« NæturversAf aldarinnar vondum anda »

19.08.06

Benedikt páfi: jákvæð boðun um fjölskyldugildi

Þann 5. ágúst átti Benedikt XVI. páfi panelumræður með fjórum þýzkum fréttamönnum á sumardvalarstað sínum, Castel Gandolfo. Þessu 40 mín. viðtali var útvarpað sunnudaginn var á þýzku sjónvarpsstöðvunum ARD og ZDF og frá útvarpsstöð Vatíkansins. Hér á eftir fer brot úr þessu viðtali, þar sem páfinn ræðir málefni fjölskyldunnar og hinna ófæddu.

Spyrjandi: "Víkjum að fjölskyldumálum. Fyrir mánuði voruð þér í Valencia [á Spáni] þar sem þér sóttuð Heimssamkomu fjölskyldna. Hver sá, sem hlustaði af athygli, eins og við reyndum að gera í Vatíkanútvarpinu, veitti því eftirtekt, að þér minntuzt aldrei á hugtakið "hjónaband samkynhneigðra" né rædduð um fóstur(d)eyðingar eða getnaðarvarnir.

Athugulir hlustendur töldu það mjög umhugsunarvert. Það er augljóslega hugmynd yðar að fara um heiminn að boða trúna fremur en sem "postuli siðferðis." Hvað hafið þér um þetta að segja?"

Benedikt XVI: "Já, það er augljóst. Í raun verð ég að bæta við, að ég fekk aðeins tækifæri til að taka tvisvar til máls í 20 mínútur. Og þegar maður hefur svo lítinn tíma, getur maður ekki sagt allt, sem maður vill segja um "nei" við vissum hlutum.

Í fyrsta lagi verður fólk að fá að vita, hvað við í rauninni viljum, ekki satt? Kristindómurinn, kaþólsk trú, er ekki samansafn af bönnum. Trúin er jákvæður valkostur. Það er mjög mikilvægt, að við skoðum það aftur, því að þessi hugmynd er nær algerlega að hverfa nú orðið.

Við höfum heyrt svo mikið um það, sem ekki er leyfilegt, að nú er tími til kominn að segja: Við höfum jákvæða hugmynd fram að bjóða: að maður og kona eru sköpuð hvort fyrir annað, að allt svið kynferðis, holdlegrar elsku og guðlegs kærleika bendir til þess, hve ástin er mikilvæg, og það er með þessum hætti sem hjónabandið þróast, fyrst sem gleðiþrungnir, blessunarríkir samfundir manns og konu og síðan í fjölskyldunni, sem tryggir samhengið milli kynslóðanna; það er í fjölskyldunni sem kynslóðirnar koma saman til sátta og jafnvel ólík menningarsvið mætast. Það er þess vegna í fyrsta lagi mikilvægt að leggja áherzlu á, hverju við leitumst eftir.

Í öðru lagi getum við þá einnig séð, af hverju það er, sem við viljum ekki eitthvað. Ég tel að við verðum að sjá og hugleiða þá staðreynd, að það er ekki kaþólsk uppfinning, að maður og kona séu sköpuð hvort fyrir annað, til að mannkynið geti haldið áfram að lifa – öll menningarskeið og -heimar vita þetta.

Hvað fósturdeyðingar varðar, þá eru þær partur af fimmta – ekki sjötta – boðorðinu: "Þú skalt ekki drepa!" [1] Við verðum að taka það sem gefið, að þetta sé augljóst, og ævinlega leggja áherzlu á, að tilvera mannlegs einstaklings byrjar í móðurkviði, og hann heldur áfram að vera mannleg persóna allt þar til hann eða hún tekur síðasta andvarpið. Þessa mannlegu persónu verður alltaf að virða sem mannlega persónu. En allt þetta verður augljósara, ef maður setur það fyrst fram á jákvæðan hátt."

