Sl 104. 3); þú skapaðir himininn, jörðina og hafið og allt sem þar er að finna (P 4. 24).
Þú gjörir vindana að sendiboðum þínum og bálandi eld að þjónum þínum (Sl 104. 4); þú gerðir manninn í mynd þinni og líkingu (1M 1. 26), þú mældir óræðisvíddir himinsins og alla jörðina með fingri handar þinnar. Já, verk þitt er fagurt fyrir augliti þínu.

Hún hefst á játningu þess trúarleyndardóms að Guð sé Faðir Drottins vors Jesú Krists, sömu staðreynd og upphafsorðin í Faðirvorinu, hinni Drottinlegu bæn sem Frelsarinn kenndi okkur að biðja. En að sjálfsögðu trúa nýheiðingjar ekki á Opinberun Guðs á vettvangi mannkynssögunnar og telja í rauninni að stóran hluta af hörmungum mannkynsins megi rekja til kenninga Drottins Jesú, ef þeim er þá sjálfrátt í skrifum sínum á netinu.

Það er mikilvægt að kristið fólk í landinu rísi upp kristindóminum til varnar. Minnumst orða sjálfs Frelsarans:

Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og ég við kannast fyrir Föður mínum á himnum. En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir Föður mínum á himnum (Mt 10. 32-33).

Látið þögnina ekki svipta ykkur hinu eilífa lífi og rísið Kristi upp til varnar. Það er gott tækifæri sem býðst í komandi kosningum til að láta rödd kristindómsins hljóma sem hvellandi og silfurtæra bjöllu. Gerum stjórnmálamönnum ljóst að þeir fámennu og skarkalasömu hópar sem æpa á húsþökum eru ekki fulltrúar meirihlutans í landinu.

8 athugasemdir

Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Ja ekki veit ég t.d. hvað páfinn heitir fullu nafni. Hann fordæmir samkynhneigð og getnaðarvarnir undir nafninu Benedikt, en það er víst dulnefni.

22.04.07 @ 01:05
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hótfyndinn er Haukur Viðar með þessu kjánalega innleggi. Göngum samt á hann: Hvar fordæmir páfann samkynhneigð? Komdu nú með textann, og stattu við orð þín!

Það sanna er, að kirkjan eins og bæði testamenti Biblíunnar hafnar kynmökum samkynja fólks sem ósiðlegum og sem synd gegn Skapara okkar og gegn eigin líkama þeirra, sem athöfn þessa fremja. Hneigðina (sem undirliggjandi grunnhneigð án viljaathafnar) hefur hvorki kirkjan né páfinn fordæmt.

Hvenær ætlar Haukur Viðar að komast upp úr sinni vanþekkingu? Skiptir engu máli, hve oft ég endurtek þessi grundvallaratriði, eða rak syfja hann til þessara orða í nótt?

22.04.07 @ 08:37
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Enn situr Haukur Viðar við sama heygarðshornið í öfugmælum hringekjurökfræði sinnar. Honum til fróðleiks bendi ég honum á að fletta upp í Wikepedia til að bæta úr vanþekkingu sinni hvað áhrærir núverandi páfa. Er hann með þessari nýjustu viðbót sinni að bera blak af nafnlausum níðskrifum á netinu? Honum til fróðleiks hef ég sjálfur skrifað greinar og þýtt gegn getnaðarverjusamfélaginu hér á Kirkjunetinu undir fullu nafni!

Við sem ólumst upp á tímum kaldastríðsins þekkjum til starfsaferða hans og skoðanabræðra hans. Það var einkum Þjóðviljinn sem var þekktur af því að leggja pólitíska andstæðinga sína í einelti með níðskrifum sínum, þrátt fyrir að önnur dagblöð gerðu sig einnig sek um slíkt í hita leiksins.

Ástæðan sem bjó þessari hugmyndafræði að baki var einföld: Að leitast við að þagga niður í öllum andmælum gegn stefnu sósíalista á Íslandi. Ákveðnir listamenn og frammámenn í menningarlífi þjóðarinnar voru þannig lagðir i einelti og hafðir að háði og spotti á síðum blaðsins.

Skoðanabræður Hauks Viðars grípa til sama hráskinnsleiksins í dag á netinu og í fjölmiðlum með bægslagangi sínum og kveifsku til að telja almenningi trú um að afstaða þeirra sé sú eina sem eigi rétt á sér. En þeim ætlar greinilega ekki að verða kápan úr því klæðinu vegna þess að sífellt fleira kristið fólk gerir sér grein fyrir því hvað fyrir þeim vakir og rís upp Kristi til varnar.

Þetta er ekkert nýtt í sögunni, að fámennur hópur ofstækismanna leitist við að skapa upplausnarástand og ringulreið í viðkomandi samfélagi með óhróðri, rangfærslum, útúrsnúningum og staðreyndafölsunum til þess að þagga niður í andmælendum sínum.

