« Eru konur ekki líka menn?Marxismi lífsins eða marxismi dauðamenningarinnar? – Hugleiðing í tilefni sextíu ára prestvígsluafmælis föður Paul Marx, O.S.B. »

17.06.07

  09:38:37, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 727 orð  
Flokkur: Bænalífið

Bergingarbæn – í tilefni stórhátiðar hins Alhelga Hjarta Jesú

Alhelga Hjarta Jesú, líknarríkt náðardjúp
loga lifandi elsku. Miskunna þú mér
syndugum manni, eins og þú líknaðir
lærisveininum í óumræðilegri elsku þinni,
þeim sem hallaði sér að brjósti þínu við
kvöldmáltíðina.

Í íkonuarfleifð kirkjunnar er til undurfögur íkona af því atviki þegar Jóhannes guðspjallamaður hallaði sér að brjósti Jesú. Í reynd er þetta leyndardómur
Evkaristíunnar. Í heilagri bergingu hvílum við í faðmi Drottins og hlustum á
hjartaslátt hins Alhelga Hjarta hans.

En það eru ekki allir sem koma því við að ganga til heilagrar bergingar daglega. Ástæðurnar eru fjölmargar, einkum erill daglegra skyldustarfa, heilsubrestur eða hár aldur, svo að eitthvað sé týnt til. Þá verður hin andlega berging mikilvæg sem kirkjan leggur svo ríka áherslu á: Að taka þátt í útdeilingu hinna helgu efna með andlegum hætti. Þetta geta allir gert daglega sem öðlast hafa náðargjöf lifandi trúar, hverjar sem aðstæður þeirra eru svo í lífinu.

Postulinn segir: „Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að Andi Guðs býr í yður?“ (1Kor 3. 16). Heil. Silúan frá Aþosfjalli sagði: „Drottinn er gerður dýrlegur í heilagri kirkju . . . en það er betra að hjörtu okkar verði að musteri Drottins.“ Með þessu vill hann segja að hjarta biðjandi sálar sé musteri og andi hennar hásæti Guðs hins Hæsta vegna þess að Drottinn elskar að gera sér bústað í hjarta og anda mannsins. Og heil. Katrín frá Siena sagði þegar hún vék að leyndardómi bænarinnar: „Hjartað verður að tjaldbúð Guðs og hann innblæs í það fjölmörgum náðargjöfum sem bera undursamlega ávexti í leynum. Þannig verður þessi sál að himni Guðs hið innra.“

Sjálfur sagði Jesús: „Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og Faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki, varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt, heldur Föðurins, sem sendi mig“ (Jh 14. 23-24). Jóhannes guðspjallamaður – lærisveinninn sem Jesús elskaði mest – bar gott skyn á þennan leyndardóm eftir að hafa hallað sér að brjósti Drottins við kvöldmáltíðina sem leyndardóm sjálfrar hinnar stríðandi kirkju á jörðu. (Jesú hlítur að hafa elskað hann mest vegna þess að Jóhannes elskaði hann mest af þeim öllum).

Í listasafni Heilags Anda í Gamla testamentinu er dregin upp undursamleg mynd fyrir augum okkar af Kristslíkamanum – kirkjunni – í forgildi hans sem var tjaldbúðin. Þar var það ilmfórnaraltarið sem táknaði hið Alhelga Hjarta Jesú. Aroni var ekki heimilt að ganga inn í hið Allra helgasta nema hjúpaður í ilmfórnarskýinu og þannig bar hann ilmfórnina á eldpönnu sinni inn fyrir forhengið.

Það gerum við einnig sem börn hins Nýja sáttmála með því að umvefja hjörtu okkar í lofgjörðarfórn hins Alhelga Hjarta Jesú daglega vegna þess að það er líknarríkt náðardjúp loga lifandi elsku. Þannig er andleg berging okkar fullkomin ilmfórn sem er Guði velþóknanleg, ekki síður en í sjálfri Evkaristíunni.

Einn hinna heilögu Austurkirkjunnar, heil. Serafím frá Sarov, sagði eitt sinn að bænin væri æðst allra þeirra andlegu gæða sem Guð gæfi manninum vegna þess að ekkert gæti staðið í vegi fyrir því að biðja, þrátt fyrir að ýmislegt gæti orðið okkur til hindrunar í öðrum efnum. Þetta skulum við sífellt hugfesta okkur á pílagrímsgöngu okkar á jörðinni.

Allur er þessi leyndardómur tjáður með ágætum í eftirfarandi vísukorni sem er mexíkanskt að uppruna:

Í hjarta þínu er herbergi
og í þessu herbergi
er logi
sem er logi sálar þinnar
og í þessum loga
er ljós
sem er Guð í sálu þinni. [1]

[1]. En tu corazón hay un espacio,
y en este espacio,
hay una llama,
que es la llama de tu alma,
y en este llama,
hay una luz,
que es Dios en tu alma.

1 athugasemd

Kolbrún Jónsdóttir

Hæ pabbi minn.
Rakst á þessa síðu og alltaf er gaman að lesa skrif þín. Kv Kolbrún Jónsdottir

22.07.07 @ 20:50