« Guðspjall dagsinsFATÍMA Í PORTÚGAL 1916-17: FRIÐARÁÆTLUN AF HIMNI OFAN (6) »

07.01.07

  09:42:36, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1747 orð  
Flokkur: Opinberanir Maríu Guðsmóður sem njóta kirkjulegrar viðurkenningar

BEAURAING Í BELGÍU 1932: MÓÐIR HINS GULLNA HJARTA OG VALDATAKA HITLERS (7)

ENN OG AFTUR HINIR SMÁU

Fimmtán ár liðu frá því að hin blessaða Mey hafði birst í Fatíma þar til hún opinberðist fimm börnum í Belgíu til að veita huggun sem „Móðir hins gullna hjarta.“ Þetta var sama árið og Hitler var kjörinn ríkiskanslari í Þýskalandi. Óveðursský komandi átaka tóku að hrannast upp. Hún hafði sagt fyrir um þetta í Fatíma, en sá heimur sem fyrirlítur elsku Guðs hlustar ekki á „vafasamar“ raddir. Hann fylgir sínum eigin leiðtogum eftir í blindni dýrðar holdsins, hetjum líkt og Hitler, Benito Mussolini og Stalín. En aðrir láta hrífast af skurðgoðum verðbréfa og glóandi gulls vopnastóriðjunnar og hagnaðarvonar um enn frekari ávinning.

Það er enn aftur í samræmi við elsku sína til hinna smáu sem Guðsmóðirin útvaldi nú fimm belgísk börn sem anwarim: Tvær systur úr Degimbre fjölskyldunni, sem bjuggu hjá móðir sinni sem var ekkja í þorpinu Beauraing, þau Andree, sem var fjórtán ára, og Gilberte, níu ára, og krakkana hans Voisin: Gilberte, þrettán ára, systur hennar Fernande, fimmtán ára, og bróðirinn Albert, sem var ellefu ára. Fyrr á tímum höfðu íbúarnir á þessu svæði verið strangtrúaðir kaþólikkar, en nú létu þeir sig í besta falli kirkjuna engu máli skipta, eða voru henni beinlínis fjandsamlegir. Þorpið Beauraing var traust vígi Verkamannaflokksins sem aðhylltist marxisma og trúleysi. Í raun og veru var það einungis Gilberte Voisin sem var dálítið trúuð og meðlimur í Altarissakramentishreyfingunni og hafði lengi beðið fyrir því að foreldrar sínir snéru aftur til kirkjunnar.

Þrátt fyrir viðhorf sín til trúarinnar höfðu Voisinhjónin ákveðið að senda Gilberte í heimavistarskólann sem Systur kristinna trúarkenninga ráku. Þetta hafði ekkert með trúmál að gera, heldur matvendni, eða eins og Hector Voisin sagði: „Barnið hefur enga matarlyst og systurnar vita hvernig á að fá börn til að borða“. Gilberte Voisin var í fæði hjá systrunum sem þýddi, að hún fór heim til sín á kvöldin klukkan hálf sjö. Áður fyrr hafði faðir hennar náð í hana, en nú upp á síðkastið voru það systkini hennar. Þegar þau fóru að sækja hana í skólann þetta kvöld þann 29. nóvember árið 1932, þá litu þau inn hjá Degimbrefólkinu og stelpurnar tvær slógust í för með þeim. Skólinn var í klaustri systranna og að baki þess lágu upphækkaðir járnbrautarteinar og brú sem lá yfir götuna. Klausturgarðurinn var hægra megin við þorpsgötuna ef horft var til brúarinnar og afgirtur með múrvegg og grindverki.