–––––
16. ág. 2006, tekið af www.Zenit.org (fréttaþjónustuvef Páfagarðs). Geta má þess hér í lokin, að 9.–14. september mun páfinn ferðast um Bayern, en þar er hann sjálfur fæddur.
–––––
[1] 6. boðorðið segir: "Þú skalt ekki drýgja hór." Páfinn er sem sé að benda á, að vernd hinna ófæddu tilheyrir ekki sjálfu kynlífinu, heldur almennri mannvernd. – Það fimmta er orðað þannig í íslenzkum þýðingum 20. aldar: "Þú skalt ekki mann deyða." En í enska textanum, sem ég þýddi þetta úr, var þetta orðað svona: "You shall not kill!" Það er í samræmi við eldri handritatexta, sbr. Vulgatam, hina útbreiddu latínuþýðingu Hieronymusar kirkjuföður: Ne interfices! (Aths. þýð.)

15 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þennan fróðlega og athyglisverða pistil Jón. Í þessu sambandi má kannski minna á nýlegt hirðisbréf kaþólskra biskupa Norðurlanda um hjónabandið og fjölskylduna, en sama nálgun og páfi leggur áherslu á gagnvart þessum málefnum er einmitt áberandi í því bréfi. Það má finna í heild sinni hér: [Tengill].

20.08.06 @ 07:21
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér þetta innlegg og þessa ábendingu, Ragnar.

Ég vil bæta því hér við, að ummæli páfa í þessu viðtali ber ekki vott um neina raunverulega stefnubreytingu af hans hálfu, né heldur eru það sinnaskipti af minni hálfu, sem einarðs lífsverndarsinna, að birta þetta hér. Kaþólska kirkjan heldur áfram að taka skelegga afstöðu gegn fósturdeyðingum í kenningu sinni og verkum, leggur lífsverndarbaráttunni mikið lið, bæði leikmenn hennar, prestar og aðrir starfsmenn með umræðu um málið, með útvegun fundaraðstöðu fyrir lífsverndarhópa o.fl., sem og trúarlega mótaðar hjálparstofnanir sem bjóða þunguðum konum aðra valkosti en þetta afleita óyndisúrræði. Ofangreind ummæli páfans ber að skilja eins og þau eru sögð, í því samhengi að ræðutími hans á Fjölskylduþinginu var takmarkaður. Svo sannarlega er það rétt, að jákvæð kenning kirkjunnar um gildi mannlegs lífs og fjölskyldu er hornsteinninn sem aldrei má gleymast að leggja, til að byggja megi upp jákvæðar forsendur fyrir skilningi á nauðsyn lífsverndar hinna ófæddu. Það er ennfremur markverð og tímabær ábending hjá honum, að við megum í raun ganga út frá því sem gefnu, að þorri manna vill virða lífsréttinn í mannlegu samfélagi. Þess vegna er ég líka 100% sammála Benedikt XVI, að mikilvægasta frumverkefnið í þessum málum er að

“leggja áherzlu á, að tilvera mannlegs einstaklings byrjar í móðurkviði, og hann heldur áfram að vera mannleg persóna allt þar til hann eða hún tekur síðasta andvarpið. Þessa mannlegu persónu verður alltaf að virða sem mannlega persónu.”

Þegar hin undirstaðan er í raun fengin, að fólk almennt virðir lífsréttinn, ekki sízt hinna saklausu, þá er það í raun næsta stigið að sýna þessu sama fólki fram á, að vísindalegar upplýsingar um hinn undursamlega þroskaferil mannlegs lífs í móðurkviði bera því allar vitni, að þar sé um sjálfstæðan, mannlegan einstakling að ræða – einstakling sem þess vegna (eftir að menn hafa áttað sig á þessu eðli hans, m.a. með myndum og fræðslu) á tilkall til þeirrar virðingar, sem öllu mannlegu lífi ber.

