« RÚANDA Í AFRÍKU 1981-1989: MÓÐIR ORÐSINS OPINBERAST Í SKÓLA Í KIBEHO (12)AKITA Í JAPAN 1973-1981: SKELFILEG VARNAÐARORÐ (10) »

11.01.07

  07:11:13, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1585 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

BETANIA Í VENESÚELA 1976: MARÍA MEY, MÓÐIR OG HUGGARI ALLRA ÞJÓÐA (11)

betania_1

Sjáandanum í Betania í Venesúela, Mariu Esperanza, gafst að njóta fjölmargra yfirskilvitlegra náðargjafa í lifanda lífi. Meðal annars bar hún sáramerki Krists (stigmata) og var gædd lækningagáfu auk þess að geta birst á tveimur stöðum samtímis líkt og Padre Pio og gat sagt fyrir um óorðna atburði. Eitt óvenjulegasta fyrirbrigðið sem opinberaðist á líkama Mariu Epseranza var rós sem birtist óvænt á brjósti hennar. Þetta fyrirbrigði endurtók sig sextán sinnum. Hostían efnisgerðist hvað eftir annað í munni hennar og sterkan rósa- og ávaxtailm lagði frá líkama hennar. Hún andaðist þann 7. ágúst 2004 eftir að hafa háð erfiða baráttu við parkinsonsjúkdóminn. Eftir andlát hennar fylltist herbergið á sjúkrahúsinu af sterkum rósailmi. Hún var 75 ára gömul þegar hún andaðist.

LÍFSHLAUP MARIU ESPERANZA

Maria fæddist í þorpinu San Rafael í Monagashérði í Venesúela þann 22. nóvember 1928. Fyrstu yfirskilvitlegu reynslu sína upplifði hún einungis fimm ára gömul þegar heil. Teresa frá Lisieux (Litla blómið) vitraðist henni við Orinocofljótið og færði henni rauða rós. Tólf ára gömul veiktist hún alvarlega af þrálátum lungnasjúkdómi, en eftir að hin blessaða Mey opinberaðist henni hlaut hún fulla græðslu. Hún var þó ávallt heilsutæp á fullorðinsárunum og þjáðist af hjartakvilla. Síðar lamaðist hún því sem næst að fullu og öllu og fjölmargir læknar greindu henni frá því að lífslíkur hennar væru sama sem engar. Þá læknaðist hún að nýju fullkomlega eftir að hið Alhelga Hjarta Jesú opinberaðist henni, jafnframt því sem hún meðtók fyrsta boðskap sinn.

Hún þráði að ganga í klaustur og bjó um tíma meðal fransiskusarsystra í Merida. Þann 3. október 1954 birtist heil. Teresa frá Lisieux henni í klausturkapellunni og greindi henni frá því, að köllun hennar fælist ekki í því að verða nunna, heldur væri henni ætlað að verða að eiginkonu og móður og lifa heilögu lífi og ferðast víða um heiminn. Þennan sama dag opinberaði hið Alhelga Hjarta Jesú henni að hún ætti að fara til Rómar. Þar bjó hún hjá systrunum við Ravascostofnunina, uns hún kvæntist Geo Binchini Giani þann 8. desember 1956 og fór brúðkaupið fram í kapellu hins Flekklausa getnaðar í Péturskirkjunni. Síðar áttu ungu hjónin eftir að eignast sjö börn.

betania_2
Kapellan í Betania

OPINBERANIRNAR Í BETANIU

Árið 1976 eða tveimur árum eftir að þau hjónin höfðu fest kaup á búgarði nálægt þorpinu Cua ekki fjarri höfðuðborginni Caracas í héraði sem nefnist Finca Betania, opinberaðist hin blessaða Mey henni og sagði:

„Þú munt sjá mig á landinu sem þú hefur fest kaup á.“

Þann 25. mars á Hátíð boðunar hinnar blessuðu Meyjar var Maria Esperanza ásamt fjölskyldu sinni og vinahóp – alls 30 manns – að íhuga líf Krists við lítinn helli sem þau höfðu fundið á landareigninni, þegar María Guðsmóðir opinberaðist henni að nýju og sagði:

Barnið mitt. Nú ætla ég að gefa þér brot af himnum. Lourdes . . . Betania í Venesúela. Þetta er staður sem er ætlaður öllum, ekki einungis kaþólskum.“

betania_3
Bandarísk kona ætlaði að taka mynd af
fjallendinu umhverfis Betania, en þegar
filman var framkölluð mátti sjá hina blessuðu
Mey á myndinni.

Eftir röð opinberana tilkynnti um það tylft einstaklinga að þeir hefðu séð hina blessuðu Mey í Betania. Árið 1984 greindi María Guðsmóðir frá því hvers vegna hún birtist með þessum hætti í Betania:

„Ég er komin til að færa fólkinu frið, að leita það uppi til að gefa því trú sem hefur horfið með öllu í skarkala og háreist atómaldar sem er á mörkum þess að fara úr böndunum. Skilaboð mín eru friður, elska og von. Um fram allt annað glæðir koma mín frið á meðal manna og þjóða. Þetta er það eina sem getur forðað þessari öld frá styrjöldum og eilífum dauða . . . Ef breyting verður ekki á og fólk breytir ekki um stefnu mun það fyrirfarast í eldi, styrjöldum og dauða.“