HIN BLESSAÐA MEY Á JÁRNBRAUTARBRÚNNI

Meðan krakkarnir biðu eftir því að systurnar kæmu til dyra, eftir að þeir höfðu hringt dyrabjöllunni, hrópaði Albert allt í einu upp yfir sig: „Sjáið! Guðsmóðirin er að labba þarna yfir brúna hvítklædd!“ Í fyrstu héldu stelpurnar að þetta væri enn eitt hrekkjarbragðið hans, en þegar þær sáu furðusvipinn á honum, snéru þær sér við. Uppi yfir járnbrautarbrúnni sáu þær konu sem geislaði út frá og gekk í loftinu! Þær sáu hné hennar hreyfast en fætur hennar voru huldir skýi. Skelfingu lostin hringdu krakkarnir aftur bjöllunni og þegar systir Valeria kom til dyra, tók hún eftir því hversu æst þau voru og spurði hvers vegna þau væru svona óróleg. „Sjáðu systir! Guðsmóðirin er að labba þarna yfir brúna!“ En vesalings systirin sá ekki neitt. Gilberte Voisin kom nú til dyra, kom þegar í stað auga á konuna og sagði: „Vá!“

OPINBERANIRNAR TAKA Á SIG ÁKVEÐNA MYND

Það var í sjöttu opinberuninni þann 1. desember þar sem vitranirnar tóku svo að segja á sig ákveðna mynd. Guðsmóðirin birtist undir greinum hagþornstrés sem var í klausturgarðinum:

Hún var ung að árum, um átján eða tuttugu ára gömul og ljómaði af gleði. Hún var fagureygð með dimmblá augu. Það geislaði út frá höfði hennar. Hún var íklædd síðum kyrtli með belti og flúri. Börnin sögðu að blátt ljós stafaði frá klæðum hennar. Hendur hennar voru samanluktar líkt og í bæn í þessum opinberununum, en hún rétti þær fram rétt áður en hún hvarf, „rétt eins og prestur þegar hann segir Dominus vobiscum“.

Það var á gamlársdag sem börnin sáu hið gullna hjarta Maríu sem var svo sérkennandi fyrir opinberanirnar í Beauraing. Hún var að leggja áherslu á hið Flekklausa hjarta sitt sem hún hafði opinberað í Fatíma fimmtán árum áður og í Rue de Bac í París árið 1830. Börnin sáu það í öllum þeim opinberunum sem komu í kjölfarið: Belgía þarfnaðist þessa rétt eins og öll Evrópa þarfnaðist þessa gullna hjarta eftir því sem reykurinn úr vopnaverksmiðjunum varð dekkri og skarkalinn í stígvélum stormsveita Hitlers urðu háværari handan landamæranna.

Guðsmóðirin opinberðist börnunum allt til 3. janúar 1933. Nú var svo komið að mikinn mannfjölda dreif að. Annan janúar sagði hún: „Á morgun ætla ég að tala við ykkur hvert og eitt útaf fyrir sig“. Það var einmitt þetta sem hún gerði. Hún var fegurri en nokkru sinni fyrr þegar hún birtist börnunum. Fyrst talaði hún við Gilberte litlu: „Þetta er á milli mín og þín og ég bið þig að hafa ekki orð á þessu við nokkurn mann“. Síðan greindi hún henni frá leyndardómi sem aldrei hefur verið opinberaður. Því næst talaði hún við eldri Gilberte og greindi henni frá því sem er talið vera hið mikla fyrirheit Beauraing:

„Ég mun snúa syndurum til trúar.“

Síðan sagði hún: „Vertu blessuð.“ Hún opinberaði Alberti leyndardóm og sagði: „Vertu blessaður.“ Við Andree sagði hún: „Ég er Móðir Guðs og Drottning himnanna. Þú skalt ávallt biðja.“ Vesalings Fernande var óhuggandi! Skyndilega heyrði hún hávaða, líkt og þrumu, og sá eldknött yfir hagþornstrénu. Fjölmargir viðstaddra heyrðu þennan hávaða og sáu eldinn. Því næst birtist Guðsmóðirin Fernande:

