« „Drottins móðir, milda og góða.“ Hugleiðing um fjallkonunaErkibiskup kallar eftir rafrænum vitnisburði »

14.06.10

  15:57:25, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 207 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Biskupsmessa á Djúpavogi: Þangbrands minnst

Úr Kaþólska kirkjublaðinu: Á för sinni um Austurland nýlega stansaði Reykjavíkurbiskup Pétur Bürcher á Djúpavogi og las messu. Það er líklega í fyrsta skipti eftir siðaskipti sem kaþólskur biskup messar þar. Í nágrenni Djúpavogs er sögufrægur staður úr kristnisögu Íslands. Árið 998 (eða 999) sendi Ólafur Tryggvason Noregskonungur trúboðsbiskupinn Þangbrand til Íslands til þess að boða þar kristna trú. Fyrst reyndi Þangbrandur að lenda skipi sínu í Berufirði á Austurlandi en mætti þar hvarvetna andstöðu íbúanna.

Um 20 km. suður af Djúpavogi, en hann stendur í mynni Berufjarðar, er bændabýlið Þvottá, sem þá nefndist aðeins Á. Þar bjó goðinn Hallur Þorsteinsson, Síðu-Hallur. Hann taldi sig til vina konungs og bauð Þangbrandi heim til sín.

Á Mikjálsmessu hlýddi Hallur heilagri messu og varð svo hugfanginn að hann ákvað að taka skírn hjá Þangbrandi ásamt öllu heimafólki sínu. Skírnin fór fram á laugardag fyrir páska í nálægri á. Af skírninni er síðan dregið nafn árinnar og heitir eftir það Þvottá.

Uppfrá þessu varð Síðu-Hallur einn þriggja höfðingja sem voru í forystu fyrir kristna minnihlutann í landinu. Samningaviðræður hans við heiðna lögsögumanninn árið 1000 (eða 999) stuðluðu að því að kristni var loks lögtekin. Nokkrum árum seinna, um árið 1011 var kirkja síðan reist á Þvottá.

Heimild: Kaþólska kirkjublaðið, 20. árg. 6.-8. tbl. júní, júlí,ágúst 2010, bls. 3. Lítillega stytt.

No feedback yet