Í þeim opinberunum sem fylgdu í kjölfarið greindi hin blessaða Mey sjáandanum hvað eftir annað frá því að mannkynið stæði á tímamótum og meðtók alvarleg viðvörunarorð:

„Hrista verður alvarlega upp í samvisku fólksins sem ég elska svo mjög, þannig að það ‚komi á röð og reglu í húsi sínu’ og bæti fyrir dagleg óhæfuverk syndaranna frammi fyrir Jesú . . .“

AFSTAÐA KIRKJUNNAR TIL ATBURÐANNA Í BETANIA

Kaþólska kirkjan lét semja skýrslu um það hvernig opinberanirnar, spádómsorðin, yfirskilvitlegt ljós, ljúfur ilmur og lækningar hefðu átt sér stað í Betania árið 1987. Eftir tíu ára rannsóknarvinnu komst Pio Bello Ricardo byskup svo að orði:

Eftir að hafa kynnt mér ítarlega opinberanir hinnar heilögu Meyjar í Betania og beðið Drottin einlæglega um andlega greiningargáfu, lýsi ég því yfir að ofangreindar opinberanir eru trúverðugar og fela í sér yfirskilvitlegt inntak. Þar af leiðandi heimila ég opinberlega að litið verði á þennan stað þar sem opinberanirnar hafa gerst sem heilaga jörð . . .“

HOSTÍUUNDRIÐ

Eins og til að renna stoðum undir niðurstöður byskupsins gerðist afar óvenjulegur atburður á bænavöku hins Flekklausa getnaðar (8. desember) árið 1991. Þegar faðir Otty Ossa, sem var andlegur leiðbeinandi Mariu Esperanza og sóknarprestur í Betania, saung messu í kapellunni við hellinn sem er undir beru lofti, tók hostían óvænt að blæða í höndum hans. Faðir Otty greinir svo frá þessu atviki:

„Ég braut hostíuna í fjóra hluta. Þegar ég leit niður á patínuna ætlaði ég vart að trúa eigin augum. Ég sá rauðan flekk myndast á hostíunni og rauður vökvi tók að streyma frá henni líkt og blóð frá opnu sári. Eftir messuna tók ég hostíuna og varðveitti í helgidóminum. Daginn eftir klukkan sex um morguninn fór ég til að skoða hostíuna og komst að raun um að blóðið var enn fljótandi en tekið að storkna. En allt fram á daginn í dag er það enn ferskt. Það sem vekur mesta furðu er að það er einungis á annarri hlið hostíunnar og hefur ekki smitast í gegnum hana, jafn þunn og hún er.“

Evakristíuundur hafði átt sér stað í Betania, yfirskilvitlegt atvik sem virðist fela í sér guðdómlegt samþykki á því sem gerst hefur þarna og jafnframt staðfestingu á raunnánd Jesú í Evkaristíunni. Mynd sem tekin er af myndbandi og fylgir hér umfjölluninni sýnir blóðið. Sýnishorn af því var efnagreint og í ljós kom að um mannsblóð er að ræða sem sjá má í miðju hostíunnar.

betania_4

Svipað atvik átti sér stað í Stich í Þýskalandi árið 1970. Í því tilviki streymdi blóðið úr hostíunni niður á altarisdúkinn í þessari bæversku kapellu. Prestarnir sendu altarisdúkinn til efnagreiningar hjá Efnafræðideild Háskólans í Zürich. Enginn hjá stofnunni vissi hvaðan klæðið var komið. Blóðið var efnagreint með mismunandi aðferðum og í öllum tilvikunum var um mannsblóð að ræða. [1]

Það er engu líkara en að himnarnir upphefji náttúrulögmálin til að „hrissta upp í samvisku okkar“ eins og Guðsmóðirin komst að orði í einni opinberananna í Betania og til að glæða trú okkar á nærveru Guðs í Evkaristíunni svo að mannkynið breyti um lífsstefnu, áður en það verður um seinan. María ætíð mey er að hvetja hina trúuðu til að leggja enn meiri rækt við bænavökuna, líkt og hún gerði í Medjugorje:

„Ykkur hefur gleymst að þið getið komið í veg fyrir styrjöld. Þið getið jafnvel haft áhrif á sjálf náttúruöflin.“

Hér er ekki neitt nýtt á ferðinni. Sagði ekki Sonur hennar meðan hann dvaldi með okkur á jörðinni:

„Sannlega segi ég yður: Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn, getið þér sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað, og það mun flytja sig. Ekkert verður yður um megn“ (Mt 17. 20).

Iðulega eða oftast gleyma mennirnir því sem skiptir höfuðmáli: Guði. Eða með orðum hinnar blessuðu Meyjar í Medjugorje árið 1983:

„Takið mig alvarlega. Þegar Guð birtist á meðal manna, þá kemur hann ekki með léttvægan boðskap, heldur til að segja eitthvað sem er afar þýðingarmikið.“

[1]. Slík Evkaristíuundur eru ekki óþekkt í kirkjunni. Þegar hefur verið fjallað um kraftaverkið í Lanciano á Ítalíu hér á kirkju.net: http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2006/02/27/efkaristiundrie_i_lanciano_a_italiu
Önnur kunn dæmi eru: Bolseno á Ítalíu 1263, Amsterdam 1345 og Sienna á Ítalíu 1730: http://www.therealpresence.org/eucharst/mir/a3.html

Byggt á: http://www.medjugorjeusa.org/betania.htm og

http://members.aol.com/bjw1106/marian9.htm

No feedback yet