« Madonna hinna blóðugu táraMylla Guðs malar hægt en örugglega »

16.03.07

  11:11:44, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1064 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir

BENEDIKT PÁFI XVI: HVETUR TIL HERVÆÐINGAR TIL AÐ VERJA HINA NÁTTÚRLEGU TILHÖGUN

Þann 24. febrúar s. l. ávarpaði Benedikt XVI meðlimi Akademíu lífsins í Vatíkaninu á árlegum fundi hennar. Hér er fjallað um nokkur meginatriði ávarpsins:

Hin náttúrlega tilhögun

Það umfjöllunarefni sem páfi vakti athygli á í ávarpi sínu til meðlimanna og skírskotaði þar til alls samfélags kirkjunnar og almenningsálitsins hvað áhrærir réttinn til lífs og að halda uppi vörnum fyrir honum. Þetta er réttur sem allir verða að gera sér grein fyrir vegna þess að hér er um grundvallaratriði að ræða sem lýtur að öllum öðrum mannréttindum. Þetta er lögð þung áhersla á í Hirðisbréfinu Evangelium vitae: „Sérhver einstaklingur sem er einlæglega opinn gagnvart sannleikanum og gæskunni getur með ljósi skynseminnar og huldum áhrifum náðarinnar borið skyn á það í hinu náttúrlega lögmál sem ritað er í hjartað (sjá Rm 2. 14-15) að mennskt líf er heilagt frá upphafi til enda og getur staðfest rétt sérhverrar mannveru til þess að þessi frumgæði ber að virða af dýpstu lotningu. Sérhvert mennskt samfélag og stjórnskipun grundvallast á þessu“ (gr. 2).

Í þessu sama Hirðisbréfi er lögð áhersla á „að öllum hinum trúuðu í Kristi beri að verja og boða þessi réttindi með sérstökum hætti, þau háleitu sannindi sem Annað Vatíkanþingið víkur að með eftirfarandi orðum: „Sonur Guðs hefur með holdtekju sinni sameinast öllum mönnum með sérstökum hætti“ (Gaudium et spes, 22). Með þessu hjálpræðisverki er mannkyninu ekki einungis opinberuð elska Guðs, heldur „að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf Son sinn eingetinn“ (Jh 3. 16) og þar með ósegjanlegt gildi sérhverrar mennskrar persónu“ (ibid).

Herkvaðning

Af þessum ástæðum er kristinn einstaklingur í sífellu kallaður til að vígbúast og bregðast við fjölmörgum áhlaupum á réttinn til lífs. Í þessu felst að þessi herkvaðning á sér rætur í hinu náttúrlega lögmáli og því geta allir sem hafa góða samvisku tekið þátt í þessari baráttu.

Í þessu ljósi og einkum eftir útkomu Hirðisbréfsins Evangelium vitae, [1] hefur mikið verði gert til þess að þessi herkvaðning verði betur kunn í hinu kristna samfélagi og í borgaralegu samfélagi, en játa verður að árásirnar á réttinn til lífs hafa aukist og vaxið af þunga um allan heim og tekið á síg nýjar myndir.

Benedikt páfi vakti athygli á vaxandi áhuga þróaðra þjóða á líffræðilegum rannsóknum og þráhyggjunni um hið fullkomna barn. Hann benti á að ný bylgja kynþáttamismunur vegna mannræktar færi vaxandi undir því yfirskini að velferð einstaklingsins væri höfð að leiðarljósi, einkum í þróuðu löndunum þar sem hafinn væri áróður fyrir lögleiðingu líknardrápa. Allt gerist þetta . . . undir vaxandi þrýstingi til að lögleiða önnur sambúðarform en hjónabandið sem ganga þvert á náttúrlegan getnað.“

Getnaðarvarnir, efnafræðilegar fósturdeyðingar, kynbætur og tilræði við hjónabandið

Sífellt er lögð ríkari áhersla á lögleiðingu fósturdeyðinga í löndum Suðurameríku og í þróunarríkjunum og ný afbrigði efnafræðilegra fósturdeyðinga eru þróuð undir yfirskini heilsuverndar:
Fólksfjöldastjórnuninni vex sífellt fiskur um hrygg þrátt fyrir að slíkt hafi afar skaðvænleg áhrif á efnahagslífið og samfélagið í heild.