20.08.06 @ 10:59
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hvað samkynhneigðramálin varðar, á það sama við, að páfinn kaus í sínum stuttu ávörpum í Valencia að leggja áherzlu á hinn jákvæða, heilbrigða grundvöll fjölskyldulífs, sem byggist á lífgefandi sambandi karls og konu. Með því er hvergi hvikað frá algerri höfnun kirkjunnar á því að meðtaka þær kröfur og staðhæfingar baráttumanna samkynhneigðra, sem ganga þvert á móti allri kenningu kirkjunnar um þessi mál í nærfellt tuttugu aldir. Áfram mun kaþólska kirkjan leggja varnarbaráttunni gegn ásókn hómósexúalismans lið, með uppfræðslu og upplýsingu, sem miðar að varðveizlu kristins siðferðis og heilbrigðu samfélagi, þar sem t.a.m. foreldrarétturinn til uppeldismótunar barnanna er virtur, en ekki vanvirtur með siðlausum hætti í heilaþvottarskyni að ósk róttækra forsjárhyggjumanna.

20.08.06 @ 11:27
Athugasemd from: Hörður Valsson
Hörður Valsson

[…] Persónulega held ég að samfélögunum standi miklu meiri hætta af prestum sem hafa kynmök við börn, heldur en af fólki sem sem verður ástfangið af eigin kyni. Samkynhneigð grundvallast nefnilega á ást, en ekki kynlífi, amk. ekki meira en gagnkynhneigð. Og svo má ekki gleyma því að samkynhneigð er mun eldra fyrirbæri en kristin trú, svo það segir sig sjálft að samkynhneigð er eðlilegari hluti af mannlegri tilvist en kristin trú, eða nokkur önnur trú sem iðkuð er í dag, sem ég hef heyrt um amk.
Og svo bara hreinlega skil ég ekki hvernig fólk nennir að standa stöðugt í því að taka sér vald guðs og dæma hina og þessa í samfélagslega útlegð, svo fremi sem þeir eru öðruvísi en hugmyndum dómaranna um hina “eðlilegu” manneskju ber saman um.
Sjálfur er ég ekki hommi, en vildi frekar greinast með “sjúkdóminn” samkynhneigð en að láta mín börn ganga í skóla undir leiðsögn Snorra í Betel.

[Órökstuddri aths. utan við efnið kippt burt. – JVJ.]

21.08.06 @ 19:24
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Voru þessir prestar ekki flestir að leita á drengi? Segir það Herði ekki neitt? Annars hefur það mál verið rætt svolítið á annarri vefslóð hér. En vissulega viðurkenni ég, að þeir ofbeldisfullu (og samkynhneigðu) prestar voru kaþólsku kirkjunni til mikillar skammar – það mál var sannarlega hrikalegt. Allt kapp er hins vegar lagt á það hjá kirkjunni, að slík kynferðisleg misneyting endurtaki sig ekki.

Skv. annarri rökfærslu Harðar í pistli hans gætum við sett hér fram hliðstæða röksemd eða fullyrðingu: Kristin trú er “eðlilegri hluti” af mannlegri tilvist hér á Íslandi heldur en tækni og vísindi 20. aldar, skrif á netið eða skólaganga, einfaldlega af því að kristin trú er eldri í landinu!! Allir sjá, hve lítið vægi slík “rökhugsun” hefur. En Hörður mætti hugleiða þessa rökfærslu til botns: Kynhneigð karls til konu, rétt eins og konu til karls, er langtum “eðlilegri hluti af mannlegri tilvist” heldur en samkynhneigð, ekki bara af því að um 98% eru gagnkynhneigðir, heldur ekki síður vegna þess, að allar þessar ca. 35 kynslóðir gagnkynhneigðra, sem uppi hafa verið frá landnámi, eru einmitt í krafti kynhneigðar sinnar sjálf undirstaðan og forsendan fyrir öllu þjóðlífi í landi þessu – þar með talið lífi hinna samkynhneigðu!

