« Portúgalska þingið ákveður þjóðaratkvæðagreiðslu um fósturdeyðingafrumvarpFólksfækkun er stærsta vandamál Rússlands, segir Pútín »

13.10.06

  00:34:24, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 1115 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Biblían virðir hið ófædda líf með orðum sínum og bönnum

Stundum hefur þessu verið fleygt fram: "Biblían bannar ekki fóstureyðingar!" Þannig tala gjarnan þeir, sem vilja verja þetta fyrirbæri eða setja sig upp á móti málstað fósturverndarsinna. En þessi alvarlega staðhæfing var röng. Hér má í 1. lagi vísa til ákvæða 2. Mósebókar 21.22-23, þar sem er að finna refsiákvæði vegna áfloga, sem leiða til þess að þungaðri konu leysist höfn. [1] – Ekki skiptir minna máli, að Biblían talar greinilega um ófædda fóstrið sem mannveru, mennskt líf, samanber Jeremía 1.5 [2] og Sálm.139 og frásagnir Lúkasarguðspjalls (1.13-15 og 41–44) af hinum ófæddu frændum Jóhannesi (síðar skírara) og Jesú:

(13b–15) Elísabet kona þín mun fæða þér son, og þú skalt láta hann heita Jóhannes. Og þér mun veitast gleði og fögnuður, og margir munu gleðjast vegna fæðingar hans. Því að hann mun verða mikill í augliti Drottins. Aldrei mun hann drekka vín né áfengan drykk, en fyllast heilögum anda þegar frá móðurlífi.

(39–44) En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda. Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu. Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar, og Elísabet fylltist heilögum anda og hrópaði hárri röddu: Blessuð ert þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér, tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu.

Þegar þetta gerðist, var Elísabet gengin 6 mánuði með son sinn Jóhannes (skírara), en María nýorðin þunguð.

Í Sálmi 139.14 segir: “Því að þú hefur myndað innstu veru mína [2], ofið mig í móðurlífi. Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður”. Brezki, evangelíski rithöfundurinn John Stott bætir við í bókarkafla um þetta:

“Það, sem er sérstaklega athyglisvert við þessi orð, er sú sannfæring, sem höfundur Sálmanna lætur í ljós um óslitinn feril sinn sem persónu. Um 40 sinnum í sálminum, næstum í hverri einustu setningu, notar hann orðið ‘ég’ [eða beygingar þess]. Hann notar þetta orð, hvort sem hann vísar til tímans áður en hann fæddist eða til yfirstandandi tíma ellegar til þess ókomna í lífi sínu. Hann er sér ekki meðvitaður um nein vatnaskil milli tilveru sinnar fyrir eða eftir fæðinguna. Þvert á móti – hvort heldur hann ræðir um ástandið í móðurkviði eða utan hans, fyrir eða eftir fæðinguna, er hann sér þess meðvitandi, að hann er sama persónan ...” [3].

Vegna þessa mannseðlis fóstursins og vegna 5. boðorðsins (II. Mós. 20.13, V. Mós. 5.17, sbr. I. Mós. 9.6) [4] á því fóstrið að njóta banns Móselaga gegn því að nokkur deyði [saklausan] mann.

Ég gæti fjallað um biblíulegu heimildirnar í þessu efni miklu ýtarlegar, en læt þetta nægja að þessu sinni. Bæti því einu við, að allt frá fyrstu ritum hinna postullegu feðra, sem svo eru kallaðir, eru fósturdeyðingar algerlega bannaðar kristnu fólki, t.d. í Didache tón dódeka apostolón – kenningu Drottins til heiðingjanna fyrir munn hinna tólf postula), sem telja má frá því um 80–90 e.Kr., en þar segir (II, 1-2):

“Þetta er annað boð kenningarinnar: þú skal eigi myrða (ou fonevseis), [...] eigi deyða barn í móðurlífi (ou fonevseis teknon en fþora) né bera út börn ...” [5]

Þið takið eftir, að þrátt fyrir orðalag íslenzku þýðingarinnar er sama orðið, fonevseis, notað á frummálinu gríska um það að deyða mann og deyða hinn ófædda; söm er gjörðin í báðum tilvikum.

Þá má einnig vísa til þessara orða í kaflanum ‘Abortion and Early Christian Thought’ eftir G. Bonner í Abortion and the Sanctity of Human Life, s. 94:

“Tertullian´s assertion [í Apologia, 9.6-8, skrifaðri árið 197 e.Kr.] that abortion was forbidden to Christians represents the universal teaching of the early Church,”

m.ö.o.: Það var alls staðar í fornkirkjunni almenn kenning hennar, að fósturdeyðing sé bönnuð kristnu fólki.

"Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér" (Mt. 25.40 – en konungurinn er Jesús sjálfur; þetta er úr hans eigin ummælum um það, sem gerast mun á dómsdegi, sjá allan þennan þátt í Mattheusarguðspjalli: 25.31–46).

–––––––––––
Meðan ég hef ekki samið miklu ýtarlegri grein um þetta málefni, vil ég benda lesendum á vefsíðuna The Bible's Teaching Against Abortion eftir séra Frank Pavone, sem þeim er nú þegar að góðu kunnur (sbr. þessa grein hans á Kirkjunetinu, sem og greinina Tíu svör til stjórnmálamanna sem styðja fóstureyðingar í þýðingu Jóns Rafns).

Góðar stundir.
–––––––––––

Tilvísanir:

[1] 2. Mósebók, 21.22-23: "Ef menn fljúgast á og stjaka við þungaðri konu, svo að henni leysist höfn, en verður ekki annað mein af, þá haldi hann bótum uppi, slíkum sem bóndi konunnar kveður á hann, og greiði eftir mati gjörðarmanna. En ef skaði hlýst af, þá skalt þú láta líf fyrir líf." – Ennþá harðari refsiákvæði, þ.e. kvalafullan dauðadóm, var að finna í lögum Mið-Assyríu skv. Abortion and the Sanctity of Human Life, ed. J.H. Channer, Exeter 1985, s. 80.

[2] Jeremía 1.4–5: Orð Drottins kom til mín: Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig.

[3] "my inmost being," skv. þeirri þýðingu sem enski kirkjuleiðtoginn John Stott notar, – “myndað nýru mín” skv. ísl. þýð. 1912.

[4] Who Is for Life? (1984), s. 22, en hluti úr þeirri grein Stotts er birtur í blaði mínu Mannhelgi, nr. 2, 1988, útg. Lífsréttur.

[5] 2. Mós. 20.13 og 5. Mós. 5.17: Þú skalt ekki morð fremja. – Sbr. 1. Mós. 9.6: Hver sem úthellir manns blóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gerði hann manninn.

[6] Kirkjufeðrareglan, Hafnarf. 1981, [sr.] Sigurður H. Guðmundsson þýddi, s. 17.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég vísaði á þessa grein á Moggabloggi mínu, og nú hafa tvær konur lagt þar inn athugasemdir með ágengum spurningum, sem ég var rétt í þessu að svara ýtarlega – sjá þessa vefslóð.

14.10.06 @ 01:25
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Einmitt núna er staðan á Moggabloggi mínu sú, að ég hef fengið þangað 1000 heimsóknir frá upphafi, en 187 síðustu 7 dagana.

14.10.06 @ 09:07
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blog engine