« Friðarganga kristinna og múslima gegn öfgum í borgum PakistanAllra sálna messa - eigum við að biðja fyrir framliðnum? »

11.12.13

  06:50:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 90 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Biskup þarf að ná sáttum við meinta þolendur

Kaþólski biskupinn Herra Pétur Burcher þarf að ná sáttum við meinta þolendur kynferðisofbeldis af hálfu starfsfólks kirkjunnar. Ljóst er að sanngirnisbæturnar sem boðnar voru eru ekki háar og myndu þó þegnar væru líklega ekki nægja fyrir viðeigandi sálfræðimeðferð sem gæti bætt líðan fólksins, en kostnaður við viðeigandi meðferð þangað til fólkið býr við varanlegri betri líðan er að líkindum lágmarksboð. Í framhaldi af því þyrfti síðan að ræða bætur fyrir miska sem fólkið hefur orðið fyrir.

Til að fjármagna þetta gæti kirkjan hugsanlega selt húseignir Landakotsskóla eða aðrar fasteignir sínar.

10 athugasemdir

Athugasemd from: Hrafn Arnarson
Hrafn Arnarson

Bæturnar eru alltof litlar og niðurlægjandi að bjóða fólki þessar bætur. Af hverju þarf að selja húseignir? Hefur kirkjan ekki aðra kosti?

11.12.13 @ 07:47
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Hrafn. Ég geri ráð fyrir að kostirnir séu ekki svo margir. Ef miðað er við bætur í Breiðavíkurmálinu þá þarf hugsanlega að gera ráð fyrir um þrem milljónum á mann að jafnaði. Það gætu gert 40-60 milljónir á að giska og ég tel útilokað að kirkjan eigi svo mikið fé handbært.

Hugsanlega er þó hægt að leysa þetta öðruvísi? Það er samt ekki gott að segja því ársreikningar biskupsdæmisins eru ekki opinberir og því er erfitt um vik fyrir meðlimi kirkjunnar að gera sér grein fyrir fjárhagsstöðunni.

11.12.13 @ 18:24
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kirkjan er blönk, segir biskup sjálfur og veit betur en við, um hvað hann er að tala.

Er búið að fella einhvern dóm í þessum málum, Ragnar? Nei, en viltu einfaldlega ganga út frá kröfugerð og staðhæfingum brotaþola og meintra brotaþola? Einn þeirra, svo að dæmi sé nefnt, hefur við það helzt að styðjast um “nauðgun” af hálfu séra Georgs og Margrétar Müller, að hann ímyndar sér að honum hafi verið nauðgað í svefni, án þess að muna til þess í raun. Á kirkjan að meðtaka slíkt, vitnis- og sannanalaust, og þar með kveða upp nauðgunardóm yfir þessum einstaklingum og taka það síðan að sér að greiða miskabætur af fé hinna trúuðu samkvæmt því? Ég sé ekki að það gangi upp, Ragnar minn.

Og kröfur viðkomandi manns eru ekki upp á þrjár milljónir króna, heldur 6 milljónir handa honum og 3 milljónir handa föður hans í endurgreiðslu skólagjalda í Landakotsskóla, alls níu milljónir! Ef svona færi almennt um kröfugerðina, væri vitaskuld ljóst, að kirkjan yrði að selja eignir til að fjármagna “bæturnar".

Enn ljósara er, að þessir, sem nú sækja helzt að henni, gera sér það í hugarlund, að kirkjan eigi miklar eignir, sem þeir geti gengið í, eigi t.d. kirkjur og kapellur víða um land og jarðir … En hvaða jarðir?! Ég veit ekki til þess, að kaþólska kirkjan eigi neina jörð, hún átti Riftún í Ölfusi, en er búin að selja Riftúnið,* á þar nú aðeins smá-skika undir litlu kirkjuna þar, eins og þú munt vita jafnvel enn betur en ég.