21.08.06 @ 23:36
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þess er vitaskuld engin þörf að svara þeirri fráleitu fullyrðingu Harðar, að hér sé nokkur að taka sér vald Guðs. Hins vegar er augljóst, að ýmsir telja sér heimilt dæma náungann og það hart, eins og ég mátt reyna á þessum vefsíðum að undanförnu. Ég dæmi engan einstakling, það er ekki mitt mál, en ég hef talið mér skylt að upplýsa um almenna hluti, með tölum og staðreyndum af ýmsu tagi – þó með þeim hætti, að ég hef jafnan haft opið á athugasemdir (ólíkt mörgum lokuðum vefsetrum), þar sem unnt hefur verið að leiðrétta mig, hafi mönnum þótt ástæða til, eða bæta við upplýsingum. – Eru það ýkja hörð kjör, sem þú býrð hér við, Hörður minn?

21.08.06 @ 23:58
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

En taka ber fram að sjálf kirkjan er dómari í þessum efnum og hún dæmir virkt kynlíf fólks af sama kyni sem synd og því gilda orðin: „Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað“ (Jh 20. 22-23). Og enn og aftur: „Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himnum“ (Mt 18. 18).

Sama reglan gildir um samkynhneigða og aðra kristna menn. Ef þeir vilja ekki uppfylla trúarskyldur sínar eru þeir leystir undan þeim til að lifa í fýsnum sínum (Gildir um rómversk kaþólska og Orþodoxa). En mótmælendur „fríhjóla“ fram hjá þessum boðorðum eins og svo mörgu öðru. en satt best að segja held ég að Kristur hafi ekki samið nein „sérákvæði“ fyrir þá í guðsríkinu. Sjá dæmisöguna af bersyndugu konunni: „Syndir þínar eru fyrirgefnar, syndga ekki framar.“

22.08.06 @ 09:08
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það er alveg rétt, að presturinn hefur þetta úrskurðarvald í skriftunum, að greina, hvað telst synd og hvað ekki (og veita aðeins fyrirgefningu Guðs, ef iðrunin er einlæg). Þar að auki má ekki bara kirkjan og leiðtogar hennar ‘dæma’ um vissa hluti, heldur á hún að gera það, og það er m.a.s. okkur öllum ætlað: “Og hví dæmið þér ekki jafnvel af sjálfum yður, hvað rétt sé?” sagði Jesús sjálfur (Lúk.12.57). En þetta er vitsmunadómur (judicium rationis sive intellectuale), ekki “dómur” í merkingunni dómharka yfir annarri persónu, þ.e. sú sjálfsréttlætingar-fyrirlitning, sem faríseinn sýndi iðrandi tollheimtumanninum í helgidóminum, fyrirlitning sem Jesús fordæmdi (Lúk.18.9–14). – Ég hef skrifað um þetta einhvers staðar nýlega, man bara ekki hvar.

22.08.06 @ 13:06
Athugasemd from: Hörður Valsson
Hörður Valsson

Afhverju ertu á móti samkynhneigðum Jón Valur?

22.08.06 @ 16:05
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég er ekki á móti þeim.

22.08.06 @ 16:39
Steingrímur Valgarðsson

Jón Valur: ég held að þeir sem hingað koma og gagnrýna skrif ykkar, myndu ræða á málefnalegra plani ef þeir myndu kynna sér vel og vandlega Heilaga ritningu. Fólk misskilur ykkur rosalega. Ástæðan að ég er sammála ykkur í langflestu hérna, er sú að ég hef í nokkur ár lesið og lært Orð Guðs. Og Orð Guðs útskýrir sig sjálft, Þannig ef menn myndu gefa sér góðan tíma að lesa biblíuna, þá myndu þeir sjá að það sem hér er skrifað, er gott og gilt.
Kv Steini

22.08.06 @ 21:52
Athugasemd from: Haukur Viðar Alfreðsson
Haukur Viðar Alfreðsson

Ég held að það sé nú töluvert algengara að “trúarsjúklingarnir” séu þeir sem misskilji Biblíuna. Ég hef lesið Biblíuna sjálfur, spjaldanna á milli. Forvitnileg lesning. Engu að síður leyfi ég mér að gerast svo grófur að segja hana úrelda, að einhverju leiti. Hún var skrifuð fyrir samfélag sem var svo ólíkt okkar samfélagi að það er ekki með nokkru móti hægt að taka hana alveg bókstaflega. Ég leyfi mér meira að segja að efast um að Jón Valur og hans menn geti lifað eftir öllu sem í henni stendur, sbr. allar langlokurnar sem þeir hafa skrifað hérna, jafnvel Á SUNNUDÖGUM!