Jafnhliða þessu fer áhuginn í þróuðu ríkjunum vaxandi á háþróuðum líffræðilegum rannsóknum til að finna heppilegar og víðtækar aðferðir í kynbótum í þráhyggjunni til að eignast fullkomið barn. Ný bylgja mismununar af kynbótalegum ástæðum kemur svo í kjölfarið, einkum í þeim löndum sem njóta mestrar hagsældar og rekinn er áróður fyrir lögfestingu líknarmorða.

Auk þessa kemur svo áköf viðleitni til að lögfesta önnur sambúðarform en hjónabandið og hafna náttúrlegum getnaði. Ekki sé lögð nægilega rík áhersla á alvöru þeirra vandamála sem af þessu leiði.

Um rækt kristinnar samvisku

Páfi sagði að samvisku kristins einstaklings verði að upplýsa til þess að hún beri skyn á rétta breytni og geti greint á milli góðs og ills, jafnvel þar sem samfélagslegar aðstæður, menningarleg fjölhyggja og ríkjandi aðstæður gangi þvert gegn þessu.

Páfi lagði áherslu á þörfina á opnum huga og hjarta á hinum ýmsu aldursskeiðum lífisins til að tryggja að fólk samþykki þær grundvallarskyldur sem tilvist einstaklinga og samfélagsins hvíla á. Einungis með þessum hætti væri unnt að tryggja að ungt fólk mæti gildi lífsins . . . hjónabandsins og fjölskyldunnar og lærði að meta heilagleika elskunnar, gleði og ábyrgð foreldrahlutverksins og að vinna með Guði að miðlun lífsins. Þegar sífelld og markviss rækt samviskunnar sé ekki fyrir hendi reynist erfiðara að horfast í augu við þau vandamál sem samfara er líffræðilegum lyfjum á sviði kynlífsins, fæðinga og getnaðar og hvernig meðhöndla beri og lækna sjúklinga og þá sem standa höllum færi í samfélaginu.

Þegar gildi mennsk lífs er í hættu sagði páfi í lok ávarps síns verður samhljóðanin milli yfirstjórnar kirkjunnar og skyldna leikmanna ósegjanlega mikilvæg. Lífið eru þau frumgæði sem við þiggjum úr hendi Guðs og grundvöllur alls annars. Að tryggja réttinn til lífsins – öllum til handa og með sama hætti fyrir alla – er skylda sem framtíð mannkynsins hvílir á.

[1]. Stuttur útdráttur úr ellefta heimsbréfi Jóhannesar Páls II páfa og útdráttur úr umfjöllun kardínálanna Joseph Ratzinger, Alfonso Lopez Trujillo og Fiorenzo Angelini um Guðspjall lífsins frá því í apríl 1995 má sjá hér: http://mariu.kirkju.net/evangelium.html

Byggt á: NOTICIAS GLOBALES, Año X. Número 698, 10/07. Documentación nº 821. Buenos Aires, 15 marzo 2007.

4 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Páfi er hér að kalla til leikmanna og hvetja þá til að leggja sitt af mörkum í hinni andlegu baráttu fyrir lífinu og gildum þess - verðug og tímabær áminning og óskandi að margir verði til að svara því kalli.

16.03.07 @ 23:42
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þetta er ekki alls kostar rétt, Ragnar, hjá þér. Páfi segir:

Af þessum ástæðum er kristinn einstaklingur í sífellu kallaður til að vígbúast og bregðast við fjölmörgum áhlaupum á réttinn til lífs. Í þessu felst að þessi herkvaðning á sér rætur í hinu náttúrlega lögmáli og því geta allir sem hafa góða samvisku tekið þátt í þessari baráttu.

Við þekkjum það úr mannkynssögunni að þegar mikið vá steðjar að einhverju ríki, þá sameinast þegnar þess og snúast til varnar.

Ef til vill er þetta leið Guðs til að sameina kirkju sína að nýju? Ég veit það ekki, en Guð og Guðsmóðirin vita það!

17.03.07 @ 11:09
Athugasemd from: Ragnar Jónasson
Ragnar Jónasson

Hafi Kristur í raun og veru sagt, “ætlið ekki, að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið, heldur sverð,” er það eini spádómur nýja testamentisins sem hefur bókstaflega ræst. Ég hefði haldið það.
Þeir sem úthýsa vilja fóstureyðingum, getnaðarvörnum og [giftingum] samkynhneigðra, en hampa á sama tíma fjölskyldugildum og undaneldi eru hin raunverulega ógn við tilvist mannkynsins.

12.04.07 @ 11:57
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Málpípa veraldarhyggjunnar hefur talað.

12.04.07 @ 14:24