Þá talar annar helzti áklagandinn í DV nýlega um að kirkjan eigi dýrustu lóðina í Reykjavík, en virðist ekkert vita af því, að Landakotstún hefur svo að segja verið gert kirkjunni verðlaust með þeim þvingunargerningi borgarinnar að banna byggingar á túninu, það verði bara almenningsgarður, og í staðinn sjái borgin um þrif þar og aðhlynningu gróðurs, en þá skyldu, einkum þrifin, hefur borgin vanrækt hrapallega, svo að þar er oft mikið rusl með stígum, og ekki sér borgin um að þrífa áramótaruslið á túninu (einum vinsælasta stað borgarinnar til að skjóta upp flugeldum og vera með alls kyns fyrirferðarmikið fýrverk) og allt upp að kirkjunni sjálfri. Lóðin er kirkjunni því að miklu leyti verðlaus. Fengju umræddir kröfuhafar almenningstúnið allt í sinn hlut fyrir meintan skaða, yrði það þeim jafn-verðlaust! Það gætu þó verið “táknrænar bætur", en ég held að í raun séu þeir fremur að slægjast eftir peningalegum verðmætum.

Vitanlega standa dómkirkja Krists konungs, safnaðarheimilið, biskupshúsið og prestahúsið á gamla Landakotstúninu, og við því er að búast, að kröfugerð þessara aðila, sem rýrar sannanir virðast hafa fyrir kynferðislegri misneytingu, fari að beinast þangað!

En kaþólska kirkjan á Íslandi er vafalítið arðrændasta stofnun landsins frá upphafi. Klaustrunum níu og þeirra miklu jarðeignum (vel á 5. hundrað jarða) rændi konungsvaldið áreynslulítið fyrir bæði herflokka hans og lútherska samvizkuna og lét greipar sópa um dýrgripi þeirra í silfri og gulli og öðru fémætu, sem unnt var að flytja til Kaupmannahafnar, en leigði síðan út jarðirnar með ágóða fyrir konungsmötu og umboðsmenn konungs. Um aldamótin 1800 seldi konungsvaldið síðan fjölda biskupsstóls- og klaustrajarða. Íslenzka ríkið hélt svo, er fram var komið á 20. öld, áfram að nýta þessar jarðir og selja af þeim. Jófríðarstaði í Hafnarfirði, mjög verðmæta jörð, hirti svo Hafnarfjarðarbær af kirkjunni. En arðrán hefur hingað til ekki vafizt fyrir grófum sósíalistum fremur en grófum kapítalistum eða stórbokkum fyrri tíðar. – Eins var um Landakotseignina, að ekki hafði kirkjan neinar þær tekjur sem búast hefði mátt við af því að láta lóðir undir íbúðarhús þar í nágrenni við núverandi tún.

* Líklega var Riftúnið selt til að fjármagna hluta af um 100 milljóna kr. útgjöldum kirkjunnar vegna þess skilyrðis húsafriðunarnefndar ríkisins fyrir nýbyggingum til stækkunar Landakotsskóla (og lengingar skólanámsins), að þar yrði að leyfa einu húsinu (prestahúsinu gamla) að halda sér, en í endurgerð, sem e.k. fornleifar, í stað þess að flytja það burt, og kostaði um eða yfir 100 milljónir kr. að endurgera húsið – og var þó skipt um (nánast) hverja einustu fjöl í því!

13.12.13 @ 08:44
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Og þá er nú komið að því að svara þessu, Ragnar minn, hvar þú viljir bera niður í því skyni að fórna einhverju af kirkjuhúsum eða kapellum okkar kaþólskra á Íslandi til að borga “40-60 milljónir á að giska” vegna eineltis Margrétar Müller við ýmis börn og meintrar, en ósannaðrar kynferðislegrar misneytingar í Landakotsskóla og Riftúni.

Varla viltu fórna kirkjunni, sem verið er að koma upp í heimabæ þínum, Selfossi (eflaust með þinni hjálp).

Viltu kannski svipta okkur safnaðarheimilinu á Landakotshæð? En hefðum við siðferðislega heimild til þess að gefa það ásakendum í þessu máli sannanalaust og þvert gegn gjafaákvæðum Bonitatiuswerk í Þýzkalandi, sem studdi söfnuðinn hér á Íslandi með því að kosta byggingu þessarar húsasamstæðu?

Og hvaða sanngirni er í því? Hitt skil ég vel, að sumir vilji fá útlagðan kostnað greiddan, sálfræði- og lögfræðiaðstoð, en það þarf að ræða þessi mál miklu betur, það er ekki komið að neinum skiladögum.