23.08.06 @ 16:40
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Má ég minna Hauk Viðar á orð Davíðs, Sálm 1:

Sæll er sá maður, er eigi fer að ráðum óguðlegra, eigi gengur á vegi syndaranna og eigi situr í hópi háðgjarnra, heldur hefur yndi af lögmáli Drottins og hugleiðir lögmál hans dag og nótt. Hann er sem tré, gróðursett hjá vatnslækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki, og allt, er hann gjörir, lánast honum.
Svo fer eigi hinum óguðlega, heldur sem sáðum, er vindur feykir.
Þess vegna munu hinir óguðlegu eigi standast í dóminum og syndugir eigi í söfnuði réttlátra. Því að Drottinn þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Hugleiddu þetta, meðan ég segi börnum mínum kvöldsöguna.

Viðbót 26.8.: Sumt í innleggi Hauks Viðars finnst mér vel skiljanlegt. Það er alveg rétt, að Biblían er skrifuð í fornöld, en er hún þess vegna úrelt? Heimspeki og ljóð Grikkja, þ.m.t. Hómerskviður, eru ekki “úrelt” fyrirbæri, heldur vekja enn í dag hrifningu og auðga andann. Ótalmargar eru þær kynslóðir, allt fram á þennan dag, sem hafa glímt við heimspeki Platóns og Aristotelesar og látið þessa andans jörfa kveikja af sér nýjar hugmyndir. Biblían er ekki úrelt fremur en styttan af Venus frá Milo eða gull- og silfuraldarbókmenntir Rómverja. Sem sagn(fræði)rit er hún t.d. stórmerk heimild um fornaldarsögu Ísraelsmanna og nágrannaþjóðanna (margt í Mósebókum, Jósúabók, Dómarabók, Samúelsbækur, Konungabækurnar, Kroníkubækur, Jeremía o.fl. spámannaritum, Makkabeabækur, Postulasagan). Sem innihaldandi spekirit og andlegar íhuganir (Jobsbók, Sálma Davíðs, Orðskviðina, Predikarann, Speki Salomós, Síraksbók, guðspjallatexta og mörg bréf NT) býr Ritningin yfir geysilegri auðlegð, jafnvel einnig að ljóðrænni snilld í hinum hrífandi Ljóðaljóðum. Þá eru m.a. ótaldar þjóðfélagsádeilur spámanna, skörp predikun þeirra og spádómar – auk boðunar Jesú Krists.

Haukur Viðar og fleiri þurfa að temja sér að hugsa svolítið heimspekilega um þessi mál. (Ég mun bæta við þessa aths. með skýrum rökum í þessa átt, þegar tími gefst til.)

23.08.06 @ 19:05
Steingrímur  Valgarðsson

Ég skil ekki hvernig þið nennið endalaust að svara þessu bulli sem oft er haft hér frammi. Menn sem gagnrýna skrif ykkar eru bara að reyna að finna einhvern til að rökræða við og gera það eflaust á fleiri vígstöðum. Kannski hafa menn lítið annað að gera. Ég vil minna ykkur sem hérna eru pennar að ritningin segir: Að ekki skuli kasta perlum fyrir svín.

Kv Steini

23.08.06 @ 22:08
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér innleggið, Steini. Bezt ég smelli í lás, greinin hefur verið nógu lengi opin og menn farnir að ræða um annað.

23.08.06 @ 22:31
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blogging tool