« Hetjan á Molokai Sunnudagsmessan er heimsókn okkar til Guðs. »

12.02.08

  14:27:45, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 775 orð  
Flokkur: Dýrlingarnir og hetjur

Bernadetta í Lourdes

Kafli úr trúfræðslubókinni LEGG ÞÚ Á DJÚPIÐ.

Við rætur Pýrenea-fjallanna frakklandsmegin er alkunn borg sem heitir Lourdes. Sagan um Bernadettu hefst 1844, en þá var borgin hennar síður en svo merkileg. Það var Soubirous-fjölskyldan ekki heldur, hvorki í augum nágrannanna né eigin augum. Ef einhver hefði þá sagt foreldrunum að í framtíðinni yrðu börn í fjölmörgum löndum látin heita eftir dóttur þeirra, hefðu þeir hrist höfuðin og sagt: "Eftir henni Bernadettu? Nei, það getur ekki verið!"

Fjölskyldan bjó í ………

gömlu og hrörlegu fangelsi. Þau höfðu ekki ráð á öðru. Börnin ólust upp í saggafullu og óhollu húsnæði sem ekki hafði einu sinni þótt nógu gott fyrir fanga.

Bernadetta litla þoldi það verst. Hún fæddist 1844 og var veikluleg frá fæðingu. Síðar fékk hún astma. Þegar hún fór að ganga í skóla, kom í ljós að hún átti erfitt með að læra. Hún hafði ekki ennþá farið til altaris í fyrsta sinn þegar hún var 14 ára, því hún gat ekki svarað því sem presturinn spurði hana að, enda þótt ekki væru nema léttustu spurningarnar.

Þannig var æskan hennar Bernadettu en í rauninni hafði enginn áhyggjur út af henni. Það var ekki fyrr en hún fór að segja frá því að hún hefði séð fagra konu í helli skammt frá Lourdes, sem fólk fór að taka eftir því sem hún sagði.

"Hafið þið heyrt það sem Bernadetta Soubirous segir?" var spurt úti um allan bæ.

"Þetta er nú svo einstakur heimskingi," svöruðu margir.

En fólkið var að verða forvitið. Sumir laumuðust á eftir henni út að hellinum en sáu auðvitað enga fagra konu. Auðvitað var þetta ekki annað en heilaspuni. Aðrir hvísluðu: "Það er María mey sem birtist henni þarna."

Bernadetta sagði aldrei sjálf neitt um það, hver það væri sem hún sæi þarna. Þegar presturinn og bæjaryfirvöldin fréttu þetta, var þeim bylt við. Þetta náði engri átt. Það jaðraði við hneyksli í virðulegum bæ að stelpuhálfviti kæmi annarri eins frétt á kreik.

"Viðurkenndu bara að þú hafi sjálf búið til þessa sögu," sögðu menn ógnandi við hana.

En Bernadetta lét ógnanir engin áhrif hafa á sig. Hún hélt áfram að fara út að hellinum. Dag einn, þegar hún kraup við hellinn, fór vatn að spretta upp við hliðina á henni. Þar hafði opnast uppsprettulind. Þá herti Bernadetta upp hugann og spurði konuna fögru hver hún væri.

"Ég er hinn flekklausi getnaður," var svarið.

Hún skildi það ekki svo hún fór til prestsins og sagði honum hvað konan hefði sagt. Upp frá því fór kirkjan að skipta um skoðun á því sem komið hafði fyrir Bernadettu. Og nú beindust augu allra að henni. Fólk kom langar leiðir að til að sjá hana, en hún var einföld almúgastúka og vildi ekki láta athygli fólksins beinast að sé.

Hún gerðist því nunna í klaustri Nevers-systra.
Þar hjúkraði hún sjúklingum og tók að sé alla þá erfiðisvinnu sem aðrir höfðu óbeit á.

Bernadetta dó 1879. Hún hafði verið veikluð og beinlínis veik annað veifið alla ævina. En þó að hún vissi vel að fólk flykktist til Lourdes til þess að leita sé lækninga í lindinni, sem hún hafði fundið, fór hún þangað aldrei sjálf.

Nú er Bernadetta ekki aðeins barn hinnar snauðu Soubirous-fjölskyldu, heldur Bernadetta allrar kirkjunnar. Hún var tekin í tölu heilagra og kirkjan heldur hátíðlegan messudag hennar 16. apríl.

Lourdes, bærinn ómerkilegi, er nú orðinn frægur. Við hellinn var byggð risastór kirkja. Þangað koma pílagrímar svo tugum þúsunda skiptir á hverju ári. Margir þeirra eru sjúkir og sumir læknast, en aðrir snúa heim aftur með endurnýjaðan kjark til að þola sjúkdóma sína.

Og þeim verður hugsað til veikluðu stúkunnar, sem oft var svo veik og bað á dánarbeði sínum: "Drottinn, ég elska þig af öllu hjarta mínu, af öllum mætti mínum og allri sálu minni." þeim verður hugsað til Bernadettu sem sjálf var mesta "Kraftaverkið í Lourdes."

1 athugasemd

Athugasemd from: Systir M Bernadette/C D C J (Carmelo)  
Systir M Bernadette/C D C J (Carmelo)

sou freira do carmelo do divino coracao de jesus e sou brasileira e estou agora morando na Islandia.e sou devota de S Bernadette desde dos meus 9 anos de idade agradeco por falar um pouco de sua vida.

[„Ég er nunna Karmels hins guðdómlega Hjarta Jesú og ég er Brasilíska og ég er nú að búa í Islandia.e Bernadette S devotee það síðan 9 ára ég þakka fyrir að tala svolítið í lífi þínu.“ Ísl. þýð. Google Translate úr portúgölsku.(RGB)]

06.04.10 @ 08:19