13.12.13 @ 11:04
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Heill og sæll og takk fyrir innlitin Jón.

Í fyrstu málsgrein fyrra innleggs ertu með spurningar til mín, t.d. um hvort kirkjan eigi að meðtaka ásakanir vitna og sannindalaust.
Ég get ekki betur séð en hún hafi fallist á að greiða sanngirnisbætur vegna ásakananna og farið í gegnum svipað ferli og farið var í gegnum hjá ríkinu, sjá hér [Tengill]. Ágreiningurinn er um fjárhæð bótanna ekki hvort eigi að greiða þær.

Í þriðju málsgrein spyrðu um Riftún. Skemmst er frá því að segja að búið er að selja gamla íbúðarhúsið þar sem kapellan var. Söfnuðurinn bar eigur kirkjunnar út í flutningabíl síðasta sunnudag í nóvember. Fyrsta desember var messað í Laugardælakirkju, á sunnudaginn var var messað í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka.

Í annarri málsgrein síðara innleggs spyrðu mig hvort ég vilji fórna “kirkjunni sem verið er að koma upp í heimabæ þínum, Selfossi". Ég veit ekki hvaða framkvæmdir þú átt við. Sem stendur er söfnuðurinn á Suðurlandi húsnæðislaus. Árborg úthlutaði lóð í fyrra líklega en síðan hefur ekkert gerst í þeim málum sem mér er kunnugt um. Við leigjum aðstöðu í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka þegar sá staður er ekki frátekinn í annað. Verið er að leita að varanlegri bráðabirgðaaðstöðu og spurning er hvort hægt verði að messa 29. desember því þá er Staður frátekinn í annað.

Í þriðju málsgrein síðara innleggs spyrðu “Viltu kannski svipta okkur safnaðarheimilinu á Landakotshæð?". Svar: Nei að sjálfsögðu vil ég ekki gera neitt slíkt, hef ekki lagt það til. Mér datt í hug að hægt væri að ná sátt í þessu erfiða máli með því að fórna skólabyggingunum enda eru sjálfsagt fasteignagjöld og önnur eignaumsýsla sem fylgir þeim, einnig er spurning um eignarhaldið á Holtsbúð 87 í Garðabæ. Er það hús ekki líka í eigu kirkjunnar eða er það St. Jósefsreglan sem er eigandi?

13.12.13 @ 18:02
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér fróðleg svörin hér, Ragnar.

Holtsbúðarbyggingin var, að ég held, alfarið í eigu St Jósefsreglunnar, trúlega greidd með hluta söluandvirðis St Jósefsspítala í Landakoti (sem var 700 eða 750 milljónir kr.), en síðan held ég Holtsbúð hafi verið seld af reglunni til sveitarfélagsins Garðabæjar.

Það er ekkert sannað í þessum málum um neina kynferðislega misneytingu, Ragnar, og við eigum ekki að fara fram úr okkur með því að fara að ætlast til þess, að biskup fórni eignum safnaðanna vegna meintra kynferðisglæpa fólks, eins og því er haldið fram eftir að það er látið og án sannana.

Hitt er rétt, að Margrét Müller var afleitur kennari og beitti sum börn einelti og jafnvel kölluð grimm af ýmsum. Hún er þó ekki ein kennara um það, og ef ríkið fer að ætlast til þess, að eigendur skólans þurfi að greiða miklar miskabætur vegna þessa, þá er hætt við, að ríkið sjálft verði krafið um miskabætur vegna vondrar framkomu sumra kennara í gamla ríkiskerfinu, í sambærilegum eineltis- og skammarkróksmálum.

Já, fróðlegt var þetta um messuhaldið í Árborg, ég hélt að þið væruð komin eitthvað áleiðis með kirkjubygginguna, en man það núna, fréttin af lóðarveitingunni (umdeildri) var bara í blöðunum um daginn. Þið virðizt beinlínis á hrakhólum um helgihaldsstað og brýnt að einhver slíkur sé í suðursýslunum austan fjalls. Það myndi nú ekki hjálpa til þess að leyfa ásakendunum, áratugum eftir meinta glæpi, að ganga hart að eignum kirkjunnar annars staðar.

