« Um dyggð langlyndisins í bæninni – Jóhannes Tauler frá Strassborg og einn af Vinum Guðs (Gottesfreunde) í RínardalnumVegur kærleikans – Hl. Katrín frá Siena, kirkjufræðari »

20.04.08

  16:21:54, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 714 orð  
Flokkur: Bænalífið

Biðjum fyrir Tíbet – það hjálpar til!!!

Þegar ég legg svo mikla áherslu á það (til samræmis við hina heilögu arfleifð) að leita fyrirbæna Guðsmóðurinnar og verndar í náðarhjúp hennar á örlagastund í sögu Tíbet er engin tilviljun sem býr þessu að baki. Áður hef ég vikið að franska prestinum föður Yves Hamon hér á kirkju.net http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2007/04/27/p1212.
Í þjónustu sinni við hans Hátign var hann meðal annars sendur til Kína í upphafi tuttugustu aldarinnar.

Hann var í þunnskipuðum hópi Frakka – alls 30 manns – sem vörðust áhlaupum Boxarana og kínverska stjórnarhersins mánuðum saman í Tien-Tsin skammt frá Takou. Aðstæðurnar voru í rauninni vonlausar. Frönsku hermennirnir voru nærri skotfæralausir og maturinn af skornum skammti. Síðar að átökunum loknum var kínverski hershöfðinginn inntur eftir því, hvað hefði eiginlega komið í veg fyrir að virkið félli ekki, jafn vonlaus og staða þess var gagnvart ofureflinu. Svarið var stutt og laggott. Það var vegna hvítklæddu konunnar! Í hvert sinn sem við hófum áhlaup birtist hún yfir virkismúrnum og hermennirnir urðu svo skelfingu losnir að þeir hörfuðu undan þvert á allar skipanir herstjórnarinnar. Eftir Kínadvölina hóf faðir Yves Hamon síðan þjónustu á franska spítalaskipinu hl. Frans frá Assisí á vegum franska sjómannatrúboðsins á Nýfundnalandsmiðum og að því loknu á Fáskrúðsfirði þar sem hann starfaði við franska spítalann og sjómannatrúboðið. Frá Íslandi hvarf hann síðan til eyjarinnar Máretíus.

Hvítklædda konan var að sjálfsögðu Guðsmóðirin. Ég ætlast ekki til þess að mótmælendur trúi slíku, enda skrifa ég þessar línur fyrir kaþólska lesendur sem vita vel um hvað ég er að tala. Mótmælendur trúa slíku ekki fremur en hin herskáa veraldarhyggja sem tröllríður Evrópu um þessar mundir. Ég fer ekki heldur fram á að þeir leggi við því eyrun að Guðsmóðirin sagði fyrir um fall Sovétríkjanna í Fatíma 72 árum áður en þetta mikla herveldi liðaðist skyndilega í sundur átakalaust þegar tíminn var fullnaður.

Sá skelfingartími sem tíbezka þjóðin gengur nú í gegnum undir ógnarstjórn kínverskra kommúnista er heldur ekkert eitthvað nýtt í mannkynssögunni. Ég minni á það þegar spænsku landvinningamennirnir komu til Mexíkó. Þetta voru „nafnkristnir“ og grimmlyndir vígamenn sem þyrsti eftir gulli og svifust einskis. Í Mexíkó stóðu tvær fylkingar andspænis hvor annarri: Spænsku konkvistadorarnir annars vegar og blóðþyrstur her Asteka hins vegar.

Allt stefndi í blóðug átök og ekki þarf að spyrja um það hver leikslokin hefðu orðið. Spánverjarnir hefðu bókstaflega sagt framið þjóðarmorð, rétt eins og Rauði herinn er nú að gera í Tíbet. Þá varð skyndilega og alls óvænt mikil breyting á: Guðsmóðirin opinberaðist sem Astekastúlka á Tepeyachæðinni skammt frá hinum stríðandi fylkingum. Áhrifin urðu undraverð: Átta milljónir Asteka snérust til kristinnar trúar á þremur árum og spænsku konkvistadorarnir lögðu niður vopn og krupu niður frammi fyrir Meyjunni og Syni hennar. Lesa má um þetta kraftaverk sem er eitt það mesta í kirkjusögunni hér: kirkju.net/http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2008/04/11/p1449#more1449

Þetta vil ég minna kaþólska lesendur á. Ég minnist þess jafnframt frá því í eldgamla daga að Tíbetar eiga sér friðardrottningu. Hún heitir Kuan Yin ef mig minnir rétt. Ekki veit ég hvort kínverski herinn er nú öflugri heldur en hinn óvíga fylking Kremlarvaldsins forðum. En þetta veit ég þó: Þegar tími Guðs í langlyndi hans er fullnaður hrynur þetta herveldi eins og spilaborg innan frá.