Þeir beina spjótum sínum nú að kristindóminum í landinu og ég hvet allt kristið fólk til að kveða þessa menn í kútinn með því að andmæla lífsafstöðu þeirra. Einn áfanginn í þeirri baráttu er að útrýma nafnlausum níðskrifum af netinu og enn að nýju lýsi ég yfir ánægju með hina nýju ritstjórnarstefnu á Moggablogginu.

22.04.07 @ 09:19
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Jón Rafn, ég býst við því að þú sért að tala um mig, en ég heiti Hjalti Rúnar Ómarsson en ekki Hjalti Ómar Ragnarsson.

Og ég hef nú bara tekið 7,5 einingar í guðfræðideildinni, 2,5 í inngangsfræði Nt og 5 í hebresku.

Nú veit ég ekki alveg hvað í þessu þú telur eiga við mig og hvort þetta: “…er að lýsa því yfir að nafn Guðs sé ókunnugt, að hann hafi aldrei sagt til nafns í bókstaflegum skilningi.” sé tilvísun í skrif mín við aðra færslu hérna.

Í þeirri færlsu hélt ég því einfaldlega fram að guð kristinna manna héti ekki “Guð” og að tvær persónur guðs heiti Jesús og Jahveh (ég veit ekki til þess að sá sem er þekktur sem heilagur andi hafi gefið upp nafnið sitt).

Mér sýnist þú halda því fram að guðinn þinn heiti Faðir, sbr: ” Hann opinberaði okkur nafn Guðs: FAÐIR (Abba).

En ég hélt að faðirinn væri ein persóna þrenningarinnar og héti Jahveh.

Hvaða vanþekkingu ertu að ásaka mig um? Og ég vildi gjarnan fá á hreint hvað af því sem þú telur upp í greininni þú telur eiga við mig.

23.04.07 @ 13:17
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Jahve er nafn um Guð, ekki bara Föðurinn í Heilagri Þrenningu. Annars opinberar Guð líka nafn sitt, þegar hann segir Móse: “ÉG ER SÁ SEM ÉG ER” eða “ÉG ER". Þetta er í Exodus, II. Mósebók, og alger grundvallartexti, en ég vant við látinn …

23.04.07 @ 14:17
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Fyrirgefðu að ég fór ekki rétt með nafn þitt. Ég var að tala um hina endanlegu opinberun í Jesú Kristi.

Hjalti hefur það sér til afsökunar að hann hefur numið frjálslyndisguðfræði mótmælenda. Trúarkenning sem er jafn yfirskilvitleg og Þrenningin grundvallast á kristindóminum sem guðlegri opinberun. Í sinni endanlegu merkingu felur hún í sér að Guð talar til mannsins og þessu hafnar frjálslyndisguðfræði mótmælenda í dag. Fylgjendur hennar fullyrða því að trúarkenningin um Þrenninguna eins og kirkjan boðar hana sé hvergi að finna í Nýja testamentinu og hafi fyrst orðið til á annarri öld og verið endanlega samþykkt á fjórðu öld í deilunum við Aríanismann. Þessari afstöðu hafnar kaþólsk guðfræði alfarið.

Þegar í upphafi Lúkasarguðspjalls má sjá vikið að Þrenningunni við boðun Maríu:

Og engillinn sagði við hana: “Heilagur Andi mun koma yfir þig og kraftur hins Hæsta (Föðurins) mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, Sonur Guðs (Lk 1. 35, 36).

Jesús – Sonur Guðs – opinberar okkur nafn hins Hæsta sem „Faðir“ (Abba).

23.04.07 @ 22:00
Athugasemd from: Hjalti Rúnar Ómarsson
Hjalti Rúnar Ómarsson

Jahve er nafn um Guð, ekki bara Föðurinn í Heilagri Þrenningu.

Allt í lagi. Þá heitir guðinn ykkar Jahve en ekki “Guð” og því á ekki að skrifa guð með stórum staf.

Fyrirgefðu að ég fór ekki rétt með nafn þitt.

Það er ekkert að afsaka.

Þegar í upphafi Lúkasarguðspjalls má sjá vikið að Þrenningunni við boðun Maríu:

Ég sé ekki að þarna komi fram að guð sé ein vera með þrjár aðskildar persónur.

25.04.07 @ 18:39
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Eins og Óðinn hét mörgum nöfnum, eins heitir Guð okkar kristinna manna mörgum nöfnum, en meðal okkar Íslendinga ber hann oftast nafnið Guð. Og það er sérnafn, af því að aðrir guðir (í venjulegri merkingu orðsins guð) eru ekki til nema í sögum og goðsögnum. – Jón Rafn svarar hinu.

25.04.07 @ 22:50