Martin Eyjólfsson, kaþólskur maður af ætt Gunnars Einarssonar frá Nesi (föður Jóhannesar biskups og Friðriks í Frigg, föður Gunnars F. Friðrikssonar heitins, sem var formaður Félags kaþólskra leikmanna auk forystu fyrir vinnuveitendur), er sendiherra í Genf og var að heimsækja Franz páfa í Róm í fyrradag og afhenda honum trúnaðarbréf. Af honum og einkennilegum ummælum hans er þessi frétt á Vísir.is á liðnum degi; á ég þar athugasemdir nokkrar, meðal margra, en einnig dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur, einn af sumardvalardrengjunum úr Riftúni.

En meginatriði, sem þú feilar á, er þetta: að þær upphæðir, sem kaþólska kirkjan greiddi þeim, sem sögðust hafa orðið fyrir ofbeldi í Landakotsskóla, voru EKKI sanngirnisbætur. Það upplýsti lögmaður kirkjunnar, Ólafur Kristinsson, um í DV í gær (bls. 12). Hann segir þar orðrétt: “Þetta var greitt af fúsum og frjálsum vilja til þess að sýna hug kirkjunnar. Þetta voru ekki sanngirnisbætur.”

Bæturnar fela ekki í sér, að kirkjan hafi dæmt sr. Georg sekan um neina kynferðisáníðslu, enda ósönnuð. “Alls fjallaði fagráð kaþólsku kirkjunnar um sautján kröfur um að kirkjan greiddi bætur vegna ofbeldis sem börn sættu af hálfu starfsmanna kirkjunnar. Kirkjan viðurkenndi aðeins bótakröfu í einu máli, þar sem viðkomandi hafði gert ítrekaðar tilraunir til að segja frá ofbeldinu á sínum tíma. Aðrir fengu flestir frjáls framlög frá kirkjunni sem voru að því er virtist á bilinu 82.170–300 þúsund krónur, en þó ekki allir.” (DV-fréttin í gær.)

Óvönduð vinnubrögð DV sýna sig t.d. í því, að í næstsíðasta blaði var því haldið fram, að þar væri viðtal við sr. Jakob Rolland, kanzlara kirkjunnar (og birt mynd af honum með), en í reynd var viðtalið við sr. Patrik O’Brien, sóknarprest Kristskirkju! Þetta er svo leiðrétt á bls. 12 í DV í gær.

14.12.13 @ 02:01
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og tengilinn á Vísi Jón. Því miður sá ég ekki athugasemdir þínar né dr. Vilhjálms þar. Við Martin erum greinilega sammála um að sú leið sem kirkjan hefur valið að fara í þessum málum sé ekki sú rétta.

Ég skil sjónarmið þín og biskupsins í þessu máli og ber ekki brigður á að lagalega séð stenst sú nálgun enda vísast marg-yfirfarin af lögfræðingum.

En höfuðatriðið hér er að mínu mati ekki lagalegs eðlis heldur siðferðilegs. Jafnvel þó málin séu ósönnuð og munu aldrei sannast þá er fjöldi og alvarleiki þeirra af þeim toga að nánast útilokað er að halda fram sakleysi Georgs og Margrétar á trúverðugan hátt. Þetta er þverstæða en þetta er samt því miður staðan. Við leysum ekki þessa þverstæðu hér og nú, hún verður að líkndum efniviður fyrir lög- og siðfræðinga framtíðarinnar að vinna úr.

Þið biskupinn þurfið að sætta ykkur við orðinn hlut. Mannorði Georgs og Margrétar verður ekki bjargað héðan í frá og ef kirkjan sleppir ekki af þeim takinu þá sogast hún niður með þeim og missir sitt eigið mannorð í leiðinni. Það að ætla að taka harða lagalega afstöðu með þeim er miklu fremur hneykslanlegt svo notað sé orð sem stundum sést í ritum kirkjunnar um fólk sem hefur ekki staðist siðferðiskröfur samfélagsins.

