« Ótæk rök fyrir kirkjulegri vígslu samkynhneigðraHversu algeng er samkynhneigð á Íslandi? »

17.09.05

  12:51:53, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 788 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Bænamál

Beðið fyrir ófæddum börnum

Áður birt í lífsverndarblaðinu Mannhelgi, nr. 1 (ágúst 1987), en hér með nokkrum viðbótum.

Drottinn Guð, vér felum þér á hendur ófædd börn þessa lands og foreldra þeirra. Kenn þú þjóð vorri að virða mannslífið og veita bágstöddum hjálp í sérhverri nauð.

+ + + + +

Drottinn, vak þú yfir sérhverju barni, fæddu sem ófæddu, og gef þú öllum foreldrum styrk til að standa saman í gagnkvæmum kærleika og í hlýðni við vilja þinn.

+ + + + +

Drottinn Jesú Kristur, þú sem sagðir: “Leyfið börnunum að koma til mín,” vér biðjum þig: Tak í ríki þitt ófæddu börnin, sem var varnað þess að mega fæðast, og fyrirgef þeim, sem syndgað hafa gegn þínum smæstu bræðrum [eða: gegn vilja þínum].

+ + + + +

Drottinn Guð, vér biðjum um virðingu fyrir lífinu og sérstaklega gagnvart ófæddum börnum. Lát þú alla menn kannast við lífsgildi þeirra og að þú einn ert Herra yfir lífi og dauða. Veit foreldrum þeirra styrk, og lækna þú sérhvert sakbitið hjarta. (Söfnuður: Drottinn, vér biðjum þig, bænheyr þú oss – eða: heyr vora bæn.)

+ + + + +

Algóði faðir ... Blessa þú verðandi mæður og ófædd börn, og veit þeim öryggi, góða heilsu og líf.

(Bæn sr. Hjalta Þorkelssonar í Kristskirkju 24. febr. 1985 og 16. febr. 1986. Hann hefur einnig beðið sérstaklega fyrir fósturverndarstarfinu.)

+ + + + +

Drottinn, þú sem ert lífið sjálft, hjálpaðu okkur til að meta allt líf, sem þú skapar, hjálpaðu okkur til að virða allt líf – nýfætt, ófætt, fullvaxta og það sem ellin hrjáir. Hjálpaðu okkur til að sýna hvert öðru hlýju og nærgætni ...

(Úr bæn sr. Solveigar Láru Guðmundsdóttur í hugvekju í Sjónvarpinu, 28. apríl 1985.)

+ + + + +

Eftirfarandi athugasemd og bæn var bætt við bréf herra Péturs Sigurgeirssonar biskups til allra presta Þjóðkirkjunnar, dags. 26. apríl 1985, varðandi bænarefni hins almenna bænadags 1985 (12. maí), en þá var beðið “fyrir börnum, fæddum og ófæddum, og framtíð þeirra”:

“Í Handbókinni eru bænir í sérstökum aðstæðum, nr. 29 og 30 (bls. 60–61), sem henta vel bænarefni dagsins, Þar má bæta við bæn á þessa leið:

Drottinn, vak þú yfir sérhverju barni, fæddu sem ófæddu, og gef þú öllum foreldrum styrk til að standa saman í gagnkvæmum kærleika og í hlýðni við vilja þinn. Kenn þú þjóð vorri að virða mannslífið og veita bágstöddum hjálp í sérhverri nauð, fyrir Jesú Krist, Drottin vorn."

+ + + + +

Vér biðjum fyrir sjúkum, sorgmæddum og einstæðingum, fyrir öllum börnum, fæddum jafnt sem ófæddum og einkum þeim sem búa við erfið kjör ....
Þannig tíðkaði sr. Björn Jónsson, prestur og prófastur á Akranesi, að fella bænarorð fyrir hinum ófæddu inn í almennu kirkjubænina; fer vel á þessu í samhenginu (sbr. einnig næstu bæn og síðustu bænina hér á eftir).

+ + + + +

Bænir sr. Hjalta Þorkelssonar í Kristskirkju á 6. sunnudag í páskaföstu 1985 og 2. sd. í föstu 1986:

Algóði Faðir: Jesús sagði, að þú myndir heyra bænir vorar bornar fram í þínu nafni, því biðjum vér: Fyrir kirkju þinni ...
...
Fyrir sjúkum og sorgmæddum ...
Fyrir börnum þessa lands, fæddum sem ófæddum: Varðveit þau öll í föðurkærleika þínum, og gef þeim líf og heilsu og góðan þroska. (Söfn.: Drottinn, vér biðjum þig, bænheyr þú oss.)
Fyrir þeim, sem bera ábyrgð á lífi barna: Gef þeim styrk í hlutverki þeirra og náð til að fæða þau og koma þeim til manns. (S. svarar.)
Fyrir öllum framliðnum ...

+ + + + +

(Drottinn Guð, vér biðjum ...) Fyrir verðandi mæðrum og ófæddum börnum þeirra. Gef, að mæðurnar geri sér ljósa ábyrgð sína og öll börn megi lifa það að komast til vits og þroska. (Söfn. svarar.)

(Bæn sr. Hjalta Þorkelssonar í Kristskirkju 29. des. 1985, sunnudaginn næsta eftir messudag saklausu barnanna í Betlehem, sem er 28. des.)

+ + + + +

Vilt þú, Drottinn, blessa börn þessarar þjóðar, bæði fædd og ófædd. Vilt þú gefa, Drottinn, að við mættum veita þeim enn af þeirri miskunn, sem þú einn hefur yfir að ráða og vilt veita okkur í gegnum þitt orð og þitt verk ...

(Úr bæn sr. Valgeirs Ástráðssonar á æskulýðsdegi Þjóðkirkjunnar, 2.3. 1986.)

+ + + + +

Vér biðjum fyrir öllum, sem skortir heilsu og styrk, fyrir sjúkum, sorgmæddum og einstæðingum, fyrir börnum sem búa við erfið kjör. Opna augu vor fyrir gildi alls lífs, sem kviknar samkvæmt sköpun þinni. Helga allt líf í móðurlífi, svo að það megi fæðast og opinbera dýrð þína. Opna augu vor fyrir neyð náungans, og veit oss hugrekki til að koma honum til hjálpar. Fyrir Jesúm Krist, Drottin vorn. (Söfn.: Drottinn, heyr vora bæn.)

(Úr almennri kirkjubæn sr. Tómasar Sveinssonar á pálmasunnudag, 23. marz 1986. Þetta dæmi ásamt öðrum sýnir vel, hve eðlilega bæn fyrir ófæddum börnum getur fallið inn í hina almennu kirkjubæn.)

Endum þetta á vekjandi orðum Móður Teresu:

Við skulum biðja hvert fyrir öðru. Mín sérstaka bæn er sú, að við megum elska heitt þessa Guðsgjöf, barnið, því að barnið er stærsta gjöf Guðs til heimsins og til fjölskyldunnar og til sérhvers okkar. Og biðjið, að fyrir hjálp þessa kærleika megið þið vaxa í heilögu líferni; því að heilagleiki er ekki eitthvað, sem aðeins fáum getur hlotnazt; hann er blátt áfram skylda þín og skylda mín.

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

multiple blogs