„Elskar þú Son minn?“ spurði Guðsmóðirin.
„Já.“
„Elskar þú mig?“
„Já.“
„Fórnaðu þér þá fyrir mig.“

Fernande vildi leggja fyrir hana spurningar um það hvaða fórn hún ætti að bera fram? Ef til vill að þjóna kirkjunni? En hin sæla Mey svarðaði ekki. Það ljómaði enn meira út frá henni en venjulega og hún breiddi út faðminn, rétt eins og í kveðjuskyni. Um leið og hún gerði það opinberaði hún hið gullna hjarta sitt. Um leið og hún hvarf sýnum sagði hún einungis: „Vertu blessuð.“

beuaring_2

MÓÐIR HINS GULLNA HJARTA

Opinberanirnar í Beauraing voru mikið ræddar í fjölmiðlum í Evrópu næstu tvö árin, en féllu síðan í skuggan fyrir „stærri“ atburðum. Slíkur hégómi vegur ekki þungt á metaskálum dýrðar holdsins. En aðrir varðveittu endurminninguna um þetta gullna hjarta í sínum eigin hjörtum. Það veitti styrk og huggun í erfiðleikum. Það veitti meðal annars belgískri ekkju og sjö barna móðir mikla huggun þegar gráar hersveitir Hitlers þrömmuðu yfir landamærin. Allir þorpsbúar flúðu á brott nema þessi eina kona með börnin sín. Daginn eftir kom þýskur liðsforingi í heimsókn til hennar. Hann átti einnig mæður, bæði á jörðu sem á himnum. Allan þennan myrka tíma í sögu Belgíu vitjaði hann hennar reglulega og færði henni mat handa börnunum. Þetta er ekki ævintýri, heldur sönn frásögn belgískrar fransiskusarsystur sem var öllum hnútum kunnug vegna þess að það var systir hennar sem átti hér hlut að máli. Sjálf dvaldi hún á Íslandi til fjölda ára eftir að hafa komist lífs frá Belgíska Kongó þar sem hún hafði kennt við menntaskóla árum saman. Sumar sálir berjast á öðrum vígstöðvum heldur en þeim sýnilegu sem mennirnir telja að séu þær einu.

Móðir hins gullna hjarta styrkti einnig hana og hennar eigin reglussystur í klaustrinu þeirra þegar þær földu gyðingabörnin í eldhússkápnum, uppi á lofti eða niður í kjallara meðan Gestapomennirnir gerðu ítrekað leit að þeim. Öll voru þessi börn á lífi í lok stríðsins mikla. Það var einnig hollenskur prestur sem nú er látinn sem greindi mér frá eftirfarandi frásögn. Sjálfur bjó hann handan landamæranna í Hollandi og foreldrar hans voru svo lánsöm að vera aflögufær um mat. Sjálfur hjólaði hann á unglingsárunum yfir landamærin með mat til hinna hungruðu í körfunni á hjólinu sínu. Hann fól sig ávallt á hendur Móðir hins gullna hjarta og aldrei stöðvuðu þýsku hermennirnir hann, heldur brostu og veifuðu til hans í kveðjuskyni. Eftir stríðið hóf hann prestnám.

Var það ekki þetta loforð sem hin blessaða Mey gaf Juan Diego í Mexíkó árið 1531:

„Litli sonur minn. Þú skalt hvorki vera áhyggjufullur eða óttasleginn. Er það ekki ég sem stend hér sem er móðir þín? Ert þú ekki í skugga verndarhjúps míns?“

Þannig birtist hún að nýju einungis tólf dögum síðar í öðru belgísku þorpi, Banneux, sem Móðir hinna snauðu sem eru svo hjartfólgnir Syni hennar.

Frásögnin er byggð á: Delaney, John J., A Woman Clothed with the Sun, Doubleday, New York, 1990 á persónulegum endurminningum og á:
http://www.theotokos.org.uk/pages/approved/words/wordbeau.html

No feedback yet