14.12.13 @ 06:32
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka svarið, Ragnar minn, þótt ég sé ósáttur við sumt í því. Kem efnislega að því í næsta innleggi hér neðar, en nefni fyrst hér smáatriði:

Athugasemdir mínar og dr. Vilhjálms á Vísisvefsíðunni sjást víst sumar a.m.k., það þarf að smella þar á línur sem vísa í fleiri athss. En þrjár virðast þó hafa verið þurrkaðar út með öllu,* og hef ég nú sett þær inn aftur í þeirri von, að ritskoðarar þar láti þær hér eftir í friði.

Kem svo aftur með meiri svör.

* Fyrsta útþurrkaða aths. mín þar:
Þórlaug, hvað var ekki satt hjá mér? Leiðréttu mig endilega, ef rök eru til. En enginn efast um að Margrét hafi lagt viss börn í einelti; hún gerði það jafnvel við dóttur mína.

Önnur er hér:
Einar Steingrimsson, meirihluti Evrópubúa hefur lengst af verið kristinn og ekkert að því að það komi fram. Fjöldi þjóðaleiðtoga ákallar Guð, jafnvel í opinberum ræðum sínum. Það eruð þið trúleysingjarnir sem viljið búa til eina patentfígúru af diplómötum, þar sem allir eiga að vera trúarvana í hverju einu orði sínu! En sjálf stjórnarskrá okkar verndar og styður kristinn sið.

Þriðja útþurrkaða er hér:
Eva Hauksdottir, meirihluti Evrópubúa hefur lengst af verið kristinn og ekkert að því að það komi fram. Fjöldi þjóðaleiðtoga ákallar Guð, jafnvel í opinberum ræðum sínum. Það eruð þið trúleysingjarnir sem viljið búa til eina patentfígúru af diplómötum og stjórnmálamönnum, þar sem allir eiga að vera trúarvana í hverju einu orði sínu! En sjálf stjórnarskrá okkar verndar og styður kristinn sið.

Þessar tvær síðastnefndu athss. mínar lagaði ég svolítið til við endurinnlagningu, segi þar nú: “Það eruð þið, trúarvana, sem viljið búa til …” o.s.frv., þótt merkingin sé í raun óbreytt, en nú hafa þó forráðamenn Vísisvefsins ekki neitt tilefni til að kalla þetta óviðurkvæmilegt orðalag ("þið trúleysingjarnir", eins og það sé bara hugsað sem skammaryrði, en merkingin var einfaldlega, að þau hefðu ekki trú).

14.12.13 @ 14:07
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þú ritar, Ragnar:
“En höfuðatriðið hér er að mínu mati ekki lagalegs eðlis heldur siðferðilegs. Jafnvel þó málin séu ósönnuð og munu aldrei sannast þá er fjöldi og alvarleiki þeirra af þeim toga að nánast útilokað er að halda fram sakleysi Georgs og Margrétar á trúverðugan hátt.”

Þetta er ekki nógu gott hjá þér. Dæmin um einelti og leiðinlegheit Margrétar við börnin, hörku hennar við sum og að hún gerði illilega upp á millii þeirra, eru mörg og alkunn, og því var ég ekki að neita – og heldur ekki hinu, að sr. Georg tók linlega eða ekki á því framferði hannar, varði hana bæði gagnvart foreldrum og yfirvöldum kirkjunnar.

En þessi dæmi fela ekki í sér stórlega bótaskylda kynferðislega misneytingu. Bætur mega koma fyrir eineltið, þótt margar hliðstæður hljóti samt að finnast í íslenzka skólakerfinu yfirhöfuð, en sannanirnar eru margar fyrir hendi um eineltið, bæði meðal barna sem voru þarna lengi og annarra sem foreldrar tóku úr skólanum vegna Margrétar (og það á t.d. við um mig og móður Katrínar minnar; þó væri fráleitt að kalla það einelti glæpsamlegt, en ég hef lýst því hér áður).

Þú verður að greina á milli hlutanna, Ragnar, og hafa í huga orð postulans, þar sem hann segir: “og þekkir vilja hans [Guðs] og kannt að meta rétt þá hluti, sem munur er á …” (Róm.3.18, sbr. Fil. 1.9-10: “Og þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind, svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem munur er á, og séuð hreinir og ámælislausir til dags Krists").

