« Síðasta sjö orð Jesú Krists á krossinumMaría, konan sem Guð valdi »

01.03.07

  23:05:59, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 917 orð  
Flokkur: Greinar eftir Sr. Róbert Bradshaw (dó 1993)

BIBLÍAN - ORÐ GUÐS

Biblían er helgasta bók, sem rituð hefur verið. Hún hefur að geyma orð Guðs; hún segir okkur frá Guði og því, sem hann hefur kennt okkur. Í Biblíunni fræðumst við um þýðingu og tilgang lífsins; við lærum, hvað það er, sem Guð ætlast til af okkur; okkur eru kennd boðorð Guðs; við erum vöruð við því, að eftir dauðann bíður okkar dómur; við lærum um lífið eftir dauðann.

Biblían er raunar ekki ein bók, heldur safn bóka. Í henni eru alls 72 bækur. 45 þeirra voru ritaðar fyrir daga Krists, og nefnast Gamla testamentið. 27 bækur Biblíunnar voru ritaðar eftir daga Krists og nefnast Nýja testamentið.

Orðið "testamenti" merkir samningur eða sáttmáli, sem Guð gerir við mennina. Bókin Exodus, sem gjarnan er kölluð Önnur Mósebók, er þungamiðja og mikilvægasta bók Gamla testamentisins, því að hún greinir frá þeim sáttmála, eða því testamenti, sem Guð gerði við þjóð sína. Inntak hans er þetta: "Ef þið haldið boðorð mín, getið þið verið þess fullviss, að ykkur bíður eilíf hamingja. Þið eruð þjóð mín, og ég er Guð ykkar." Og síðan innsiglar hann þennan sáttmála með því að leiða þjóð sína, undir forystu Móse, út úr þrælahúsinu Egyptalandi inn í frelsi hins fyrirheitna lands.

Það er auðvelt að sjá, hvernig Nýja testamentið hefur hlotið nafn. Það greinir frá alveg nýju skipulagi eða sáttmála, þar sem Guð sendir, ekki aðeins spámann, heldur sinn eigin Son, til þess að deyja fyrir okkur á Golgata og frelsa okkur þannig úr þrældómi syndarinnar.

Mikilvægustu bækur Nýja testamentisins eru hin fjögur guðspjöll Matteusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar. Þau segja frá lífi og kenningum Jesú Krists, stofnun kirkjunnar og dauða og upprisu Jesú. Fimmta bókin í Nýja testamentinu, sem er Postulasagan, er sömuleiðis mjög þýðingarmikil, því að hún greinir frá komu hins Heilaga Anda og sögu frumkirkjunnar.

Hver ritaði Biblíuna? Það voru menn, sem Guð valdi sérstaklega til þess hlutverks. Sennilega hafa margir þeirra ekki gert sér grein fyrir því, að það væri Guð sjálfur, sem leiðbeindi þeim og stjórnaði við skriftirnar. Höfundarnir höfðu hver sinn eigin stíl, sín persónueinkenni og meira að segja sínar takmarkanir. En þeir voru innblásnir af Guði, svo að þau trúarlegu sannindi, sem þeir skrásettu, voru í raun og sannleika opinberun frá Guði. Þess vegna getum við sagt, að Biblían sé innblásið rit, hún sé Guðs orð.

En verðum við þá að trúa öllu, sem í Biblíunni segir? Eigum við, svo að dæmi sé tekið að trúa því að Guð hafi skapað heiminn á sjö dögum, eins og stendur í Biblíunni? Svarið er það, að við verðum að trúa því, sem Biblían segir, þegar hún greinir frá sannindum trúarinnar, og þar á meðal auðvitað opinberunum Guðs til mannanna og sögu hinnar útvöldu þjóðar hans. En Biblían var ekki skrásett sem vísindarit og gerir enga kröfu til þess að teljast nákvæm í vísindalegum efnum. Ef höfundur Genesis, sem gjarnar er nefnd Fyrsta Mósebók, ætlar sér að skýra út einhver þýðingarmikil sannindi um Guð, hikar hann ekki við að setja á blað ólíkindalega frásögn, til þess að einfalda mál sitt, alveg eins og kennari leggur áherslu á mikilvæga hluti, með því að segja börnunum dæmisögu. Þess vegna skipti það höfund Genesis ekki meginmáli, hvenær eða hvernig Guð skapaði heiminn. Aðalatriðin eru þau sem koma fram í lýsingu hans, að það hafi verið Guð, sem skapaði heiminn og alla hluti; að hann hafi skapað þetta úr engu; að sköpunarverk Guðs sé háð þeim reglum, sem hann ákvað; og að sköpun mannsins sé hápunkturinn í sköpunarverki Guðs.

Allir ættu að eiga Biblíuna og sýna henni mikla lotningu. Hún er heilög, vegna þess að hún er Guðs orð. Það er ekki aðeins, að hún segi sögu hinna andlegu forfeðra okkar - við skulum muna það, að við erum andlegir afkomendur Abrahams - heldur finnum við einnig í henni ljóslifandi frásögn um það, að Guð sjálfur elskar hvert og eitt okkar.

Heilagri ritningu er ekki ætlað það eitt að vera til skrauts. Við ættum öll að lesa hana að staðaldri. Þó að þú hafir kannski ekki ennþá vanið þig á þennan góða sið, er ekki orðið of seint að byrja. Mig langar til að stinga upp á því, að þú byrjir þá á Nýja testamentinu, sérstaklega guðspjöllunum, því að þau eru ekki aðeins mikilvægustu bækurnar í Biblíunni, heldur einnig þær fallegustu og áhrifamestu.

Það að lesa hina heilögu ritningu er áskorun til okkar; það er tilboð; hún er saga um ást. Hún er eins og fersk uppsprettulind í eyðimörk. Við skulum ekki láta okkur sjást yfir það að neyta vatnsins úr henni.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Stundum finnst mér eins og mótmælendur hafi gleymt þeirri staðreynd, að það var kaþólska kirkjan sem gaf þeim Ritninguna.

Eftir að hinir heilögu feður höfðu safnað ritum Biblíunnar í kanón varð Biblían til. Eins og þeir hafi ekki vitað af ótal handritum sem gnóstíkerar skrifuðu, fjölmörgum guðspjöllum sem voru ekki í neinni samhljóðan við þá arfleifð sem þeir meðtóku úr höndum postulanna.

Þó að vegvilltir prófessorar póst-módernískrar guðfræði falli í stafi af hrifningu yfir handritum sem fundist hafa á öskuhaugunum í Alexandríu, þá skipta þau kirkjuna engu máli.

Hinir heilögu feður dæmdu þau óhæf í kanóninn og því eru þau ekki í Biblíunni. En þeir vissu svo sannarlega af alls kyns annarlegum guðspjöllum sem þeir höfnuðu vegna þess að þau grundvölluðust á mennskum hugsmíðum og hugarórum sem voru ekki í samhljóðan við OPINBERUNINA!

03.03.07 @ 13:53