« Ritningarlesturinn 4. september 2006Ritningarlesturinn 3. september 2006 »

03.09.06

  09:44:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 580 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Bjargið alda – borgin mín

Leiðtogar heimsins eru eins og einn spámanna Gamla testamentisins komst að orði sem rótlaust þang. Þeir sem heilluðu heiminn í gær eru gleymdir í dag, og þeir sem hrópa á gatnamótum í dag víkja fyrir leiðtogum morgundagsins sem boða enn aðrar áherslur. Upp úr þessu öldugjálfri tímans rís svo bjarg aldanna – kirkjan – og hún er gædd þeim yfirskilvitlegu eiginleikum að eftir því sem brimöldur tímans skella meira á henni verður styrkur hennar meiri. Því gaf Drottinn leiðtoga postulanna nafnið Klettur- Pétur.

Veitum því sérstaklega athygli að meðal þeirra synda sem Drottinn víkur að í ritningarlestri dagsins er heimskan (Mk 7. 22). Það er slík heimska sem veraldarhyggjan gerir sig seka um. Sjálf telur hún sig vera afar vísindalega sinnaða, en í reynd er hún svo þjökuð af hjáfræði á vísindunum sem hún hefur gert að skurðgoði sínu að hún afneitar jafn augljósum staðreyndum eins og þeirri hvernig maður er getinn af konu. Hún afneitar jafn augljósum staðreyndum eins og þeim hvernig mennskur einstaklingur verður til með samruna hinna 23 litninga karls og konu sem mynda okfrumuna. Veraldarhyggjan er svo heimsk að hún vill ekki horfast í augu við þá augljósu staðreynd að margir af hæfustu vísindamönnum heimsins urðu trúaðir eftir að hafa vegið rökin og gagnrökin.

Veraldarhyggjan er svo heimsk í hroka sínum og stærilæti að hún segir að trú sé fáfræði og beri vott um menntunarskort. En í heimsku sinni er hún svo grunnhyggin að hún er ólæs á stafróf lífsins. Af þessum sökum getur hún ekki lesið í tímanna tákn og gengur á helvegi. Í veraldarhyggjunni renna saman verstu eigindir marxismans og hamslausrar auðhyggju – græðgin – sem verður þess valdandi að sjálf jörðin hristir hana af sér eins og hverja aðra óværu. Með heimsku sinni dæmir hún sig til sömu dapurlegu örlaganna eins og beið risaeðlanna forðum. Í fræðibókum framtíðarinnar verður fjallað um hana eins og mörg önnur hugmyndafræðileg mistök mannkynsins: Sem hvert annað sögulegt slys!

Hún gjálfrar nú um stund um bjarg aldanna – kirkjuna – og þetta á einnig við um þær kirkjudeildir sem hafa orðið fórnardýr hennar. Þær kalla sig ecclesia semper reformanda (kirkju í sífelldri endurnýjun). Kæru bræður og systur. Í dag hefur slík endurnýjun í ljósi samtíðarinnar leitt til þess að þjónar í svissnesku kirkjunni tala blygðunarlaust um líknarmorð á fólki af predikunarstólunum. Slíkar kirkjur ganga á sama helvegi og átrúnaðargoð þeirra: Veraldarhyggjan.

Kristur kallar kirkjuna vissulega til stöðugrar endurnýjunar. Það gerir hann með orðum Davíðs: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda“ (Sl 51. 12). Að þessu loknu verður mannshjartað ekki lengur að uppsprettu „illra hugsana, saurlifnaðar, þjófnaðar, manndrápa, hórdóms, ágirndar, illmennsku, sviksemi, taumleysis, öfundar, lastmælgi, hroka og heimsku“ (Mk 7. 21, 22). Því segir hann: „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá“ (5. 8). Þessi orð eru banvænt eitur í eyrum veraldarhyggjunnar, marka endalok helstríðs hennar. Orðin heimska og veraldarhyggja eru í reynd sama orðið: Af heiminum!

No feedback yet