Það er sem sé stór munur á einelti annars vegar og kynferðislegri misneytingu hins vegar. Bæði er, að staðhæfingar um það síðarnefnda hjá sr. Georg og Margréti eru margfalt færri en staðhæfingarnar um eineltið, og eins er hitt, að ENGAR SANNANIR liggja fyrir um neina kynferðislega misneytingu, eða telur þú þig vita til einhvers slíks í Landakoti eða Riftúni?

Þess vegna er það ekki ámælislaust að hella þessu öllu í einn hrærigraut og stimpla séra Georg sem kynferðisglæpamann og að kirkjunni beri að dæma hann þannig látinn, sem og að taka á sig “40-60 milljón[a]” króna bætur vegna þessa!

Hefur biskupinn nokkra heimild til að leggja slíkan dóm á sr. Georg án réttarhalda? Hefur hann eða jafnvel páfinn í Róm einhverja heimild til að leggja þá sekt á kaþólska samfélagið hér?!

Og ég er hræddur um að þú, kær bróðir minn eins og þú ert og hefur verið, neyðist til að viðurkenna það, að hér hefurðu einfaldlega verið að láta undan sjálfskipuðum dómstóli götunnar, þar sem þó fjandsamlegir trúleysingjar hafa margir tekið þátt í hinum lítt hugsuðu árásum á kirkjuna, verið eitt hryggjarstykkið í “gagnrýnenda"-hópnum og haft þau áhrif á umræðuna, að aðrir, sem sjá hlutina skýrari augum og deila ekki sömu vanhugsuðu dómhörkunni, þora jafnvel ekki lengur að segja neitt, vitandi að þeir yrðu fordæmdir af aðkallsliðinu. Jafnvel mörg trúsystkini okkar kjósa að þegja af ótta að við að verða fordæmd fyrir samstöðu með meintum kynferðisglæpamanni, sr. Georgi, þótt ekkert slíkt hafi verið sannað á hann.

Og mér þykir undarlegt að þú takir ekki einu sinni undir, að fráleitt er af einum ásakandanum að bera nauðgun á sr. Georg – að þetta hafi gerzt í svefni, glæpaverk sem viðkomandi meint fórnarlamb hafi þó ekki verið meðvitað um þá, bara uppgötvað um aldarþriðjungi síðar og þó án nokkurra vitna eða sannana.

14.12.13 @ 14:40
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Heill og sæll Jón.

Mörg eru þín orð og sumt ertu búinn að endurtaka all-oft, t.d. þetta með sannanirnar. Það sem mér er efst í huga hér er sátt. Athugaðu að sátt felur vitaskuld ekki í sér viðurkenningu eða sönnun á einhverju athæfi sem er ósannanlegt sökum aldurs og látinna lykilvitna heldur er verið að binda enda á alvarlegt mál sem komið er upp.

Því miður hefur síðasta útspil kirkjunnar gert hlutina verri heldur en þeir voru. Það orsakast af fjárhæð bótanna sem að flestra mati er allt of lág. Líklega hefði verið betra að greiða engar bætur heldur en allt of lágar bætur. Hugsanlega hefði sálfræðingur eða geðlæknir þurft að koma að þessum málum og taka þátt í ákvörðunum á bótaupphæðinni.

Ég hef engar forsendur til að tjá mig um einstök mál, bæði þekki ég þau ekki og hef ekki þekkingu á neinu þessara sviða sem hér um ræðir. Mér sýnist samt að það þurfi að taka allt málsferlið upp aftur og yfirfara með aðkomu fagfólks af heilbrigðissviði og ákveða síðan upphæð bóta. Meðan enn er sáttavilji af hálfu meintra þolenda þá er enn von.

Nokkuð af síðustu innleggjunum fer út fyrir efnið hér ég svara því aðeins stuttlega: Mínar forsendur skipta ekki máli í þessu samhengi, vil þó segja að það sem hefur áhrif á mig er fyrst og fremst samúð með hinum meintu þolendum, ekki “dómstóll götunnar", ég veit varla hvað þú átt við með þeim orðum, hef ekki verið að lesa blöðin, hef bara lesið vef-útgáfurnar af þeim, en ég veit aftur á móti að fáir ef nokkrir eru jafn duglegir og hugrakkir að halda á lofti málstað kirkjunnar og þú.

15.12.13 @ 12:12