Heilaga María Guðsmóðir. Úthell loga elsku þíns flekklausa Hjarta yfir tíbezku þjóðina í raunum hennar. Umvef Tíbet í hjúpi náða þinnar. Gef að kínversku ofbeldismennirnir standi frammi fyrir Syni þínum og opni hjörtu sín fyrir réttlæti hans sem Vegarins, Sannleikans og Lífsins. Amen.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Góð grein og gefandi – hafðu heila þökk fyrir, kæri nafni og bróðir í Kristi. Skrif þín geta hvatt okkur, upplýst og örvað til dáða––í bæn og trúnaðartrausti til heilagleikans og þess náðarfarvegar sem hann hefur ætlað okkur.

Athyglisvert þetta með Kuan Yin. Gæti þar verið tenging við Maríu Guðsmóður? Tómasarkristnir á Malabarströnd Indlands sendu víst trúboða upp í Himalaya-fjöll, sem náðu til Tíbeta. Getur verið, að það sé einhver tenging þarna á milli?

Biðjum fyrir Tíbet!

21.04.08 @ 00:03
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Sú trú sem var iðkuð í Tíbet fyrir komu búddismans var bon eða bön, ákveðið afbrigði shamanisma sem var allsráðandi á gresjum Miðasíu. Mircea Eliade hefur skrifað afar athyglisvert rit: Shamanisminn. Þar rekur hann meðal annars ákveðna þætti norrænnar goðafræði til shamanismans.

Í Prestkonungum Adamskynslóðarinnar (16. greininni) vék ég að Tókaríönum – indóevrópumönnum – sem bjuggu í Tarímlægðinni í Miðasíu löngu fyrir komu Krists og eitt er víst að Kínverjar eiga ævafornar skráðar heimildir um Nóaflóðið og örkina sem skrifaðar voru á 2. öld f. Kr. Ég hef einnig heyrt um Tómasarkristna á Malabarströnd Indlands sem sendu trúboða upp til Tíbets á 6. öld, en mér hefur ekki gefist tími til að kanna þessar frásagnir nánar.

Í grein minni um Mongólska heimsveldið hér að framan vék ég hins vegar að þeirri staðreynd að tímaskeið Yuan-keiseraættarinnar eða Mongóla hafi verið menningarlegur suðupottur með náin tengsl við önnur menningarsvæði.
http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2007/04/11/p1449

Það var á tímum Kublai Khan sem Evrópa komast að nýju í samband við Kína við komu Marco Pólos, en hann dvaldi við hirð Khansins á árunum 1275-1291. Khaninn heimilaði kristnum trúboðum að starfa í Miðasíu og ekki er útilokað að tíbezku lamarnir hafi komist í kynni við kristnar hugmyndir á þessum tíma.

Eitt er víst: Tíbezka dauðrabókin (sem er alls ekki dauðrabók heldur barátta sálarinnar við sínar lægri hvatir) virðist hafa orðið fyrir mótandi áhrifum frá kristinni dulúð. Þetta sannfærðist ég um fyrir nokkrum árum þegar ég las hana að nýju. Grundvallarhugmynd lamaismans er upplýsing alls hins skapaða sem minnir mjög á 21. kafla Opinberunarbókarinnar.

Annað atriði er einnig söguleg staðreynd: Á tímum yfirráða Mongóla í Kína leituðu kínverskir búddistar sér sjálfir huggunar hjá Kuan Yin, friðardrottningunni.

Kjarni búddisma Lamanna tíbezku endurspeglast í orðunum: „Om Mane Padme Hum“ sem þýða „Heil demantinum í lótusnum.“ Gimsteinninn er enginn annar en Búdda og lótusinn er hjartað. Þannig má segja að ákallið þýði: „Heil Búdda í hjörtum okkar.“ Búdda er sjálf alheimsverundin í sérhverjum manni (Sbr. „Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá“ (Mt 5. 8).

21.04.08 @ 07:56