« Nýr íslenskur texti við þekktan erlendan sálmNýr íslenskur texti við „Hallelujah“ eftir Leonard Cohen »

05.08.09

  19:15:48, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 218 orð  
Flokkur: Páfinn, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Benedikt páfi: Gegn „alræði afstæðishyggjunnar“

Asianews.is - Castel Gandolfo. Benedikt páfi flutti hið fyrsta almenna ávarp sitt frá sumaraðsetri sínu í Castel Gandolfo í dag. Hann minntist þess að 150 ár eru liðin frá dauða verndardýrlings sóknarpresta hl. Jean Marie Vianney sem gjarnan er nefndur sóknarpresturinn í Ars (Cure d'Ars).

Páfi sagði að sóknarpresturinn í Ars hefði barist gegn „alræði skynsemishyggjunnar“. Í dag berðust prestar gegn „alræði afstæðishyggjunnar“ Hvorki skynsemishyggja né afstæðishyggja duga til að seðja þorsta mannsins eftir sannleika. Árangur sóknarprestsins í Ars byggðist á vináttu hans við Krist.

Afstæðishyggja nútímans kvelur skynsemina því í rauninni segir hún að maðurinn geti ekki þekkt neitt annað en sannleika raunvísindanna. Maðurinn endar því sem „betlari fyrir tilgangi og lífsfyllingu í stöðugri sókn eftir yfirgripsmiklum svörum við djúpum spurningum sem hann spyr sig að án afláts.“

Prestar nútímans verða að muna eftir þessum sannleiksþorsta sem brennur í hjarta hvers manns og gerast kennarar trúarinnar.

--
Sjá hér: http://new.asianews.it/index.php?l=en&art=15974

(Fjallað er um sóknarpresturinn í Ars í öðrum pistlum hér á kirkju.net. Hægt er að slá inn Jean Marie Vianney til að kalla fram þær færslur.)

3 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Kristjánsson
Ragnar Kristjánsson

“Afstæðishyggja nútímans kvelur skynsemina því í rauninni segir hún að maðurinn geti ekki þekkt neitt annað en sannleika raunvísindanna.”

Þetta er góð setning hér og lýsir vandamáli mannsins sem hann stendur fyrir í nútímasamfélagi. Trúarbrögð sem eiga rætur að rekja aftur til 2000 ára eða meira hafa búið til ákveðinn sannleik sem erfitt er fyrir sumt fólk að átta sig á enda er bibilían uppfull að þjóðsögum og atburðum sem stangast við alla þekkingu og reynslu okkar raunveruleikanum.
Nægir að nefna kraftaverk jesú og upprisu hans sem eru frekar líklegur skáldskapur en hvað þá sannleikur. En það var nú einu sinni Tómas A sem færði okkur Aristóles sem vestræn menning og vísindi standa í þakkarskuld við og tel ég það eitt merkasta framlag nokkurs kaþólsk manns.

10.11.09 @ 10:31
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ekki var það Tómas einn, sem færði okkur Aristoteles; raunar miðlaði hann fremur fræðum hans í sínum eigin verkum (auk afar mikilvægra ritskýringarrita um verk Ar.) heldur en hitt að koma með þau til Evrópu; um það sáu aðrir.

Það var mikil hrifning af verkum Aristotelesar strax í byrjun aldarinnar (þrettándu) meðal kristinna skólamanna. ‘Útgáfur’ (vitaskuld handrit), sem komnar voru gegnum margar þýðingar (úr grísku á sýrlenzku, þaðan á arabísku, þaðan á latínu, voru byrjaðar (einkum í Toledo á Spáni) þegar fyrir miðja 12. öld og jafnvel á sömu öld þýðingar beint úr grísku á latínu (Henricus Aristippus). Slíkar beinar þýðingar eru þó einkum verk 13. aldar, eftir að gríski textinn barst til kristinna landa, og var vinur Tómasar fra Aquino, Vilhjálmur af Moerbeke, þar afkastamestur og líklega vandaðastur.

Orð þín, Ragnar Kristjánsson, um kristindóm og sannsögli Biblíunnar nenni ég ekki að standa hér í stappi við, enda óþarfi, þar sem þau eru ekki studd rökum. Þakka þér samt heimsóknina á síðuna; við eigum kannski eftir að ræða málin betur síðar.

11.11.09 @ 00:03
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Þetta sem þú segir nafni er örugglega ekki sá skilningur sem Benedikt páfi leggur í setninguna. Frekar hinn að sumir setji traust sitt á vísindalega aðferð sem einu uppprettu þekkingar og þess sem hægt sé að vita eða miða við. Það hafi í för með sér andlega afstæðishyggju. Það sést glöggt á næstu setningu sem er:

Maðurinn endar því sem „betlari fyrir tilgangi og lífsfyllingu í stöðugri sókn eftir yfirgripsmiklum svörum við djúpum spurningum sem hann spyr sig að án afláts.“


Efasemdir um upprisusöguna eru varla neitt sérstakt einkenni á nútímanum. Í Matteusarguðspjalli er sagt frá því þegar æðstu prestarnir báru fé á varðmennina til að bera það út að lærisveinarnir hafi stolið líkama Jesú. Viðhorf islam er að Jesú hafi ekki verið krossfestur og að Allah hafi numið hann til himna. Enn aðrar heimildir að það hafi verið Júdas sem var krossfestur. Efasemdir um upprisusöguna eru því gamlar en trú manna á hana er líka gömul, hefur staðist margar raunir og gerir enn þann dag í dag eins og sjá má á fjölda kristinna sem mætir í kirkju á sunnudögum út um heim og fer með Níkeu trúarjátninguna þar sem segir svo:

Hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum
og steig upp til himna,
situr við hægri hönd föðurins
og mun aftur koma í dýrð
að dæma lifendur og dauða.
Á ríki hans mun enginn endir verða.

Í rauninni má segja að reynsla og þekking mannsins nemi staðar þar sem þessi heimur endar. Það hefur í för með sér að vangaveltum um tilvist Guðs eða aðra heima er fyrst og fremst svarað af trúarbrögðunum. Sá kostur að hafna trúarbrögðunum og að hafa engin svör önnur en þau sem tilviljana- eða tómhyggjan gefur er greinilega leið sem lang flestir hafna.

Sú afstaða, þ.e. afstæðis, tilviljana- eða tómhyggjan er reyndar frekar grunnhyggin í eðli sínu (fundamentalisk) enda svipar herskáum trúleysisviðhorfum gjarnan til grunnhygginna eða fundamentaliskra viðhorfa innan trúarbragðanna.

Þetta sést t.d. á alræðishyggju og litlu umburðarlyndi þegar kemur að öðrum og gerólíkum viðhorfum. Þessi alræðishyggja og skortur á umburðarlyndi birtist gjarnan í háði eða rógburði um trúfélög eða einstaklinga, svo sem þegar gefið er í skyn að trú sé geðveila, afflutningi á boðun trúarinnar og útúrsnúningum. Trúarlöggurnar í Kína, Víetnam og Saudi Arabíu eru af sama meiði. Fulltrúar grunnhyggjunnar en bara í ólíkum sauðagærum.

12.11.09 @ 20:10